21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

12. mál, fjárlög 1947

Pétur Ottesen:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr. Ég á hér enga brtt. og hv. frsm. fjvn. hefur gert grein fyrir brtt. n. og innt að því leyti af hendi þau störf hennar vegna, sem gera ber við þessa umr. málsins. En tilefnið til þess, að ég vil segja hér nokkur orð, er það, að hv. frsm. fjvn. hélt hér stórpólitíska ræðu, og sú stórpólitíska ræða var ekki laus við að bera nokkurn keim af áróðri. Ég vildi með fáum orðum gera grein fyrir því, að þessi ræða eða sá hluti hennar, sem mér fannst vera nokkuð áróðurskenndur, væri ekki fluttur fyrir mína hönd. Auk þess minntist hv. frsm. á það alveg réttilega, að það hefði verið nokkur ágreiningur í n. um hækkanir á tekjuáætluninni, sem n. hafði borið fram brtt. um, þó að ágreiningurinn ylli því engan veginn að n. stæði ekki öll saman um þær niðurstöður, sem felast í brtt. n. En af því að hv. frsm. fór að draga fram í þessu sambandi sitt sjónarmið, sem sé það, að áætlunin væri síður en svo óvarleg, heldur væri ástæða til að hækka hana enn frá því, sem er, þá þykir mér hlýða að láta einnig koma fram það sjónarmið, sem byggt er á nokkrum efa í því efni, að þessi áætlun geti talizt varleg.

Hv. frsm. minntist einnig á frestun á afgreiðslu fjárl. og sagði. að hann hefði verið á móti henni. og mátti skilja á honum, að hann hefði staðið einn í n. um þá afstöðu. En það voru vissulega fleiri, sem vildu, að takast hefði mátt að afgreiða þessi fjárl., eins og gert er ráð fyrir í stjskr., þannig að hægt væri að hefja greiðslur samkvæmt þeim strax um nýár. Hv. frsm. stóð vissulega ekki einn um þessa afstöðu. En hvað var hér að gera, hvernig átti að ganga frá fjárl., áður en stjórnarkreppan var leyst? Ég sé ekki, að þess hafi verið neinn kostur, og þess vegna varð að taka afleiðingunum af því, hve langan tíma það tók að koma á starfhæfri ríkisstj. á Alþ. Nú eru við þessa umr.. komnar fram brtt. frá einstökum þm., til viðbótar hækkunartill. fjvn., upp á 21 millj. kr., og ég ætla, að auk þessa felist heimildir handa ríkisstj. til þess að greiða samkvæmt 22. gr. fjárl. um 5 millj. kr. Nú verð ég að segja það, að það er orðið nokkurt verkefni fyrir núverandi ríkisstj. að standa vörð um það, að ekki verði svo gífurlega hlaðið á fjárl. eins og farið er fram á í þessum brtt., til viðbótar þeim hækkunum, sem n. hefur borið fram. Afgreiðsla fjárl. nú mótast af fjármálaástandinu eins og það er hjá okkur nú. Hún ber ljós merki þeirrar geysilegu verðbólgu, sem við höfum orðið við að búa um skeið og ennþá er í uppsiglingu eða hefur varið í uppsiglingu allt til þess, að nú hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að slá þar nokkuð á — ráðstafanir, sem ber þó að með nokkuð einkennilegum hætti, sem sé þeim, að borga fé úr ríkissjóði til þess að draga úr verðbólgunni. Þetta fjármálaástand markast enn fremur af þeirri löggjöf, sem sett hefur verið á tveim undanförnum þingum — löggjöf, sem tekin var upp í stefnuskrá fyrrv. stjórnar. Má í því sambandi t.d. benda á launal., breyt. á kennslulöggjöfinni og skólalöggjöfinni, og loks breytingar á tryggingalöggjöfinni. Þessar breyt. hafa í för með sér stórkostleg útgjöld fyrir ríkissjóð, sem við horfumst nú í augu við, og eru þó, nema sumar þeirra, rétt á byrjunarstigi, og má í því sambandi benda á, að það er a.m.k. 12 millj. kr. árleg aukning á útgjöldum ríkissjóós, sem felst í launalöggjöfinni, og tryggingalöggjöfin hefur um 14 millj. kr. aukningu á árlegum útgjöldum í för með sér, og er þar þó aðeins verið að byrja á framkvæmdum.

Ég get ekki nefnt tölur í sambandi við skólalöggjöfina, en það er vitað, að þar er um geysilegar fjárhæðir að ræða, eins og hv. frsm. kom inn á í framsöguræðu sinni áðan.

Nú horfumst við í augu við það að eiga að koma saman fjárl., fá tekjur og gjöld fjárl. til að standast á. Það er rétt í þessu sambandi að koma inn á það atriði, hvað það er, sem hefur bjargað því á undanförnum árum, að ríkisjóður er nú ekki kominn í greiðsluþrot, og skal ég í því sambandi minnast á afkomu ríkissjóðs árið 1945 og árið 1946, eftir því sem séð verður. Hvað hefur þá bjargað því, að ríkissjóður hefur ekki komizt í greiðsluþrot? Það er ekkert annað en varleg áætlun á tekjuliðunum, varleg áætlun á tekjuliðum, sem fyrrv. fjmrh. hefur staðið að, og hann markar sömu stefnuna í því fjárlagafrv., sem hann hefur lagt fyrir þetta þing. En eftir því sem virðist, er nú séð fyrir endalok þeirrar stefnu, hvað afgreiðslu þessara fjárl. snertir. Hv. frsm. minntist hér á afkomu ríkisbúskaparins 1945 og líka 1946, og hann sagði, að tekjuafgangur 1945 hefði orðið 14 millj. kr. En með þessu er ekki öll sagan sögð um afkomuna 1945 hjá ríkissjóði. Tekjur ársins 1945 eru áætlaðar í fjárl. 108.700.000 kr., en urðu 165.800.000 kr. Gjöldin voru hins vegar áætluð 100.700.000 kr., en urðu 143.700.000 kr., þannig að þau varð rekstrarhagnaður á rekstrarreikningi um 22 millj. kr. Á sjóðsyfirliti urðu tekjurnar 175.600.000 kr., en gjöldin urðu 187.700.000 kr., þannig að það varð greiðsluhalli á sjóðsyfirliti 1945 12.100.000 kr. Þótt það yrði greiðsluhalli, þá skapaðist við þetta allmikil eign hjá ríkinu. Það var borgað nokkuð af skuldum, greitt var á þessu ári það, sem eftir stóð af enska láninu, 8–10 millj. kr., og léttir það á árlegum útgjöldum ríkissjóðs, hvað snertir vexti af þessu láni.

Hitt er svo aftur að athuga í sambandi við eignaaukninguna, að fæst af þessu gefur nokkrar tekjur, þótt færslan sé með þessum hætti í fjárl., að gert er þarna upp á milli þess, hvort tekjurnar gengju til venjulegra útgjalda eða til þeirra útgjalda, sem aftur skapa eign hjá ríkissjóði.

En þannig varð þá niðurstaðan af þessu ári, að það varð greiðsluhalli á sjóðsyfirliti í sambandi við þessa eignaaukningu, m.ö.o. það var ekkert handbært fé af tekjum ársins til nota á árinu 1946.

Viðvíkjandi árinu 1946, þá er upplýst, að tekjurnar námu 200 millj. kr. En nú gat ég ekki fengið upplýsingar í fjmrn. um það, hver væri hin raunverulega niðurstaða af fjárl. ársins 1946. Hins vegar fékk ég þær upplýsingar, að líkindi væru til, að tekjuafgangur á rekstrarreikningi yrði einhver, en tekjur og gjöld á sjóðsyfirliti mundu nokkurn veginn standa í járnum. Og af þeim miklu tekjum, sem fengust árið 1946, er nú ekkert handbært til að nota á árinu 1947, því að öllum tekjunum hefur verið ráðstafað. Að vísu hefur nokkrum hluta teknanna verið varið til að skapa eignir, en það gefur ekki handbært fé. En það er margt fleira, sem kemur til greina, og við verðum að horfast í augu við ástandið eins og það er. Í dag skuldar ríkissjóður í Landsbankanum 19.800.000 kr. Þessi skuld hefur þó ekki öll farið í eyðslu, því að tekið var 10 millj. kr. lán í sambandi við byggingu fiskibáta innanlands, 1.100.000 kr. til þess að greiða skuldir landssmiðjunnar og 11/2 milljón í sambandi við afskipti ríkisins af byggingu fiskibáta í Svíþjóð. Tekið var og í sama skyni 10 millj. kr. lán úr i en enn þá er langt frá því, að full skil séu gerð milli ríkissjóðs og kaupenda Svíþjóðarbátanna. Ég fékk enn fremur upplýsingar um það, að sama dag árið 1946 skuldaði ríkissjóður á aðra milljón króna í Landsbankanum. Núverandi fjmrh. hefur ekkert handbært fé frá árinu 1946, en tekur við um 20 milljóna skuld í Landsbankanum.

Það er rétt að gera sér fulla grein fyrir því, hvernig málin standa, því að það varðar okkur og alla þjóðina miklu. Þær breytingar á tekjuáætluninni, sem fjvn. hefur gert, eru ekki óvarlegar, ef miðað er við útkomu ársins 1946. En þá er að athuga, hvort gætilegt sé að gera ráð fyrir sams konar tekjum árið 1947 og voru 1946. Samkvæmt áliti hagfræðinganna var eytt á árinu 1946 gjaldeyri, sem nam 600 milljónum kr. Verðmæti útflutningsins nam 291 milljón, og eytt var gjaldeyrisforða, er nam 251 millj. kr. Þetta gerir 540 milljónir. Svo koma auk þessa duldar greiðslur, sem hagfræðingarnir áætla 50 milljónir, og er því gjaldeyriseyðslan á árinu 1946 um 600 millj. króna. En eru nú líkindi til þess, að við getum gert ráð fyrir, að við getum varið 600 millj. kr. til vörukaupa frá útlöndum á yfirstandandi ári? Nú er upplýst. að sá gjaldeyrisforði, er safnað var á árunum 1940. 1941, 1942 og 1943, sé að þverra eða þegar að verulegu leyti þorrinn. Um áramót voru til 316 millj. kr., en mikill meiri hluti þeirrar upphæðar var á vegum nýbyggingarráðs. En nú er upplýst, að gefin hafa verið innflutningsleyfi á alla þessa upphæð eða meira til, svo að mér skilst, að þeir möguleikar. sem við höfðum til aukningar á gjaldeyri fram yfir útflutningsverðmæti, séu gerbreyttir frá því, sem var árið 1946. Okkur ber vissulega að vera vongóðir um, að útflutningsverðmæti gefi mikinn gjaldeyri. og það er rétt hjá hv. frsm.. að þorskaflinn í dag er meiri, en á sama tíma í fyrra. Þessu ber vissulega að fagna, en það, sem er skuggalegt við þetta, er það, að ekkert af aflanum hefur verið selt, svo að vitað sé. Við vitum ekki, hvaða verð við fáum fyrir aflann, en aðstaða okkar er erfið vegna samkeppni um markaði, þar eð við þurfum að fá hærra verð en aðrir vegna verðbólgunnar innanlands og hins mikla tilkostnaðar við að afla vörunnar og gera hana söluhæfa. Þetta skapar ískyggilega erfiðleika, sem við sjáum enn ekki út yfir. Hv. frsm. minntist á nokkur atriði í rökstuðningi sínum fyrir því, að ekki væri of langt gengið í hækkuninni á tekjuáætluninni. Hann minntist á, að ábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings á sjávarafurðum sé 30% hærri en á síðasta ári. Þetta er alveg rétt. En hvernig er aðstaða þeirra manna, er njóta eiga hlunnindanna, ef verðið brestur? Hvaða úrræði eru þá? Ríkið á enga sjóði til að gripa til. Þá er aðeins um tvær leiðir að velja. Önnur er gengislækkun, en hin, og raunverulega eina leiðin, er að fara ofan í vasa borgaranna, heimta af þeim nýja skatta og meðal annars þeirra, er njóta eiga hlunnindanna af ábyrgð ríkissjóðs. En aðrar leiðir eru ekki fyrir hendi. Ég veit ekki, hvað gengislækkun hrekkur til, en hin leiðin fer eftir því, hve miklu skakkar á verðinu og tryggingunni. Mér finnst því hæpið að nota það, að ríkið hefur gengið í þessa ábyrgð, sem röksemd fyrir því að hækka tekjuáætlunina. Hvað viðvíkur togaraútgerðinni. þá er mér sagt, að togararnir selji nú á hámarksverði, sem ákveðið er í Englandi. Samt sem áður berst togaraútgerðin í bökkum, þótt hún fái nú það hámarksverð, sem ekki fæst alltaf. Það munu jafnvel dæmi til þess, að togaraútgerðin sé að einhverju leyti rekin með tapi. Nú fáum við að vísu stærri og fullkomnari skip á þessu ári. en þau koma smátt og smátt, og þó að afkoma þeirra verði kannske eitthvað betri, en þeirra togara, er við nú eigum þá verður það ekki afgerandi um afkomu þessa árs. Hv. frsm. gat þess réttilega, að miklar vonir stæðu í síldinni. En við vitum aldrei, hvernig síldveiðarnar fara, auk þess sem síldin veiðist ekki fyrr en seinnipart sumars. Við vonum vissulega, að síldveiðarnar gangi vel, en reynsla tveggja undanfarandi ára sýnir, að þær geta brugðizt. Ég held þess vegna, að viðhorfið í þessum efnum sé mjög vafasamt og tvíeggjað, og því hefði ég talið hyggilegra, að stefna fyrrv. fjmrh. um varfærni í tekjuáætluninni hefði notið sín betur, en horfur eru á, að ætli að verða við afgreiðslu þessara fjárlaga. Þess ber að gæta, að viðhorfið nú hér á þingi er ekki að dregið verði úr útgjöldum ríkisins, heldur þvert á móti hefur verið til þess gripið til að minnka tekjuhallann að hækka tekjuáætlunina, þó að af því leiði, að fjárlög verði nú afgreidd með minni fyrirhyggju en fyrrv. fjmrh. gaf tilefni til, og það var þetta ástand, sem olli því, að sá skoðanamunur, sem fram kom í n. um þetta atriði. olli ekki klofningi, og skal ég ekki skjóta mér undan ábyrgð á því. Það þarf nú að vinna að öflun þeirra tekna, sem kostur er á, til að standa við þá yfirlýsingu núverandi ríkisstj. að afgreiða rekstrarhallalaus fjárl., sem ég tel mig einnig bera ábyrgð á sem einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar. Það var því eigi hjá því komizt að hækka tekjuáætlunina, en varlegt var það ekki. Það var neyðarástand, sem skapaði þessar varhugaverðu niðurstöður.

Hv. frsm. talaði hér um stórhug fjvn. Mér kom þetta nokkuð einkennilega fyrir, af því að ég veit hreint ekki, í hverju þessi stórhugur er fólginn. Afskipti n. af frv. mótuðust fyrst og fremst af því, að hún var í nauðvörn, sem og ríkisstj. og Alþ. allt. Það er lagt til af n. að hækka rekstrarútgjöldin um 52 millj. kr., og á sjóðsyfirliti er hækkunin um 2.600.000 kr. En ég er að veita því fyrir mér, eins og einu sinni stóð í Morgunblaðinu, hvaða stórhugur liggi á bak við þetta. Hækkunartill. eru fólgnar í því að leiðrétta áætlunarskekkjur og í því að taka inn í frv. 35 millj. kr. framlag til dýrtíðarráðstafana. sem er í samræmi við stefnu ríkisstj. Það er þó ekki alveg rétt, því að 10 milljónir eru þar vegna vantalinnar vísitölu á fjárlagafrv., þar sem upphaflega er reiknað með vísitölu 290. en er nú reiknað með 310 stigum, og þarf 10 millj. kr. til þess að mæta þessum mun. Það, eru því ekki nema 25 milljónir, sem fara í niðurgreiðslur, og er dregið í efa, að þetta sé nóg. Þetta er vitanlega áætlunarupphæð, og fer eftir öllum aðstæðum, hversu mikil hún verður. Þetta markar því engan stórhug hjá n., og það var gert í samráði við ríkisstj. og í framhaldi af þeirri stefnu, sem við höfum búið við undanfarið. Hækkað var nokkuð framlag til skólamála í till. n., en það er aðeins afleiðing af löggjöf, sem hér var sett fyrir skemmstu. Framlag ríkissjóðs til skólabygginga er lögboðinn hluti gegn framlagi þeirra, er að byggingunum standa. Reynslan hefur sýnt, að í skjóli þessarar nýju löggjafar. sem leggur ríkinu auknar skyldur á herðar, en dregur jafnframt hlutfallslegu úr útgjöldum sveitarstjórna, þá hafa sveitarfélögin orðið djarfari og lagt í svo miklar byggingar að ríkissjóður þurfti að leggja fram allt að 10 milljónum kr. Þetta var nú allmikið skorið niður, en þó hækkað í till. n. frá því, sem var í frv. En þetta var ákveðið af ríkisstj., en ekki af n. Sama er að segja um aukið framlag til raforkumála. Um vegi, brýr og hafnir má segja, að n. hafi ýtt á eftir, en niðurstaðan af starfi n. var sú, að ekki voru teknar inn í till. hærri upphæðir, en ríkisstj. samþykkti. N. hafði ætlað að sigla hærri byr, en það reyndist ekki fært. Þrátt fyrir gífurlega hækkun á þessu frv., er þó ekki hærra risið en það, að framlag til vega er aðeins örlítið hærra en áætlað var á síðustu fjárl. Það er þó mun lægri upphæð, en var veitt s.l. ár, því að ríkisstj. veitti umframgreiðslur til staða, þar sem nauðsyn bar til að fullgera vegi. Framlag til brúa er svipað og s.l. ár, en framlag til hafnarmannvirkja er allverulega hækkað. Það er aðeins eðlileg afleiðing af aukningu flotans, og til þess að geta hagnýtt hin nýju skip, verður að búa þeim þau skilyrði í höfuðverstöðvum landsins, að gerlegt sé að halda þeim út á vertíðinni. Og eins og tekið er fram í nál., er svo naumt skorið í þessu efni, að aðstaðan til útgerðar þessara stóru báta er ákaflega hæpin og útgerðarmenn eru settir í mikla hættu með það, að bátunum hlekkist á, ef ekki rætist úr. Og þótt þessi fjárhæð gæti vaxið, er það engan veginn öruggt. Í þessu felst engin ásökun frá minni hendi í garð hv. ríkisstj. Hún var tilneydd að skera þessar upphæðir niður. Það skapast af því ástandi, sem nú ríkir, að ekki er hægt að ganga lengra í þessu efni, af því að það getur orðið svo, að vonir manna bresti að meira eða minna leyti.

Hv. frsm. talaði mikið um bjartsýni og stórhug hjá fjvn. Ég vildi óska, að við hefðum búið hér við þær fjárhagskringumstæður, að sá stórhugur hefði getað fengið að njóta sin, betur en nokkrir möguleikar eru nú á. Það er rétt, að stórhugar gætti í fjvn. En eins og ríkjandi fjárhagskringumstæður hafa sett núverandi ríkisstj. skorður í sambandi við afskipti hennar af fjárveitingum, eins hafa þær kringumstæður sett fjvn. skorður um hennar till. Stórhugur og bjartsýni eru góðar dyggðir, en það verður að sníða stakkinn eftir vextinum, því aðeins geta þessar fögru dyggðir notið sín, að öllu sé í hóf stillt, en ekki rasað um ráð fram.

Hv. frsm. sagði, að fjvn. hefði ekki gert sínar till. af neinu ábyrgðarleysi, heldur samkvæmt því, sem hún hefði talið rétt og skynsamlegt. Og hann sagði, að vegna aðgerða fyrrv. ríkisstj. væru atvinnuvegirnir nægilega traustir til að taka á sig ábyrgðina af þeim till. Ég óska, að þessar vonir hans mættu rætast. En það eru nú ýmsar blikur á lofti, og úr því að hv. frsm. fór að geta um aðgerðir fyrrv. ríkisstj. í sambandi við atvinnuvegi og framkvæmdir, þá hefði hann jafnframt átt að minnast á aðgerðir annarra í því efni, þeirra manna, sem hafa aflað fjárins til nýsköpunarinnar, og þeirra, sem eiga að bera hitann og þungann í þeim erfiðu aðstæðum, sem við erum nú í, þegar nauðsynlegt er að gera þessi nýju tæki arðbær. Þessir menn hafa ekki síður en fyrrv. ríkisstj. lagt sitt fram, það er bezt að gera ekki þar upp á milli. Úr því að hv. frsm. minntist á þetta, er rétt, að hver hafi þann heiður, sem honum ber. Ég vil ekki slá neinum skugga á fyrrv. ríkisstj. eða hennar þátt. Hún hefur eflaust gert margt gott og vel. En aðrir hafa líka lagt mikið af mörkum, og án þess framlags er langt frá, að fyrrv. ríkisstj. hefði getað tekið að sér hlutverk nýsköpunarinnar, því að án fjárins og öflunar þess hefði hún verið ómegnug.

Hv. frsm. sagði, að allt ylti á því, að ríkisvaldið á hverjum tíma væri hvetjandi, en ekki letjandi.

Það er að vísu mikils vert að öllum jafnaði. En kröfur, áræði og framtak einstaklinga og félaga, sem að atvinnurekstri standa, hefur allt verið svo risavaxið, að ríkisvaldið sér nú enga möguleika á að sinna öllu, og stendur þetta því í öfugu hlutfalli við það, sem hv. frsm. lýsti, og er sorglegt til þess að vita, því að æskilegt væri, að aðstæður væru til þess fyrir ríkið að vera hvetjandi um þessa hluti.

Mér hefur verið sagt, að hér hafi verið rætt um fjárframlag til Hvalfjarðarferju, og bið ég hv. frsm. að afsaka, að ég er að blanda mér inn í það mál, því að hann heldur á því af sínum mikla dugnaði. En ég er þessu máli mjög kunnugur og mig langar því að víkja að því nokkrum orðum. Mér er sagt, að hér hafi verið ráðizt á þessa framkvæmd. Hún er þannig til orðin, að á síðasta þingi báru þm. úr öllum flokkum fram þáltill. um málið, en hún kom svo seint fram, að hún náði ekki endanlegri afgreiðslu. Meiri hluti fjvn. lagði þessari till. hins vegar lið, og létu þessir þm. ríkisstj. vita vilja sinn í þessu efni. Hún réðst síðan í þessar framkvæmdir, sem eru tvíþættar báðum megin fjarðarins, vegagerð og lendingarbætur. Mér er sagt, að komið hafi fram sú skoðun hér í umr., að hyggilegra hefði verið að verja þessu fé til vegarins inn fyrir Hvalfjörð. En með ferjunni sparast 40–50 km langur vegarkafli og það sá kaflinn, sem langerfiðastur er yfirferðar, t.d. um snarbrattar hlíðar innst í Hvalfirðinum, þar sem vegurinn liggur undir skriðuföllum og snjóskriðum og er sérstaklega erfiður yfirferðar að vetri til. Af þessum ástæðum spratt upphaflega hugmyndin um ferjuna. Akraneskaupstaður hefur keypt tvö ferjuskip, og málið er komið á góðan rekspöl, en töluvert skortir á, og er þessi fjárveiting nú miðuð við það. Og hv. samgmrh. vill fá heimild í 22. gr. til að mega ljúka verkinu. Mér er kunnugt um, að bæði norðan- og vestanlands fagna menn því mjög að fá ferju yfir Hvalfjörð, því að með því styttist leiðin milli Reykjavikur og þessara landsfjórðunga til muna og menn þyrftu ekki lengur að fara inn fyrir Hvalfjörð og kæmust þar með hjá þeim erfiðleikum, sem eru og verða því alltaf samfara. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og ljúka þar með máli mínu.