21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

12. mál, fjárlög 1947

Frsm. (Gísli Jónsson):

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni yfir þeim umr., sem fram hafa farið um framsöguræðu mína, og tel þær hollari en langar ræður um vegarspotta eða annað því um líkt.

Ég vil þá snúa mér að þm. Borgf. Hann hélt því fram, að ég hefði flutt hér stórpólitíska ræðu, og það getur vel verið, en hann flutti hér líka pólitíska ræðu, en hins vegar er það annað mál, hvaða merki hann reisti í sinni ræðu.

Annars undirstrikaði þm. Borgf. margt í minni ræðu, en hrakti ekkert. Þó að hann hafi annan skilning á málunum en ég, þá er það allt annað mál. Hann sagðist ekki gera mín orð að sínum, enda talaði ég alls ekki fyrir hans hönd, því að ég tók það fram í upphafi, að þar sem ég fór út fyrir nál. sjálft, talaði ég aðeins fyrir minni eigin skoðun. Hann hefur annan skilning á þessum málum en ég, og fyrir það lasta ég hann alls ekki, en þm. geta dæmt um, hvor skoðunin þeim finnst réttari. Þm. Borgf. sagði, að ég einn hefði viljað afgreiða fjárlög á réttum tíma, þrátt fyrir það að engin ábyrg stjórn hefði verið til staðar. Það er rétt, að það er mín skoðun, að það hafi alls ekki verið ógerlegt. Ég tel, að þingflokkarnir verði að bera ábyrgð á gerðum Alþingis og þá ekki hvað sízt fjárl., og ég skil ekki, að þm. Borgf. láti það nokkru ráða um sitt atkv. í svona málum, hvaða ríkisstj. situr. ríkisstj. er aðeins framkvæmdarvald, og það er vilji meiri hluta Alþingis, sem hún á að framkvæma. Það má líka benda á það, að hér voru afgr. fjárl. á Alþ. eins og venjulega, þegar utanþingsstjórn var við völd. Þá sagði þm. Borgf. að það ástand, sem hér ríkir, sé orðið til vegna verðbólgunnar. Þetta vita allir, en það má líka benda á, að það voru fyrst og fremst amerískir dollarar, sem ollu dýrtíðinni. Með þeim var vinnuaflið boðið upp og kaupgetan með því aukin. Þetta hefur ekki tekizt að laga, því að það hefur ekki náðst samkomulag um leiðir til þess.

Þm. Borgf. talaði um, að afgreiðsla fjárl. væri svo erfið nú, vegna þess að útgjöldin í sambandi við þau lög, sem síðasta Alþingi setti, væru svo mikil, einkum þó vegna þriggja lagabálka, þ.e. skólalaganna, launalaganna og tryggingalaganna. Ég verð að segja það, að það er ekki stórhugur ríkjandi hjá þeim mönnum, sem ekki vilja, að þessi lög verði framkvæmd, en það verða þau ekki, ef Alþ. veitir ekki fé til þeirra á fjárl. Fjvn. undirstrikar, að hún vill, að þessi lög verði framkvæmd og nái sem bezt tilgangi sínum. Þm. sagði, að ekkert nema nógu varleg tekjuáætlun gæti bjargað. Ég skil það ekki, að áætlun skapi tekjur, en með djörfum áætlunum þarf auðvitað dugandi framkvæmd. Allar þær tölur, sem þm. fór með í sambandi við árið 1945, voru réttar, en svo fer hann bara að álasa ríkisstj. fyrir eyðslu. (PO: Ég skýrði aðeins frá staðreyndum.) Telur þm. Borgf. það eyðslu eða sóun, ef fé er varið til kaupa á hlutum, sem síðan eru eignir? Ef þm. keypti kýr fyrir 50 þús., teldi hann sig þá hafa sóað þessum þúsundum? Ég vil því taka það fram, að það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að geyma fé og eyða því sama fé til kaupa á atvinnutækjum. Það má benda á það í þessu sambandi, að fyrir nokkuð mikla upphæð af okkar fé keyptum við togara, einn þeirra er þegar kominn til landsins og hefur nú farið sína fyrstu ferð til Englands og seldi betur, en dæmi eru til áður. Slíkt gefur okkur góðar vonir. Þó að hagur ríkissjóðs sé ekki góður nú, þá er rétt að benda á það, að við eigum mikið af afurðum í landinu, en þær eru okkar gjaldeyrir.

Þm. Borgf. spurði, hvernig færi, ef verðið breyttist á fiskinum. Ég tók það fram, að með ábyrgðinni á fiskinum hefði ríkissjóður óbeint skapað sér tekjur, því að hefði þetta ekki verið gert, þá væri mikill hluti af fiskiflota okkar ekki farinn af stað enn og þar af leiðandi ekki sá fiskur kominn á land, sem nú er. Það kann að vera, að ekki verði hægt að forðast skell af þessum ráðstöfunum, en hvernig hefði þá farið, ef fylgt hefði verið till. þm. Borgf. og 1. þm. Rang. og líka tekin ábyrgð á landbúnaðarafurðum? Það hefði getað skapað algert gjaldþrot. (PO: Það var bara sanngirniskrafa.) En sem betur fór réðu aðrir þá betur fyrir þessa þm. (PO: Það var ósanngirni, sem réð.) Þm. Borgf. sagði. að fjvn. hefði verið í nauðvörn með fjárl., en ég fæ ekki skilið þá, sem telja það nauðvörn að samþykkja nál. 200 millj. kr. gjaldaliði. Þm. Str. réðst mjög á fjármálaástandið, en á sama tíma flytur hann brtt. við fjárl.. sem nema hvorki meira né minna en 570 þús. fyrir hans kjördæmi eitt. Ef allir þm. tækju upp sama hátt, þá mundu brtt. vera upp á 30 milljónir. Ég tek því ekki alvarlega gagnrýni þm. Str. eða þó að hann mótmæli réttum tölum og fullyrði, að áróðursmenn hafi rétt fyrir sér. Það hafa nú verið fluttar langar ræður um ástandið og hversu slæmt það sé. Þessir sömu menn standa að núverandi ríkisstj., en hún hefur það á sinni stefnuskrá að gefa út hallalaus fjárlög. Þessir þm. verða því að styðja að því eða þá að svíkja stjórnina, eða í þriðja lagi að éta ofan í sig allt, sem þeir hafa sagt, og þeir eiga ekki aðrar útgöngudyr, því að ég trúi því ekki á þessa ágætu menn, að þeir samþykki 200 millj. kr. útgjöld, ef þeir hafa ekki von um, að atvinnuvegirnir beri þau. Það væri slíkt ábyrgðarleysi, að mér dytti ekki í hug að trúa því um jafnágæta menn. Sannleikurinn er, að í hjarta sínu viðurkenna þeir, að þeir álíti, að atvinnuvegirnir þoli það. En ekki geta þeir sagt, að það sé ákveðnum mönnum eða ákveðnum flokkum að þakka.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði gleymt að geta þeirra manna, sem hefðu aflað. Ég vil biðja hv. þm. Borgf. að lesa framsöguræðu mína. Þar minntist ég líka á þessa menn. Ég minntist þess alveg sérstaklega, að einmitt fyrir skilning fyrrv. hæstv. fjmrh., þann skilning, að heppilegast væri fyrir þjóðfélagið að hafa sem mest frelsi í viðskiptamálum, þá hefði hann stutt athafnamennina til framkvæmda. Hverjir eru svo þessir athafnamenn? Ég tel sem athafnamenn ekki aðeins þá, sem eiga togara, heldur hvern einasta mann, sem aflar fyrir þjóðarbúið. Og ég minntist þeirra manna í ræðu minni, svo að það var óþarfi af hv. þm. Borgf. að ráðast á mig fyrir það, að ég hefði gleymt þeim, því að það gerði ég ekki.

Hv. þm. Borgf. fullyrti líka, að á þessu þingi hefði ríkisvaldið orðið letjandi, en ekki hvetjandi. — Ég hef sannarlega ekki orðið var við það, að hæstv. ríkisstj. hafi verið letjandi hér á þinginu. Sannarlega ekki. Mér hefur einmitt fundizt, að hún væri mjög hvetjandi. A.m.k. hvatti hún okkur í fjvn. til að hækka töluvert þá liði í útgjöldum fjárl., sem við leggjum til, að verði hækkaðir. Og þetta höfum við gert í fullkomnu samræmi við vilja hæstv. ríkisstj. Hitt er annað mál, að hæstv. ríkisstj. taldi varlegra að fara ekki eins hátt með þessa liði og hin stórhuga og bjartsýna fjvn. vildi fara. Það var ekki af því, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki trú á atvinnuvegunum, heldur af því, að hún áleit — sem er alveg rétt — mjög mikið vafamál, hversu langt eigi að fara í því að taka vinnuafl frá atvinnuvegunum.

Ég hef þá svarað hv. þm. Borgf. út af hans ræðu. Mér þykir að vísu vænt um, að hann vakti þessar umr., því að ég tel, að það sé miklu heppilegra fyrir hv. alþm., ef þeir geta eitthvað af umr. um fjárl. lært, heldur en að hlusta hér á mjög leiðinlegar ræður um nokkra vegarspotta.

Ég hef nú í þessu svari mínu svarað að nokkru hv. 1. þm. Rang. Vil ég þó bæta þar einu við. Aðalásökunarefni hans gagnvart fyrrv. ríkisstj. var rekstrarhallinn á landssímanum, og sá halli átti að vera skýrasta táknið um það, hversu ákaflega illa hefði verið stjórnað. — En hvaða ráðh. hefur komið þessari óstjórn á? Skyldi sá hæstv. ráðh. hafa batnað svo mjög við það að fá atkv. hv. 1. þm. Rang.? Ég er ekki alveg viss um það. Ég held, að þessi ummæli hv. 1. þm. Rang. geti ekki orðið tekin sem alveg gild rök. Hitt er allt annað atriði. að ekki aðeins fjvn., heldur fleiri hafa bent á þetta atriði og talið sjálfsagt, að þetta yrði að lagfæra. Mþn. hefur verið sett í þetta mál, og ég hef átt kost á því í dag að lesa hennar till. Og mér þykir vænt um að sjá, að hún er nákvæmlega á sömu línu og fjvn. í þessu máli, nefnilega álítur, að þessi stofnun, Landssíminn, sem hefur alltaf gefið arð síðan 1908, hún eigi að gera það enn. Og mér finnst ekki nema eðlilegt, að sú krafa verði gerð til þeirra manna, sem þessari stofnun stjórna. Það er ekkert undarlegt og sýnir ekkert erfitt fjármálaástand í landinu, þó að fjvn. hafi orðið að skera niður eitthvað af þeim till., sem óskað var eftir til skólaframkvæmda eða annarra mála hliðstæðra. Hv. þm. öllum er kunnugt um, að hver einasta stofnun hér, hvort sem er hjá íþróttafulltrúa, fræðslumálastjóra eða öðrum mönnum hér, sem eru fulltrúar ríkisvaldsins, óskar eftir að fá sem mest til sinna mála af framlögum frá ríkinu. Það er ekki nema ákaflega mannlegt. Fræðslumálastjóri veit, að það hefur verið samin löggjöf, þar sem ákveðið er, að það eigi að byggja upp skólana. Hann hefur sagt, að það mundi kosta 10 millj. kr. á ári í a.m.k. 10–15 ár. Ég held, að það verði ekki hægt að ásaka neina fjármálastjórn í landinu — hvorki núverandi, fyrrverandi eða komandi —, þó að það beri við, að ekki sé hægt að láta allan þann skerf á einu ári, sem á að fara til slíkra mála frá ríkinu. Þar er um framtíðarmál að ræða, sem þarf að byggja upp og verður byggt upp. Hitt er svo spursmál, hvaða leiðir á að fara, hvort eigi að taka lán til þess að byggja upp þessar stofnanir eða taka til þess fé af gróða. — Og mér virðist eðlilegast að dreifa þessu ekki aðeins á 5–6 ár, heldur kannske heilan mannsaldur. Ég hef bent á, m.a. í n., að miklu væri eðlilegra að taka 10 millj. kr. lán til þessara skólamála og dreifa kostnaðinum á t.d. 10 ár, en að láta þessa byrði hvíla á einu eða tveimur árum. Ég tel ekki sanngjarnt að krefjast þess, að ein kynslóð byggi upp allt, sem byggja þarf í þessu landi, brýr, hafnir, vegi, skóla o.s.frv., og sízt tel ég sanngirni í að ætlast til þess, að lagt sé allt fé í það, sem til þess þarf, á einu eða tveimur árum.

Ég sé ekki ástæðu til að svara frekar hinum stórpólitísku ræðum, sem haldnar hafa verið hér um fjárlagafrv. og brtt. n.

Hv. 8. landsk. þm. hefur borið fram sérstaka brtt. hér, ásamt hv. 6. landsk. þm., um ýmislegt, m.a. um flughafnir eða framlög til flughafna. Þetta var allt rætt í fjvn., og ég er satt að segja nokkuð hissa á því, að þetta skuli vera borið fram hér í þinginu, alveg sérstaklega sú brtt., sem ég nefndi, því að hv. flm. er það báðum kunnugt, að n. gerði ekki till. um framlag til flughafnar á Austurlandi af því, að ekki hefur verið hægt að koma sér saman um, hvar hún eigi að vera. Sumir vilja hafa hana á Eskifirði, en aðrir á Reyðarfirði. Og meðan nógum öðrum verkefnum er að sinna, þá er ekki þess að vænta, að fjvn. taki upp í till. sínar fjárfúlgur til mannvirkja, sem ekki einu sinni eru komin á pappírinn, hvað þá meira. — Viðvíkjandi brtt. um sundskyldu vil ég aðeins benda á, að sú upphæð, sem tekin er inn á fjárlagafrv. í því efni, er það, sem gefið var upp af sjálfum íþróttafulltrúa til n. í bréfi. Og þetta atriði var þrautrætt í fjvn. Það hefur aftur og aftur komið síðar frá fulltrúanum árétting um það, að æskilegt væri að tvöfalda þetta. En þá kom annað bréf, frá fræðslumálastjóra. þar sem hann telur, að 20 þús. kr. viðbót sé meira en nóg við þessar 120 þús. kr. í frv. Fjvn. hafði þannig þess vegna ekki ástæðu til að leggja til, að þessi upphæð yrði tvöfölduð, eins og þessir tveir hv. þm. vilja gera, og fellst heldur ekki á það.

Þá hafa komið fram ýmsar brtt. um vegamál. Ég þarf ekki að ræða sérstaklega um hverja vegatill. fyrir sig, en vildi skýra það mál almennt. Það var samkomulag um það við hæstv. ríkisstj., að fjvn. mætti skipta 7 millj. kr. til vega. — Ég vil í sambandi við þessi vegamál öll benda á það, að vegamálastjórinn og hæstv. samgmrh. hafa tekið 2 millj. kr. til vegaframkvæmda fram yfir það, sem veitt var til þeirra mála á síðustu fjárl. Og þessir aðilar hafa veitt þessu fé m.a. í marga af þeim vegum, sem þm. koma nú og vilja fá meira fé til, en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og í brtt. fjvn. Fjvn. vildi ekki taka þetta fé, sem þannig var tekið, inn á fjárl., hvorki hluta af því né það allt til endurgreiðslu. Valdið til þess að veita þetta fé, 2 millj. kr. til vegaframkvæmda, hafa tekið sér fyrrv. hæstv. ríkisstj. og þeir menn aðrir, sem stjórnað hafa þessum málum — og vegamálin eru nú undir stjórn sama hæstv. ráðh. — án þess að hafa ályktun Alþ. til þess. Og þessum aðilum ber þá einnig að glíma við það, hvernig þeir fá þessa fjárgreiðslu samþ. Ef þeir geta tekið þessa upphæð inn á útgjöld s.l. árs í fjárl., þá þeir um það. En fjvn. vildi ekkert skipta sér af þessu máli og vildi ekki taka þessa greiðslu sem fjárveitingu eftir á. — Um Ármúlaveg í sambandi við þessar 50 þús. kr., sem unnið var í þeim vegi í fyrra, er það að segja, að þessar 30 þús. kr., sem nú eru ætlaðar til þess vegar, eru ekki ætlaðar til annars, en að vinna fyrir í þeim vegi á þessu ári. Nákvæmlega það sama er að segja um framlagið til Bitruvegar. sem hv. þm. Str. talaði um. Það hafa verið greiddar 120 þús. kr. fram yfir það á síðasta ári, sem veitt var á fjárl. Og ég fullyrði, að ef fjvn. hefði haft yfir að ráða þessum nefndu 2 millj. kr., mundi þessu fé ekki hafa verið úthlutað eins og gert hefur verið. Og það er eina leiðin til þess að halda fjárveitingarvaldinu yfir vegafénu í höndum fjvn. og Alþ. að láta þá aðila, sem taka fé til vegaframkvæmda þess opinbera umfram það, sem heimilað er á fjárl., glíma við það sjálfa, hvernig á að færa þær greiðslur. Ég sé ekki, að það sé neitt því til fyrirstöðu að taka litlar upphæðir, svo sem 10 eða 20 þús. kr., og færa frá einum vegi til annars innan sama héraðs. En þegar tekin er nærri ein millj. kr. úr héruðum af vegafé til þess að láta vinna fyrir það fé í öðrum héruðum, þá fer að vandast málið. Og ég get sagt hv. þm. það, m.a. hv. 3. landsk. þm., að það hefur verið tekið fé svo hundruðum þús. kr. skiptir til vega eingöngu í þeim sýslum, sem minna þurfa í raun og veru að fá af fé til vega en aðrar sýslur. Og slíkt ranglæti er ekki hægt að þola.

Ég get einnig rætt í heild brtt. um hafnarmálin. Það er rétt, að til hafnarmála þyrfti að leggja fram meira fé en hægt er nú að veita. Það var samkomulag hjá fjvn. við hæstv. ríkisstj. um það, að það mætti fara upp undir 7 millj. kr. Þessu fé hefur af fjvn. verið skipt eins réttlátlega og fjvn. hefur vit á og samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja. Hennar dómur er auðvitað ekki neinn Salómonsdómur í því máli. En ég vil benda á, að hæstv. ráðh. hefur einnig yfir að ráða 11/2 millj. kr. í hafnarbótasjóði, sem hann getur fyllt í eyður til jafnaðar, þar sem fjvn. kunna að hafa verið eitthvað mislagðar hendur. Og get ég ekki annað, en vísað þeim mönnum, sem eru nú með sínar till. um þau efni, að sækja þar á og sækja fast, en sækja minna með sínar till. sem brtt. við fjárl. í þessu efni. Það hafa verið búin til l. um það að taka af Alþ. fjárveitingarvaldið í þessu efni, að því er snertir þessar 11/2 millj. kr. — Og það mætti segja mér, að hæstv. samgmrh. mundi hafa að síðustu allt féð til hafnarbóta undir sinni ráðstöfun. Það var því tekin sú leið, ekki aðeins í samráði við vitamálastjóra, heldur einnig í samráði við hæstv. ráðh., að engin höfn skyldi fá meira en 330 þús. kr. Og þannig var skipt fé á átta hafnir. Hinu hafnarfénu var skipt milli aðila eftir upplýsingum, sem fyrir lágu. — Ég vildi, í sambandi við t.d. Akureyri og fleiri staði. benda á, að það er alveg vafasamt, hvort á að leggja eins mikla áherzlu á að veita fé til sumra hafna — þ. á m. til Norður-Ísafjarðarsýslu — til endurbyggingar á gömlum hafnarmannvirkjum, því að mikið af þessu fé fer beinlínis til þess að endurbyggja eða gera við gömul, maðksmogin og fúin hafnarmannvirki. eins og t.d. á Akureyri, sem er ekkert annað, en viðhald. Sama er að segja um bryggjuna í Norður-Ísafjarðarsýslu, eftir því sem hv. 3. landsk. þm. gat um. Það er spursmál, hvort það er í anda hafnarl., að ríkissjóður skuli ekki aðeins byggja fyrst upp hafnir, og þá leggja í þær 40–50%, og svo halda höfnunum við. Ég hygg, að það sé vafasamt, að það sé í anda hafnarl. En meginhlutinn af því fé til hafna, sem beðið er um í kvöld, er til þess að halda við höfnum. T.d. á framlagið til Húsavíkur sennilega að fara til þess að endurbyggja hafnarmannvirki, sem áður var byggt. (StgrA: Ríkissjóður hefur ekki lagt til bryggjunnar á Akureyri.) Ég veit ekki, hvort hann hefur gert það fyrr. En ég tók þetta svona meir almennt.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði í sinni ræðu, að ekkert hefði verið gert fyrir Skagfirðinga til hafnarbóta. — Skipting fjvn. á fénu, sem til hafnarmála skyldi veitt, var ekki gerð eftir þeim mælikvarða, hvort í vissum héruðum hafi verið gerðar einhverjar vissar framkvæmdir sérstaklega, heldur með tilliti til þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu, til þess að reyna að mæta þeirri nauðsyn að bæta úr því, sem þarf, viðvíkjandi hafnarmálum. Og um Haganesvík sérstaklega lá ekki heldur frá vitamálastjóra fyrir nein áætlun um, að þar væri svo aðkallandi nauðsyn að leggja fram annað eða meira fé til þeirra mála en hann sjálfur lagði til. Það er í þessum málum þannig, að langmest fé fer til þess að endurgreiða þær skuldir, sem þegar hvíla á ríkissjóði í sambandi við hafnarframkvæmdir. En það er alls ekki skylda ríkissjóðs að hafa alltaf til handbært fé á móti því. sem lagt er fram til þessara mála heima fyrir á hverjum stað. Það er sagt í l., að gera skuli þessi eða hin hafnarmannvirki, þegar fé sé veitt til þess á fjárl. Það hefur verið skoðun margra, að þegar svo sé til tekið um mannvirki í l., sem ráðgert er að reisa, og búið er að leggja fram fé heima fyrir á móti tillagi ríkissjóðs, þá eigi ríkissjóður þegar að leggja fram fé að sínum hluta. Þetta er rangt. Nýlega er búið að leysa hluta ríkissjóðs til hafnar á Raufarhöfn, sem staðið hefur á í 10 ár, af því að ríkissjóður hefur ekki talið skyldu sina að greiða þetta fé þegar, þó að búið væri að leggja þarna fram fé heima fyrir til mannvirkisins. En ríkissjóður gefur þau fríðindi að ábyrgjast lán í slíkum tilfellum fyrir viðkomandi staði til slíkra framkvæmda, 60% af öllu því, sem viðkomandi ráðh. eða vitamálastjóri hefur viðurkennt, að ætla megi, að mannvirkið muni kosta. Og byrjað hefur svo verið að byggja fyrir slíkt fé, t.d. á Akranesi, þar sem ráðizt hefur verið þannig í stórkostlegar framkvæmdir — og svo er reynt að þoka þessu fé úr ríkissjóði, eftir því sem hann hefur ráð á.

Í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði hér um skógrækt, vil ég upplýsa, að skógræktin fær á þessu ári 174 þús. kr. meira en í fyrra. Það er því rangt, að skorið hafi verið niður tillagið til skógræktarinnar, en því hefur verið haldið fram af skógræktarstjóra, að svo hafi verið gert. En ég hef fengið það viðurkennt af skógræktarstjóra, sem ég sagði um þetta atriði nú. Fjvn. vildi ekki leggja fé í girðingar og til vélakaupa eftir þeim útreikningum, sem henni voru sýndir. Eins og ég sagði í dag, hef ég ekkert á móti því, að menn klæði landið skógi. En ég vil þá, að það gerist og byggist á öðru, en fölskum rökum. Og útreikningar um það verða að vera byggðir á réttum forsendum.

Um búreikningaskrifstofuna vil ég líka segja hv. 1. þm. Skagf. það, sem ég hélt, að honum væri kunnugt um, að fyrir mörgum árum lá þetta undir Búnaðarfélag Íslands, og fékk það til þess 5 þús. kr. á ári. Í fyrra eru svo látnar 20 þús. kr. til þessa, en framlagið hækkað nú í frv. upp í 40 þús. kr. Þeir óskuðu eftir að fá þetta framlag hækkað í 59 þús. kr. — Það virðist vera stefna, þar sem á að mynda einhvers konar stjórnardeild um viss mál, að fyrst er fenginn forstjóri, síðan skrifstofa, þá stúlka og síðast ferðakostnaður. — Frá mínu sjónarmiði á þessi búreikningaskrifstofa að heyra undir starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Og þegar fjvn. hefur sýnt því þá viðsýni að leggja til, að framlag til starfsemi búnaðarfélagsins verði hækkað um 200 þús. kr. frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., þá tel ég sannarlega, að hv. 1. þm. Skagf. megi vel við una viðkomandi þessu atriði. Ég tel, að þessi kennsla eigi að fara fram í búnaðarskólum, þannig að þeir menn, sem þaðan koma, geti haldið þessa 40 búreikninga, sem er hámarkið, sem haldið hefur verið af búreikningum á landinu, eftir því sem við höfum fengið upplýsingar um hingað til.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða við hv. þm. Skagf. um hans vegamál. Ég hef þegar rætt almennt um vegamálin, sem gildir að sjálfsögðu um hans sýslu eins og önnur héruð á landinu.

Hvað við kemur hv. þm. A-Húnv., þá vil ég benda honum á, að sá vegur, sem hann talaði hér um, Norðurárdalsvegur, er sama og Gönguskarðsvegur milli Skagastrandar og Sauðárkróks og fjvn. leggur til, að veittar verði 100 þús. kr. til þess vegar, en 120 þús. kr. til Skagastrandarvegar. En það er atriði, sem verður að gerast upp milli hæstv. ríkisstj. og vegsmálastjóra og samgmrh. og viðkomandi sveitarfélaga, hvernig þessu fé skuli skipt á einstaka kafla þessara vega. Og ég held, að það sé nú svo mikil blíða á milli þessara aðila og hv. þm. A-Húnv., að ekki þurfi að deila um það hér, hvernig þessu fé skuli skipt, hve mikið skuli koma á hvern stað. En ég vænti, að eftir þessar skýringar sjái hv. þm. A-Húnv. sér fært að taka sínar brtt. til baka. Í Skagastrandarveginn var greitt á annað hundrað þús. kr. meira framlag á síðasta ári, en ákveðið var í fjárl. En það hafði ekki nein áhrif út af fyrir sig á skiptingu vegafjárins hjá fjvn. Og því er þó ekki að neita, að sæmilega sé séð fyrir vegaframlögum í þetta hérað, a.m.k. í samanburði við önnur héruð, sem mjög eru afskipti. En ef það er eins nauðsynlegt að koma þessum vegi, sem hv. þm. A-Húnv. nefndi. áfram eins og af er látið, á að geta verið samkomulag um það innan héraðs að nota t.d. fé, sem ætlað er í Svínvetningabraut, til þess að koma þessum vegi áfram, meðan ekki er farið að byggja brúna á Svínvetningabrautinni. Við höfum gert ráð fyrir slíku samkomulagi í hverju héraði, þannig að framlögin verði ekki látin fara yfir visst hámark til vega í sýslunni. Hv. þm. A-Húnv. upplýsti, að þessi brú kostaði 13 þús. kr. — Það hefur verið rætt í fjvn., hvort það væri yfirleitt rétt að veita fé í brýr á fjárl., eins og gert hefur verið, þar sem vitað er, að það fé biður oft árum saman. áður en hægt er að framkvæma brúargerðirnar, og hvort ekki væri rétt að taka fremur stór lán til þess, sem gert væri ráð fyrir að endurgreiða á vissu árabili. En það þótti ekki rétt að kippa burt fjárveitingu til brúa, sem byrjað hafði verið að veita fé til á þann hátt, sem verið hefur, enda er brúaféð raunverulega eingöngu samþ. af fjvn. eins og till. komu um frá vegamálastjóra. — Ég hef að vísu heyrt af vörum sumra hv. þm., að hann sé ekki óskeikull í réttlætinu í þeim málum. En ég hef líka heyrt frá hv. þm., þegar vegamálastjóri hefur fylgt till. þeirra um framlög, þá sé það sérstaklega talið til meðmæla því, að féð verði lagt fram, að vegamálastjóri hafi mælt með því, og það hefur verið notað sem sterk rök með fjárframlögunum. Ég hef ekki haldið því fram. En þeir hv. þm., sem nú halda því fram, að það séu ekki óskeikul rök fyrir að taka ekki upp fé til vegar, að vegamálastjóri leggur það ekki til, þeir héldu því fram á síðasta þingi, þegar þeim þótti sér vera hagur að því að halda því fram, að till. vegamálastjóra ætti að virða mikils. Og m.a. á þetta við hv. þm. Str.

Hvað viðvíkur Hvalfjarðarveginum, þá hefur hv. þm. Borgf. skýrt það mál. Samkvæmt bréfi frá vegamálastjóra þá er allur sá kafli, sem búið er að vinna, í þjóðvegatölu. Að vísu er hugsað, að þetta kosti meira í framtíðinni en hér er lagt til, en það eru fyrir því gögn, að nokkuð af veginum er í þjóðvegatölu og einmitt sá vegur, sem unnið er í. Sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í það atriði. Það má alltaf deila um, hvort þetta eða hitt sé réttlátt, en ég held, að ekkert, sem heyrir undir vegamálaráðh., hafi verið sótt jafnfast og þetta atriði. og það er eðlilegt, að fjvn. beygi sig nokkuð undir það. a.m.k. sá hluti hennar, sem styður þann hæstv. ráðh. Það er þá á hans ábyrgð að nokkru leyti og þeirra, sem honum fylgja, hvort hér er verið að sinna aðkallandi þörf eða hvort það er óþarfi.

Viðvíkjandi aths. frá hv. þm. A-Sk. þá var hann að tala um endurveitingu, 8 þús. kr., til fyrirhleðslu. Ég verð að segja. að fyrst ekki var meira aðkallandi en þetta að byrja á því verki, þá sé ég ekki. að það sé alveg nauðsynlegt að taka þetta upp í fjárl. nú. Þeir fengu tækifæri á s.l. ári til að vinna þetta verk, en hafa ekki gert það. Það var tekið upp í fjárl. s.l. árs, en fjárveitingin ekki notuð, og þá veit ég ekki, hvort þetta er svo aðkallandi, að rétt sé að taka það upp aftur nú.

En hvað viðvíkur erindi hans um fjárupphæð til viðgerðar á hafnsögubát, þá er hér farið alveg inn á nýja braut. Fjvn. hafði þetta mál til athugunar, og það er þess vegna óþarfi að taka till. aftur, að fjvn. hefur sagt um hana sitt síðasta orð. Ég held, að þessi maður sé ekki í þjónustu ríkisins, hann er í þjónustu hafnarinnar á Hornafirði. Hann er ekki í þjónustu ríkisins, þó að hann sé leiðsögumaður fyrir skip, sem ríkið á. Hann væri þá í minni þjónustu, ef hann vísaði inn skipi, sem ég á. Ef þessi maður hefði verið nægilega hygginn til að vátryggja bátinn, þá hefði hann ekki þurft að ónáða hv. þm. með þessari kröfu. Ef á að styrkja af ríkisfé bát, sem fer út til að vísa skipum til hafnar, þá veit ég ekki. hvar á að enda. Ég vil ekki vera með í að byrja þann leik.

Viðvíkjandi hv. 2. þm. S–M. vil ég segja, hvað viðvíkur till. hans um Eskifjarðarveg, að það er svo mikil þörf á vegaumbótum í landinu, þar sem ekki er hægt að aka bílum, að fjvn. verður að láta það ganga fyrir þeim leiðum, sem eru þó færar bilum, en hv. þm. upplýsti, að þessi vegur væri bílfær, kannske meiri hluta ársins. Hv. þm. hefur upplýst, að 300 þús. kr. séu óeyddar frá Oddsskarðsveginum frá s.l. ári, og sennilega hefði verið hægt að komast að samkomulagi um að fá eitthvað af því fé til að ljúka við þennan veg, sem hann hefur mestan áhuga fyrir.

Hann segir, að árnar í Skriðdal séu mannskæðustu ár á landinu. Ég skal ekki segja um það, en vísa til þess, sem ég hef sagt um brýrnar, að um það mál hefur verið farið eftir till. vegamálastjóra.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um annað mál, sem hv. þm. minntist á og er stórmál, en það er raforkumálið. Það var ekki annað hægt að skilja, en að hann hefði tekið að sér það mikla vandamál að ræða þessi mál við raforkumálastjóra, en fjvn. hefði ekki gert því nein skil. Þetta er misskilningur. Fjvn. hefur rætt þetta við raforkumálastjóra og ekki eingöngu við hann, heldur raforkumálaráðh. Það lágu fyrir n. upplýsingar um allar þær virkjanir, sem hann talaði um. En hann hefði átt að kynna sér það líka, að það er gert ráð fyrir 15,8 millj. kr. til niðurgreiðslu á þessum mannvirkjum, til þess að hægt sé að láta þau bera sig, áður en hægt er að láta þau standa undir sér. Af sumum þarf að greiða 99%, og þá geta þau staðið undir 1% af kostnaðinum, meðaltalið er 85,5%. Það hefði verið vel þess vert fyrir hv. þm. að kynna sér, hvort ekki er kannske farið inn á þessa braut nokkuð hugsunarlaust. Það verður að gera sér ljóst, að þessar milljónir, sem hér er verið að taka, eru líka teknar af öðrum landsmönnum. Það er ekki hægt að taka þessar milljónir af einstökum héruðum til þessara lína til að afskrifa þar 99% og láta þá sömu mönnum, sem verða að standa undir þessum miklu byrðum, blæða í tugi ára án þess að fá nokkra línu sjálfir. Ég mótmæli, að það sé gert. Hér verður að taka upp ákveðið skipulag, byrja á því, að þingið ákveði, hvaða linur eigi að byggja. Það hefur m.a.. verið ákveðin lina austur í Rangárvallasýslu, ákveðið á heimildagrein að verja 1,8 millj. kr. til að kaupa efni í þá línu, einnig ýmsar aðrar, en það verður að spyrna fótum við, áður en það er orðið of seint. Ég hefði sízt vænzt þess frá þeim, sem þekkja til á Siglufirði. að þeir kæmu með stórkostlegar till. um að leggja fé til þessara mála, vitandi það, að þar er ástandið þannig á fyrsta ári, að það verður, eftir að búið er að ganga í 85% ábyrgð, að velta hálfrar millj. kr. lán, til að fyrirtækið geti borið sig bara í hálft ár, rekstrarlán. Nei, ég veit ekki, hvort ég er meiri fjandmaður rafmagnsmálanna á Íslandi en aðrir, en ég veit, að mesti fjandskapurinn við rafmagnsmálin á Íslandi er að bera fram svona till., því að það er til að drepa málin, áður en þau fæðast. Fjvn. mun í heild halda fund með raforkuráði og raforkumálastjóra og þarf þar sannarlega ekki neina aðstoð eða leiðbeiningu frá hv. 2. þm. S.-M. Hún mun halda fund með raforkuráði ásamt raforkumálaráðh. um þetta stóra vandamál fyrir 3. umr. og þá enn fremur athuga jarðboranirnar. Hv. þm. hefði því getað sparað sér allt það frumhlaup, sem hann hefur gert í þessu máli. Sama er að segja um styrkinn til fræðimannanna. Hann hefði getað sparað sér það, ef hann hefði lesið nál., því að þar stendur, að það mál muni verða athugað nánar til 3. umr. Sannleikurinn er, að n. fékk lista yfir, hvernig úthlutuninni væri hagað, og þar kom í ljós, að þar var úthlutað fé til manna, sem voru á fullum launum, þar á meðal til Guðjóns skólastjóra Guðjónssonar og Finns Sigmundssonar. Ég sé ekki neina þörf á að taka fé úr ríkissjóði til að greiða þeim mönnum, sem eru á fullum launum hjá ríkinu, en hafa þó aðstöðu til að afla sér aukatekna fyrir gífurlega há ritlaun, eins og ég veit, að sumir þessara manna hafa fengið fyrir þessi störf, m.a. fyrir „Húsfreyjuna á Bessastöðum“. Hins er líka að minnast, að á þessum lista eru menn, sem við erum fyllilega sammála um, að eigi ekki að taka tekjur af, eins og Þorsteinn Þ. Þorsteinsson í Vesturheimi. Þess vegna munum við athuga þetta, en ég mun ekki greiða atkv. með því að greiða slíkar tekjur til manna, sem hafa full laun og þar á ofan aðstöðu til að vinna fræðistörfin fyrir mikið fé.

Þá er það barnaverndarráð. Það er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við barnaverndarráð verði sá sami og á síðasta ári. Í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að þegar hér var á ferðinni um daginn frv. um barnaverndarnefnd, þá var því lýst yfir og færð rök fyrir því við mig, að það mætti ekki hafa þar ákvæði um, að barnaverndarráð skyldi gera þetta eða hitt, því að heppilegast væri, að það væri lagt niður. (AJ: Hver gerði það?) Það get ég sagt hv. þm. annars staðar en hér. Þess vegna get ég ekki séð neina ástæðu til, að þetta framlag sé hækkað. Ég skal ekkert segja, hvað hæstv. ríkisstj. gerir með að greiða þessum manni, en ég vil benda á, að þau gögn, sem liggja fyrir fjvn., sýna, að þetta er ekkert nema bitlingur til ákveðins manns. (AJ: Það „interesserar“ mig ekki.) Það „interesserar“ fjvn. Í sambandi við Matthías Jónasson og þetta starf liggur fyrir bréf frá honum, þar sem hann lýsir yfir, að hann hafi orðið að vinna upp allt verk þess manns, sem var í þessu starfi á undan honum, og það verk hafi allt verið ónýtt. Svo getur verið, að það komi annar eftir Matthías Jónasson og verði að vinna allt hans verk upp og það reynist líka ónýtt. Meðan þessi mál liggja þannig fyrir, þá sé ég ekki ástæðu til að hafa þar sérstakan ráðunaut, fyrst einn mann og svo annan til að snúa kringum sig.

Viðvíkjandi fyrirspurn, sem hv. 1. þm. N-M. gerði, þá þarf ég ekki mikið að ræða um vegatill., ég hef þegar svarað því, en þessum styrk til ferjuhalds hefur verið skipt af vegamálastjóra, og sé ég ekki ástæðu til, að n. fari að taka upp þá skiptingu sjálf. Það er eins með fleiri styrki, svo sem sjúkravitjunarstyrki, sem ekki þótti ástæða til að skipta í frv. sjálfu. Ég vil ekki kenna fjvn. um, þó að kjósandi hans hafi nærri því farið í gegnum botninn á kláfnum. Hv. þm. var kunnugt um, að þessi fjárveiting var til. Hann var þá sjálfur á þingi og hefði getað fengið um það allar upplýsingar, hvernig átti að nota féð. Hann er allt of duglegur þm. til þess, að hann geti haft það sér til afsökunar, að hann hafi ekki fengið upplýsingar hjá vegamálastjóra, áður en botninn bilaði í troginu.

Um ræktunarvegina er það að segja, að það var aðeins af vangá, að till. var ekki sundurliðuð. Það átti að taka sundurliðunina upp og verður gert við 3. umr., en þessi upphæð á að skiptast á sama hátt og undanfarin ár, nema ræktunarvegur í Flatey á að fá 2 þús. kr. hækkun. Það lá fyrir bréf, þar sem mikil áherzla var lögð á að fá hækkun til þessa vegar. Það lágu fyrir undirskriftir um að fá 45 þús. kr. til þessa vegar. N. féllst á að hækka þessa fjárveitingu um 2 þús. kr.

Sama er að segja um dýralæknana. Þessari fjárveitingu hefur verið skipt af fjvn. Yfirdýralæknir, hv. þm. Ak., hefur gert till. um þetta, sent þær til n., hún síðan sett sína undirskrift undir þær og sent stjórnarráðinu. Sé ég ekki neina sérstaka ástæðu til að breyta því formi frekar en fyrr. Um fjárveitinguna til Hallormsstaðarskóla og eins brtt. sem hann minntist á við 22. gr., þá skal það verða athugað fyrir 3. umr. Það hefur yfirleitt ekki verið tekið neitt inn á þá gr. N. hefur ekki viljað gera það nema í samráði við hæstv. ríkisstj., en það skal verða athugað samkvæmt ábendingu frá hv. þm.

Ég get ekki fallizt á að hækka um 6 þús. vegatill. þá, sem hann minntist á, það verður að vera samkomulag innan héraðs. Hann upplýsir, að svo og svo mikið af vegum þar hafi verið lagt fyrir fé vinnumanna í hans kjördæmi, og mun það ekki verða lagt niður, meðan hann fær einhverju að ráða, sem hann getur ráðið með sínum dugnaði.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. þm. Str. miklu meira en ég hef gert, en ég vil leyfa mér að benda á það, sem ég tók fram áður, að mikið fé er lagt til Bitruvegar og Bitruvegur er ekki aðalleiðin inn í sýsluna. Þetta er önnur leið af tveimur. Það er búið að leggja annan veginn fyrir mörgum árum. Það var m.a. gert, þegar hann fór hér með ríkisstj., og hér er þá ætlazt til, að sé látið ganga fyrir öðrum vegum á landinu að koma tveimur vegum inn í sýsluna, sem mætast á Hólmavík, og er þá kominn hringvegur um sýsluna. Ég held, að það mundu margir verða ánægðir, þó að þeir fengju ekki nema einn veg. Hitt er annað mál, að leggja svo mikið kapp á að fá þennan veg að láta fara til hans allt það vegafé, sem veitt er í sýsluna. En það er ekki rétt, þegar búið er að færa þannig til, þá sé komið og farið fram á, að veitt sé fé til þeirra vega, sem fé hefur þannig verið tekið frá með samkomulagi, eins hv. þm. Str. gerði hér áðan. Sé ég svo ekki ástæðu til að fara frekar út í það.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið um till. hv. 6. landsk. Ég hef nokkuð farið inn á það áður, en ég álit, að hann hefði getað beðið með að ræða um heimavistarhúsið á Akureyri. Hann veit, að það er til umr. í n. enn. Þetta er langtum meiri auglýsingastarfsemi, en nokkuð annað. Hann veit, að n. er ekki búin að ganga frá þeim málum og hefur skrifað undir nál., þar sem tekið er fram, að ekki sé búið að ganga frá því, og svo kemur hann og flokksbróðir hans og krefst þess, að gengið sé frá þessu máli í þinginu, meðan þeir vita, að það er enn til athugunar í n. Ég tek ekki sem nein sérstök rök neitt af því, sem fram hefur verið fært af honum og skólameistara, að þarna sé svo voðaleg eldhætta. Ég veit ekki betur, en þetta hús sé búið að standa síðan um aldamót. Ef ætti nú að setja 31/2 milljón í þetta hús vegna þess, að ekki sé óhætt að búa þarna vegna eldhættu, þá ætti nú þegar að loka gamla Landakotsspítalanum vegna eldhættu, þar sem margir tugir sjúklinga búa. En það er til hætta víðar, en þar sem eldhættan er. Það er bílahætta á götunum. Og eigum við þá að hætta að ganga um göturnar vegna bílahættu? Þetta eru ekki rök fyrir mig. Nú er hér aðeins um að ræða 500 þús. kr., en það þarf a.m.k. 31/2 millj. kr. Þess vegna þarf miklu stærra átak, en að samþykkja þessa till.

Ég hef nokkuð rætt till. hv. 3. landsk. og skýrt honum frá þessu með vegaféð, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, en viðvíkjandi Ósá þá vil ég benda honum á, að þar er farið eftir till. vegamálastjóra, og það er þá hans mál að svara fyrir það.

Viðvíkjandi sjómannaskóla Ísafjarðar vil ég upplýsa, að n. hefur haft þetta mál til athugunar og sent það til umsagnar skólastjóra stýrimannaskólans hér, sem hefur eindregið lagt á móti því að greiða þetta til skólans. Það er þegar sjómannaskóli í Reykjavík, sem á að vera fyrir allt landið. Mér er ekki kunnugt um, að það séu lagafyrirmæli um, að byggja skuli sjómannaskóla á Ísafirði, og meðan það ekki er, þá er þess ekki að vænta, að fjvn. vilji samþykkja slíkar greiðslur. (HV: Það eru l. um, að kennsla megi fara þar fram.) Já, en það eru ekki l. um að setja 700 þús. kr. í byggingu þar og síðan svo og svo mikið til rekstrar á hverju ári.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. um brýr á brúal., hvort þær séu á þjóðvegum eða sýsluvegum, þá er mér kunnugt um Bakkadalsá og Kleifá, að þær eru báðar á þjóðvegum.

Ég held, að ég hafi þá svarað mestu af því, sem komið hefur fram, enda er búið að þreyta menn langt fram á nótt, og skal ég láta máli mínu lokið, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég vil þó geta þess, að fjvn. á brtt. á þskj. 564, II, sem er leiðrétting við 18. gr., að niður falli nöfn ýmissa manna, sem vitað er um að hafa látizt. Einnig er hér brtt. á þskj. 560 frá fjvn., XXXIX, sem er einnig leiðrétting við 18. gr., sem ég veit, að verður samþ. Skal ég svo ekki fara frekari orðum um málið að sinni.