23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (5230)

315. mál, efni til húsbygginga og iðnrekstrar

Snorri Jónsson:

Herra forseti. Það hefur verið útbýtt í Sþ. till. um gjaldeyri fyrir efni í húsbyggingar. Efni till. er það, að ríkisstj. verði falið að greiða fyrir um innflutningsleyfi á vörum, er snerta þessi mál. Það er vitað, að ótal byggingar hafa staðið ókláraðar marga mánuði vegna efnisskorts. Það er líka vitað, að iðnrekendur hafa neyðzt til að segja upp starfsfólki sínu og loka fyrirtækjunum af sömu ástæðum. T.d. stendur nú fyrir dyrum að loka tveimur verksmiðjum, sem hafa 65 manns í þjónustu sinni. Hér er allmikið í húfi, og vildi ég því mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sjái um, að þetta mál verði tekið á dagskrá.