14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (5235)

316. mál, framleiðslutæki þjóðarinnar

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Þann 5. okt. 1944 var samþ. á Alþ. þál. um að fela ríkisstj. að reikna út framleiðslutekjur þjóðarinnar á þann hátt, sem nánar er þar til tekinn. Var hún send ríkisstj. með bréfi, dags. 22. nóv. 1944. Með bréfi, dags. 27. s. m., var hagstofunni send þál. og henni falið að sjá um framkvæmd þess, sem í þál. felst. Hagstofan hefur síðan haft hana til athugunar, og hafa hagstofustjóri sjálfur og Gunnar Viðar talið mjög vandkvæðum bundið að framkvæma þetta þannig, að á því yrði nokkuð byggjandi. Í bréfi, sem ég fékk frá hagstofunni í dag um þetta, segir svo: „Það hefur dregizt nokkuð úr hömlu að framkvæma þennan útreikning, og stafar það af því, að á honum eru miklir örðugleikar, svo miklir raunar, að vafasamt verður að teljast, hve mikið er hægt að álykta af tölum þeim, sem fást með slíkum útreikningi. Má og segja, að sérstökum erfiðleikum valdi, að byrjað er á slíkum útreikningi á verðlagsbreytingatímum. Þetta verk er þó hafið og verður væntanlega lokið í næsta mánuði.“ Frekari upplýsingar hef ég ekki um þetta að gefa.