22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

12. mál, fjárlög 1947

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. snerist þannig við hinni mjög svo hóflegu gagnrýni af minni hendi viðkomandi framsöguræðu hans, að ég verð að segja hér nokkur orð, þó að það sé í sjálfu sér tilgangslaust að vera að karpa um þetta. Mér fannst alveg óviðeigandi af hv. frsm., þegar hann talar hér fyrir hönd óskiptrar n., að blanda sínum eigin sjónarmiðum svo inn í, að ókunnir gætu haldið, að þetta væri álit n. Mér þætti vænt um það, ef hv. frsm. fjvn. gæti dregið af þessari gagnrýni minni nokkurn lærdóm, og mér væri það sönn ánægja, ef svo mætti verða.

Hv. frsm. vék að nokkrum atriðum, sem ég drap á í ræðu minni, þar á meðal að ég taldi, að við hefðum búið vel í haginn fyrir fjárhagsafkomu ríkisins að undanförnu með gætilegri tekjuáætlun. Þetta taldi hann firru og fjarstæðu. Nú hefur það ætið verið svo á þingum, að útgjöldin hafa verið færð með jöfnuði við tekjurnar, þannig að ef tekjur hefðu ekki alltaf farið fram úr áætlun, þá hafði ekkert verið til að mæta þeirri sífelldu hækkun, sem alltaf hefur verið gerð á gjaldabálki ríkisins. Allir sjá, hvað það hefði í för með sér, ef fjárl. væru afgr. þannig, að ekki væru líkindi fyrir, að meira kæmi inn en ráð er fyrir gert á fjári. Þetta er reynsla margra ára, en þó fer hv. frsm. að berja höfðinu við steininn og reyna að andmæla því. En ekki meira um það. Ég varpaði nýju og skýrara ljósi yfir fjárhagsafkomu áranna 1945–1946 en hv. frsm. gerði í framsöguræðu sinni. Hann skýrði þannig frá afkomu þessara ára, að árið 1945 hefði verið 14 millj. kr. tekjuafgangur og árið 1946 30 millj. kr. afgangur. Ég skýrði frá því, að á því ári hefði verið rekstrarhalli á sjóðsyfirliti. Ég skýrði enn fremur frá því, að ég hefði aflað mér upplýsinga, sem þó liggja ekki fyrir tölur um, að þótt það hefði verið 25 millj. kr. tekjuafgangur á rekstrarreikningi, mundi niðurstaðan verða sú í bezta lagi, að gjöld og tekjur stæðust á í sjóðsyfirliti. Það, sem verulegu máli skiptir í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú, er það, að af þeim miklu tekjum, sem runnu í ríkissjóðinn á árunum 1945–1946, hefur núverandi hv. fjmrh. ekki eyri handbæran til þess að ráðstafa eða grípa til á því ári, sem nú er að líða. Þess vegna verður greiðslugeta ríkissjóðs nú að byggjast á því, að inn komi nógar tekjur til að standa undir daglegum útgjöldum, ef eigi á að leysa vandann með nýjum lántökum. Það er ekki aðeins svo, að hv. núverandi fjmrh. hafi þannig komið að tómum kofanum, heldur tekur hann við 20 millj. kr. yfirdráttarskuld hjá Landsbanka Íslands.

Ég verð að segja það, að eftir því sem horfir um bátaábyrgðina og fisksölu má telja, að ríkissjóður sleppi vel, ef hann þarf ekki að borga meira en 10 millj. kr. vegna ábyrgðarinnar, vel getur þetta orðið helmingi meira. Það verður því ekki annað sagt en að aðkoma hv. fjmrh. sé napurleg, er hann nú tekur við þessu starfi, sem honum hefur verið lagt á herðar, og er hann sízt af öllu öfundsverður af því, þar sem svo er í pottinn búið, hvað þessi mál snertir, sem ég hef lýst.

Það hafa komið hér fram tvenns konar sjónarmið, hvað snertir tekjuáætlun þá, er fjvn. hefur gert, annars vegar bjartsýni og stórhugur hv. frsm. n. og hins vegar nokkur varygð gagnvart þessari áætlun, sem fram hefur komið hjá mér. Ég hef að vísu staðið að þessari áætlun í n., þótt ég gerði það sem nauðvörn og út frá þeirri hugsun, sem ég hef áður lýst, en hv. frsm. litur svo björtum augum á þetta mál, að hann telur, að þessi áætlun muni ekki aðeins standast, heldur megi jafnvel gera ráð fyrir enn hærri tekjum: Reynslan mun svo dæma um þessi sjónarmið, og er því þarflaust að deila frekar um það.

Það er greinilegt, að nú verðum við að miða innkaup okkar miklu meir við þann gjaldeyri, sem við fáum fyrir afurðir okkar á árinu, en við gerðum t.d. s.l. ár, þegar við gátum tekið jafnmikið af þeim gjaldeyrisforða, sem við áttum í kistuhandraðanum, eins og ég lýsti áðan, til viðbótar því, sem til féll á árinu og var fullur helmingur þess, sem gjaldeyriseyðslan varð. Býst ég varla við því, að hv. frsm. hugsi sér það, að tekið verði gjaldeyrislán til þess að auka innflutninginn og hækka tolltekjurnar, ef tekjurnar bresta, og að bjartsýni hans leiði hann svo úrleiðis í þessum málum.

Ég minntist lítillega hér áður á þau orð, sem hv. frsm. viðhafði í framsöguræðu sinni, að ríkisvaldið ætti frekar að vera hvetjandi en letjandi, og benti ég á, að þetta kæmi fram í gagnstæðri mynd, þar sem það yrði að skera niður óskir alls almennings um fjárframlög frá ríkinu. Hann vildi hins vegar ekki viðurkenna þetta, og skiptir það í sjálfu sér ekki miklu máli, hvað hann segir um þetta. Enn fremur má benda á það, að nú er verið að gera ráðstafanir hér á Alþ., sem hníga ekki í þá átt, að ríkisvaldið sé fremur hvetjandi, en letjandi, á ýmsum sviðum athafnalífsins í landinu, þar sem hér er verið að stofna ráð, sem á að fela allmikið vald, m.a. það að taka fram fyrir hendur manna um húsabyggingar og aðrar framkvæmdir. Skal ég ekki leggja neinn dóm á það, þessar ráðstafanir sýna ljóslega, að fjárhagsástandið er þess eðlis, að ríkið verður að vera fremur letjandi en hvetjandi, og þess vegna fær ályktun hv. frsm. ekki staðizt. Það þýðir ekki að mæla því í gegn, að þetta er afleiðing þess, hve fjármálastjórn vor hefur verið með miklum losarabrag að undanförnu.

Hv. frsm. minntist á það í sambandi við þessi mál, að hann hefði viljað leysa vandamál, sem væri allmikið aðkallandi, sem sé byggingu menntaskóla, frekar með þeim hætti, að stofnað væri til lántöku til framkvæmdarinnar, heldur en að veita til hennar meira fé á fjárl. Ég álit í þessu sambandi, að rétt sé að athuga, hvort við stæðum svo miklu nær þeirri framkvæmd, þótt Alþ. veitti ríkisstj. heimild til lántöku í þessu skyni. Get ég bent á margar slíkar lántökuheimildir, sem veittar hafa verið. T.d. vil ég benda á, að Alþ. hefur veitt ríkisstj. heimild til 5 millj. kr. lántöku til byggingar kaupstaðar á Norðurlandi. — 10 millj. kr. til byggingar landshafnar við sunnanverðan Faxaflóa, — 7 millj. kr. til byggingar síldarherzlustöðvar á Siglufirði, — 6 millj. kr. til byggingar strandferðaskipa, — auk þessa o.fl. stendur ríkisstj. að byggingu niðursuðuverksmiðju við Grandagarð hér í bæ, sem ekki verður reist nema fyrir lánsfé, sem nemur nokkrum millj. kr. Margt er enn ótalið af þessu tagl. Af þessu er auðsætt, að hv. ríkisstj. vantar ekki heimildir frá Alþ. til lántöku til þess að gera ýmsar framkvæmdir, en hvernig er ástandið um útvegun lánsfjár til framkvæmdanna? Það er líka þáttur í fjármálalífi þjóðarinnar, sem ætti að koma til athugunar í sambandi við afgreiðslu fjárl., og ekki sízt eins og nú stendur á. Ég hef nokkuð haft af því að segja að útvega lán — og meira að segja út á ríkisábyrgðir — til framkvæmda, sem verið er að framkvæma í mínu héraði, og hef ég þar komizt að raun um, að lánamöguleikar bankanna eru að stöðvast og maður kemur að næstum luktum dyrum í slíkum erindagerðum. Er mér sagt, að þetta sé ekki einasta þannig inn á við, heldur er gjaldeyrisástandið orðið þannig, að a.m.k. annar bankinn hér, sem hefur gjaldeyrisyfirfærslur með höndum, á ekki greitt um það að leysa út gjaldeyrisskuldir, eins og nú er.

Einnig má benda á atriði, þar sem fram kemur, að ríkisvaldið er fremur letjandi en hvetjandi, að nú á að fara að gera hér svo kallaða eignakönnun. Það er verið að semja frv. um þetta efni, sem við hv. þm. Barð. stöndum báðir að, þar eð við stöndum á bak við þá ríkisstj., sem ætlar að bera frv. fram.

Hv. frsm. virtist vera hneykslaður á því, að ég sagði, að fjvn. hefði verið í nauðvörn, þegar hún var að gera sínar till. viðvíkjandi fjárlagafrv. og skilaði þeim af sér inn í þingið. Þessu mótmælti hann algerlega. Ég sagði, að hv. ríkisstj. væri í nauðvörn og Alþ. allt, og stend ég enn við þessar fullyrðingar. Hvað er það annað en nauðvörn, þegar hækka þarf alla skatta til þess að geta mætt útgjöldum ríkisins og þegar þarf að hækka tekjuáætlunarliði þannig að það orkar mjög tvímælis, að hægt verði að afla þeirra tekna, sem áætlunin fjallar um? Og þessari nauðvörn lýkur ekki með afgreiðslu þessara fjárl. Ég veit, að afgreiðsla þeirra hlýtur að verða á þá lund, að Alþ. varpar þessari nauðvörn af sér yfir á hv. ríkissj. og fyrst og fremst hv. fjmrh., og það gæti vel borið svo að, að fjmrh. og ríkisstj. öll yrði að grípa til töluvert róttækra ráðstafana til þess að forða ríkissjóði frá greiðsluþroti, en ég ber það mikið traust til hv. fjmrh. og ríkisstj., að ég vænti þess, að hún grípi til slíkra mótráðstafana frekar í tíma en ótíma og að til þess þurfi ekki að koma, að ríkissjóður komist í greiðsluþrot.

Hv. frsm. lagði á það mikla áherzlu — og mig minnir að hann berði í borðið, þegar hann var að tala um það —, að ég og hv. 1. þm. Rang. værum komnir í sjálfheldu, þar sem við viðurkenndum, að sú tekjuhækkunaráætlun, sem við stæðum að, væri hæpin, en hefðum hins vegar gengið inn á hana, þegar n. skilaði henni frá sér. Ég gerði grein fyrir því í gær, hvernig á þessu stæði. Það er núverandi ástand, sem gerir þetta óhjákvæmilegt, enda þótt það sé ekki til frambúðar. Ég lýsti því hreinskilnislega yfir, að eins og afgreiðsla fjárl. blasir við nú, þá verður hún með þeim hætti, að erfitt reynist að standa undir þessum útgjöldum, ef ekki tekst að ná samkomulagi um nýja tekjustofna. Eins og ég sagði áðan, mun það verða niðurstaða þessa þings að yfirfæra þennan vanda á hv. ríkisstj., og erum við hv. 1. þm. Rang. því ekki í neinni sjálfheldu í sambandi við þessi mál. Ég er og þeirrar skoðunar, að þegar áróðursvíman, sem hv. þm. Barð. var haldinn af í sinni framsöguræðu, rennur af honum, þá mun hann koma til með að líta á þessi mál af meiri varúð, eins og sakir standa nú.