22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

12. mál, fjárlög 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Við þessar umr. hafa verið töluð mörg varnaðarorð og það ekki að ófyrirsynju. Annars er það ekki ætlun mín að blanda mér í deilur eða ágreining, sem fram hefur komið í umr., sem í sjálfu sér er ekkert einstakt atriði. Engan þarf heldur að undra, þótt orð falli jafnvel frá nm. hv. fjvn. nokkuð á sinn hvern veg um afgreiðslu fjárl. Ég álít, að það sé ekki ofmælt, þótt hér sé sagt, að þessi afgreiðsla horfir þannig við, að hún geti vel stefnt í vandræðaátt, ef heppnin er ekki með í svo að segja hverju spori. Ég veit, að hv. fjvnm. hafa langt frá því átt þægilega aðstöðu með að ná jafnvel þeirri niðurstöðu, sem fyrir liggur í till. n. eða hv. meiri hl. hennar, en til hins erfiða ástands í fjármálum okkar nú liggja ekki ein, heldur margar ástæður. Þegar ég tók við þessu embætti af fyrirrennara mínum, tjáði hv. form. fjvn. mér, að auk þess sem fjárlagafrv. væri lagt fyrir þingið með 10 millj. kr. tekjuhalla, þar sem ætlaðar væru rúmlega 146 millj. kr. til útgjalda, lægju till. í n. um hækkanir á ýmsum útgjaldaliðum, sem komnar væru beinlínis frá ríkisstj. eða ríkisstofnunum, er næmu 271/2 millj. kr., þess utan væri viðbúið, að hækkunartill. yrðu bornar fram um fjárveitingar til vega, brúargerða og hafnarframkvæmda, er næmu um það bil 12 millj. kr. Nú þótti öllum ekki vænlega við horfa, því að vitað var, að sú stjórn, sem nú situr að völdum, hafði lýst því yfir, að hún ætlaði sér að afgreiða rekstrarhallalaus fjárl., og enn fremur hafði hún lýst því yfir, að reynt yrði með fjárframlögum úr ríkissjóði að halda vísitölunni niðri í 310 stigum, sem að sjálfsögðu krefðist beinna fjárframlaga, sem á hverjum tíma yrðu að bætast við þau önnur útgjöld, sem ríkissjóður ætti að greiða samkv. l., og það, sem fjárveitingavaldið telur sig neytt til að taka með. Nú hafa viðræður farið fram milli hv. fjvn. og fjmrh. annars vegar og annarra ráðh., sem hafa yfir hinum ýmsu stjórnardeildum að segja, hins vegar, og var þar stefnt að því að fá nokkra lækkun á þeim fjárveitingabeiðnum, sem fyrir lágu frá ríkisstj. og ríkisstofnunum snertandi ýmis mál, t.d. skólamál, vegamál og hafnarmál. Vil ég láta í ljós ánægju mína yfir því, að þessar viðræður urðu ekki með öllu tilgangslausar, og virtust mér hinir ráðh. og hv. fjvnm. hafa augun opin fyrir því, að eitthvað yrði að slaka til í þessum efnum.

Nokkurt samkomulag náðist milli hv. fjvn. og mín. og skal ég lýsa, á hvaða forsendum það náðist. Verðbólgan hefur haft djúp og örlagarík áhrif á líf okkar hér á landi, og þau áhrif hafa náð jafnt til löggjafarstofnunar þjóðarinnar og til fólksins víðs vegar á landinu. Sem dæmi um, hvað dýrtíð og verðbólga hafa hækkað rekstrarútgjöld ríkisins, vil ég benda á, að þegar stríðið hófst, námu rekstrarútgjöld því sem næst 191/3 millj. kr.. og þau vaxa ekki gífurlega fyrr en árið 1942, en þá fara þau upp í 76 millj. kr., og úr því fara þau mjög vaxandi. svo að árið 1945 nema þau 143,8 millj. Ég hef reynt að fá rekstrarútgjöldin fyrir árið 1946, en ég hef ekki þær tölur nú, en býst við að fá þær fyrir 3. umr. Þó að engin breyting yrði, mundu útgjöldin verða um 200 millj. við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. Þessar tölur sýna, hvaða óskapleg áhrif verðbólgan hefur haft á tilkostnað ríkisins, og mjög erfitt er að vinna bug á þessari útgjaldaupphæð nema með samstilltu átaki, og á svipstundu er það fast að því ómögulegt, nema Alþ. væri reiðubúið að breyta mörgum lögum, sem krefjast aukinna útgjalda árlega. Það kom gleggst fram í umr. í fjvn., að það eru einmitt ákvarðanir frá fyrri þingum, sem reynast svo þungar í skauti, hvað snertir fjárútlát, að þær ráða miklu nú, hvað verður að ráðgera mikil útgjöld. T.d. má þar nefna fræðslulögin, launalögin og tryggingalöggjöfina. Og þegar talað er um þetta. þá er þýðingarlítið að metast á um, hvaða landsmálaflokkur eigi þar mesta sök á, og mundi þá hver eiga högg í annars garði. Hitt er skylt að horfast í augu við og viðurkenna, að á þessari braut getur Alþ. ekki haldið áfram til lengdar, án þess að til mikils skaða verði fyrir þjóðfélagið um ófyrirsjáanlegan tíma. Hitt er jafnaugljóst, að eins og var í pottinn búið fyrir núverandi ríkisstj. eftir 117 daga strit til stjórnarmyndunar, þá var henni ekki önnur leið opin en sú, sem hér er reynt að þræða, þótt hún kúnni líka að reynast ófær. Það er bezt að viðurkenna það, að við höfum enga vissu fyrir, að afkoma atvinnuveganna verði góð á þessu ári. Við vonum, að svo verði, og við verðum að vinna að því, en um vissu í því efni er ekki að tala. Ég hef ekki aðstöðu til að áfellast hv. fjvn. fyrir till. hennar. Til þess er ég of nákominn þeirri afgreiðslu, og taldi ég ekki unnt að ganga svo í berhögg við aðra í ríkisstj., sem þurfa nokkurt fé til sinna verksviða, að ég gæti ætlazt til, að þeir hyggju miklu nær sér, en þeir gerðu. Ég get sem sagt ekki áfellzt hv. fjvn. þrátt fyrir þær horfur, er ég hef lýst. En nú eru bornar fram mjög háar brtt. af hv. þm., og ég held, að ef þær yrðu samþ. allar, mundi það þýða 20 millj. kr. hækkun á rekstrarútgjöldum fjárl., auk margra milljóna, sem ætlazt er til að færa á, 22. gr., en hún felur í sér allvíðtækar heimildir.

Ég þykist viss um, að enginn þm. muni taka það illa upp, þó að ég láti í ljós, að mér finnst, að ekki komi til mála að samþykkja hækkun við fjárl., svo að nokkru verulegu nemi. Ég segi, svo að nokkru nemi, því að svo blindur er ég ekki, að ég sjái ekki, að oft verður að víkja til hliðar í ýmsum efnum og sýna liðkun og tillæti. En um verulegar hækkanir má ekki vera að ræða.

Það hefur komið fram í umr. um þetta mál og vakið furðu og jafnvel nokkra óánægju hjá hv. þm.. þar sem vitað er, að tekjur ríkisins voru um 200 millj. á síðasta ári, að þá skuli ekkert vera í sjóði, heldur margra milljóna skuld í Landsbankanum. Ég vil nú leitast við að skýra þetta að nokkru, þótt ekki snerti þetta núverandi ríkisstj. Það hafa verið samþ.. eins og hv. þm. Borgf. benti á, ýmis ákvæði og lög, þar sem um lánsheimildir er að ræða til ýmissa framkvæmda. Ég vona, að það verði afsakað, þó að ég endurtaki eitthvað af því, sem hv. þm. hefur sagt, því að ég hef hér yfirlit yfir þær lánsheimildir, er þingið veitti stjórninni 1945 og 1946. Þá er fyrst að telja, að samkv. l. nr. 90 1945. um kaup á strandferðaskipum, er 7 millj. kr. lánsheimild. Þetta lán hefur ekki verið tekið, en lagt fram úr ríkissjóði 2.275 þús. kr. Samkv. l. nr. 104 1945 var ríkisstj. heimilað að taka 4 millj. að láni til að aðstoða síldarútvegsmenn. Sú heimild hefur verið notuð. Hefur 1 millj. verið greidd, en eftirstöðvar 3 millj. Samkv. fjárl. 1945, 22. gr., var samþ. heimild um 2 millj. til fiskihafna. 1 millj, var tekin að láni, og ónotuð 1 millj. færð á rekstur ársins 1946. Samkv. l. nr. 59 1945. um aukið húsnæði í þarfir ríkisins, var upphæð ekki tiltekin og ekki notuð, en greitt vegna Arnarhváls 1,75 millj. kr. Samkv. l. 52 1945. um byggingu rafveitna, voru heimilaðar 12 millj. Sú heimild var ekki notuð. en hins vegar fengnar úr raforkusjóði 10 millj. 175 þús. kr. Samkv. l. nr. 105 1945, um þátttöku í alþjóðabanka, var heimiluð lántaka innanlands, sem svaraði 2 millj. dollara. Það lán var tekið í Landsbankanum. Þá var samkv. l. nr. 109 1945, um togarakaup ríkisins, veitt 60 millj. kr. lántökuheimild, og var sú heimild notuð. Samkv. l. nr. 19 1946 voru til síma heimilaðar 12 millj. kr., en aðeins 6 millj. teknar, en þörf á hinum 6 millj. Samkv. l. nr. 32 1946 voru heimilaðar til að byggja Austurveg 20 millj. kr. Sú heimild var ekki notuð. Samkv. l. um tunnusmíði voru heimilaðar 3 millj. kr. Það var ekki notað, en lagðar fram úr ríkissjóði 885 þús. kr. Samkv. l. nr. 35 1946, um landnám í sveitum, var óákveðin upphæð heimiluð. Samkv. I. um gistihús í Reykjavík voru heimilaðar 5 millj. kr., og voru þær ekki notaðar. Samkv. l. nr. 42. um Höfðakaupstað, voru heimilaðar 5 millj. kr., sem ekki voru notaðar, en greitt um 900 þús. kr. Samkv. l. nr. 47 1946, um síldarniðursuðuverksmiðju, 3 millj. Þær voru ekki notaðar, en 170 þús. kr. greiddar úr ríkissjóði. Samkv. l. nr. 54 1946 um skipakaup ríkisins, voru 30 millj. kr. heimilaðar. Lán í Landsbankanum 1 millj. 630 þús. kr., en svo eru í yfirdrætti ríkisins í Landsbankanum um 11 millj. 550 þús., og það eru peningar, sem notaðir eru til að byggja báta, en skuld við fiskveiðasjóð yfir 13 millj. kr. vegna Svíþjóðarbátanna. Samkv. l. nr. 25 1946, um landshöfn í Keflavík. voru heimilaðar 10 millj. kr. Sú lánsheimild var ekki notuð, en lagðar fram úr ríkissjóði 1 millj. 150 þús. kr. Samkv. l. nr. 57, um nýjar síldarverksmiðjur, 27 millj. kr. Heimildin hefur verið notuð og hrekkur ekki til. Nú liggur fyrir frv. um viðbótarlánsheimild í þessu skyni, og tel ég nauðsynlegt, að það verði samþ. Samkv. l. nr. 82 1946, um lán til að reisa lýsisherzluverksmiðju, 7 millj. Lánsheimildin hefur ekki verið notuð, en fram lagðar úr ríkissjóði 265 þús. kr. Þessar tölur, sem ég hef hér talið, og það, sem greitt hefur verið úr ríkissjóði í þessar ýmsu framkvæmdir, nemur um 100 millj. kr. Og þegar við bætast þær 11 millj. kr., sem yfirdregnar eru í Landsbankanum vegna skipakaupa, þá er sýnt, að hér er sú upphæð, sem að öðrum kosti væri í kassa ríkisins. Nú er vitað, að ekki er hlaupið að því að fá lán, og er það erfiðara nú, en verið hefur undanfarið.

Af þessu, sem ég hef lagt fram, er sýnilegt, að hv. Alþ. er óspart á að samþykkja ýmsar framkvæmdir og gefa ríkisstj. viðtækar heimildir til lántöku, og er það í sama anda og hin síhækkandi fjárlagaútgjöld, sem ég lýsti í upphafi. Mér virðist því mikil þörf á að vita betur fótum sínum forráð, en hingað til. Það er bráðnauðsynlegt, og þýðir ekkert fyrir þjóðina að loka augunum fyrir slíkum staðreyndum. Við erum komnir á það stig, að við megum ekki, hvorki þeir, sem á Alþ. sitja, né aðrir, loka augunum fyrir þeim verkefnum, sem nú eru fyrir hendi. Við erum komnir á það stig með framleiðsluna, ekki sízt þá framleiðslu, sem selja þarf í samkeppni á erlendum markaði, að við verðum að krefjast meira fyrir okkar vörur, en aðrar þjóðir, og það gefur alveg auga leið, að þannig getur þetta ekki haldið áfram. Og það gefur jafnt auga leið, því að við getum ekki strafflaust haldið áfram að spenna upp útgjöld ríkissjóðs án þess að vega þá aftur í sama knérunn. Meðalútflutningsverðmæti áranna 1944, 1945 og 1946 munu hafa verið 271 millj. kr. Nú erum við nálægt því að afgreiða fjárlög, sem hafa í för með sér 200 millj. kr. útgjöld á rekstrarreikningi, en raunveruleg útgjöld, þegar sjóðsreikningurinn er talinn með, eru langt yfir 200 milljónir. 20. gr., sem var með 16 millj. kr. út, hækkaði fjvn. um 2,5 millj., svo að þar skortir lítið á 19 millj., og fyrir þeim útgjöldum þarf eins að hafa peninga og þeim, sem færðar eru á hinn svokallaða rekstrarreikning. Það er því svo, að meðalútflutningsverðmæti áranna 1944–1946 er 271 millj. kr., en við því er að búast, að á þessu ári þurfi að greiða 220 millj. kr. í útgjöld ríkisins. Ég held, að við hljótum allir að sjá, að hér þarf að breyta til, ekki þannig, að við notuð sömu svipuna hver á annan og finnum út, hvar í flokki menn standa fyrir hinu eða þessu, heldur reynum að skapa það almenningsálit hjá þjóðinni, að þessi verðbólgustefna er þjóðarvoði, hún er sjúk og óheilbrigð og leiðir af sér tortímingu, og þeir, sem með völdin fara, verða að skilja þetta og taka höndum saman um að laga þetta með heilbrigðum ráðstöfunum, og þjóðin verður að skilja það, að ef svona heldur áfram, leiðir af því menningartjón. Hv. þm. sagði. að það væri betra eða auðveldara að leggja heilræðin, en halda þau, og er það vissulega fullkomlega rétt. Á þeim fundum, sem ég átti með hv. fjvn., þar sem um það var talað, hvernig þessum málum yrði komið í sem bezt horf, þá féllst ég á þær hækkanir, sem n. lagði til og hefur látið frá sér fara, þó með nokkrum skilyrðum. En það má ekki kenna fjvn. alla hækkunarliðina, þar á stj. líka mikinn þátt í, en hún var bundin því loforði að afgreiða rekstrarhallalaus fjárl., og þá varð n. að færa í útgjaldaliðina sem því svaraði. Þá hafa og komið dýrtíðarráðstafanir, sem taka þurfti tillit til. og voru þau útgjöld áætluð 35 millj. kr. Um það hefur verið rætt, að hækkanir n. á tekjuliðunum séu ekki varlega gerðar. Ég get vel trúað, að þar sé fullkomlega áætlað, en hv. n. eða þeir, sem að því standa, eru þó ekki einir um þetta, því að það var eftir ósk, að þessi breyt. var gerð á tekjuliðunum, og eftir að búið var að hækka verð á tóbaki og áfengi, þá leit ég svo á, að gera mætti ráð fyrir eitthvað meiri ágóða af því en áður, og svo það, að mér ofbauð að eiga að benda á nýja tekjustofna til að fylla algerlega í þá útgjaldahít, sem eftir stendur ófullnægt, þegar hækkunartill. n., 53 milljónir, að viðbættum þeim 19 milljónum, eða um það bil, sem koma til með að standa á 20. gr., eru teknar til greina. Það er bæði það, að manni ofbýður að eiga að koma með till. um nýjar skattahækkanir, og svo er ekki hlaupið að því að finna þær, svo að öruggt sé, að komi að gagni. Ég skal viðurkenna, að það er teflt á tæpasta vað með þær hækkanir, sem gert er ráð fyrir á tekjuáætluninni. sérstaklega verðtollinn, ef illa tækist til, og það er mikil þörf að draga úr aðflutningi á vörum á þessu ári, samanborið við árið, sem leið, en það er innflutningurinn, sem gefur drýgstar tekjur í ríkissjóðinn, og mikil höft á aðflutningi á vörum hlytu óhjákvæmilega að skilja eftir miklar eyður í tekjustofni þeirra ára, er slíkar ráðstafanir eru framkvæmdar, þegar svo við þetta bætist, að enn er algerlega óséð fyrir um sölu afurðanna þetta ár. því dettur mér ekki í hug að mótmæla því, að það sé á rökum reist, þegar bent er á það, að teflt sé á tæpasta vað. En ég vísa á hinn bóginn til þess, að svo stendur á með afgreiðslu þessara mála, eins og hér hefur verið komizt að orði, að nokkur nauðvörn er fyrir hendi í þeim efnum, og það verður svo því miður til frambúðar, utan að stefnubreyting nái yfirhöndinni hjá Alþ. í afgreiðslu fjárl., og ekki einungis í afgreiðslu fjárl., heldur einnig afgreiðslu laga, sem leiða af sér sívaxandi útgjöld fyrir ríkissjóðinn. Ég skal svo ekki fara hér um öllu fleiri orðum.

Ég lét svo um mælt við hv. fjvn., að ég fyrir mitt leyti mundi sætta mig við þá afgreiðslu, sem hún lagði til í samráði við mig og samráðherra mína í ríkisstj., með eftirfarandi skilyrðum. Í fyrsta lagi, að ekki yrði breytt verulega frá því, sem um var talað í n., hvorki af hennar hálfu eða Alþ., hvað snertir útgjöldin. Í öðru lagi, að samkomulag um hagkvæma tekjuaukningu til þess að mæta halla á fjárl. og auknum útgjöldum yrði innan ríkisstj. og Alþ. Í þriðja lagi yrði að samþykkja heimild fyrir ríkisstj. til að skera niður fjárveitingar, a.m.k. þær, sem ekki hefur verið veitt til áður, ef ríkisstj. þætti nauður til bera. Ég geri ráð fyrir, að það þyki ekki óeðlilegt, að þessi skilyrði skuli fram sett. Það hefur borið við, að tekjuöflunarfrv., jafnvel þau, sem fyrrv. ríkisstj. hafði lagt fram, hafa mætt andstöðu úr ólíklegustu átt. Tekjuöflunarfrv., sem þessi stjórn hefur borið fram, hafa líka sætt andstöðu frá vissum hliðum, og er ekki úr vegi að benda á það við afgreiðslu fjárl. og í sambandi við þær brtt., sem fyrir liggja til hækkunar, að það getur ekki farið saman að hækka útgjöldin, en synja stjórninni um lögfestingu á tekjuöflunarákvæðum, sem eru flutt fram til þess að mæta nauðsynjum þeim, sem kalla eftir fé. Ef til vill hefði mátt komast lengra í því að ná jafnvægi á þessa hluti, ef ekki hefði verið komið svo langt fram á þing, þegar stjórnarskipti urðu, og því frekar tiltækilegt að fara þær leiðir, sem fyrr eða síðar verður að fara, en það er stórfelld breyting á ýmiss konar löggjöf, sem sett hefur verið á síðustu 2 árum og er að verða gjaldþoli ríkisins og borgaranna ofvaxin. Ég segi þetta ekki út í bláinn eða af neinni niðurskurðarlöngun, en þetta eru hlutir, sem verður að gera, og þetta er svo almennt og víðtækt, að til þess að ná árangri við að færa fjárlög í viðunandi og hóflegt horf, er nauðsyn að gera miklar og víðtækar breytingar á ýmsum lögum, en það er ekki hægt nema með löngum tíma og við séu höfð ráð beztu manna, og til þess þarf betra ráðrúm og frekari tíma, en núverandi stjórn hefur haft, ef fjárlagaafgreiðsla ætti ekki að dragast óhæfilega lengi.

Væri gott, að hv. þm. reyndu að aðstoða fjvn. í því að halda frv. og afgreiðslu málsins sem næst því, sem n. hefur lagt til, og sjái það hver og einn, hvílík nauðsyn það er, en hækki ekki útgjöldin til mikilla muna.