22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

12. mál, fjárlög 1947

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal verða stuttorður, enda er liðið á daginn. Ég vil leyfa mér að þakka hv. frsm. fjvn. fyrir þann velvilja, sem hann virtist sýna minni litlu brtt.. og fyrir þann velvilja, sem hann virtist sýna þeim 2 brtt. við 22. gr., sem stóðu í síðustu fjárl., en höfðu verið felldar niður nú. Ég vil vona, að sá velvilji snúist upp í ást í fjvn., svo að hægt verði að koma þessu öllu áleiðis til manns. En enn þá eru þetta svolitlir hvítvoðungar.

En svo þakka ég honum ekki meira. Og þegar hann talaði um styrkinn til ferjuhalds, talaði hann eins og hann vissi ekki, um hvað hann væri að tala. Og þegar hann var að tala um framlagið til dýralækna, var það alveg það sama. Hann sagði, að yfirdýralæknir gerði lista yfir, hvernig styrknum væri skipt. Þetta hefur hann aldrei gert. Fjvn. hefur gert það. Hvort hún hefur farið að till. hans, skal ég ekki um segja. En ég vil krefjast þess, af því að ég hef tekið á móti svona styrkjum fyrir menn nú undanfarin ár, að fá að sjá þennan lista, ef það verður ekki sundurliðað í fjárl., því að ef þeir tveir menn, sem ég hef gagnvart ríkisvaldinu umboð fyrir eða þeirra sýslu- og bæjarfélag, sem þeir starfa í, eru ekki þarna með, þá tek ég það upp. Þess vegna krefst ég þess að fá að lesa þennan lista, ef ekki á að sundurliða þetta.

Hvað viðvíkur ferjustyrknum, þá er hann 1945 12 þús. kr., að mig minnir, og var svo lækkaður niður í 5 þús. kr., og nú er hann það líka.

Nú hagar svo til í Norður-Múlasýslu, að 11 ferjur eru í sýslunni, og fjórar af þeim eru yfir ár, sem aldrei eru reiðar og alltaf þarf að ferja yfir. Það er ekki hægt að ætla sér að fara yfir þær á annan hátt, nema þá að sundriða eða kannske fara yfir þær á is að vetrinum. Engar slíkar ár eru til í Barðastrandarsýslu eða á Vestfjörðum. Tvær af þessum ám í Norður-Múlasýslu hafa fengið ferjustyrk, tvær ekki. Það má að vísu nefna tilsvarandi vatnsföll, sem ferjað er yfir. Hvítá hjá Tóu og Þjórsá hjá Þjórsárholti. Þjórsá er reið. Hvítá ekki. 5 af hinum ferjunum eru yfir ár, sem eru reiðar, þegar þær leggur að vetrinum, annars aldrei. Og þær hafa ekki notið styrks nærri því alltaf. Þær hafa notið styrks til þess að gera við þær. Tilsvarandi vatnsföll eru í Skagafirði. sem notið hafa líka styrks síðasta ár. Það má heita, að sú sýsla, sem ég er umboðsmaður fyrir, hafi alveg sérstöðu hvað ferjumálin snertir, og ég kann ekki við að hafa þennan styrk svona falinn, svo að enginn geti séð, hvert hann á að fara. Ef hv. fjvn. sér sér ekki fært af einhverjum ástæðum, sem ég veit ekki, hverjar ættu að vera, að láta sundurliða styrkinn, vil ég undir öllum kringumstæðum vita um þetta fyrir 3. umr., hvort n. sér sér fært eða ekki að sundurliða þetta, annars mun ég koma með það fyrir 3. umr. Og ef hún fellir niður einhvern styrkinn, sem ég tei, að Norður-Múlasýsla eigi að fá., að minnsta kosti til samræmis við aðrar sýslur, og hún á fullkominn rétt á, þá mun ég bera fram brtt. um það.

Hvað viðvíkur styrknum til þess að halda uppi byggð, þá var hann á fjárl. um 11 þús. kr., og skiptist hann á milli staða, sem voru afskekktastir og uppi við fjöll víðs vegar um landið, til þess að geta tekið á móti ferðamönnum. Svo var hann færður upp í 100 þús. kr. í fyrra. og nú er hann ætlaður 200 þús. kr. og engin frekari grein gerð fyrir því. Ég hef spurt um það, en ekkert svar fengið. Hins vegar sagði form. fjvn. mér það prívat, að þetta væri styrkur til byggingar í Fornahvammi. því þá ekki að setja þetta á stofnkostnað til byggingar í Fornahvammi? Það var gert t.d. viðkomandi byggingunni í Múlakoti. Þessi styrkur, sem hér er um að ræða, hefur hingað til verið veittur til staða eða bæja til þess að geta tekið fyrirvaralaust á móti ferðamönnum, sem koma kannske illa til reika af fjöllum, en ekki þar sem þjóðvegur liggur, og hafa þessir styrkir verið sáralitlir. Ég álít, að það sé alveg sjálfsagt fyrir hv. fjvn. að sundurliða þetta, og ég mælist til, að svo verði gert.

Þá vil ég benda hv. n. á, sem ég hef bent henni á áður, að ég er alveg undrandi yfir þeirri meðferð, sem Hvalfjarðarferjuvegurinn hefur fengið. Það er upplýst af hv. þm. Borgf., að hann er tekinn upp af ríkisstj., án þess að hv. Alþ. hafi samþ. hann, og var byrjað að vinna í honum fyrir mikið fé á síðasta ári. Þetta er vegur og fyrirtæki, sem kostar hátt á 2. millj. kr. Og það er sagt, að ekki hafi komið þar til nema meðmæli fjvn. Hvers konar einræði er það, ef ríkisstj. getur lagt í fyrirtæki, sem kostar um 2 millj. kr. og byggt er fyrir fé ríkisins. án þess að spyrja Alþ. að? Til hvers er að hafa Alþ., ef það þykir sjálfsagt að leggja í slík fyrirtæki án þess að hafa vilja þess að baki sér? Og hvers konar einræði er það, sem fjvn. tekur sér að leggja fyrir, að þetta sé gert án þess að bera það undir Alþ.? Hv. form. fjvn. sagði í gær, að það, sem búið væri að vinna, væri á þjóðvegi, og það sem ætti að vinna, væri á þjóðvegi. Hvers vegna er þá verið að skilja sundur Akrafjallsveg og Hvalfjarðarferjuveg? því ekki að kalla þetta Akrafjallsveg?

Þessa Hvalfjarðarferjuvegar hefur aldrei verið getið fyrr í l. um þjóðvegi, þó að hann sé talin með þjóðvegum hér. Og mér finnst þessi vinnubrögð svo fjarri lagi hjá ríkisstj., og að taka þennan lið hér upp svona, finnst mér ekkert vit í. Ég mun eindregið greiða atkv. gegn honum, því að það er engin meining að láta ríkisstj., hver sem hún er, komast upp með slíkt án þess að leggja það fyrir Alþ. og fá samþykki þess. Og það er heldur engin meining að taka það gott og gilt, að fjvn. taki sér slíkt einræðisvald. Þar að auki er ég sannfærður um það, að þessar ferjur koma aldrei að hálfu gagni og verða baggi á öllum, sem koma nálægt þeim í framtíðinni En þó tekur það út yfir, að ríkið skuli eiga að leggja þennan veg og byggja bryggjur, en eiga svo að leyfa Akraneshreppi einokunarvald yfir öllu, sem þar fer yfir, ef það er rétt. að Akraneshreppur eigi að reka ferjuna, en taka svo gjald af bílum, til þess að þetta beri sig, og líklega setja hlið á veginn fyrir Hvalfjörðinn. (GJ: Eða sauðfjárgirðingu.) Hún er þarna rétt hjá.

Ég tel þetta svo fráleit vinnubrögð, hvernig þetta mál er fram komið, hvað viðkemur þessum lið, að ekkert vit sé í því að samþykkja hann.