22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

12. mál, fjárlög 1947

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég hef flutt þáltill. út af Geir Sigurðssyni lögregluþjóni og fært þar fram nokkur rök fyrir því, að full ástæða sé til að bæta honum örkuml hans. Og þó að málið sé lítið, að því er kostnað snertir, þá er öruggara til þess að ná eyrum og augum hv. þm., að það komi prentað fram.

Þessi maður fór ungur að aldri í lögregluna í Reykjavík árið 1929 og reyndist þar vel. Svo var hann, eins og aðrir lögreglumenn, kvaddur til þess að vera við 9. nóv. 1932, þegar deilur urðu út af málum milli ýmissa reykvískra borgara, svo sem kunnugt er. Út af átökum þar fékk þessi maður svo mikil meiðsl, að hann er örkumlamaður síðan. Bæjarstjórn Reykjavikur hefur veitt honum 250 kr. á mánuði og dýrtíðaruppbót. En ef hann hefði verið heill heilsu, en ekki tapað henni í þjónustu bæjarins og landsins, mundi hann nú hafa haft yfir 700 kr. í laun á mánuði auk dýrtíðaruppbótar. — Nú hef ég farið fram á, að ríkið greiði honum sömu örkumlaþóknun og bærinn, og hygg ég, að þetta megi sanngjarnt þykja, þó að ekki væri náttúrlega ríkislögregla þá, því að vitað var, að lögreglan á staðnum var undir umsjón ríkisvaldsins og að bæði ríkisstj. og bæjarstjórn sem yfirstjórn lögreglunnar voru sammála um, að lögreglan ætti að grípa inn í á þessari stundu.

Ég álít því, að það mæli full sanngirni með því, að við veitum þessum manni þessa litlu upphæð, og vil ég svo ekki fara um það fleiri orðum.

Þá hef ég flutt brtt. um framlag til lendingarbóta í Grenivík. 100 þús. kr., gegn jafnmiklu framlagi heiman að á staðnum. Þetta þorp hefur fram að þessu lifað að mestu af sjósókn á opnum bátum. Hins vegar hafa sjómenn, sem þarna búa og eru ríkisleiguliðar, flestir túnbletti og garða. En við þær breyt., sem orðið hafa á atvinnuháttum upp á síðkastið, að menn nota nú orðið lítið opna báta, hefur það farið svo einnig á þessum stað, að sjómenn þarna hafa margir sótt til atvinnu algerlega í burtu til annarra staða, af því að það var ekki lengur talið hæfilegt að sækja sjó á opnum smábátum. Og til þess að flæmast ekki frá sínum eignum þarna og aðsetursstað hafa þeir tekið það fyrir að eignast tvo stóra mótorbáta. Hafa þeir lagt í það 300 þús. kr. af sinni fátækt, bæði menn úr þorpinu og sveitinni í kring. Líklega kosta þessir bátar um eina og hálfa millj. kr. með öllu tilheyrandi. En á Grenivík er engin bryggja, og er tilætlun vitamálastjórnarinnar að gera þar bryggju, sem kosta mun um 400 þús. kr., og er það meiningin, að ríkið greiði helminginn. Ef þetta er veitt sem greiðsla á fjárl., sem ég legg hér til, væri þetta fyrri greiðsla af tveimur til þessarar nýju bryggju. Og er ætlazt til þess, að hún geti síðar orðið armur að bátakví, en út í það er ekki farið hér.

Þá hef ég flutt þáltill. um það, að lagðar verði grafhellur á leiði sjö þjóðskálda í því skyni. að grafir þeirra týndust ekki eða væru vansæmdar. Um það vil ég fara fáeinum orðum.

Í kirkjugarðinum í Reykjavík má kalla, að tveir minnisvarðar séu virðulegastir. Það er minnisvarði Jóns Sigurðssonar, sem vinir hans og velunnarar reistu honum, og minnisvarði Sigurðar Breiðfjörðs, sem var reistur af fátækum konum hér í Reykjavik. Þetta er höggvinn steinn, líklega sunnan úr Öskjuhlið, reistur Sigurði Breiðfjörð, sem var einn af okkar skáldum, sem naut að vísu ekki frægðar á þeirri tíð og þeirri stund, sem hann lifði, og ekki meiri viðurkenningar en það, að það var álit manna, að hann hefði dáið úr hungri og vegna vanrækslu. En þessar fátæku konur, sem ég minntist á, hér í Reykjavík höfðu þann skilning á skáldskap þessa manns og virtu hann svo mikils, að þær sýndu honum látnum þá virðingu að láta gröf hans ekki týnast. Enginn mun mótmæla því, að þær gerðu þar rétt.

Nú hefur íslenzka mannfélagið vanrækt leiði þeirra skálda, sem meir hefur verið hossað í lifanda lífi, en Sigurði Breiðfjörð, og er það lítill sómi fyrir okkar mannfélag og í ósamræmi við það, sem þjóðin finnur til, því að ljóð þessara skálda eru til svo að segja á hverju heimili á landinu og eru þar í góðu gengi. Það ber þess vegna að lita frekar á þetta sem gleymsku eða vöntun í uppeldi okkar þjóðar, að við skulum ekki sinna betur minningu skálda okkar að þessu leyti að láta grafir þeirra ekki týnast. Hefur nú aðbúð skálda okkar í peningalegum efnum mjög batnað hin síðari ár. Og mætti því líta svo á, að ekki væri óeðlilegt, að vel væri skilið við þá menn. sem gefa okkur það, sem skáldin gera, þannig að grafir þeirra væru varðveittar frá því að týnast. Nú er satt bezt að segja, að í þessum efnum er ekki myndarlega til verka gengið hér hjá okkur.

Það er að vísu lítilfjörlegur legsteinn á leiði Bjarna skálds Thorarensens á Möðruvöllum í Hörgárdal, og sýnir það ræktarleysi okkar, að ekki er virðulegar um gröf hans búið, þessa skálds, sem er fyrsta stórskáld okkar á eftir Hallgrími Péturssyni og var amtmaður og virðingarmaður. Og samt sem áður eru líkur til, að þessi legsteinn, sem talinn er að vera á gröf Bjarna amtmanns Thorarensens, sé kannske ekki á hans leiði, og úr því væri ekki hægt að skera, nema með því að grafa upp leiðin, sem þarna eru, og athuga, hvar silfurkrossinn er, sem á að vera á kistu amtmannsins.

Um Bólu-Hjálmar er það að segja, að hans gröf hefur ekki verið sinnt, fyrr en Stefán Jónsson sagnfræðingur á Höskuldsstöðum staðsetti hana fyrir nokkrum árum eftir sinni þekkingu og kunnugra manna í Skagafirði. Og var þess vegna gengið frá því leiði.

Kristján Jónsson skáld, sem dó 27 ára og hefur þó skilið eftir sig ódauðleg ljóð, er grafinn á Hofi í Vopnafirði, og er hans leiði ekki týnt.

Þá má heita furðulegt um það skáld, sem kannske hefur verið í mestri uppsiglingu nú á síðari árum meðal eldri manna, Grím Thomsen, sem var einn af mestu höfðingjum þessa lands, fyrir utan það að vera höfuðskáld þjóðarinnar, og er grafinn á Bessastöðum, að þrátt fyrir alla aðhlynningu, sem Bessastaðir hafa fengið, þá hefur svo ómyndarlega verið gengið frá leiði þessa manns, að til minnkunar er fyrir landið. Má búast við, að bætt verði úr þessu. En ég nefni þetta til dæmis um það, hve illa hefur verið búið að gröfum skálda okkar. Og ber ég fram þessa brtt. til þess, að við þm. sýnum, að við höfum ekki minni smekk fyrir þessu, en þær umkomulitlu konur, sem heiðruðu minningu Sigurðar heitins Breiðfjörðs og settu legstein á leiði hans.

Um Guðmund Friðjónsson á Sandi, Guðmund Kamban og Unni Benediktsdóttur (Huldu) er það að segja, að það er ekki óeðlilegt, þó að ekkert hafi verið sérstaklega gert enn viðkomandi leiðum þeirra. En þetta eru allt fræg skáld, sem ég hef nefnt hér. Og um Guðmund Kamban er það að segja, að mér sýnist vera nokkuð sérstök ástæða til þess, að við landar hans sýndum honum þá hinztu virðingu á þann hátt, sem ég legg hér til, vegna þess að hann ekki aðeins vann fyrir land sitt sem mikill rithöfundur, heldur dó hann líka fyrir land sitt.

Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þessa brtt.

Ég hef við 22. gr. flutt brtt. um utanferðir nokkurra embættismanna. En hún er ekki alls kostar heppilega orðuð, og mun ég því taka hana aftur til 3. umr. og orða hana nokkuð öðruvísi.

Þá á ég eina brtt. á þskj. nr. 564, um að verja. fjárhæð þeirri, sem veitt var í fjárl. 1946 til byggingar menntaskólahúss í Reykjavík, en ekki notuð, til að kaupa eða byggja rektorsbústað nærri skólanum. Þessi brtt. er í eðlilegu áframhaldi af þeim umr., sem urðu hér í vetur og hv. fjvn. tók þá afstöðu til, um að leita að bústað handa rektor, sem tókst þá ekki að finna nærri skólanum. Nú er það mála sannast, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafði nokkuð undarlegar hugmyndir um stað fyrir menntaskólann og hugsaði sér einu sinni að bera undir þingið að flytja skólann inn í Laugarnes og síðar inn á Golfskálahæð. — Síðan mun þessari fjárhæð hafa verið varið til undirbúnings skólans í Laugarnesi. En svo kom í ljós, að hann gat ekki fengið þetta land. Stendur þetta fé þess vegna þarna að öllum líkindum að nokkru leyti á ábyrgð bæjarins, þótt ekki sé formlega. Sýnist mér rétt, að þetta fé sé endurkrafið, og finnst mér eðlilegt, að því verði varið til þess að byggja rektorsbústað nærri menntaskólanum.