22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

12. mál, fjárlög 1947

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins þrjú atriði í tilefni af svarræðu hv. form. fjvn. s.l. nótt, sem ég vildi tala um. — Þegar ég talaði fyrir brtt. mínum, lagði ég mesta áherzlu á, að brtt. mín á þskj. 560. VII,b, þ.e. um Ármúlaveg, næði fram að ganga. Þar hef ég lagt til, að fjárveiting til þessa vegar, sem á brtt. fjvn. er gert ráð fyrir, að verði 30 þús. kr., verði 100 þús. kr. Ég rakti sögu þessa máls s.l. nótt og gat þess, að fjárupphæð til þessa vegar hefði verið lögð fram s.l. haust af þremur bændum í Nauteyrarhreppi og hefði það, sem þegar hefði verið unnið að þessum vegi, ekki verið borgað að einum einasta eyri úr ríkissjóði. Þessu svaraði hv. form. fjvn. þannig, að það væri ætlun fjvn., að þessar 30 þús. kr., sem fjvn. hefði tekið hér í brtt. sínar til þessa vegar, ættu að fara einungis til framkvæmda á árinu 1947 til áframhaldslagningar þessa vegar, en upphæðin, sem unnið hefði verið fyrir á s. I. sumri fyrir lánsfé bændanna í Nauteyrarhreppi, ætti að áliti fjvn. að koma á fjáraukal. ársins 1946. — Ég get fallizt á, að þær fjárupphæðir, sem ríkisstj. lét vinna fyrir við vegagerðir á árinu 1946 án þess að hafa heimildir til þess á fjárl.. eigi af endurskoðendum ríkisreikninganna að færast á fjáraukalög þess árs, þegar endurskoðendurnir reka sig á upphæðir, sem þannig hefur verið unnið fyrir, en ekki eru fjárveitingar fyrir á fjárl. En hér er ekki um slíka upphæð að ræða, heldur upphæð, sem ríkissjóður hefur alls ekki lagt út á neinn hátt, hvorki með eða án heimildar, heldur hefur hér aðeins verið lagt fram fé af einstaklingum, sem svo er búið að leggja veg fyrir. Ég held því, að málið liggi þannig fyrir, að það komi alls ekki till. frá endurskoðendum ríkisreikninganna um, að þessi upphæð verði færð á fjáraukal. fyrir árið 1946. Og fjárveitingin til þessa vegar á árinu 1947 þarf því að nema þeirri upphæð, sem unnið var fyrir þarna s.l. haust í þessum vegi, og í viðbót þeirri upphæð, sem fjvn. ætlast til, að unnið verði fyrir í þessum vegi árið 1947. Nú var unnið þarna í þessum vegi á s.l. hausti fyrir 50 þús. kr. Og ef ætti að ljúka þessum vegi út eftir Nauteyrarhreppnum. þá þyrfti að veita á þessu ári og vinna fyrir á komandi sumri 50 þús. kr., þannig að það þyrfti að veita á fjárl. nú 100 þús. kr. til þessa vegar. Ég held því, að það sé á misskilningi byggt hjá hv. form. fjvn., að þessi upphæð, sem hér um ræðir og greidd var af þessum einstaklingum, eigi að færast á fjáraukalög. Og til þess að vera viss um, að ég væði ekki reyk um þetta, hafði ég tal af Pétri Magnússyni, fyrrv. hæstv. fjmrh., og spurði hann, hvað rétt væri í þessu. Og sagði hann mér, að það væri þá alveg ný „metóða“, ef þessi skilningur hv. form. fjvn. væri réttur um þessa upphæð, sem aldrei hefði verið greidd úr ríkissjóði. Og hv. 1. þm. Reykv., fyrrv. hæstv. fjmrh., taldi, að upphæðin þyrfti öll að koma á fjárl. fyrir árið 1947, sú upphæð, sem unnið hefði verið fyrir á s.l. hausti á þessum stað, og sú upphæð, sem ætti að vinna fyrir þar á þessu ári, enda greiddu fyrrv. hæstv. fjmrh. og samgmrh. fyrir því, að svo væri gert. — Ég vil því treysta því, að þessi brtt. mín nái fram að ganga og að þessir bændur í Nauteyrarhreppnum, sem lögðu fram fé í haust vegna þessarar vegagerðar og tóku á sig vaxtabyrði vegna þess frá því í september og þangað til í desember s.l., verði ekki látnir bera vaxtabyrði af þessu láni á þessu ári einnig.

Þá var það önnur brtt., sem hv. form. og frsm. fjvn. fór nokkrum orðum um líka, á þskj. 560. XXVII, um 50 þús. kr. framlag til lendingarbóta á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, á stað 25 þús. kr., sem gert er ráð fyrir í brtt. hv. fjvn. Ég flyt þessa brtt. Og hv. frsm. fjvn. svaraði því til út af þessari brtt., að það væri ekki rétt að áliti fjvn. að verja tvívegis fé til sama mannvirkisins, því að þarna þyrfti að byggja upp þessa bryggju. Ég get tekið undir þetta sjónarmið hv. frsm. fjvn., að það sé ekki rétt, að ríkissjóður leggi tvívegis fram fé til þess að byggja tvisvar upp sömu bryggju frá grunni. En hér er því alls ekki til að dreifa, því að bryggjan þarna á Reykjanesinu hefur ekki verið byggð fyrir ríkisfé, þó að til þessa mannvirkis hafi verið veittar 5 þús. kr. einu sinni úr ríkissjóði. En nú er þessi bryggja komin svo, að það þarf að endurreisa hana. Og verði það gert, verða héraðsbúar að leggja fram til þess mikið fé einnig. En 25 þús. kr. framlag til þessa mannvirkis er gagnslítið, og legg ég því til, að það verði hækkað í 50 þús. kr. Fjárveitingar til mannvirkja á fyrst og fremst að miða við það, að þær komi að gagni til þeirra hluta, sem þær eiga að notast. Þess vegna tel ég sanngjarnt, ef á að hjálpa til að byggja bryggjuna á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, að veittar verði til hennar 50 þús. kr. nú á fjárl., sem er það minnsta, sem hægt er að komast af með, þó að viðbættu riflegu framlagi úr héraði.

Þá er brtt. okkar hv. þm. Ísaf. og mín á þskj. 564, III, sem er beiðni um 125 þús. kr. fjárveitingu til byggingar skólahúss til sjómannakennslu á Ísafirði gegn jafnháu framlagi annars staðar að. — Hv. frsm. fjvn. upplýsti, að fjvn. hefði leitað umsagnar skólastjóra stýrimannaskólans í Reykjavík út af því erindi, og hefði skólastjóri stýrimannaskólans í Reykjavík lagt á móti því, að veittur yrði nokkur eyrir til byggingar skólahúss til sjómannakennslu á Ísafirði. Það er þokkaleg tillaga frá forstöðumanni þessarar menntastofnunar hér, skólastjóra stýrimannaskólans í Reykjavik, annað eins og þetta! Eftir l. frá 1945 er ákveðið í reglugerð, að námskeið skuli haldin annað hvert ár samtímis á fjórum stöðum utan Reykjavikur, Ísafirði, Akureyri, Vestmannaeyjum og Neskaupstað, sem veiti mönnum fræðslu til þess að öðlast skipstjórnarréttindi. Og það er líka heimilt samkv. gildandi l., að fram fari á sama hátt á Ísafirði og þessum öðrum kaupstöðum kennsla í stýrimannafræði. Það er ekki hægt að framkvæma þessi lögboð, svo að vel sé, nema byggð séu hús til þessara hluta. Og að framkvæma þetta hefur reynzt mjög torvelt á undanförnum árum vegna húsnæðisleysis. Þess vegna hefur sjómannastéttin beitt sér fyrir því, að þetta hús verði byggt á Ísafirði fyrir þessa lögboðnu kennslu. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að lesa hér upp örfáar línur úr grg., sem nefnd Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Bylgjunnar á Ísafirði lét fylgja bréfi um þetta mál til hv. fjvn. Með leyfi hæstv. forseta, segir svo í þessu skjali:

„Nauðsyn fiskimannaskóla á Ísafirði hefur lengi verið brýn og verður sífellt meir og meir aðkallandi með hverju líðandi ári, þrátt fyrir sjómannaskólann nýja, því að það er endurtekin staðreynd undanfarinna ára, að þeir vestfirzku sjómenn, sem leita til Reykjavíkur til náms, staðnæmast þar langflestir og eru sem tapaðir sínu heimahéraði. Þarf ekki langt að leita til þess að sjá, að Vestfirðingar hafa mannað sunnlenzka fiskiflotann að mjög miklu leyti, og má í því sambandi nefna togaraskipstjórana Aðalstein Pálsson, Bjarna og Halldór Ingimarssyni og Jón Björn Elíasson og marga fleiri. Um vélbátaflotann sunnlenzka gegnir sama máli. Vestfirðingar eru þar fjölmennir sem skipstjórar, vélstjórar og hásetar. Sú blóðtaka, sem leiðir af áframhaldandi útstreymi ungra og dugandi manna, er meiri en héruðin fá þolað. Haldi svo fram sem nú, þá horfir til auðnar.“

Ég vil halda því fram, að það sé langt frá því að vera mannsæmandi. að samtímis því, sem Reykvíkingar kveinka sér sárlega undan aðstreymi fólks utan af landi til Reykjavikur og það svo, að dag eftir dag er sá söngur sunginn í Reykjavíkurblöðunum, eins og Reykvíkingar kannast við, að þúsundir manna séu ólöglega búsettir í Reykjavík, sem hefðu flutzt hingað á síðustu árum, og svo fast að kveðið, að sagt er jafnvel, að það sé vafasamt, hvort það sé skylda, að Reykvíkingar byggi yfir þennan „landshornalýð“, sem þeir menn eru þar kallaðir, sem hingað hafa flutzt á síðustu árum, — að samtímis þessu sé af forstöðumanni menntastofnunar þeirrar, sem stýrimannaskólinn er, reynt að láta menntastofnanir hér í Reykjavík vera þannig fyrir alla þjóðina, að hún nauðug, viljug verði að sækja sína kennslu í sjómannafræði til Reykjavíkur með þeim afleiðingum, að menn flytjast hingað til Reykjavikur, en staðið á móti því, að aðrir staðir fái að koma upp menntastofnunum fyrir sig til þess að mennta sína sjómannastétt. Og það eru svo höfð hrakyrði um þetta fólk, sem þetta fyrirkomulag, að kennslan í sjómannafræði er einokuð þannig, ýtir undir, að flyzt til Reykjavíkur, sem sagt fyrir það, að dugandi menn utan af landi bætast í sjómannastéttina sunnlenzku og reykvisku, meðfram fyrir aðgerðir ráðamannanna í þessum greinum menntamálanna. — En til þess að minnka eða stöðva fólksstrauminn til Reykjavikur þarf að gera annað en að einoka þannig fræðslumöguleika sjómannastéttarinnar. Til þess þarf að gera eitthvað til þess, að lífvænlegra verði utan Reykjavíkur en nú er, bæði með samgöngubótum, lendingarbótum og með því að fullnægja rafmagnsþörf byggðarlaganna úti á landi, bæði þorpanna, kaupstaðanna og dreifbýlisins. — Svo þegar þetta hefur ekki verið gert, eins og þurft hefði að vera, er þetta fólk, sem flyzt til Reykjavíkur. m.a. fyrir aðgerðir hins opinbera, kallað „landshornalýður“. Og það þykir mér hart!

Til þess að sýna fram á, að Ísfirðingar sjálfir vilja nokkuð á sig leggja fyrir þetta mál, vil ég lesa hér í framhaldi af því, sem ég áðan las úr grg. frá þessum mönnum í skipstjóra- og stýrimannafél. Bylgjunni á Ísafirði. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér heima hefur það gerzt í þessu máli, að skipstjóra- og stýrimannafélagið Bylgjan kaus nefnd til forgöngu um stofnun ég starfrækslu fiskimannaskóla hér. Nefnd þessi hefur leitað undirtekta ýmissa félaga og einstaklinga svo og bæjarstjórnar Ísafjarðar um stofnun skólans og hvarvetna hlotið óskipt fylgi.

Ísfirðingar hafa þegar lofað að leggja fram á annað hundrað þúsund krónur til væntanlegrar skólabyggingar, og um helmingur hins lofaða framlags héraðsbúa er þegar greiddur. Við teljum víst, að framlög héraðsbúa aukist enn að miklum mun, og þykir líklegt, að framlag þeirra verði ekki minna en 200 þús. kr., ef Alþingi tekur vel og sanngjarnlega í þetta mikils verða mál, svo að það komist til framkvæmda sem fyrst.“

Ég vil nú vænta þess, að hv. fjvn., þrátt fyrir svar skólastjóra stýrmannaskólans í Reykjavík, sem virðist leggja á það höfuðkapp að einoka hér í Reykjavík alla fræðslu sjómannastéttarinnar, athugi þetta mál á ný og gaumgæfilega, hvort ekki eigi að gera mögulegt að halda uppi þeirri sjómannafræðslu á Ísafirði og annars staðar í bæjum úti um land, sem nauðsynlegt er, til þess að framkvæmd verði gildandi lagaákvæði um þetta efni. a.m.k. svo, að ef til vill gæti það stuðlað að því; að sjómenn geti haldizt á þeim stöðum á landinu, þar sem þeirra er mest þörf.

Ég strika ekki yfir það, sem ég sagði í fyrri nótt um það, að mínar aðrar brtt. fái góðar undirtektir hjá hv. fjvn., en ég legg megin- og höfuðáherzlu á Ármúlaveg, sem ég gerði að umræðuefni í minni ræðu fyrst, og að ekki verði daufheyrzt við þeirri ósk sjómannastéttarinnar á Ísafirði, að Alþ. sjái sér fært að leggja 125 þús. kr. til sjómannaskóla á Ísafirði gegn fjárframlagi bæjarins.