13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (5359)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég þarf ekki að svara mörgu af því, sem fram kom, en nokkru. Þm. var að reyna að halda því fram, að hann hefði ekki verið að ráðast á dómsmrh. Það er rangt. Hann heldur því fram, að dómsmrh. hafi legið á málinu, en hann hefur áreiðanlega sjálfur haft lengur en þetta mál í sínum vörzlum. Það var ekki hægt að fella úrskurð í málinu, áður en ráðh. fór, og þarf ég ekki að skýra það nánar. Hann var með ádeilu á mig, og hún var sú, að ég hafi látið málið liggja. Þetta er líka rangt. Hæstv. dómsmrh. ákvað það, áður en hann fór, að málið skyldi liggja. (BBt: Það getur enginn bundið eftirmann sinn.) Það getur enginn bundið eftirmann sinn, en dómsmrh. getur sagt fyrir um störf, meðan hann er fjarverandi.

Um vopnasmyglunarmálið er það að segja, að áður en úrskurður hafði verið gefinn um opinbera rannsókn, hafði ráðuneytinu ekki borizt skýrsla, heldur bréf. Það, sem fyrir lá, var það, að það hafði borizt bréf frá lögreglustjóra um, að tolleftirlitið yrði skerpt. Þetta aukna tolleftirlit fékk hann. Bréf hans gaf ekki tilefni til annars eða meira. Morgunblaðið, sem lögreglustjóri hafði gefið upplýsingar, kom svo fram með greinar um málið, og það var vegna þeirra greina, en ekki bréfs lögreglustjóra, sem fyrirskipuð var rannsókn í málinu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, líka vegna þess, að hv. þm. Str. hefur ekki viljað — eða ekki getað verið viðstaddur. En þetta mál er svo einfalt, og umr. um það — eins og ég tók fram áður — virðast ekki einasta tilefnislausar, heldur sprottnar af hneigð til þess að fara óviðurkvæmilegum orðum um dómsmrh. fjarverandi, að ég sé ekki ástæðu til að deila um það lengur.