22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

12. mál, fjárlög 1947

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að svara hér nokkrum fyrirspurnum, sem hefur verið beint til mín, og þó sérstaklega síðari ræðu hæstv, fjmrh. annars vegar og hv. þm. Borgf. hins vegar, og svo að litlu leyti hv. 1. þm. Rang. og hæstv. menntmrh., sem ég sé að hér er mættur. Hann óskaði eftir því, að nokkur atriði yrðu tekin aftur.

Styrkurinn til fræðimanna, hef ég lýst yfir, að verður tekinn aftur til frekari athugunar og einnig till. um styrk til barnaverndarráðs, og mun n. athuga það mál nánar til 3. umr. Öll gögn varðandi það mál liggja hjá fjvn., sem ég skal lofa honum að hafa aðgang að.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er enn ekki mættur. en meðan svo er ekki, mun ég víkja að ræðum annarra hv. þm. um þetta mál.

Hv. þm. Siglf. lagði nokkra áherzlu á, að tekinn yrði upp í frv. styrkur til sjúkrahúss á Siglufirði og á öðrum tveim stöðum samkv. hans till. Það hafa hins vegar ekki komið nein fyrirmæli um þetta til fjvn., hvorki frá honum né landlækni eða frá viðkomandi héruðum. Vil ég í þessu sambandi vísa honum beint til landlæknis og vænti þess, að hann ræði þetta mál við hann, en strax og erindi berst um þetta frá landlækni, mun ég leggja það fyrir fjvn. og taka það til meðferðar. — Þá leggur hv. þm. Siglf. til, að tekin verði upp í frv. allstór fjárfúlga til vegagerðar fyrir Sandgerðishrepp. Ég hefði nú haldið, að þessi sýsla, sem hefur hér tvo þm., þyrfti ekki að fá lánaðan þm. norðan af Siglufirði til þess að gæta sinna hagsmuna hér á Alþ. Ég get upplýst, að þessi vegur, sem hann ætlast til að leggja 250 þús. kr. í, er ekki einu sinni á vegal., og hefur ekkert samkomulag orðið um hann ennþá, auk þess sem vitað er, að vegasamband við Sandgerðishrepp er þannig, að bæði Siglufjörður og margir aðrir staðir á landinu væru ánægðir, ef þeir væru eins vel settir í þessum sökum og hann, svo að ég geri ekki ráð fyrir, að n. leggi til, að till. hans verði samþ. — Einnig ber hann fram till. um aukið fjárframlag til lendingarbóta við Sandgerði. Ég hef lýst afstöðu fjvn. til hafnarmálanna yfirleitt, og þarf ég því ekki að ræða þau mál frekar, en vil aðeins benda á — eins og honum er kunnugt um —, að samið hefur verið um að verja stórfé til landshafnar, sem á að gera skammt frá Sandgerði. — Þá leggur sami hv. þm. til ásamt hv. 2. þm. Reykv., að ríkisstj. verði veitt heimild til að taka allt að 3 millj. kr. lán sem viðbótarframlag til fiskihafna. Eins og ég hef lýst yfir áður, mun verða rætt um heimildagr. fyrir 3. umr. við hæstv. ríkisstj., og verður þá þessi till. einnig tekin til athugunar. Teldi ég því heppilegra, ef hann vildi taka hana aftur til 3. umr., af því að enn er ekki búið að ganga fyllilega frá þessari gr.

Hvað fjárframlög til raforkumála snertir, gerði ég nokkra grein fyrir þeim í ræðu minni í fyrrinótt, og skal ég því ekki fara frekar inn á þau atriði. Ég vil þó aðeins benda á það, að þróunin í rafmagnsmálum Siglufjarðar var hér ekki til umr., og hefði hv. þm. Siglf. því getað sparað sér mest af því, sem hann sagði um þau mál. Ég vík hins vegar ekki frá því, að þetta mikla mál þurfi fyrst og fremst þann undirbúning, að alltaf sé tryggt í hvert skipti, að fyrirtæki, sem ráðizt er í framkvæmd á, þurfi ekki að stöðvast vegna fjárskorts, þegar það er komið í gang. Hver rétt hugsandi viðskiptafræðingur hugsar ekki aðeins um það, hvernig koma eigi fyrirtæki af stað, heldur einnig, hvernig eigi að reka það, en slík forsjá var ekki við höfð á Siglufirði. Það var ekki aðeins, að féð fór þar langt fram úr því, sem áætlað var, heldur fór hin verklega framkvæmd þess þannig fram, að stórkostlega vitavert er, og hefur ríkissjóður orðið að þola þungar fjárhagslegar raunir fyrir gerðir þessara manna. Hv. þm. Siglf. benti á sjáanlegan taprekstur þessa fyrirtækis, og finnst mér því enn meiri ástæða til að fara varlega út í þessi mál nú.

Ég sé nú, að hæstv. fjmrh. er hér mættur, og vildi ég gera nokkrar aths. við ræðu hans frá í dag. Hæstv. ráðh. tók undir það með hv. þm. Borgf., að ástandið í fjármálum landsins væri mjög ömurlegt. Hæstv. ráðh. lýsti því m.a. yfir, að það mundi vera nauðsynlegt að endurskoða og jafnvel afnema suma af þeim lagabálkum, sem samþ. hafa verið hér á 2 undanförnum árum, og tilnefndi hann 3 lög í því sambandi. Ég veit ekki, hvort eigi að skilja þetta þannig, að þessi l. eigi að vera þau fyrstu, sem eigi að fara á höggstokkinn, en þeir, sem ekki vita betur, gátu þó ekki skilið orð hæstv. ráðh. öðruvísi. — Ég var ekki fylgismaður launal. á sínum tíma. Það var ákveðið í stefnuskrá fyrrv. ríkisstj., að þau l. ættu að samþykkjast, og lýsti ég því þá yfir, að þótt samþykkt þeirra kynni að velta á mínu atkv., mundi ég ekki gefa þeim atkv. mitt, af því að ég áleit, að ekki væri rétt að semja og samþykkja ný launal. á þeim verðbólgu tímum, sem þá voru, og sérstaklega þar sem þau fóru langt fram úr allri sanngirni. Ég mundi hins vegar nú greiða atkv. móti því, að þessi l. yrðu afnumin, af því að ástandið í landinu hefur gerbreytzt, síðan þau voru sett. Ég hygg, að fyrst þurfi að gera annað, en að afnema l., og það er að uppfylla þau loforð, sem voru gefin, þegar l. voru samþ., um, að allar aukalaunagreiðslur skyldu falla niður. Ýmsir menn í opinberri þjónustu höfðu notið ýmissa fríðinda, áður en l. voru samþ., m.a. hafði rektor menntaskólans sérstakt risnufé, af því að laun hans voru svo lág, en eftir að nýju launal. voru sett og hann fékk laun sin hækkuð, var ekkert af þessum fríðindum tekið burtu, og hann fékk áfram að halda þessu risnufé. Er þetta aðeins eitt af mörgum sams konar tilfellum. Þá var því m.a. lofað, að allar aukalaunagreiðslur ættu að hverfa hjá landssímanum. Nú er það hins vegar upplýst, að sumir venjulegir starfsmenn þar hafa haft þar á s.l. ári um 50–60 þús. kr. í árstekjur, hvar af um 20 þús. kr. hafa verið fyrir aukavinnu. Ég teldi það því meira verkefni og eðlilegra, að hann beitti sér fyrir því að laga þetta misræmi, sem alls staðar kemur fram í þessum sökum, áður en hann hyggst afnema lögin.

Þá tilnefndi hæstv. fjmrh. einnig fræðslulöggjöfina. Ég greiddi líka atkv. á móti þeim l., ekki af því að ég væri móti l. í heild, heldur vegna þess, að ég var á móti nokkrum ákvæðum í þeim, m.a. því, að kennarar skyldu eftir 10 ára kennslustörf fá árs frí á fullum launum, þar sem þeim er þó gefið þriggja mánaða frí á sumrin og halda fullum launum. Auk þess skuli ríkið byggja yfir þessa menn. Ég veit ekki til, að aðrir embættismenn hér á landi hafi slík kjör. Ég var á móti öllum þessum atriðum, áður en l. voru samþ., en ábendingar mínar um þá hættu, sem þetta hefði í för með sér, voru þá ekki teknar alvarlega. Nú er þó svo komið, að hæstv. fjmrh. hefur tekið þetta sem eitt af þeim l.. sem þurfi að breyta, og mun ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. með því, að þau verði afnumin. Er það fyrst og fremst vegna þeirra loforða, sem gefin hafa verið í þessum efnum, og þess, að ég tel þeim útgjöldum vel varið, sem ganga til menntunar alþýðunnar. Ég er ekki viss um það, að íslenzka þjóðin hefði staðizt eins vel það brimrót, sem yfir hana gekk á hernáms tímunum, ef alþýðan hefði ekki verið eins vel menntuð og hún er. Teldi ég miður farið, ef byrjað væri á því að afnema þessi lög.

Enn fremur minntist hæstv. ráðh. á tryggingalöggjöfina í þessu sambandi. Strax og frv. um þessi l. kom fram lýsti ég því yfir, að ég væri fylgjandi þeim. Fyrir þessa yfirlýsingu mína lenti ég í því að vinna í 10 vikur að breyt. á frv. og ná samkomulagi um málið með þáverandi hv. 3. landsk. (HG), og því meir sem ég kynntist því, því vissari var ég um, að hér væri um gott mál og nauðsynlegt að ræða. Ég hef enn ekki heyrt færð fram nein rök, sem sannfæra mig um, að við getum ekki staðið undir þessari löggjöf, því að sú þjóð, sem telur sig geta staðið undir að tryggja sumar stéttir sínar fyrir afkomu atvinnuveganna, á sannarlega ekki síður að hafa ráð á að tryggja þjóðina fyrir því, er tryggingalöggjöfin fjallar um. Ég vil jafnvel ganga svo langt að lýsa því yfir, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar að byrja á því að afnema tryggingarl., mun ég ekki styðja hana lengur.

Hæstv. fjmrh. sagði, að engin vissa væri fyrir afkomu atvinnuveganna, en ég álít, að fyllsta ástæða sé til að ætla, að aldrei hafi komið eins tekjuhátt ár yfir landið og í ár, og ég var satt að segja undrandi yfir að heyra slíkt frá manni, sem hefur jafnmikla þekkingu á atvinnuvegunum og hæstv. fjmrh., ef hann lokar augunum fyrir þeim möguleikum, sem ríkissjóður hefur um afkomu sina í ár. Togarafloti okkar er nú að margfaldast og fyrsti nýi togarinn af þeim 30, sem fyrrverandi ríkisstj. samdi um smíði á í Englandi, er kominn til landsins og hefur aflað á skemmri tíma miklu meir en við höfum nokkurn tíma átt að venjast. Annar slíkur togari er væntanlegur til landsins eftir örfáa daga og síðan hver af öðrum á næstu mánuðum og næsta ári, og vitað er, að hvert þessara skipa á eftir að afla erlends gjaldeyris fyrir ekki minni upphæð en 5 til 6 millj. kr. á ári. Hæstv. ráðh. veit, hver aflinn er nú og að ríkissjóður hefur tekið á sig að ábyrgjast söluverð aflans. Hann veit enn fremur, að það er boðið tvöfalt verð fyrir lýsið á móts við það, sem var á því í fyrra, og það má því vera meiri svartsýnin að halda, að þetta verði ekki sérstaklega mikið tekjuár fyrir ríkissjóð.

Hitt er annað atriði, að útgjöldin geta orðið mikil. Og ef haldið er á þá braut að taka milljónir og aftur milljónir og eyða fram yfir það, sem þingið hefur leyft, þá er náttúrlega enginn kassi nógu stór og djúpur til þess að ausa fé úr, ef hann á ekki að verða fljótlega þurrausinn. En haldi fjmrh. sig innan þeirra takmarka, hvort sem það verða 200 eða 210 millj. kr., sem gjöld eru ákveðin á fjárl., og leyfi engar greiðslur úr ríkissjóði aðrar en þær, sem hér eru ákveðnar í frv. og í brtt. n., þá er ég viss um, að hann getur sofið rólegur fyrir því, að nýsköpunin, sem hann hefur ásamt öðrum unnið að, er nægilega traust til þess að standa undir þessum fjárl. Og ég hefði heldur óskað að fá þessa yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh. en þá myrku yfirlýsingu. sem kom frá honum áðan.

Ég vil í sambandi við þau l., sem samþ. hafa verið á síðustu árum, beina þessu til hv. þm.: Hvers vegna hefur hv. þm. Borgf. og þessir myrksýnu menn ekki minnzt á ein l. um 5 millj. kr. útgjöld ríkisins til nýbýla og jarðræktar í sveitum? Ég vil ekki gerast talsmaður þess, að þau l. verði afnumin, en þau eiga þó ekki meiri rétt á sér, en fræðslul. og tryggingal. En þannig ætti að vera búið að okkar þjóðfélagsþegnum, að þeir gætu byggt yfir sig án þess að fá milljónir úr ríkissjóði til að gera það, og ég held, að það sé heppilegra að búa þannig að þeim, að þeir þurfi þess ekki. Og sama er að segja um þær fjárfúlgur, sem greiddar eru til þess að byggja verkamannabústaði. Hafi verkamenn nokkurn tíma haft ráð á því að byggja yfir sig húsnæði, þá hafa þeir það nú og það miklu fremur, en þeir hafa haft áður. — Ég vil ekki mæla með því, að þessi l., sem hæstv. fjmrh. nefndi, verði afnumin. En ef það á að afnema einhver l., og eigi ekki að hafa það eins og á tombólu að láta tilviljun ráða valinu, þá koma þessi l. til umr., áður en þau verða afnumin. Og nákvæmlega það sama ætti þá að láta gilda um l. um jarðræktarstyrkina. Ef ástandið er svona í landinu, eins og hæstv. fjmrh. vildi láta á sér skilja, þá er spursmál, hvort ekki á að afnema þá styrki. Það eru stórkostlega aukin framlög í þessa styrki á hverju ári. Og það verður ennþá stórkostlegra, því fleiri vélar sem ríkið kaupir handa bændum til að vinna með. Og það var eina upphæðin á fjárl., sem þannig stóð á um, að maður, sem er gagnkunnugur þessum málum, sem á að bera ákaflega mikla ábyrgð á þessum málum, kom til mín sem formanns fjvn. og sagði: „Það er hægt að lækka upphæðina til vélakaupasjóðs um 300 þús. kr.“ En hvaða menn stóðu mest á móti því, að svo væri gert? Það var hv. þm. Borgf., sem sló í borðið og sagði: „Það kemur ekki til mála, að við þessu verði hreyft.“ Hann var þá ekki myrksýnn á ástandið í fjármálum ríkisins. Og ég veit vel, að sá hv. þm. vissi vel, hvað hann var þá að segja. Mér eða okkur hinum í fjvn. datt ekki í hug að taka upp baráttu fyrir því, að þessi 300 þús. kr. lækkun væri gerð á framlaginu til vélakaupasjóðs, — vegna þess að ég, hvað sem hver segir, er þeirrar skoðunar enn, að fjárl. séu ekki óvarlega afgr. samkv. brtt. fjvn., þvert ofan í skoðun hæstv. fjmrh. Ég hefði nefnilega aldrei fengizt til þess að láta athugasemdalaust nafn mitt undir afgreiðslu fjárl., eftir að hafa pælt í þessum málum og séð öll gögn, sem fyrir hafa legið, allan þann tíma, sem þingið er búið að standa, ef ég hefði ekki persónulega trú á því, að fjárl. væru ekki óvarlega afgreidd.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að meðaltalsútflutningur áranna 1945 og 1946 hefði verið 271 millj. kr., og notaði það sem mælikvarða til þess að bera saman ríkistekjurnar og útflutninginn. En hvað er útflutningurinn 1946? Og hvers vegna er tekið meðaltal af útflutningi þessara tveggja ára? Útflutningurinn árið 1946 er miklu meiri en þetta. Og hvað verður útflutningurinn 1947? Ég skal viðurkenna það, að hlutföllin milli ríkisgjaldanna og útflutningsins eru kannske að verða ískyggilega óeðlileg. En ég held, að mikið af þeim útgjöldum einmitt, sem nú eru á fjárl. og brtt. n., fari einmitt til þess að auka framleiðsluna og þar með útflutninginn. Og það er sannarlega mikill eðlismunur á því hvort útgjöld úr ríkissjóði fara til þess að auka framleiðsluna eða útgjöldin eru eingöngu til eyðslu.

Hæstv. fjmrh. sagði, að verðbólgan væri sjúkdómur, sem leiddi til tortímingar. Það er rétt, að sé ekki spyrnt við fótum, þá er hætta á þessu. Það er með það alveg eins og mann, sem er á báti og getur hlaðið í góðviðri, en ef að hvessir, verður hann að kasta út. — En ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, hvaða hætta það er, sem hefur vaxið mest upp á síðkastið og er orðin svo ískyggileg, að ég held, að það væri vert fyrir hæstv. ríkisstj. sameiginlega að athuga hana. Það er sú peningakreppa, sem verið er að búa til í landinu í dag — sem við erum að búa til, og það allt síðan í ágúst í sumar s.l., því að stöðugt hefur verið þrengt að lánum hjá bönkunum til framleiðslunnar. Allt síðan það fréttist, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. vildi fara frá stjórn, hefur þessi hræðsla þegnanna aukizt. Og þessi hræðsla hefur aukizt svo, að bankarnir hafa bókstaflega orðið að herða svo að nú, að þeir þora ekki að lána, þó að fullar tryggingar séu fyrir hendi. Eftir því sem vald ákveðins flokks yfir þessum málum hefur aukizt, eftir því hefur hræðsla fólksins í þessum málum aukizt. Og þarna steðjar að miklu meiri hætta, en af nokkru öðru gagnvart atvinnulífi landsmanna í dag. Ég bendi hæstv. fjmrh. á það, að það getur vel verið, að hann fái þar verkefni til að leysa. ríkissjóður ábyrgist 2.250,00 kr. verð fyrir hvert tonn af saltfiski. Hvað lána bankarnir í þessu sambandi? Þeir þora ekki að lána þetta allt, heldur lána þeir 1.450,00 kr. á tonn út á þessa ábyrgð. Athafnamennirnir eru bókstaflega í kreppu fyrir þessar ráðstafanir. Og það getur sannarlega komið illa við hag ríkissjóðs. Og það væri miklu betri fjárlagaafgreiðsla, þó að við ættum að bæta 10 millj. kr. útgjöldum á fjárlagafrv., ef við gætum leyst þennan vanda, því að þegar bankarnir eru búnir að skapa kreppu með því að stöðva útlán, þá er víðtækari kreppa fram undan. — En ákaflega mikil orsök þess, hve bankarnir eru farnir að tregðast við að lána, er það, að fólkið rífur út úr bönkunum sparifé sitt af hræðslu við væntanlegar aðgerðir ríkisstj., sem enginn maður veit, hverjar eiga að verða. Það hefur verið talað hér um fjárhagsráð. Og tildrögin til þess er hið svo nefnda hagfræðingaálit, sem ríkisstj. hefði átt að koma í veg fyrir, að kæmi fyrir almenningssjónir, svo fávíslegt sem það er á öllum sviðum. Og við útkomu þess byrjaði sú hræðsla, sem ennþá býr með fólkinu. Ég veit um einn sparisjóð, þar sem tekin var út á einni viku ein millj. kr. Hvers vegna? Af því að fólkið þorir ekki að láta peningana vera frjálsa, meðan ástandið er svona. Ég þarf ekki að minna hæstv. ríkisstj. á það, hvað ég sagði við hana á einkafundi. Ég ætla ekki að segja það hér. En ég vil biðja hæstv. fjmrh. að minnast þeirra orða. Það getur verið, að reynslan kenni honum, að það hefði verið gott að athuga það áður, sem ég sagði þá.

Svo er 35 millj. kr. úthlutunin á fé til þess að greiða niður dýrtíðina. Ég verð að segja, að ég álít, að það eigi að halda þessum lið alveg sérstökum. Það er langbezt að láta fólkið finna það greinilega, að það verður að bera þessi sérstöku útgjöld vegna dýrtíðarinnar. Þjóðin hefur ekki fengizt til að taka upp samninga út af dýrtíðarmálunum. Ég minntist nokkuð á þetta í minni frumræðu. Og úr því að fólkið vill ekki reyna að ráða bót á þessum vanda með samningum, þá verður að taka þetta fé af fólkinu til þess að borga niður dýrtíðina. Og ég álít, að það eigi ekki að taka féð til þess sem dulda skatta, heldur þannig, að fólkið viti, hver einstakur maður, að með þessari eða hinni tiltekinni greiðslu er hann að greiða niður dýrtíðina. Dýrtíðin getur aldrei lækkað, nema fólkið vilji taka upp baráttu gegn henni. Alþ. og ríkisstj. geta ekki verið svo sterk að geta ráðið við að lækka dýrtíðina, ef fólkið í heild vill það ekki. — Það var talið sjálfsagt að láta laun hækka í landinu, af því að það þykir rétt að skipta tekjunum milli fólksins. Og þetta hefur verið gert. Nú er svo komið, að fólkið hefur í þessu efni fengið sinn skerf. En atvinnulífið þolir nú ekki lengur, að haldið sé áfram á kauphækkunarbrautinni á þann hátt, sem gert hefur verið. Og það var í samningnum, sem birtur hefur verið af hæstv. ríkisstj. sem stefna stjórnarinnar, að það yrði tekin upp samvinna um þau mál að samræma kaupgreiðslur í landinu getu atvinnuveganna. — Það getur verið, að það hafi verið eitt af því, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. gat ekki samið um. En ég hef ekki séð bóla á neinum nýjum lausnum í þeim efnum hjá þessari núverandi hæstv. ríkisstj. Ég get ekki séð, að neitt sé að gert af hennar hálfu í þeim efnum. — Og fólkið verður að vita, til hvers notaðar eru þessar 35 millj. kr., sem fara munu til niðurgreiðslu dýrtíðarinnar, að þær fara til þess, en ekki til vega í Barðastrandarsýslu eða ræktunarvegar í Vestmannaeyjum eða annarra slíkra hluta.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hann gæti sætt sig við afgreiðslu fjárl. með því skilyrði, að ekki yrði farið með útgjöldin fram yfir hans till., m.ö.o. með því skilyrði, að ekki yrði farið fram yfir till. fjvn. í því efni. Ég vænti þess, að það verði þá haldið svo sterkri hendi utan um þetta mál hér á hæstv. Alþ., að engin, ekki ein einasta till. þar fram yfir verði samþ. við fjárl. En mér fannst bara hæstv. fjmrh., þrátt fyrir hans aðvaranir og myrksýni í þessum málum, gefa tauminn nokkuð lausan í ummælum sínum um þetta að öðru leyti. Og ef hæstv. ráðh. vill ekki halda þessari stefnu sinni og drepa allar till. aðrar til breyt. á fjárlagafrv. en brtt. fjvn., (HV: Ekki brtt. fyrir Barðastrandarsýslu.) þá virðist mér betra að segja sem svo: Álit fjvn. er enginn Salómonsdómur, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að það sé það, og við skulum athuga. hvort ekki er rétt að jafna eitthvað til brtt. fjvn. við fjárl. Ég get sætt mig við að taka upp umr. um, hvort ekki er rétt að jafna þannig til um till., og kemur þá til álita, hvort ekki er rétt fyrir hæstv. fjmrh. að óska eftir frestun þessarar umr. og að þessu öllu verði frestað, þar til hann hefur komizt að samkomulagi um þessi atriði. Það væri kannske það eðlilegasta. Svo sagði hæstv. ráðh., að annað skilyrðið væri samkomulag um haldgóða tekjustofna. Já, hvernig er um samkomulagið? — Nú eru t.d. greiddar 500–600 þús. kr. af útvarpstækjum, og ég held, að það mætti tvöfalda þetta, án þess að fólkið fyndi til þess. Ég held, að það gengi ekki inn í vísitöluna. Ég held, að hæstv. núverandi menntmrh. hafi gefið leyfi til þess, að stofnun, sem undir hann heyrir, ríkisútvarpið, sem hefur þarna tekjustofn upp á 600 þús. kr. og skuldar ríkissjóði 2 millj. kr., það skuli lána einu einkafyrirtæki kaupmanna hér í Reykjavík 500 þús. kr. til 10 ára. Ég leyfi mér að spyrja: Er þetta ábending um það, að ríkiskassinn sé tómur? Ég held ekki. Bréf um þetta lán er undirskrifað f.h. ráðh. af Birgi Thorlaciusi og einum fulltrúa, 13. marz s.l., og er um það, að ríkisútvarpið láni Silla og Valda 510 þús. kr. með 5% vöxtum. — Úr því að ég er neyddur til að verja mig og mína bjartsýni, þá er bezt, að það komi fram, hvernig bjartsýnin er hjá öðrum. Ég er ekki viss um, hvort hægt er að gera svona hluti, eins og að lána svona, nema með samþykki Alþ. Það ætti ekki að þurfa að vera neitt ósamkomulag um það á Alþ. að taka undan útvarpinu þá tekjustofna, sem lánaðir voru útvarpinu á þeim tíma, þegar útvarpið var í fjárþröng. Nú hefur útvarpið miklar tekjur og leggur mikið fé fyrir á hverju ári í útvarpshöll, sem á að byggja, og hefur borgað á sjötta hundrað þús. kr. fyrir teikningar að þessari höll, þó að ekki sé farið að leggja hornsteininn enn. Ég held því, að útvarpið hafi ekki þörf fyrir afnotagjald útvarpstækja lengur, heldur megi það renna í ríkissjóð. Og hvers vegna er ekki reynt að gera ráðstafanir út af Landssmiðjunni? Hún skuldar nú ríkissjóði rúml. 700 þús. kr., fyrir utan það, að hún hefur sótt daglega eða vikulega, að mér er sagt, peninga í ríkissjóð til þess að greiða með vinnulaun. Á sama tíma greiða önnur sams konar iðnfyrirtæki fleiri hundruð þús. kr. í ríkissjóð í opinberum gjöldum. Og hvers vegna má ekki minnast á þetta mál? Af því að form. stjórnar þessarar stofnunar var framsóknarmaður, Pálmi Loftsson! Hann hefur haft með höndum stjórn þessa fyrirtækis, síðan Vilhjálmur Þór skipaði hann ólöglega í þá stjórn, því að það eru engin fyrirmæli um að skipa þannig þá stjórn, eins og þá var gert. Og hvers vegna má ekki minnast á að gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að áframhaldandi verði 450 þús. kr. tap á ári á vöruuppskipun og útskipun í Reykjavik? — Það væri ekki óeðlilegt, þó að ríkiskassinn ætti erfitt uppdráttar, ef allir framsóknar-embættismenn hefðu gert svona vel sitt verk á undanförnum árum eins og Pálmi Loftsson. — Ég er svo bjartsýnn, að ég held, að það mætti laga svolítið rekstrarútkomu þessara fyrirtækja. Og ég er viss um, að það stríðir á móti eðli hæstv. menntmrh. (EystJ) að vera aðili að stjórn, þar sem hann veit um svona sukk eins og hjá þessum manni, þó að það sé ágætur flokksbróðir hans.

Þá var þriðja atriðið hjá hæstv. fjmrh., að hann talaði um að veita heimild til þess í heild að skera niður greiðslur úr ríkissjóði. Hvað á hún að vera víðtæk, þessi heimild? Ef það á að vera mögulegt að skera niður allar greiðslur á fjárl., hvaða vit er þá í því að vera að samþykkja fjárl. yfirleitt? Ég man eftir, að á síðustu fjárl. var sett inn nokkurn veginn svona ákvæði. að það mætti skera niður framlög til verklegra framkvæmda. En ég hef aldrei fyrr heyrt lagt til að samþykkja heimild til þess að skera niður greiðslur á fjárl. yfirleitt, því að sumt, sem samþ. er um útgjöld á fjárl., er ekki hægt að skera niður. Ég álít því, að það beri að fresta meðferð fjárl. til þess að athuga þessa stefnu hæstv. fjmrh. betur, nema hæstv. fjmrh. vilji gefa hér þá yfirlýsingu í kvöld, að hann tali eins og honum ber sem fjmrh., af því að honum beri skylda til þess að vera myrksýnn, og þá horfir málið öðruvísi við. Og ef fyrirvari hæstv. fjmrh. er af þessari síðast nefndu ástæðu, þá skoða ég hann í allt öðru ljósi. En sé þessi fyrirvari meining hæstv. fjmrh., þá held ég því fram, að fjvn. hafi miklu meiri bjartsýni og miklu meiri stórhug, en ríkisstj. hefur.

Þá skal ég koma nokkru meir inn á ræðu hv. þm. Borgf. Hann hefur nú flúið úr fundarsalnum undan væntanlegum svörum. Það var einu sinni búið að reka ofan í hann hér allar þær fullyrðingar (HV: Hann hefur þá líklega ekki farið upp á Akranes?) Nei, ég hef heyrt, að hann sé við störf í Búnaðarfélagi Íslands, sem lagt er til í brtt. fjvn., að styrkur verði hækkaður til um 200 þús. kr. Hv. þm. Borgf. taldi það óeðlilegt, að ég, sem væri frsm. fjvn., blandaði mínum sérskoðunum inn í framsöguræðu mína um fjárl. Ég vil taka það fram, eins og hv. 1. þm. Rang. og hv. 2. þm. Reykv. geta borið um, að þegar ég skrifaði undir álit fjvn. — en strikuð höfðu verið út ýmis ákvæði, til þess að ná samkomulagi um að skila nál. frá óklofinni n. — þá lýsti ég yfir í fjvn., að ég teldi mig óbundinn, þannig að ég mætti ræða málið frá mínu sjónarmiði. Hv. meðnm. mínum í fjvn. kom því ekki á óvart, að ég lét mínar persónulegu skoðanir í ljós, um ýmsa hluti í minni framsöguræðu. Og ég tók einmitt fram í þeirri ræðu, að hvert orð, sem ég segði í minni ræðu, sem færi eitthvað út fyrir það, sem sagt er í nál. frá fjvn., talaði ég á mína eigin ábyrgð, en ekki fyrir hönd n. Hvað er svo við mig að sakast fyrir þessi orð? Ég hef ekki sagt þau fyrir hönd n. Mér datt t.d. aldrei í hug, að hv. þm. Borgf. mundi vilja fallast á að skrifa undir nokkurt hrós um fyrrv. hæstv. ríkisstj. (HelgJ: Það er ekki hægt.) En að hv. meðnm. mínir í fjvn. væru svo starblindir að álita, að ég mætti ekki fara viðurkenningarorðum um hana með þeim fyrirvara, að það væru aðeins mín orð, en ekki sagt fyrir hönd fjvn., það kom mér heldur ekki í hug. Ég sagði, að fjvn. væri stórhuga og ég héldi, að þessi stórhugur fjvn. byggðist á framkvæmdum fyrrv. hæstv. ríkisstj., og af því stafaði þessi reiðilestur hv. þm. En mér dettur ekki í hug að halda, að þessir menn séu svo ábyrgðarlausir að skila undirrituðu nál., þar sem lagt er til, að fjárl. með um 200 millj. kr. gjöldum verði samþ., ef þeir halda ekki, að það sé óhætt, heldur séu þeir með því að hjálpa til við að koma ríkissjóði út í fen. Hvaða ábyrgð væri það? — Þessir menn hafa skuldbundið sig til þess að skila fjári. hallalausum, og þeir hljóta þá að taka á sig þá ábyrgð að leggja á þjóðina nýja skatta, því að annars verða þeir að svíkja sína eigin þjóð, sem þeir elska svo heitt og vilja styðja. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa hvað eftir annað viðurkennt, að það sé alveg öruggt og vist, að þessar tekjur fáist, sem þarf til þess, að fjárl. verði hallalaus, ef atvinna og þjóðarhagur verður eftir því, sem nú er útlit fyrir, á þessu ári. Þessir menn vilja bara ekki á þessu stigi málsins láta það koma fram, af því að þá halda þeir, að þjóðin muni ekki þakka þeim, heldur öðrum, sem þeir elska ekki eins mikið. Þess vegna eru allar þessar umr. hér á Alþ. Og svo sýndi það sig bezt, hvernig þetta ruglast allt í heila hv. þm. Borgf., jafngreindur maður og hann er, er hann var að tala hér um rekstrarhalla á sjóðsyfirliti og blandaði öllu saman, því að vitanlega er rekstrarhallinn á rekstraryfirlitinu, en greiðslujöfnuður á sjóósyfirlitinu. Og þessa vitleysu endurtók hann hvað eftir annað. Hér er um hreina framsóknaraðferð að ræða, að segja sömu vitleysuna svo oft, að maður sé loks farinn að trúa henni sjálfur.

Já, og svo sagði hv. þm. Borgf., að það væri engin trygging fyrir afkomu þessa árs, þótt allar tekjurnar nægðu til þess að greiða rekstrarútgjöldin, þær þyrftu einnig að nægja til að greiða allt út af 20. gr. Ég skil þetta ekki. Ef Alþ. ætlar ekki að leggja í neinar verklegar framkvæmdir, t.d. kaup á vitaskipi, ef það hefur sett sér að gera ekkert nema í gróðaskyni, þá get ég vel skilið, að hv. þm. Borgf. geti ekki sofið á hverri nóttu. En það er ekki nóg, að hv. þm. Borgf. blandi saman greiðslujöfnuði og rekstrarhalla, heldur bætir hann við rekstrarhallann því fé, sem ríkið vill nota til uppbyggingar atvinnufyrirtækjum, sem ýmist gefa tekjur eða standa alveg undir sér, m.a. standa 25 milljónir af slíku fé sem rekstrarhagnaður á reikningi síðasta árs, af því að búið var að lána þetta til manna, sem standa í ýmsum framkvæmdum, m.a. skipakaupum. Þannig eru nú rökin.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði farið rangt með eina tölu, ég hefði sagt að rekstrarhagnaður 1945 hefði verið 14 milljónir, en hann hefði verið 22. Ég sagði aldrei, að hann hefði verið 14 milljónir. Ég sagði, að tekjur og gjöld hefðu farið fram úr áætlun og að rekstrarhagnaðurinn 1945 hefði orðið 14 milljónum króna meiri en gert var ráð fyrir. Það var gert ráð fyrir, að hann yrði 8 milljónir, en hann varð 22 milljónir. Og þegar reynt er að afbaka jafneinfalt atriði og þetta, þá er ekki að furða, þótt mönnum verði hált á flóknari viðskiptalegum verkefnum.

Þá hélt hv. þm. Borgf. því fram, að ríkisstj. gæti ekki verið hvetjandi nú. Ég veit ekki betur, en hæstv. menntmrh. væri nokkuð hvetjandi í fjvn., og hann vitnaði hér, eins og kristilegum þegn sómdi, á móti hv. þm. Borgf., varðandi það, sem undir hans ráðuneyti heyrir, svo að ekki getur þetta átt við hann. Og mér fannst hæstv. landbrh. vera hvetjandi um stærri átök, t.d. varðandi virkjun gufu og raforku, og eini ráðh., sem þetta á þá við, er hæstv. fjmrh., en ég hygg, að ekki verði á móti því mælt, að ríkisstj. hefur til þessa verið hvetjandi, og ég tel það meginatriði, að hún sé það á hverjum tíma, því að ef svo er ekki, næst ekki allt út úr hverjum einstakling, sem hann getur áorkað fyrir þjóðfélagið.

Ég las það í Tímanum nýlega, að sem betur færi hefðu engir milljónamæringar verið hér á landi, fyrr en nú. Þetta er hvorki óeðlilegur né óvenjulegur hungurtónn úr herbúðum þeirra manna, sem varla geta hugsað sér, að nokkur maður hafi almennilega ofan í sig að éta, eða telja það þjóðarböl, ef einhver á eitthvað. Eins og allir vita, eru tekin til ríkisþarfa 90% af tekjum, sem eru fram yfir 200 þús. kr., og geta þeir þá reiknað út, sem vilja, hve mikið sá er búinn að greiða í ríkissjóð, sem á orðið eina milljón. Hv. þm. Borgf. spurði, hvort ríkisstj. mundi geta fengið lán, ef á þyrfti að halda, og hefur hæstv. fjmrh. lýst því, hvernig viðhorfið er í því efni, svo að ég fer ekki að blanda mér í það að neinu ráði. En þegar hv. þm. Borgf. er að býsnast yfir þeim glæfraskap eða bjartsýni að leyfa ríkinu að taka og ábyrgjast öll þau lán, sem hæstv. fjmrh. hefur nú gefið upplýsingar um, þá held ég, að hæstv. ráðh. hafi veitt samþykki sitt til þeirra lána á sínum tíma, og ekki mun hv. þm. Borgf. hafa verið á móti þeim öllum. Ég held, að hann hafi vel þegið stórar ábyrgðir fyrir Andakílsárvirkjunina, sem ekki eru kannske alveg áhættulausar fyrir ríkið. Ég hef ekki séð, að hann hafi skyrpt á móti þessum ríkisábyrgðum. En sem svar við spurningu hans um lánstraust ríkisins, þá tel ég það velta á miklu, hvaða traust ríkisstj. skapar sér meðal almennings. Ef hún kemur því inn hjá fólki, eða fylgismenn hennar, að allt sé að fara norður og niður og í kaldakol í fjármálum landsins, hvernig er þá hægt að búast við, að nokkur vilji lána ríkinu? Væri ég forstjóri lánsstofnunar, sem beðin hefði verið að lána íslenzka ríkinu, og væri ég búinn að hlýða á ræður þeirra hæstv. fjmrh. og hv. þm. Borgf. eða slíkra ábyrgra manna, þá er ég hræddur um, að ég vildi fá duglega uppáskrift á víxilinn, áður en ég keypti hann. Sannleikurinn er sá, að lánstraust er hægt að eyðileggja með svona umræðum, og það er ekki vel gert, svo erfið sem glíman við lánsstofnanirnar nú er, að vera að kynda þá elda og skapa vantraust gagnvart ríkisstj., eins og hv. þm. Borgf. gerði í sinni ræðu. Ég gæti t.d. trúað, að lýsing hans á hinni fyrirhuguðu eignakönnun stuðlaði ekki beint að því, að menn hlypu af stað með peninga sína í bankann, ef þeir tækju nokkuð tillit til orða þessa þm., sem ekki virðist síður vera stuðningsmaður ríkisstj. en ég. Skyldi þessi ræða hv. þm. Borgf. ekki verða til þess, að það fólk, sem nú sefur með peninga sína undir koddanum, þyrpist með þá í Landsbankann á mánudagsmorguninn.

Þá sagðist hv. þm. Borgf. ekkert draga í land af fullyrðingum sínum um það, að ríkisstj. og Alþ. væru í nauðvörn með afgreiðslu fjárl., og hæstv. fjmrh. undirstrikaði það með sinni ræðu. Ég skal nú nokkuð fara út í það. Hvaða nauðung knúði okkur til að samþykkja 100 þús. kr. hækkun til byggingar fjórðungssjúkrahúss á Akureyri? Ég heyri, að hv. 1. þm. Rang. segir, að það hafi verið þörfin. Já, það er alveg rétt, þörfin var fyrir hendi, og við trúðum því, að þetta framlag mundi margborga sig í bættu heilsufari og öryggi fólksins, og því samþykktum við þessa hækkun með glöðu geði. En það var enginn. sem píndi það út úr okkur, það var hreint ekki um neina nauðung að ræða. Sannleikurinn er sá, að Akureyringar hafa, m.a. fyrir viturlegar aðgerðir fyrrv. ríkisstj.. sjálfir safnað fyrir fram miklu fé til þessa sjúkrahúss, sem mun kosta 5 milljónir og þeir ætla að reka sjálfir.

Þá kem ég inn á 13. gr. Hvaða nauður rak fjvn. til að veita 7 milljónir króna til vega? Aftur er það þörf landsmanna. Nákvæmlega hið sama er um brýrnar að segja, framlag til þeirra var hækkað um eina milljón. Þar var það aftur þörfin, en engin nauðung, sem fjvn. tók tillit til. En þrátt fyrir barlóm sinn um hækkun gjaldanna veit ég ekki betur, en hv. 1. þm. Rang. ætli að flytja brtt. um nýtt tveggja milljóna kr. framlag til brúar á Þjórsá, af því að hún er nálægt hans kjördæmi. En ég veit ekki betur, en sú stefna hafi ríkt að undanförnu að treysta vegi og brýr á Suðurlandi meir og meir fyrir allt frá 3 upp í 12 tonna bíla, þótt ekki hafi farið með völdin afturhaldsstjórn, sem þessir þm. fylgja meira í anda og sannleika, en núverandi ríkisstj. Og hvaða nauður rak svo til að byggja fjós á Hvanneyri? Það eru hundrað þús. kr. þar. Já, framsóknarkúnum var svo kalt, að það þurfti að veita 100 þús. kr. til fjóssins. Þá var kassinn ekki tómur. Og hv. þm. Borgf. knúði þetta fram, eftir að búið var að ganga frá þessum málum, er hann fann út, að kúnum hlýtt að vera svo kalt. Eða þá styrkur til byggingar barnaskóla, sem hækkaður var í 41/2 milljón króna úr 2 milljónum. En fjvn. gerði þetta í fullu trausti og með gleði, að beiðni hæstv. menntmrh. og annarra, er að þessum málum vinna, að hækka þetta. Sama er að segja um 700 þús. kr. hækkun til byggingar húsmæðraskóla. N. gat þurrkað þá upphæð alveg út, ef hún vildi, og það var skylda hennar að gera það, ef hún hefði ekki haft trú á, að hægt væri að leggja fram féð, því að hún væri að blekkja menn, sem vinna að undirbúningi framkvæmda, sem fé er veitt til, ef ekkert fé væri svo til og því væri lýst yfir í öðru orðinu. Ég vildi ekki vera þátttakandi í svo ljótum leik.

Þá er framlag til íþróttasjóðs hækkað um 300 þús. kr. Hvaða nauður rak til þess? Ekki hefði nú verið hætt við allar íþróttir, þótt þessari upphæð hefði ekki verið bætt við 700 þús. kr. í eitt ár. Nei, þetta var gert í fullri bjartsýni, en ekki af neinni nauðung, það var ekki einu sinni kosningaundirbúningur fyrir dyrum.

Eða þá fjárveiting til þátttöku Íslands í Ólympíuleikunum, hún er síður en svo alveg bráðnauðsynleg. En n. mætti hér með skilningi ósk frá mönnum, sem langar til að auglýsa landið, en glansinn færi af þessu, ef í því skyni þyrfti að kreista síðustu blóðdropana undan nöglum þjóðarinnar.

Eða þakið á Hólakirkju. 88 þús. kr. hækkun til þess. Ekki hleypur kirkjan af stað, hún hefur staðið þarna síðan á 18. öld. En hv. þm. Borgf. var fyrstur upp með hendina með þessari hækkun, og hann vildi m.a.s. samþykkja að láta byggja kór líka. Hann var sannarlega ekki að skoða í kassann þá.

Og svo eru það nú tuttugu og fimm þúsundirnar til Jóns míns Dúasonar, og ég gæti trúað, að það hefði ekki legið lítil nauðung eða nauðvörn til grundvallar því að taka þessa upphæð inn. Og ég vil nú spyrja hv. 1. þm. Rang.: Getur hann leyft sér að greiða atkv. með þessari fjárveitingu með öðru móti, en því, að éta þar með ofan í sig allt, sem hann hefur sagt í þessu sambandi? því ef hann greiðir atkv. með þessu, er hann þar með að bæta steini (að vísu litlum) í hleðslu þeirrar fjármálaskútu, sem að hans eigin dómi er marandi í hálfu kafi og alveg komin að því að sökkva, og þá þarf ekki stóran stein til að sökkva henni með öllu.

Eða þá rímur Guðmundar Bergþórssonar, þar eru 20 þús. kr., nýr liður. Það er ekki lítil nauðsyn. sem ber til slíks, en um það var slegin skjaldborg.

Eða 800 þúsund til búnaðarfélagsins. Þar var ekki um neina nauðung að ræða, heldur aðeins fullan skilning á starfi þess, en ég hefði ekki samþ. þá fjárveitingu, ef ég væri ekki þeirrar skoðunar. sem ég hef lýst. En ég þarf ekki að ræða um það, hver rétti fyrstur upp höndina með þessu.

Þá eru það fyrirhleðslur Markarfljóts og Þverár, framlag til þeirra framkvæmda var hækkað um 100 þús. kr., úr 200 í 300 þús. Kannske hv. 1. þm. Rang. hafi ekki verið á móti þessari fjárveitingu? Kannske hann hafi heldur viljað láta þjóðarskútuna sökkva, en Markarfljót renna út úr farvegi sínum, þó að það hafi nú runnið, áður en hann kom þarna austur.

Og svo eru fleiri fyrirhleðslur, t.d. Jökulsá í Lóni, 150 þús. kr., og ég hef fyrir satt, að þeir yfirbjartsýnu í n. hafi ekki verið þar að verki, heldur hafi þetta verið sett inn af hinum kolsvörtu afturhaldsmönnum, sem þó tala mest um, að allt sé að sökkva. Þá eru auk þess fyrirhleðslur: 50 þús. kr. til Kaldaklifsár undir Eyjafjöllum og 12 þús. kr. til Hólmsár á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. sem ekki voru í frv. Það getur verið, að hinir stórhuga í n. hafi barizt fyrir þessari hækkun, en vist er, að ekki hefði mitt atkv. dugað til að samþykkja þetta, aðrir hafa áreiðanlega orðið að rétta upp höndina með.

Eða þá 50 þús. kr. styrkurinn til búvélaverkstæðis, sem sóttur var sem fastast, og þetta verkstæði er byggt upp úr gömlum bragga. Ég ætla ekki að reyna að lýsa þeim slag, sem stóð um þetta, og sannarlega gætti ekki afturhaldssemi hjá þeim, sem vildu kasta 150 þús. kr. í það fyrirtæki.

Þá er nýr liður, ein milljón áætluð til nýrra raforkuframkvæmda. Það er að vísu lítið, en enginn hefði lagt þetta til, ef ekkert væri í kassanum, jafnvel þótt eitthvað af þessu fé fari til að lýsa upp Hvolhreppinn.

Eða 200 þús. kr. hækkun á byggingarstyrk til Sambands íslenzkra berklasjúklinga. Engin lög mæla fyrir um þá hækkun úr 400 þús. í 600 þús. Fjvn. þótti sjálfsagt að hækka þetta, enda þótt gjafir til þessarar stofnunar hafi notið skattfrelsis með sérstökum l. N. vildi reyna að stuðla að því að hjálpa heilsu þessara manna, og mætti heita, að þar hefði verið um nauðvörn að ræða.

Þá hefur verið talað um 1.650 þús. kr., sem veittar eru til kaupa á dýpkunarskipi, en ég vil aðeins segja það um þá framkvæmd, að ég vildi gjarnan eiga þetta skip, það er hlutur, sem áreiðanlega borgar sig.

En ekki má gleyma milljóninni til prestsseturshúsanna og hvernig það er allt til komið. Varðandi þá einu fjárveitingu má segja, að um nauðvörn hafi verið að ræða, því að fyrir fjvn. lá bréf frá kirkjumrh., þar sem hann tjáir n., að búið sé að lofa allri þessari upphæð fyrir fram og hana verði ríkið að greiða, hvort sem fjvn. segði já eða nei. Þarna má því ef til vill segja, að um nauðung hafi verið að ræða, úr því að fjvn. hafði þá ekki manndóm í sér til að segja nei. En það er ekki rétt að ráðast á mig fyrir það, ég mun ekki hafa orðið fyrstur til að gefa eftir í því máli.

Þá vil ég leyfa mér að benda á það hér, hvort það lýsir virkilega þeim hugsunarhætti, sem er hjá hv. þm. Borgf., sem kom nú fram hjá honum í gær og áður við þessar umr., að hann var fylgismaður þess í sjútvn. Nd. að flytja frv. um það að krefjast þess, að ríkissjóður legði milljónir í að byggja verbúðir fyrir á þessu ári, þó að það sé ákveðið í hafnarl., að ríkissjóður greiði 40% og allt að 50 % í styrk til slíkra bygginga samkv. hafnarl. Og snemma á þessu þingi var flutt frv. um, að ríkissjóður hlypi þá strax í að byggja verbúðir á Akranesi fyrir sjómenn. Hv. þm. Borgf. var ekki svartsýnn þá. Þetta frv. var sent til hv. Ed., og hún bjargaði málinu og forðaði Alþ. frá því frumhlaupi. Ég held, að það væri hollt fyrir hv. þm. Borgf. að athuga það, þegar hann er á ferðinni með till. um framlög fyrir sitt kjördæmi, að reyna að sjá til þess að bjarga hæstv. Alþ. frá því að fara út í fen eyðslu og ráðleysis, ef hann er svo svartsýnn á ástandið í fjármálunum eins og hann lætur. Ég hafði ekki orðið var við það svartsýnis-kolniðamyrkur hjá þessum hv. þm., meðan ég starfaði með honum í fjvn., sem komið hefur fram í orðum hans við þessa umr. um fjárl. Ef frv. hv. þm. Borgf. næðu öll fram að ganga, mundu útgjöld þeirra vegna nema mörgum millj. kr. En ég skal ekki segja, nema hv. Ed. geti stöðvað þau

til þess að koma í veg fyrir allt of mikla eyðslu, sem hv. þm. Borgf. er svo áhyggjufullur út af, eftir orðum hans að dæma. Hér er einnig á ferð þáltill. frá þessum hv. þm, um, að endurgreitt verði aðflutningsgjald af bátum allt síðan 1945, sem mundi muna ríkissjóð talsvert á aðra millj. kr. Og fleiri till. liggja fyrir frá honum í sömu átt, hvað hag ríkissjóðs snertir. Nú hefur hv. þm. Borgf. aflað sér þess trausts hjá þjóðinni, að hann sé langsparsamasti maðurinn, sem á Alþ. situr, og er búinn að hafa þetta traust um mörg ár. En hvernig verður sá maður tekinn alvarlega, sem undirskrifar án fyrirvara álit fjvn. um 200 millj. kr. útgjöld annars vegar og á hins vegar slíkar till. í þinginu, sem ég hef getíð, þó að hann komi svo og lýsi yfir því hér með þriggja til fjögurra klst. ræðum samanlagt, að það sé allt saman tóm vitleysa í raun og veru, sem hann hefur sagt með sinni undirskrift undir útgjöld fjárl. og flutningi sinna till., það sé ómögulegt að greiða neitt af þessu? M.a. mála, sem hv. þm. Borgf. hefur barizt fyrir sitt kjördæmi, þá veit ég ekki betur en að hann hafi sótt það mjög fast — ekki í fjvn., hann var sanngjarn þar —, en við samgmrh. að tryggja sér góðan skerf af fé úr hafnarbótasjóði fyrir Akranes. En hvers vegna? Vegna þess, að Akranes hefur sýnt þann stórhug og þá víðsýni að byggja höfn, sem kostar milljónir kr., og gera aðrar framkvæmdir í trausti þess, að nýsköpunin bregðist ekki. Og sjálfsagt vill hv. þm. Borgf. fá eitthvað fé úr ríkissjóði á móti þessu — úr hinum „stóra, botnlausa kassa“. — Ég hygg, að þessi dæmi nægi til þess að sýna, að hv. þm. Borgf. álíti ekki, að ástandið sé eins ískyggilegt og hann talar um, heldur sé ástæðan hitt, að hann þoldi ekki, að það væri sagt satt um það, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafði vel gert, af því hann var ekki stuðningsmaður hennar, með því, sem hún vann að nýsköpun atvinnuveganna í landinu. Og út af því var allur reiðilesturinn og þyturinn í hv. þm. Borgf. hér við þessa umr.Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði haldið því fram, að hann og hv. 1. þm. Rang. hefðu verið komnir í sjálfheldu, þegar þeir hefðu gengið inn á tekjuáætlunina, sem þeir hefðu talið of háa. Ég hef aldrei haldið þessu fram. Samþykki þessara tveggja hv. þm. viðkomandi tekjuáætluninni kom til af því, að þeir trúðu því, að hún ekki aðeins stæðist, heldur yrði afkoman í því efni miklu betri, en áætlunin gerir ráð fyrir. En það er annað, sem þeir hafa gert samning um og lýst yfir, að þeir skyldu vera með í því að skila tekjuhallalausum fjárl. Ef þeir ekki vilja áætla tekjurnar sanngjarnlega, þá er þeim nauðsynlegt að vera með í að leggja nýja skatta á þjóðina. Og þá er bezt, að þjóðin fái að vita, að það vilja ekki aðeins þeir menn, sem telja varlega áætlaðar tekjurnar, heldur einnig hinir, sem telja tekjuáætlunina of háa. Þessir hv. þm. verða annaðhvort að lækka gjaldatill. sínar eða koma hreinskilnislega til þjóðarinnar — ef þeir álíta tekjuáætlunina óvarlega — og segja við þjóðina, að þeir verði að pína út úr henni mikla aukna skatta, eða í þriðja lagi verða þeir að ganga hreinlega frá sínum loforðum við þjóðina um að skila tekjuhallalausum fjárl. Það er þessi sjálfhelda, sem þeir eru komnir í, og engin önnur.

Þá sagði hv. þm., að þegar áróðursvíman væri runnin af mér, þá sæi ég, að það væri betra að kasta ekki varúðarráðstöfunum fyrir borð. Ég segi fyrir mína parta, að ég þykist ekki hafa haldið uppi neinum áróðri. Ég þori vel að leggja mína framsöguræðu fyrir dóm hvers sem er, þegar hún liggur fyrir prentuð. Í henni er ekki áróður, heldur skýrt frá staðreyndum, og hefur ekki verið gerð tilraun til að hrekja þá ræðu. Þær staðreyndir hafa verið staðfestar hvað eftir annað, m.a. af hv. þm. Borgf., sem hvað eftir annað hefur gert það með því að viðurkenna, að þær tölur, sem ég fór með, væru sannar. Enda voru þær teknar frá góðum heimildum. Ég hef því ekki rekið hér neinn áróður. En það er hv. þm. Borgf., sem hér hefur tekið upp sterkan áróður gegn þeirri ríkisstj., sem hann vildi ekki styðja. og með stjórn, sem við styðjum báðir. Og ég er ekki viss um, hvort ég styð nokkru verr þá hæstv. ráðh., sem komu inn í núverandi ríkisstj., en ekki voru í fyrrv. hæstv. ríkisstj., heldur en þá, sem fóru. Hv. alþm. minnast þess kannske, að ég hef engu síður átt í glímu við þá og þeirra flokka á sínum tíma, sem fóru, heldur en þá, sem komu. Og hv. 1. þm. Rang. veit vei, hvað í því sambandi hefur gerzt í fjvn. á s.l. tveimur árum.

Ég skal svo svara nokkru hv. 1. þm. Rang., þó að mikið af því, sem ég sagði gagnvart ræðu hv. þm. Borgf., ætti einnig við hv. 1. þm. Rang. Þessi hv. þm. sagði, að það hefði farið að minnka á mér risið, þegar komið var fram yfir lágnættið, einhvern tíma við þessar umr. móts við það, sem hefði verið um hádegi einhvers dags, og var að tala um, að allir sjóðir væru upp étnir. Ég veit ekki, hvað er að éta upp í þessu sambandi (HelgJ: Að tæma kassann.) Ég veit ekki til þess, að það hafi hingað til verið kallað að éta upp fé ríkissjóðs, þó að borgaðar hafi verið skuldir og lagt hafi verið fé í arðbær fyrirtæki, sem margar milljónir kr. hafa nú farið til úr ríkissjóði. — Svo fór hv. 1. þm. Rang. að vara hv. þm. við því að samþykkja nú mikið af brtt. hér við fjárl. (HelgJ: Nema frá fjvn.) Ég hef ekki lagt til, að nein brtt. verði samþ. fram yfir þær brtt.. sem fram koma frá fjvn.

Þá vil ég aðeins svara nokkrum fyrirspurnum, sem gerðar hafa verið til mín. Till. hv. þm. S–Þ. um greiðslu til Geirs Sigurðssonar mun verða tekin til athugunar í fjvn. En erindi hefur ekki komið til n. enn um þá greiðslu, og hefur fjvn. því ekki tekið afstöðu til málsins. Sama er að segja um þáltill. sama hv. þm. viðkomandi Grenivík. Ég sá ekki ástæðu til þess, úr því að hv. þm. vildi hafa þann hátt á að bera fram þáltill. um þetta, að taka það inn á brtt. n. Það er þá bezt, að hann biði eftir því, hvað fjvnm. segja um það atriði. Sama er að segja um till. um grafhellur og um fé til ferðalaga fyrir forstöðumenn ríkisstofnana og a. n. l. um brtt. varðandi menntaskóla. Ég sé ekki ástæðu til, að fjvn. taki þessi mál sérstaklega til athugunar gagnvart þessari umr., eins og þær till. ber hér að, sem brtt. við fjárlagafrv.

Hv. 3. landsk. (HV) vil ég segja það, að ég hygg, að það gæti nokkuð mikils misskilnings hjá honum út af þessu fé, sem unnið hefur verið fyrir í vegagerð á síðasta ári í Norður-Ísafjarðarsýslu og hann hefur talað um. Hann talaði um, að það væri ekki fé ríkissjóðs. Vitanlega er það ekkert annað, en fé ríkissjóðs. Það er fé, sem ákveðnir menn hafa lánað ríkissjóði, til þess að gera þessar ákveðnu framkvæmdir. Þessir menn eiga ekki að gera þessar framkvæmdir, heldur ríkissjóður. Og till. fjvn. um vegaframlög taka ekki til þeirra greiðslna, sem þannig utan við fjárl. hafa verið greiddar af hálfu ríkissjóðs, hvar sem er á landinu, vegna þess að það var ákveðið af fjvn., að þeir menn, sem þannig hefðu tekið fé til vegaframkvæmda, um 2 millj., úr ríkissjóði, skyldu sjálfir bera ábyrgð á því og fá að glíma við sínar gerðir í þeim málum. Fjvn. vill ekki skipta sér neitt af þeim greiðslum, en mótmælir því harðlega að hafa þann hátt á um greiðslur á fé til vegaframkvæmda. Og vegamálastjóri og samgmrh. hafa tekið 948 þús. kr. af vegafénu á s.l. ári og fært það til á milli héraða. Ég veit ekki, hvaðan þeir hafa tekið aukaframlag í Bolungavikurveginn. Kannske úr Rangárvallasýslu eða Oddsskarði. Ég veit það ekki, en frá einhverri fjárveitingu hafa þeir tekið það, því að því hefur verið lýst yfir af vegamálastjóra og hæstv. samgmrh., að vegafé væri ekki geymt frá fjárveitingum þess árs. (HV: Það kemur á aukafjárlög.) Og fjvn. mun ekki taka upp þessa upphæð, ekki undir neinum kringumstæðum. Það er því óþarfi fyrir hv. þm. að taka aftur þessa brtt. til 3. umr., því að ég veit, að ef fjvn. færi að raska því, sem hún nú leggur til viðkomandi vegamálum, mundi það skapa alls konar erfiðleika út af því, sem búið er að ákveða í sambandi við vegamálin.

Ég hafði aldrei sagt, að það væri álit fjvn., að ekki væri rétt að veita tvívegis fé til sömu bryggju. Ég sagði, að það væri mjög mikið vafamál — minntist ekkert á, hvað fjvn. segði —, hvort það væri ekki á móti anda hafnarl. Og það er allt annað atriði. Svo talaði hv. 3. landsk. um, að það „væri þokkaleg tillaga frá skólastjóra stýrimannaskólans“ að vilja ekki mæla með því, að 125 þús. kr. verði veittar til byggingar sjómannaskóla á Ísafirði. Það er náttúrlega mál, sem þessir tveir menn geta rætt um. En ég vil leyfa mér að benda hv. 3. landsk. þm. á það, að ég teldi eðlilegast, til þess að tryggja greiðslu í framtíðinni til þessa máls, að bera fyrst fram frv. um það, að það skuli stofna sjómannaskóla á Ísafirði. Það stendur aðeins í l., ef ég man rétt, að þar skuli fara fram námskeið í þessum fræðum, og sama gildir um fleiri staði annars staðar á landinu. Nú er það ekki sama og að reisa skóla fyrir um 700 þús. kr. á hverjum þessara staða (HV: Námskeiðin þurfa að vera undir þaki.) Það er mikið annað mál, hvort á að sjá fyrir þaki yfir námskeið, sem á að standa í 3–4 vikur. eða það á að byggja sjómannaskóla. Og mega þessi ummæli mín ekki takast þannig, að ég sé því mótmæltur, að sjómannaskóli verði reistur á Ísafirði. Síður en svo. En eftir því, hvernig löggjöfin er sniðin, er ekki ætlazt til þess, að settir verði upp héraðssjómannaskólar um landið fyrst um sinn. Það gerir ekki til, þó að þetta sé rætt, en ef það á að fást fram, hygg ég, að þurfi að bera fram frv. um það.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. N–M. gerði fyrirspurn um skiptingu á fé til dýralækna, þá skal ég ræða um þetta atriði við fjvn., hvort hún vill t.d. ganga frá þessari skiptingu á fénu nú, áður en hún lýkur störfum, og þá láta bóka það í fundagerðabók sína. Ég teldi það ekki á nokkurn hátt óeðlilegt, en sé hins vegar ekki ástæðu til þess að setja ákvæði inn í fjárl. um skiptingu á þessum fáu krónum. Sama er að segja um styrkinn til ferjuhalds. Ég tel rétt að fá till. frá vegamálastjóra um það, hvernig þessu skuli skipt. og ræða um það við fjvn., hvort hún vill færa það inn í gerðabók, þannig að þar séu a.m.k. gögn til, sem menn geti gengið að, um það, hvað skuli fara í hvert hérað af þessu fé. — En á þessum lið, sem hv. 1. þm. N–M. gerði að umtalsefni, er beinn byggingarstyrkur til Fornahvamms 200 þús. kr., og er til athugunar, hvort ekki á að taka þessa greiðslu upp á 20. gr., því að þar er um eignahreyfingu að ræða, þó að þetta hafi verið sett á rekstrarreikning. Hins vegar vil ég upplýsa, að einstakir aðrir staðir hafa fengið nokkurt tillag úr þeim sjóði, sem kemur af sérleyfisgjöldum af bifreiðum, sem hefur verið skipt af vegamálastjóra og póst- og símamálastjóra sameiginlega, eftir því sem þörf hefur verið fyrir.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um Hvalfjarðarferjuna. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég hef þegar sagt hér um það mál. Það liggja gögn fyrir um það frá vegamálastjóra, að þessi hluti vegarins þarna, sem unnið hefur verið fyrir, sé í þjóðvegatölu. En í sambandi við það, að hann ávítaði fjvn. fyrir að hafa átt þátt í, að þessu fé var þannig varið á síðasta ári, vil ég taka fram, að ég átti engan þátt í því. Ég var ekki á því undirskriftarskjali, sem afhent var ráðh., og ber þar af leiðandi enga ábyrgð á því skjali, en hins vegar fulla ábyrgð á þeirri upphæð, sem tekin var inn í fjárl. til þessa samkv. ósk n. — En mér sýnist fyrir það jafnathyglisvert, þegar tekið er fé utan við fjárl. til ýmissa framkvæmda, m.a. 2 millj. kr. til vegagerða og í ýmsar aðrar greiðslur. Og tel ég rétt að vita það. En fjvn. á enga sök á því. — Ég hygg, að það sé misskilningur, að Akraneskaupstaður ætli sér að reka þessar ferjur. En það var sett að skilyrði af fyrrv. hæstv. fjmrh. fyrir fjárgreiðslunni í lendingarbætur þarna, að hún yrði framkvæmd eftir l., sem um það giltu fyrir Akraneskaupstað. En mér skilst, að Akraneskaupstaður hafi þverneitað að koma þarna á móti með sinni þátttöku. Hvernig leystist úr því máli eða leysist, veit ég ekki. Það er mál milli fyrrv. hæstv. ráðh. og Akraneskaupstaðar.

Mér virtist hv. 2. þm. S–M. hafa misskilið atriði í því máli, sem hann gerði að umtalsefni. Hann sagði, að ég hefði hallað á minningu Sigurðar heitins Thorlaciusar skólastjóra. Það er ekki rétt. Ég hef ekkert farið út í það atriði, nema byggt á þeirri skýringu, sem kom fram í þessu sambandi, um, að það verði að vinna verkið allt upp aftur. Hvaða skilning hann leggur í það, hv. 2. þm. S.-M., veit ég ekki. Ég veit ekki, hvaða skilning barnakennarar leggja almennt í skrifað mál. En við í fjvn. lögðum þann skilning í þetta, að það þyrfti að vinna allt verkið upp aftur. — En ég vildi sættast á það við hæstv. menntmrh., að hann athugi það og geri viðeigandi framkvæmdir í því — úr því að Sigurður heitinn Thorlacius skólastjóri var þessi afburða maður í þessum efnum, er að gáfnaprófum laut, og það gat samrýmzt þessu hans starfi, að hann væri skólastjóri einnig —, að Matthías Jónasson verði nú settur skólastjóri við þennan barnaskóla, svo að hann af ást til þessarar starfsemi gæti unnið að þessu með skólastjórastörfunum, eins og Sigurður heitinn gerði, og að hv. 2. þm. S-M. af sömu ást á þessu gáfnaprófsstarfi víki á meðan úr skólastjórastöðunni. Þetta gæti verið mál á milli þessara hv. þm., ef hv. 2. þm. S-M. hefur eins mikla tilhneigingu til að bjarga þessari starfsemi frá því að falla niður og kom fram í ræðu hans. Hann sagði, að þetta mundi ekki taka nema tvö til þrjú ár, og kannske mætti finna eitthvert starf handa hv. 2. þm. S-M. á meðan, sem nú er skólastjóri Austurbæjarskólans, úr því að þetta tvennt sameinast svona ágætlega vel, að vera þar skólastjóri og starfa að þessu verki, sem Matthías Jónasson hyggst að vinna í þessu efni.

Ég held, að það hafi ekki verið annað af aths., sem gerðar voru hér, sem ég þarf að svara. Leyfi ég mér að láta ræðu minni lokið og býst þá kannske við að verða síðastur á mælendaskrá og umr. verði slitið eftir þessa ýtarlegu ræðu.