25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (5360)

12. mál, fjárlög 1947

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það er út af ræðu hæstv. fjmrh., sem hann hélt hér í fyrrakvöld. Ég gerði til hans ýmsar fyrirspurnir í sambandi við markaði, og svaraði hann, eins og hæstv. utanrrh. hefur raunar gert, að samningarnir í Sovétríkjunum gengju dapurlega, og kvartaði hann sáran yfir því, að samninganefndin hefði ekki fengið að tala við fulltrúa Export-kleb — hann hefði alltaf verið kvefaður. Annars var það helzt að skilja á hæstv. fjmrh., að eitt það, sem mest hafi „skúffað“ stjórnina, væri það, að ég hefði lofað markaði þar austur frá, og þeir hefðu helzt ekki farið í stjórn, ef þeir hefðu ekki treyst á það. Mér þykir náttúrlega leiðinlegt, ef ég hef orðið þess valdandi, að núverandi stjórn var mynduð, en hvað sem því liður, þá hefur aldrei staðið á okkur sósíalistum að hjálpa til við öflun markaða. Það hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh., að samningarnir væru að stranda í Sovétríkjunum, en hvorugur þeirra talaði um, hvernig gengur í Englandi, og vildi ég því spyrja hæstv. ráðh. um horfur í samningsmálum þar. Maður hefur frétt ýmislegt og veit ekki, hvað rétt er, og vegna ummæla hæstv. ráðh. út af samningunum í Sovétríkjunum er rétt, að menn fái að vita, hvað er að frétta frá Englandi, það hefur heyrzt, að þar væri búið að skrifa samninginn, en væri aðeins eftir að undirrita hann, og væri fróðlegt að vita, hvað í þessum samningi er, alveg sérstaklega þar sem stjórnin notar slæmar markaðshorfur sem ástæðu til að skera niður framlög til verklegra framkvæmda. Mér skildist á hæstv. fjmrh., að Rússar hefðu komið dónalega fram við sendinefndina og látið hana bíða óhæfilega lengi eftir svari eða 17 daga. Ég skal ekki dæma um það, en ég bendi hæstv. fjmrh. á, að það er hættulegt að gefa yfirlýsingar svona slitnar úr sambandi, og ætti hann heldur að gefa heildaryfirlit um, hvernig málum er komið. Hvers konar tillögur voru það, sem Rússar voru í 17 daga að svara?

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég hefði haft mína eigin sendimenn, þegar ég var ráðh. Þetta er alveg rétt, og ég ásaka mig fyrir það eitt að hafa ekki haft fleiri. Ég vildi koma því til leiðar, að utanrrn. sendi sendinefnd til Póllands, þegar Pólverjar vildu kaupa ísaðan fisk, en ekkert var gert í þessu, fyrr en ég sendi þangað menn, en fyrirgreiðsla utanrrn. var sú, að þeim var neitað um sérstök vegabréf og urðu að láta sér nægja venjulega passa. Það er ekki hægt að koma til lands, sem er í rústum eftir styrjöld, og segja aðeins: Þetta viljum við selja, þetta skulum við kaupa. Við skulum fara að dæmi Svía, sem hafa lánað Pólverjum fé til að koma upp járnbrautum og öðrum tækjum. Síðan fá þeir kol hjá Pólverjum og öruggan fiskmarkað. En það er áberandi hjá núverandi hæstv. ríkisstj., að löndum sé skipt í tvo flokka. Annars vegar eru löndin „handan járntjaldsins“, eins og Alþýðublaðið orðar það, en hins vegar hin indælu lýðræðisríki, og þar er áhugamál stjórnarinnar að bjóða framleiðslu okkar á sem allra lægstu verði, en „handan járntjaldsins“ er allt sprengt upp. En ég er á því, að hvort sem við seljum til austurs eða vesturs, þá verðum við að halda á fyllsta markaðsverði. Okkur veitir ekki af því. En hjá hæstv. ríkisstj. skiptir þetta í tvö horn eftir því, við hvorn þjóðbálkinn samið er. Ég vildi mælast til þess við annanhvorn hæstv. fjmrh. eða utanrrh., að þeir geri grein fyrir samningunum í Englandi, enda hefur verið gefið tilefni til þess, með því að gera samningana í Sovétríkjunum að umtalsefni.