29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (5361)

12. mál, fjárlög 1947

Einar Olgeirsson:

Heiðraðir hlustendur. Hæstv. menntmrh. og hæstv. landbrh. sögðu báðir áðan, að við, sósíalistar, höfum hlaupizt brott úr ríkisstj. Ólafur Thors upplýsti hins vegar, að við í samningum um ríkisstj. hefðum sett fram slíka skilmála, sem hann hefði ekki getað gengið að. Hvers konar skilmálar skyldu það hafa verið? Við kröfðumst fórna af auðmönnum landsins. En Eysteinn Jónsson fór í stjórn án þess að tryggja nokkuð slíkt. Hann gafst upp. Við höfðum lagt fram tekjuöflunartillögur. Við vorum alltaf reiðubúnir að benda á tekjuöflunarleiðir, svo framarlega að okkar till. væru samþ. En því var aldrei sinnt. Þá sagði hæstv. menntmrh., að Brynjólfur hefði lagt til, að 4 millj. væri varið til skólabygginga. En hann lagði til, að það væru 14 milljónir.

Hæstv. fjmrh. talaði um það í gær, að hætta væri á ferð fyrir nýsköpunina, af því að ábyrgðarlausir menn, kommúnistar, væru þess albúnir að kyrkja hana í fæðingunni. Og hæstv. menntmrh. sagði, að við sósíalistar hefðum ekki barizt fyrir því, að tekið verði í taumana um gjaldeyrisverzlunina í tíma. Það er einmitt það, sem við höfum gert. Eysteinn ætti að tala varlegar og hugsa um ræðu Ólafs Thors. Það var búið að eyða mjög miklu af því fé, sem undanskilið var nýbyggingarreikningi, og það var svikizt um að leggja á nýbyggingarreikning eins og lög mæla fyrir, af því að ekki var sinnt þeim till., sem við sósíalistar gerðum ásamt núverandi fjmrh. til þáverandi fjmrh. Sjálfstfl., að leggja 100 milljónir til hliðar til viðbótar og borga inn 15%, og þá voru nægir peningar til. Við þessu var daufheyrzt þá og hefur ekki verið framkvæmt ennþá.

Þjóðin kaus núverandi þing til þess að halda nýsköpuninni áfram í atvinnuvegunum. Og þeir, sem stöðva hana nú og hefja árás á lífskjör almennings, þeir bregðast þjóðinni í trausti þess, að þjóðin geti ekki hreyft sig, af því að fjögur ár séu til kosninga. Þeir reikna með því, að þjóðin sé ofurseld þeim til fjögurra ára upp á náð og miskunn. Þeir reikna með því, að þeir geti lagt á hana vægðarlausar álögur, leitt yfir hana atvinnuleysi, skellt á hana gengislækkun í haust og afnumið allan vísitöluútreikning. En þessir herrar reikna allir skakkt, eins og þeir reiknuðu 1944, þegar þeir héldu um haustið, að komið væri tækifærið til að lögbjóða launalækkun, eins og þeir reiknuðu skakkt 1941, þegar þeir héldu, að engin hætta væri á kauphækkunum, af því að Stefán Jóhann sagði það, eins og þeir reiknuðu skakkt 1942, þegar þeir héldu, að verkalýður Íslands mundi sætta sig við gerðardóm og þrælahald, meðan auðkýfingar rökuðu saman stríðsgróðanum til þess að öðlast öll atvinnuvöld í þessu landi.

Haustið 1944 vofði innanlandsófriður yfir þjóð vorri. Það vorum við sósíalistar, sem þá áttum drjúgan þátt í því, að slíðruð voru sverðin og friður komst á, sem nú hefur ríkt í tvö ár og fært þjóð vorri ómetanlega blessun.

Nú hefur afturhaldssamasta klíka auðmannastéttarinnar á Íslandi rofið þennan frið, einmitt þeir auðmenn, sem ekkert hóf þekkja á ágirnd sinni og aldrei linna árásum á alþýðu manna, meðan hún á nokkurn eyri handa á milli fram yfir það brýnasta, sem hún þarf til að draga fram lífið. Vilji auðvald Reykjavíkur stríð við alþýðu Íslands, þá verður það að fá það. En það var ekki alþýða manna, sem hóf þann hildarleik. Afturhaldið vegur nú enn í sama knérunn og 1939 og 1942, að láta alþýðuna fórna, svo að auðvaldið geti grætt.

Alþýðan mun taka á móti. Alþýða Íslands treystir sér til að stjórna landi sínu án þess að skerða þau lífskjör, sem vinnandi stéttirnar nú búa við. Og hún hefur sýnt, að hún getur það, þegar áhrifa hennar hefur notið. Hún sér því enga ástæðu til að fórna velferð sinni og barna sinna á altari milljónamæringanna í Reykjavík að óreyndu.

Og það er ekki aðeins efnahagsleg velferð alþýðunnar, sem er undir því komin. að árás afturhaldsins verði mætt með órofa einingu alþýðu og allra framleiðslustétta. Frelsi og framtíð þjóðarinnar er líka í veði.

Íslendingar! Það voru ófyrirleitnir höfðingjar, allt of auðugir og allt of voldugir, sem eyðilögðu lýðveldið okkar á Sturlungaöld. Þeir píndu og pláguðu alþýðuna og drápu úr henni kjarkinn til þess að standa á verði um heill og frelsi landsins gegn ofurvaldi höfðingjanna og ásælni erlenda konungsvaldsins. Þá átti alþýðan sér engin samtök. Nú á íslenzk alþýða sér samtök, verklýðssamtök, samvinnusamtök, framleiðslusamtök. Í þessum samtökum liggur máttur hins íslenzka lýðveldis — sú eining alþýðunnar, sem í þeim birtist, er hornsteinn íslenzks frelsis. Látið auðjarla Íslands vita, að eigi að fórna einhverju hér á Íslandi nú, þá er það valdi þeirra og auð, sem fyrst verður að fórna, því að það vald og sá auður er Íslandi hætta nú sem á Sturlungaöld. Afturhaldið á Íslandi verður að fá að kenna á því, að alþýðusamtök Íslands eru engin skóþurrka fyrir það, sem það geti þurrkað í afleiðingunum af óstjórn og ágirnd þess sjálfs. Fyrst afturhaldinu tókst við kosningarnar að svíkjast til valda með kosningaloforðum, þá er nú heill og velferð Íslands í höndum þessara samtaka íslenzku alþýðunnar.

Von Íslands byggist nú á því, að þau víki ekki frá varðstöðunni um rétt sinn og frelsi.