30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (5362)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég ætla aðeins að bæta nokkrum orðum við án þess að endurtaka nokkuð af því, sem hv. 2. þm. S-M. sagði.

Hv. frsm. meiri hl. n. talaði um það sem eins konar „kínalífselexír“, að það komi ábyrg ríkisstj. í landinu. Það hefur verið ábyrg ríkisstj. í landinu í tvö ár, sem hv. þm. V-Ísf. og ég höfum stutt rækilega. Eitt af þeim málum, sem hafa legið fyrir henni, er þetta mál, sem hér liggur fyrir. Þegar sú stjórn tók við völdum, voru gefin út l. 1. des. 1944, ef ég man rétt, sem voru framlenging á l. um viðskiptaráð, og voru þau framlengd til eins árs. Þá var og ákveðið að endurskoða skyldi þessi l., af því að flestir voru sammála um það, að þessi skipun málanna væri ófær. Svo var skipuð n. með mönnum frá nokkrum stofnunum ríkisins, sem átti að leggja fram rökst. till. Ýmsir menn komu með till. frá þeirri stofnun, sem þeir voru fulltrúar fyrir. Þessu lauk þannig, að sá ráðh., sem hafði með þessi mál að gera, vildi lítið fallast á þessar till., og það náðist ekki samkomulag um þetta innan hinnar ábyrgu stjórnar. Við þetta sat, og ráðh., sem hafði með þessi mál að gera, vildi ekki þoka neitt til, og öflin, sem voru á bak við hann, héldu fast í spottann.

Ég kom með brtt., sem fengu náð fyrir augum hæstv. ráðh., að nýbyggingarráð og viðskiptaráð skyldu vinna í sameiningu, og var það eina raunverulega breyt., sem gerð var. Þessar till. hafa aldrei fengizt framkvæmdar. Svo var þetta viðskiptaráð framlengt frá 1. des. 1945, um eitt ár. Þessar breytingar reyndust ófullnægjandi, og þrátt fyrir það að fyrrv. stjórn væri stórvirk í ýmsum málum, var ekki hægt að fá neinar nýjar breyt. á þessu. Í nóv. 1946 eru þessi l. enn framlengd til 1. febr. 1947.

Ég veit ekki, hvort það muni ganga nokkuð betur fyrir þeirri ríkisstj., sem tekur við, að fá fram þær breyt., sem þarf að gera. Ég skal ekki segja um það, hvort það er ekki alveg eins heppilegt fyrir Alþ. að gera þessa breyt. nú, á meðan allt er svona í deiglunni á þessum sviðum. En ef hin nýja ríkisstj. sér ástæðu til þess að breyta þessu, þá gerir hún það. Því hefur verið haldið fram, að bezt sé að bíða eftir því, að þessi l. verði endurskoðuð, og breyta engu fyrr. En ég sé enga tryggingu fyrir því enn sem komið er, að það geti ekki dregizt svo og svo lengi. Ég held, að framleiðendum finnist þeir eiga að hafa þar einhver ítök. Nú, og ef þau þættu of mikil, þá held ég, að það væri þá hægt að breyta þessu aftur. Ég held, að það sé ekki til neins að varpa öllum okkar áhyggjum í þessu efni yfir á þá ríkisstj., sem kemur.

Þetta litla spor, sem stigið var, var þó í raun og veru aðeins á pappírnum. Það miðaði ofurlítið til lagfæringar, en það hefur ekki fengizt framkvæmt, m. a. af því, hvernig viðskiptaráð er skipað, og vegna þess, að framleiðendur hafa aldrei átt fulltrúa þar. Og þrátt fyrir ákvæði í l. hefur það aldrei fengizt, að framkvæmdirnar væru við það miðaðar, vegna þess að viðskmrh. hefur aldrei haft samvinnu um slíkar ráðstafanir. Ég held, að það væri þess vegna mjög heppilegt að breyta þessu nú, Þó að brtt. okkar hv. 2. þm. S-M. séu ekki stórvægilegar, þá álít ég rétt að samþykkja þær nú. Sýni það sig, að brtt. nái ekki fylgi meiri hl. þingm., álít ég rétt, að b-liðurinn sé borinn upp sér. Þar er um að ræða rétt sölu- og innkaupafélaga framleiðenda, og hygg ég alveg eins gott að tryggja þeim þann rétt nú eins og að kasta því upp á aðra síðar.