13.12.1946
Efri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (5363)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram brtt. við þetta frv. á þskj. 206. Í fyrsta lagi hef ég borið upp þá breyt. við 4. gr., að aftan við gr. bætist ný málsgr., þannig orðuð: Kostnað við byggingu prestsbústaða í kaupstöðum greiði ríkissjóður þó aðeins að 2/5 hlutum. — Ég tel, að gera eigi víðtækan greinarmun á þátttöku ríkissjóðs, hvort byggt er á jörðum, sem ríkið á, eða öðrum jörðum. Auk þess tel ég nauðsyn fyrir ríkissjóð að halda embættismönnunum í strjálbýlinu heldur en stuðla að því, að þeir flytji brott þaðan til Reykjavíkur og kaupstaðanna yfirleitt vegna þess, að þeir hafa betri afkomu þar. Enn fremur er ein ástæðan sú, að í kaupstöðum kostar meira að byggja jafnstór hús en úti í sveit. Hæstv. kirkjumrh. upplýsti, að kostnaður við byggingu prestsbústaða í sveit mundi kosta ca. 150–160 þús. kr., og í því sambandi vildi ég leyfa mér að upplýsa, að skv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá húsameistara ríkisins, mun sá prestsbústaður, sem hér á að byggja í Rvík, kosta ca. 350 þús. kr. Ef reiknað er með þessu, þá er ekki fjarri sanni, að 140 þús. kr. komi á hina 4 bústaði. Sé það rétt hjá hæstv. ráðh., að í sveit kosti ca. 150 þús. að reisa prestsbústað, þá er því meiri ástæða fyrir ríkið að styrkja. Ég vil leyfa mér að benda á, að skv. upplýsingum frá húsameistara sé ekki reiknað með lóðaaðgerðum, en kostnaður sá, sem því fylgir, mun nema ca. 70 þús. kr. Einnig vil ég benda á, að aðeins er 450 þús. kr. á fjárl. til prestsbústaða á öllu landinu, og skv. upplýsingum frá fjhn. og biskupi er ætlað, að upphæðinni sé skipt þannig, að 125 þús. renni til fjósbygginga, en afgangurinn í einn bústað í Rvík. Biskup tekur fram, að hann óski, að upphæðin sé hækkuð upp í 750 þús. kr. til þess að hægt sé að byggja þennan bústað hér. Ég tel ekki, að ríkið þurfi að bera frekari umhyggju fyrir prestum en öðrum embættismönnum.

Við 5. gr. hef ég borið fram 3 brtt. Fyrri málsl. orðist þannig: „Ríkissjóður lætur byggja prestsseturshús samkv. fyrirmælum þessara laga, svo fljótt sem verða má og eftir því, sem fé er veitt til þess í fjárlögum.“ Ég tel varhugavert, að Alþ. skipi fjárveitingu og skyldi að veita fé með lögum til þessa, nema í sömu l. sé gert ráð fyrir tekjum á móti þessum útgjöldum. Við höfum fengið reynslu fyrir því, að óhjákvæmilegt er annað tveggja að fresta framkvæmdum þessara laga eða að leggja þungar byrðar á þjóðina, og er ekki rétt að binda henni enn þyngri bagga. Ég vil benda á, viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. tók fram um fjárveitingu til þessara framkvæmda, að rétt var hjá mér, að 140 þús. kr. komu niður á hvern prestsbústað í sveitum með núverandi verðlagi, því að áætlað er, að sá bústaður, sem reistur yrði hér, mundi kosta ca. 350 þús. kr., en eðlilegast er og hagkvæmast að byggja fyrst þá prestsbústaði, sem ódýrastir yrðu. Ég hef sagt í b-lið: „Bygging prestsseturshúsa á jörðum ríkisins skal jafnan ganga fyrir byggingu annarra prestsbústaða.“ — Er það viðbót við 5. gr. Ég tel það sjálfsagt til að halda prestum úti í sveitunum, að húsnæði sé byggt fyrir þá þar, en engin ástæða til að byggja í kaupstöðum því að þangað sækja prestarnir hvort sem er. Í sambandi við þetta vil ég taka það fram, að eftir því sem biskup segir, er ætlazt til, að af 450 þús. kr., sem á fjárl. eiga að ganga til þessa, fari 350 þús. kr. í prestsbústað hér í Rvík, enda hefur hann óskað, að fjárveitingin verði hækkuð upp í 750 þús. kr. Sé þetta tilfellið, skilst mér, að byggja eigi yfir prest, sem hefur ríkisíbúð, sem ríkið keypti handa honum fyrir 200 þús. kr., en honum þykir ekki nógu flott, og þarf ríkissjóður þá að leggja fram 350 þús. kr. í viðbót. Mér sýnist því ástæða til að setja ákvæði um það í fjárl., að ekki sé farið þannig með féð og það sett á staði, sem sízt þurfa þess með, og legg ég því til, að b-liður verði samþykktur. C-liður brtt. er þannig, að á eftir 5. gr. kemur ný gr., er orðist svo: „Andvirði seldra þjóðjarða og kirkjujarða skal varið til endurbóta á prestsseturshúsum í þeirri sókn, sem jarðirnar eru í.“ Ég tel, að þetta sé sanngjarnt, að andvirði kirkjueigna, sem teknar eru, gangi til endurbygginga á prestsbústöðum og prestsetur ættu að njóta þess fjár, sem fæst fyrir seldar kirkjueignir.

Við 16. gr. er sú breyt., að í stað orðanna „reistu samkvæmt lögum þessum“ Í 1. málsgr. komi: reistu samkvæmt 1. mgr. 4. gr. þessara laga. Í b-lið við sömu gr. komi, ný gr. til viðbótar 16. gr., sem orðist þannig: „Árgjald prests af prestsbústað, sem ríkið styrkir samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þessara laga, skal vera 2/5 af því gjaldi, sem greitt er samkvæmt þessari grein af húsi á sambærilegum stað.“ — Verði mín till. samþ., þá er þessi till. nauðsynleg. Enn fremur hef ég gert 4. breyt., að lög þessi skuli þegar öðlast gildi.

Áður en ég lýk máli mínu vildi ég benda hæstv. kirkjumrh. á, að hér á Alþ. var samþ. 27. apríl þáltill. um, að koma skyldu til framkvæmda lög um prestssetrið Stað á Reykjanesi að flytja prestsbústaðinn þaðan. Jörðin er bundin til ábúðar vegna þess, að þessi lög eru í gildi. Það skal tekið fram, að mér hefur borizt fundargerð frá sókninni, þar sem skorað er á Alþ., að þetta komi til framkvæmda.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, nema tilefni gefist til, en vænti, að mínar till. verði samþ. Ég veit, að von er á rökst. dagskrá um. að vísa málinu frá.