22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

12. mál, fjárlög 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hv. frsm. fjvn. kastaði hér hnútum viða um salinn, og hefði getað verið ástæða til að svara ýmsu af því, sem hann tók fram. En ég skal yfirleitt sleppa því. Það voru aðeins tvö atriði, sem ég vildi minnast á, sem snerta mitt starf. Fyrst og fremst viðvíkjandi því, að hv. form. og frsm. fjvn. vildi benda mönnum á þá leið að gera nú lagabreyt. þannig, að ágóði Viðtækjaverzlunarinnar renni í ríkissjóð, en ekki til útvarpsins. Ég vil nú mjög eindregið óska eftir því, að ekki verði horfið að þessu ráði. Frá upphafi hefur útvarpinu verið ætluð þessi tekjuöflun. Og þó að dálítill tekjuafgangur hafi orðið hjá útvarpinu nú um sinn, sem lagður hefur verið í byggingarsjóð, þá skortir á, að sá byggingarsjóður sé nægilega öflugur. Og svo er hitt, að margt getur komið fyrir viðvíkjandi rekstrinum, sem geri það að verkum, að útvarpinu veiti ekki af þessum tekjum.

Hitt atriðið er það, að hv. frsm. fjvn. sagði, og það nokkuð í aðfinningartón, að það væri farið að lána fé frá útvarpinu kaupmönnum hér í bænum. En það mál er vaxið eins og nú skal frá sagt.

Útvarpið á nokkurn byggingarsjóð. Og það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að gera teikningar að útvarpsbyggingu, sem hv. frsm. fjvn. minntist á. Ég hef nú látið segja mér það af forráðamönnum útvarpsins, að húsakynni þess séu óviðunandi, þannig að annaðhvort yrði að leggja út í byggingu handa útvarpinu eða þá hitt að leigja húsnæði handa því. Og um það leyti er ég tók við ráðherrastarfi, skýrði útvarpsstjóri mér frá, að hann ætti kost á að fá leigt húsnæði hjá Silla og Valda, en þetta húsnæði væri ekki hægt að fá leigt nema með því að borga allmikið af leigu fyrir fram og þetta væri því í raun og veru lán, en yrðu þó borgaðir vextir af fyrirframgreiðslunni á leigunni. Og vegna þess að ég álít það ranga stefnu að byggja útvarpshús í bráð, og reyndar óframkvæmanlegt, vildi ég ekki setja fót fyrir það, að þetta húsnæði yrði tekið á leigu, og þá með því skilyrði, sem sett var. En leigan á að vera eftir mati húsaleigunefndar. Ég hef ekki getað séð, að það væri á móti tilgangi byggingarsjóðs, þó að fé hans væri notað til þess að tryggja útvarpinu húsnæði á þennan hátt. Það má kannske segja, að það geti orkað tvímælis, hvort það hafi átt að fara nákvæmlega svona að þessu eins og gert var. En ég féllst á þessa till. útvarpsstjóra, af því að ég trúði því, að það væri mjög erfitt að fá húsnæði með húsnæðismatsverði, án þess að greiða fyrirfram leigu. En bygging útvarpshúss hlýtur að dragast svo, að ekki þurfi á þessu fé að halda í þá byggingu á þeim tíma, sem það er raunverulega lánað á þann hátt, sem ég hef tilgreint.