22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

12. mál, fjárlög 1947

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Í íslenzku máli er talað um hausthug og vorhug. Ég man það í haust, þegar fjvn. settist á rökstólana, að þá var ekki mikið af þeim stórhug og bjartsýni hjá okkar virðulega fjvn-form. eins og var hér í dag og í gær. Hann lýsti því í haust með mörgum orðum. og að mínu áliti alveg réttilega, hvernig komið væri fyrir atvinnuvegum okkar. Hann lýsti því, hvernig komið væri með sina eigin togara. Og ég sá, að hann var raunamæddur á svip, þegar hann sagði frá því, að á útgerðinni hefði hann tapað 300 þús. kr., þannig væri komið fyrir okkar atvinnuvegum, að ekki væri hægt að láta þá bera sig, og það þrátt fyrir það, að salan væri sæmileg, og þrátt fyrir ágæta stjórn á framleiðslutækjum þessum. Og hann gat þess þá með þungum og ákveðnum orðum — og þá small meir í borðinu, en í dag fyrir framan hann —, að sumir hæstv. ráðh., sem áttu sæti í ríkisstj., mættu aldrei koma nálægt neinum atvinnurekstri, því að í öllu, sem þeir kæmu nálægt, væri sama sukkið og óreiðan, eins og allir vissu, sem nokkuð hefðu kynnzt þessum málum. En nú hefur hv. form. fjvn. alveg skipt um skoðun um væntanlega afkomu atvinnuveganna. Og ég veit, af hverju það er. Nú er hann búinn að fá nýja ríkisstj. Og enda þótt kassinn sé tómur, þegar hún tekur við, þá vonumst við nú til þess, og ekki sízt hv. form. fjvn., að eitthvað kunni að koma í kassann. Og þess vegna erum við samþykkir þessum stórhuga till., um að byggja skóla, verja landbroti, byggja brýr og yfir kýr, til þess að þær gefi arð. o.s.frv., o.s.frv., í því trausti, að það verði betur farið með það fé, sem þjóðin aflar, en á undanfarandi árum hefur verið gert. Og í því trausti höfum við samþ. það fjárlagafrv. ásamt brtt., sem hér liggur fyrir.