23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

12. mál, fjárlög 1947

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja mikið umræður um fjárl. og hef ekki gert það. Ég stend aðeins að einni brtt. á þskj. 702, það er XIX. liður á því þskj., um, að á heimildagrein fjárl. komi nýr liður. er hljóði svo: „Að taka allt að 15 millj. kr. lán til íbúðarhúsabygginga samkv. III. kafla laga nr. 44 7. maí 1946.“ Mér sýnist alveg auðsætt, að þessa sé þörf. Það hefur verið upplýst af hæstv. forsrh., að eins og nú horfi, megi ætla, að verja þurfi 40 millj. kr. til að útrýma heilsuspillandi íbúðum, en í lögum þeim, sem vitnað er í í brtt., segir, að það eigi að gerast á fjórum árum. ríkissjóður á í því skyni að leggja fram 75% kostnaðar sem 50 ára lán og 10% með öðrum kjörum. Ég verð að álita, að í fjárl.

þyrfti sérstaka upphæð til að mæta vaxtamismuni og enn fremur þeirri upphæð, er ríkissjóður þarf að greiða, ef sveitarfélögin afskrifa sinn hluta. Ég skal ekki fara lengra út í þetta, og hefur minni hl. fjvn. lagt til á þskj. 703 að hækka framlagið til íbúðarhúsabygginga um helming, en 75% þarf ríkissjóður að greiða, og eftir upplýsingum hæstv. forsrh. mun það nema 40 millj. kr. á næstu 4 árum. Nú er liðið eitt ár frá gildistöku laganna um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og er því ríkissjóði nauðsyn að afla lána til að framfylgja þeim. Reykvíkingar hafa þegar hafizt handa til að uppfylla sínar skyldur, og byggingar þær, sem Reykjavíkurbær hefur byggt, munu kosta 6–8 millj. kr., og mun bærinn hafa lagt fram um 5 millj., en ríkissjóður ekkert, og í bæjarstjórn hefur það verið dregið í efa af stuðningsmönnum stjórnarinnar, að hún geti innt skyldur sínar af hendi. Ég mun ekki efa það að óreyndu, að stjórnin framkvæmi nýsett lög, sem hæstv. forsrh. hefur mjög státað af. Skortur hefur verið á framkvæmdum í þessu skyni undanfarið, en ég vænti, að svo standi ekki lengi, og það er auðsætt, að stjórnin þarf á láni að halda til að afla fjár til framkvæmdanna. Vænti ég því, að hv. þm. sjái réttmæti þessarar till. Hún miðast við að framkvæma lög, og þeir, sem stóðu að þessari lagasetningu, munu vilja. að lögin nái tilgangi sínum, en það verður ekki, nema ríkið standi við skuldbindingar sínar.