23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

12. mál, fjárlög 1947

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Fjvn. hefur klofnað um þær till., sem siðast komu frá ríkisstj., en áður en ég vík að þeim, vildi ég gera nokkra grein fyrir brtt. minni hl. fjvn. á þskj. 703. Við hv. 6. landsk. höfðum flutt nokkrar brtt. við 2. umr. og tókum þá sumar þeirra aftur, og eru sumar þeirra teknar hér upp, að vísu ekki alveg að fullu.

Till. á þskj. 703 eru fjórar. Í fyrsta lagi er till. um að veita fé til Alþýðusambands Íslands til útgáfu á sögu verkalýðshreyfingarinnar og til söngvasafns verkamanna. Fyrir þessum till. var gerð grein við 2. umr., en ég vildi geta þess, að talan í till. á að vera 15.000, en ekki 12.000 kr. Við vitum vel, að verkalýðshreyfingin á merkilega sögu, sem vel er vert að skrifa og sanngjarnt, að ríkið veiti styrk til þess, eins og það styrkir alls konar útgáfustarfsemi. Sumir hv. þm. hafa ekki viljað veita styrk til þessa, þar sem þeir hafa talið, að það mundi hlutdrægt, sem búið væri að skrifa. En ég get upplýst, að ekkert hefur enn verið skrifað vegna fjárskorts. Um seinni lið fyrstu till. skal ég ekki hafa mörg orð. Hugmyndin er að gefa út söngvasafn til söngiðkana á vegum verkalýðshreyfingarinnar, og virðist ekki nema sanngjarnt að veita einhverja upphæð í því skyni.

2. brtt. á þskj. 703 er við 17. gr. og er nýr liður, sem er 30.000 kr. fjárveiting til starfskvennaskóla Sumargjafar. Við hv. 6. landsk. höfðum við 2. umr. lagt til, að upphæðin yrði 32.500 kr., en meiri hl. hafði lagt til 20.000. Það fannst okkur of lítið og leggjum því fram þessa till. um 30.000 kr. fjárveitingu gegn því, að Reykjavíkurbær greiði það. sem á vantar. — 3. brtt. er við 17. gr., og er þar lagt til að veita til íbúðarhúsabygginga, samkv. III. kafla l. nr. 44 7. maí 1946, 800.000 þús. kr. í stað 400.000, eins og meiri hl. leggur til. Hv. 6. þm. Reykv. sem talaði hér næstur á undan mér, gerði grein fyrir tekjuþörf ríkisins til að framkvæma lög þau, sem hér um ræðir, og mun þessi upphæð, 800.000 kr., sízt of há til að greiða vaxtamismun, er ríkinu ber að greiða, og það framlag, sem búast má við, að ríkissjóður þurfi að greiða, þar sem bæjarfélögin munu yfirleitt afskrifa sin 15%. Það er því sízt of há upphæð, sem farið er fram á í brtt. okkar í minni hl. fjvn.

Þá er 4. brtt. um í fyrsta lagi að greiða allt að 300 þús. kr. sem fyrstu greiðslu til byggingar búnaðarfélagshúss. Það er kunnugt öllum, sem þekkja til starfsemi búnaðarfélagsins, að húsakynni félagsins eru alveg óhæf, en félaginu eru falin mörg mikilvæg störf af hinu opinbera. Í fórum félagsins eru mörg merkileg skjöl, sem alveg eru óbætandi, en hús félagsins er gömul timburbygging í mikilli eldhættu, og þykir ekki forsvaranlegt að hafa opinberar stofnanir í slíku húsnæði. Því ber ríkissjóði skylda til að sjá búnaðarfélaginu fyrir húsnæði vegna þeirra verkefna. sem á félagið eru lögð af hinu opinbera, og þó að 300.000 kr. séu greiddar, verður það of lítið, og má ekki dragast að hefjast handa um þessa húsbyggingu og nægilegar fjárveitingar í því skyni. Þá er h-liður 4. brtt. um að greiða allt að 300 þús. kr. sem fyrstu greiðslu til byggingar templarahallar í Reykjavík. Hér á Alþ. hafa verið bornar fram till. um takmörkun áfengisnautnar, og hefur oft verið drepið á, hve óheilbrigt sé, að ríkið skuli taka mikinn hluta tekna sinna af áfengi. Áfengisbölið er öllum kunnugt, og ríkinu ber að styðja þau öfl, sem mest og bezt vinna að útrýmingu þessa böls, en það er templarareglan. Reglan býr hér við mjög lélegt húsnæði, sem brátt mun verða rifið, og er hún þá á götunni. Það er erfitt að reikna í tölum það tjón, sem af því hlýzt, ef reglan hætti starfsemi sinni, og því ekki til of mikils mælzt, þó að farið sé fram á, að hið opinbera hjálpi reglunni um sæmileg húsakynni. Því leggjum við til að til byggingar templarahallar verði veittar 300.000 kr. á fjárl. þessa árs. Báðir þessir síðustu liðir, sem ég hef nú gert grein fyrir, voru upphaflega bornir fram af ríkisstj. og samþykktir í n., og tókum við flm. þá aðeins upp, er þeir höfðu verið felldir niður.

Þá vildi ég enn fremur minnast á brtt., er ég flyt á þskj. 702 ásamt 3 öðrum hv. þm., en hún er við 22. gr. og þess efnis að veita Gunnlaugi Scheving listmálara allt að 25 þús. kr. lán til byggingar vinnustofu. Við 2. umr. var gerð grein fyrir ástæðum hans, en hann hefur keypt hús austur í Hveragerði, en vantar vinnustofu og mun ekki hafá efni á að reisa hana af eigin rammleik. því viljum við flm., að honum sé veitt lán í þessu skyni, svo að starf hans heftist ekki, enda hafa margir listamenn fengið slík lán áður, en það er kunnugt og má fullyrða, að hann á það ekki síður skilið en aðrir.

Þá hef ég lokið við að gera grein fyrir mínum brtt. og till. minni hl. fjvn. og vildi nú fara nokkrum orðum um þær till., sem ollu því, að n. klofnaði, till. um að lækka framlög, sem n. hafði áður samþ. Ég verð að segja það fyrst, að þessi afgreiðsla á fjárl. er óviðfelldin. Fyrst er búið að samþykkja svo og svo mikið í fjvn., síðan eru þær till. samþ. af meiri hl. þingsins, síðan lækkar n. þær till. aftur samkv. tilmælum ríkisstj., og síðan er þetta lagt fyrir þm.. sem höfðu samþ. allt annað viku áður. Ég efast um, að slík afgreiðsla á fjárl. hafi áður þekkzt hér á Alþ. Mér virðist, að nægt hefði heimild í l. fyrir stjórnina til að draga úr útgjöldunum, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi.

En þá kem ég að niðurskurðartill. sjálfum á þskj. 692, og ætla þá sérstaklega að minnast á 12. gr. Þar er allmikil lækkun á fjárveitingu til læknisbústaða og sjúkraskýla og eins til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að öll sjúkrahús landsins eru full og svo mikið kapp er lagt á að byggja læknisbústaði, að þeirri þörf hefði ekki verið fullnægt, þó að sú upphæð hefði staðið áfram á fjárl., er bæði fjvn. og Alþ. voru búin að samþykkja fyrir stuttu síðan.

Þá er það 13. gr. Þar er að vísu bætt við nokkrum nýjum liðum, en síðan eru allir aðrir liðir lækkaðir um 15%. Hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir því, að lækkunin á þessari gr. allri væri ekki mjög mikil, eða 216 þús. kr. Um gr. má segja, að þar sé fyrst og fremst fært til og á milli. Þegar Alþ. er búið að samþykkja fyrri till. fjvn., þá er það kokkað í ríkisstj. og af fáeinum ráðamönnum hennar að lækka og taka af fjárframlögum, sem áður hafa verið samþ. hér, og færa þetta yfir á annað, og síðan er þm. sagt að sætta sig við þetta. En þetta er óþolandi. Og ég vil benda á það, að þótt bætt hefði verið við hinum nýju liðum, án þess að aðrir liðir hefðu verið lækkaðir, þá hefði það ekki sett ríkið á hausinn. Hvað vegi og brýr snertir, þá er það alkunnugt, að þetta eru lífæðar atvinnuveganna úti um land, og ég bendi á það, sem hæstv. menntmrh. sagði í því sambandi, að vinnuafl mundi skorta til vega- og brúaframkvæmda. Ég veit ekki betur, en hann og hans flokkur hafi talið sig málsvara fólksins í dreifbýlinu, og því er það einkennilegt og kemur úr hörðustu átt, er honum finnst nú Alþ. hafa gert of mikið fyrir fólkið úti á landi, og vill nú draga úr því, sem samþ. var við 2. umr.

Þá kem ég að lækkun framlaga til hafnargerða. Það er öllum hér kunnugt, að hér er um það að ræða, að með því að lækka þær upphæðir, sem áður voru samþykktar. þá er verið að gera erfiðara fyrir um hafnargerðir, sem þegar eru hafnar. Það lá fyrir fjvn., að ýmsir staðir hafa ekki ennþá fengið það framlag ríkisins til þessara hluta, sem þeir eiga heimting á samkv. l., þar á meðal Akranes og fleiri aðalfiskihafnir. Sumir staðir hafa orðið að bjarga sér með því að taka lán og skulda þetta framlag og verða auðvitað að standa undir vöxtum af þessum lánum, sem þeir hefðu ekki þurft að taka, ef ríkið hefði lagt fram það fé, sem það er skyldugt til samkv. l. Nú er það líka kunnugt, að flotinn hefur verið að stækka og stækkar meira á þessu ári, en nokkru sinni áður, og því væri líka eðlilegt og nauðsynlegt að veita meira fé til hafnarframkvæmda, en nokkru sinni áður. Ef ekki er unnið að því að bæta hafnarskilyrðin í vaxandi mæli og réttu hlutfalli við aukningu flotans, þá biður framleiðslan við það ófyrirsjáanlegt tjón. Það er eins og hv. þm. Barð. sagði í Ed., þótt það væri reyndar við umr. í öðru máli, að sú króna. sem veitt er úr ríkissjóði til eflingar atvinnuvegunum, hún kemur þangað aftur og með aðra krónu með sér. Ég vil einmitt heimfæra þessi ummæli upp á hafnargerðirnar. og því gat ég ekki fallizt á þennan niðurskurð í fjvn.

Þá kem ég að niðurskurði á 14. gr. — Það er undarlegt, að það skuli vera menntamálarh., sem gengur fram fyrir skjöldu til þess að verja niðurskurð á fjárl., þar sem mesta lækkunin heyrir undir hans ráðuneyti. þ.e. niðurskurðurinn á því fjármagni, sem verja átti til skólabygginga. Þetta sýnir einnig, hvað skuli vera olnbogabörnin hjá þeirri ríkisstj., sem nú situr að völdum.

Þá vil ég benda á það, að samkv. þeirri kröfu, sem flokkur hæstv. menntmrh. hefur gert um það, að allt landið yrði rafvirkjað án tillits til legu eða kostnaðar á hinum ýmsu stöðum, þá stangast það nokkuð á við orð menntmrh. nú. þegar hann mælir með því, að fjárveitingar til þessarar starfsemi skuli skornar niður, þó að þær virtust sannarlega miklu fremur of lágar fyrir, en of háar.

Ég vil aðeins minnast á þau ummæli, sem nú er stöðugt stagazt á, en þau eru, að fjárl. séu of há. Þessu hefur líka verið stagazt á undanfarið, en þær spár hafa bara ekki rætzt. Ástæðan fyrir því er sú, að með háum fjárl. er atvinnulífið örvað og þá um leið trú fólksins á það, að það sé sitthvað hægt að gera í þessu landi. Það eru áreiðanlega fá ráð betri til þess að sigla fjármálum þjóðarinnar í voða, en að draga úr öllu atvinnulífi og telja fólkinu trú um, að allt sé á heljarþröminni. Það er dálítið einkennilegt, að hér hafa tveir ráðh. verið að verja sínar aðgerðir með því, að ekki væri búið að selja allar afurðir ársins, en undanfarin tvö ár hafa fjárl. verið ákveðin löngu áður, en nokkuð hefur verið selt.

Ég sé nú ekki sérstaka ástæðu til þess að fara út í hvern einstakan lið, enda væri það of mikil endurtekning, en ég vil aðeins drepa á ósamræmið. sem mér finnst vera í því að lækka framlag til menntaskólabyggingar í Reykjavík úr 500 þús. í 425 þús. en Menntaskólinn á Akureyri heldur sínu óskertu. Í sambandi við framlögin til vega vil ég benda á það, að það er víða mjög bagalegt, að þau framlög verði lækkuð, þar sem þau eru miðuð við það að ljúka ákveðnum vegarköflum, sem brýn nauðsyn er á. Sömuleiðis er með framlög til brúargerða, en þar kemur lækkunin sér enn verr, því að þau framlög eru í upphafi miðuð við það, sem brýrnar kosta. Að vísu verður sú lausn á þessu máli, að það verða sumar hinna fyrirhuguðu brúa byggðar, en aðrar verða látnar ganga úr skaftinu. Sumum hefur þótt vald vegamálastjóra ærið nóg undanfarið í þessum málum, en ekki minnkar það nú með þessu fyrirkomulagi.

Þá vil ég svara því, hvers vegna ég og mínir flokksbræður viljum ekki fylgja þessum lækkunum, en það er vegna þess, að hér er farið fram á, að við greiðum atkv. á móti því, sem við áður erum búnir að samþykkja fyrir einni viku síðan, og þar með ætlazt til, að við göngum á bak þeim samþ., sem gerðar voru hér við 2. umr. Þá er okkur borið það á brýn, að við höfum verið á móti tollahækkun, en hins vegar hefðum við ekki verið á móti auknum útgjöldum, án þess að við bentum á nokkrar tekjuöflunarleiðir. Það er rétt, að við vorum á móti tollahækkun, en það er ekki rétt, að við höfum ekki bent á aðrar tekjuöflunarleiðir. Hins vegar mun það aldrei hafa þekkzt. að stjórnarandstaðan bæri fram tekjuöflunarfrv. fyrir ríkisstj. Þessar ásakanir eru því ekki til annars, en slá ryki í augu þess fólks, sem ekki þekkir til um störf Alþingis.