26.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

12. mál, fjárlög 1947

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég hef flutt ásamt fleirum hv. þm. brtt. á þskj. nr. 702, IV, um styrk vegna aðstoðarmanns fyrir Matthías Jónasson við rannsóknir á þroskastigi skólabarna, 18 þús. kr. Við þetta starf er nauðsynlegt, að Matthías Jónasson hafi aðstoð, til þess að það verði honum kleift að inna það af hendi. Og það verður honum því aðeins kleift með því móti, að hann geti látið vinna slíkt skrifstofustarf fyrir sig. Þessi brtt. er áður kunn hér í þinginu, því að hún var borin fram við 2. umr. í annarri mynd.

Þá flyt ég, ásamt fleirum hv. þm., aðra brtt., þá XII. á þessu þskj., um heimild á 22. gr. til að greiða stúdentagörðunum í Reykjavík 100 þús. kr. vegna stofnkostnaðar. Stofnkostnaður garðanna eftir viðgerðina er nú rúml. 300 þús. kr. Og það er reynsla, sem við þekkjum frá upphafi, síðan garðarnir voru stofnaðir, að það er ekki hægt að leggja stofnkostnað eða rekstrarkostnað þeirra á stúdenta. Og auk þess sem stofnkostnaðurinn er rúml. 300 þús. kr., þá er lögð áherzla á það af garðstjórn, að bæta þurfi húsnæðið og gera það nægilegt fyrir félagslíf stúdenta. En slíkar breyt. mundu kosta mjög mikið, þannig að ef í slíkt ætti að ráðast, mundi til þess þurfa miklu meira fé en þetta, sem hér er till. um. En við sættum okkur við, að þetta verði veitt í ár og svo viðbótarstyrkur á næsta ári. En þótt ekki væri um annað talað, en þá stofnskuld, sem hvílir nú á görðunum, þá er brýn nauðsyn á þessum styrk. Alþ. hefur áður veitt 300 þús. kr. til stofnkostnaðar. En garðarnir kostuðu á sinni tíð 1 millj. og 400 þús. kr., svo að það má segja, að ríkisvaldið hafi sloppið hér vel, því að stúdentar og velunnarar garðanna hafa safnað fé og sparað þannig ríkissjóði og háskólanum stórfé. Allar heimavistir við ríkisskólana á landinu aðrar eru kostaðar af ríkissjóði. — Við höfum komið okkur saman um að flytja þetta sem brtt. við heimildagr., svo að ráðh. geti dæmt um möguleikana til að borga þetta út á þessu ári.