23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

12. mál, fjárlög 1947

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það eru aðeins örfá orð til að svara fyrirspurn frá hv. þm. N-Ísf. varðandi 32. lið brtt. frá fjvn. á þskj. 691. þar sem ætlazt er til, að komi nýr liður: Til íbúðarhúsa samkvæmt 3. kafla l. nr. 44 7. maí 1946, 400 þús. kr. Hv. þm. spurði, hvort þessi liður væri ætlaður til að lána sveitarfélögum af þessari upphæð eða hvort hann væri hugsaður til að greiða vaxtamismun af væntanlegum lánum, útveguðum af ríkinu til handa kauptúnum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum. Það er vissulega svo, að þessi liður er hugsaður til að greiða þann vaxtamismun, sem verða kann í þessu efni. Hann er í sjálfu sér nokkuð áætlunarupphæð. þar sem ekki er vitað, hversu mikill slíkur vaxtamismunur kynni að verða. Í l. nr. 44 frá 1946 er gert ráð fyrir, að ríkissjóður eða ríkið útvegi kaupstöðum og kauptúnum lán til þess að byggja ný íbúðarhús til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Er um það rætt í 3. kafla þessara l., sérstaklega í 31. gr. þar og í 33. gr. sömu l., að fé það, sem ríkissjóður lánar bæjar- og sveitarfélögum til íbúðarhúsabygginga samkvæmt þessum kafla, geti ríkið tekið að láni, og skal vaxtamismunurinn greiðast úr ríkissjóði. Þessi 400 þús. eru hugsuð sem vaxtamismunur eftir 33. gr. l. Hvort þessi upphæð er nægileg eða ekki nægileg, verður reynslan að skera úr, þegar þar að kemur, en sem sagt þá er, eins og hv. þm. tók fram, þörfin brýn til þessarar lánsútvegunar, og hafa þegar tveir kaupstaðir snúið sér til ríkissjóðs í þessu efni. Annar þeirra, Ísafjarðarkaupstaður, hefur af hæstv. fyrrv. stjórn fengið fyrirheit um lán í þessu skyni, og vil ég vænta þess, að það fyrirheit verði framkvæmt. Annar kaupstaður, Reykjavíkurbær, hefur farið fram á sams konar aðstoð, og vil ég einnig vænta, að unnt verði að sinna þeirri beiðni og framkvæma þannig þessa nauðsynlegu löggjöf, en þar hefur enn nokkuð skort á framkvæmdir vegna mannleysis. En það er skýrt, og ég vil, að þær upplýsingar komi fram að gefnu tilefni, að þessi 400 þús. kr. liður er hugsaður sem vaxtamismunur samkvæmt 33. gr. l.