23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

12. mál, fjárlög 1947

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við aðra umr. fjárlagafrv. flutti ég nokkrar brtt. um hækkanir á framlögum til samgöngubóta í mínu héraði. og voru þær eingöngu varðandi vegi og brúargerðir. Ég hef nú komizt að raun um, að það muni ekki hafa mikla þýðingu að flytja hér brtt. til hækkunar á vegaframlögum, en hafði að vísu fengið loforð um, að framlög til vegaframkvæmda í héraðinu yrðu hækkuð um 40 þús. kr. En samkvæmt brtt. hv. meiri hl. fjvn. fer þetta svo, að hækkunin nemur aðeins 7 þús. kr., því að það er tekið aftur með annarri hendinni, sem gefið er með hinni, vegna þeirrar 15% lækkunar á öllum vegaframlögum. sem hv. meiri hl. leggur nú til með till. sínum. Út af fyrir sig hefði verið við það unandi, ef ekki stæði svo sérstaklega á, á þessum stað, sem hér um ræðir, að þar eiga sér stað mjög miklar breytingar á atvinnurekstrinum, sem krefjast þess, að meir sé hraðað vegaframkvæmdum, en ella ætti sér stað. Þetta er öðrum þræði vegna hinna miklu framkvæmda í Skagastrandarkauptúni, sem gera nauðsynlegt að hraða vegagerðarframkvæmdum þangað, og enn fremur vegna þess, að nú stendur til að breyta atvinnurekstri héraðsins að miklu leyti úr sauðfjárrækt í mjólkurframleiðslu. Er mjög aðkallandi að brúa tvær ár á þessum sjóðum. Mér virðist þó, að hv. meiri hl. n. vilji ekki taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna, og varðandi vegina hef ég komizt að raun um, að það muni ekki hafa neina þýðingu til árangurs að bera fram till. um hækkun til vegaframkvæmda, og hef ég því ekki gert það. — Ég get tekið það gott og gilt varðandi einn veg, Norðurárdalsveg, út af því, sem hv. form. fjvn. tók fram um hann. og hef ég ekki endurtekið þá till. mína í trausti til ummæla hans. Þörfin er enn brýnni fyrir framlög til brúargerða, en þar er þá sömu sögu að segja, að þótt ég hafi farið fram á verulega hækkun til brúargerðar á Blöndu, nemur hækkunin aðeins 33 þús. samkv. till. hv. meiri hl. fjvn. á þskj. 692. Ég hef þó þrátt fyrir þetta leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 704, við heimildagr. fjárlagafrv., um, að ríkisstj. verði veitt heimild til að greiða 100 þús. kr. til byggingar Vatnsdalsárbrúar. Ég hef ekki farið fram á að setja þetta inn á 13. gr. í von um, að frekar yrði tekið tillit til þess, ef möguleikar væru á að leggja fram þessa fjárhæð á þessu ári til þess að bæta þarna nokkuð úr. Þannig stendur á, eins og ég lýsti yfir við 2. umr., að um leið og hefjast daglegir mjólkurflutningar úr þessu byggðarlagi. verður það mjög erfitt og nær ómögulegt að þurfa að hafa bíla gangandi beggja vegna í dalnum. Er því bygging þessarar brúar mjög þýðingarmikil. Nú er það ákveðið samkvæmt samhljóða óskum allra hlutaðeigandi manna í héraðinu, að brúargerðin yfir Vatnsdalsá eigi að vera framarlega og yfir tvær kvíslar þar, og þótt þessar 100 þús. kr. nægðu ekki nema fyrir brú yfir aðra kvíslina, þá er þetta nokkuð í áttina. Er þetta sú minnsta ósk, sem ég get hugsað mér í sambandi við þessar brúargerðir, sem ég hef hér leyft mér að bera fram.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þessi mál og skal ekki blanda mér í þann ágreining, sem hér hefur verið og er um afgreiðslu fjárl., að undanskildu því að láta í ljós furðu mína yfir því, þar sem það er alveg nýtt fyrirbæri, eins og allir vita. að fara við 3. umr. fjárlagafrv. að lækka fjárframlög til allra verklegra framkvæmda um verulega upphæð, frá því sem samþykkt hefur verið við 2. umr. Frá mínu sjónarmiði hefði það verið ólíkt skynsamlegra að vera ekki alveg eins naumir á fjárframlög til samgöngumála úti um land, en að verja mörgum millj. til byggingar á ýmsum húsum, t.d. skólabyggingum og söfnum, sem ætlazt er til að byggja hér í höfuðstaðnum og annars staðar og allt kallar á stóraukinn rekstrarkostnað fyrir ríkið, í stað þess að draga úr fjárframlögum, sem verja á til þess að styrkja grundvöll framleiðslunnar og verða til hagsbóta fyrir landsmenn og hagnaðar fyrir ríkissjóð síðar.

Ég skal svo láta þessi orð nægja á þessu stigi, en vænti þess, að hv. fjvn. snúist nú ekki gegn þessari einu till., sem ég flyt hér, ella yrði ég að líta svo á, að hv. meiri hl. vilji sniðganga allar þær óskir, sem ég hef borið fram varðandi umbætur á samgöngumálum í mínu héraði.