23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

12. mál, fjárlög 1947

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég er flm. að tveimur brtt. á þskj. 704, 1. og 3. brtt. á því þskj. Þær eru hvorug stórvægileg, og ætla ég, að ekki þurfi um þær að hafa mörg orð, og það því siður sem hv. samþm. minn, 1. þm. Árn., sem flytur þær einnig, hefur þegar mælt fyrir þeim, að mér er sagt, og sjálfsagt vel og réttilega. — Fyrri brtt., sem við nokkrir þm. flytjum sameiginlega, er um hækkun úr 15 þús. kr. upp í 16.500 kr., þ.e.a.s. um 1500 kr. til blindrastarfsemi í landinu. Hv. 1. þm. Árn. hefur sjálfsagt skýrt, hvers vegna við flytjum þessa brtt. nokkrir saman. Það er út af sérstökum útgjöldum, sem blindrastarfsemin hefur orðið fyrir umfram áætlanir sínar. 15 til 22 hundruð kr. útgjöld til þess að hjálpa röskum manni, blindfæddum, til þess að eignast harmoniku til þess að spila á. Þetta þykir kannske nokkuð skrítið í sjálfu sér að óska framlags á fjárl. til harmónikukaupa. En þegar við lítum á, hver munur er á ljósi og myrkri og kjörum þeirra, sem í myrkri sitja, og hinna, sem ljósið sjá, þá verður þetta ekkert skrítið. Þessi maður hefur óskað eftir þessu. Hann kann að fara með slíkt hljóðfæri og hefur fengið óskir sínar uppfylltar. Að vísu hefur hv. form. fjvn. látið í ljós, að hann áliti, að þessi brtt. ætti að vera óþörf, þar sem örorkubætur ættu að koma þar til greina. Gott og vel. En þetta á nú ekki að koma til greina þarna, því að þetta eru útgjöld, sem orðin eru og verður annaðhvort að jafna á milli blindrastarfseminnar og Alþ. eða jafna ekki. Hitt er viðkomandi framtíð mannsins, til þess að honum verði séð farborða, sem örorkuframfærslunni við kemur, og er allt annað mál. Ég vil því, eins og hv. form. fjvn. gaf mér kost á, taka þessa brtt. aftur til þess að gefa hv. form. fjvn. tækifæri til 3. umr. til að skipta um skoðun í þessu efni og greiða þessari brtt. atkv. sitt síðar.

Hin brtt. er um nokkra þóknun til Ásgeirs Hraundals á Stokkseyri í viðurkenningarskyni fyrir störf hans við dýralækningar. Þessi maður er einn af þeim mönnum, sem eru lagnir við að hjálpa dýrum, og hans hefur oft verið vitjað til þess og með góðum árangri. Hann hefur haft mikla fyrirhöfn og eril við þetta um langt skeið, en lítið sem ekkert borið úr býtum. Hann er roskinn maður og fátækur. Þetta er hugsað sem viðurkenning fyrir það, sem þessi maður er búinn þegar að vinna, og kemur þetta því ekki undir þá lagasetningu, sem hv. form. fjvn. benti á í þessu sambandi. að nú væri búið að samþykkja um dýralækningar. Og þar sem nú er kominn lærður dýralæknir á Selfoss, þá má telja, að starfi þessa fátæka manns í þessu efni muni vera lokið. Sem sagt, maður treystir því, að hv. þm. greiði allir atkv. með þessari brtt. í viðurkenningarskyni fyrir vel unnið og erilsamt starf, sem er búið að vinna nú þegar.

Ég á hér ekki fleiri brtt.. og væri kannske réttast fyrir mig að láta máli mínu lokið, því að ef fara á út í fjárlagaafgreiðsluna, þá mundi ekki vinnast tími til þess. Þó get ég ekki á mér setið að minnast á það, að ég mun greiða atkv. með því, að þær aðgerðir verði heimilaðar, sem nú liggur brtt. fyrir um, 15% lækkunin á verklegum framkvæmdum, sem ekki eru lögbundnar. og jafnframt minnast á brtt. þær. sem liggja fyrir á þskj. nr. 704 frá hæstv. fjmrh. Ég skil allar þær brtt. og af hvaða rótum þær eru runnar. Og ég skil þá nauðsyn, sem liggur á bak við þær allar saman, og ég get greitt atkv. með þeim. Það er ekki af því, að ég vilji andmæla þeim, að ég minnist á þær, því að þær eru komnar fram vegna varúðar, þó að það sé vitanlega ekki með glöðu geði, að ég greiði þeim atkv. Öðru nær. Þær raddir láta hátt, svona af og til, að það verði að verja athafnalífið í landinu og taka ekki vinnuaflið til annars, en þess, sem nauðsynlegt er fyrir þjóðarbúið. En þetta, sem er nefnt starf og athafnalíf í landinu, og hitt, sem hér er verið að skera af beint og óbeint, þ.e. framkvæmdir hins opinbera, er svo skylt hvort öðru, að deila má um það mjög lengi, hvort frekar muni vera undirstöðusteinar í þjóðfélaginu, hvað atvinnulíf snertir, t.d. vegagerðir um landsbyggðina, að því leyti sem þær eru skynsamlega ákvarðaðar og framkvæmdar. annars vegar og hins vegar framleiðslu- og uppbyggingarstarfið sjálft í sveitum landsins, meðan lendur eru ekki í fullri byggð á þessu landi, að telja megi, er hvað öðru skylt, og þykja mér slíkar vegagerðir ekki sízt undirstöðuatriði atvinnulífsins. Og ef stemma á stigu fyrir því — sem virðist nú vera áhugi fyrir, bæði í sveitum og kaupstöðum, og ekki sízt í Reykjavík —. að fólkið þyrpist í kaupstaðina úr sveitunum, þá þarf ekki sízt að athuga, hvernig eigi að treysta samgöngur til sveita og hvernig þannig eigi að tryggja, að bændur hverfi ekki frá búum sínum og að ungum og efnilegum mönnum þyki fýsilegt að búa í sveit. Þetta er sameiginlegt áhugamál sveitamanna og kaupstaðabúa. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. En það er nauðsynlegt, að við afgreiðslu fjárl. sé þess gætt, að þörfu málin gangi fyrir þeim, sem óþarfari eru. En þessa hefur ekki verið gætt nú um langan tíma, svo sem skyldi, við samningu fjárl. Og þessa hefur verið gætt minna og minna. Ég vildi láta þessa skoðun mína í ljós, ekki sízt með tilliti til þess, sem hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við VIII. lið á brtt. nr. 704 — sem ég játa, að eins og málin liggja fyrir, er eðlileg, og ég mun greiða atkv. með —, að ef eitthvað á að skera niður, þá ber að skera af miður þörfum liðum fremur en hinum nauðsynlegu.

Ég hef ekkert að þakka og lítið að vanþakka hv. fjvn. Það er ekki von, að hún geti sagt, eins og sagt var í gamla daga, að hún hafi litið yfir allt, sem hún hafi gert, og getað svo sagt með réttu: „Sjá, það var harla gott.“ Það væri ofætlun. Hún samanstendur af mönnum víðs vegar að af landinu, og hver otar þar sínum tota. Hún er ranglát, vill þó gæta sanngirni gagnvart öllum og vera sjálfri sér bezt. Og við verðum að taka þessu, af því að þetta er svona. Ég viðurkenni, að starf fjvn. er vandasamt starf og ekki nokkur leið að gera það svo að öllum líki. Og mér finnst ástæðulaust að beina hörðum skeytum að einstökum hv. þm., sem eru í fjvn., það yrði þá heldur að beina aðfinnslum að fyrirkomulaginu sjálfu í þessum efnum. Ég býst við, að sú lagasetning, sem skipar fyrir um ákvörðun fjárl., eins og gert er, þyrfti raunverulega að breytast.