25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

12. mál, fjárlög 1947

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég á hér á þskj. 710 litla brtt. ásamt 3 öðrum hv. þm. Þessi brtt. er við 15. gr. og fer fram á að veita Arnóri Sigurjónssyni 5.000 kr. ritstyrk. Arnór mun hafa haft þessa upphæð s.l. ár, en af einhverjum ástæðum hefur þetta fallið niður nú, og vil ég helzt ætla af vangá og sé því brtt. okkar fremur leiðrétting. Það er vitað, að Arnór er með allra ritfærustu mönnum, enda hefur starfað mikið og látið eftir sig mörg og merkileg rit, svo að allir þeir, sem dæmt hafa, hafa talið vel unnið, jafnvel þeir, sem voru honum ekki hliðhollir, sögðu, að sem rithöfundur væri hann með færustu mönnum. Við, sem flytjum þessa till., teljum því ekki rétt að fella niður fjárveitingu til Arnórs. Ég mundi orða það svo, að íslenzka þjóðin hafi ekki efni á að neita honum um styrk. Hann er mjög fátækur og getur ekki notið sín á sínu sviði án þess að fá fjárstyrk. En það, sem honum er veitt, mun koma margfalt frá honum aftur, því að hann er hamhleypa til verka og starfsmaður með afbrigðum. Ég tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till., sem raunar, eins og áður segir, er þó fremur leiðrétting.

Þá er ég meðflm. að brtt. á þskj. 702, XVIII, þar sem farið er fram á að veita 15 þús. kr. byggingarstyrk til Sigurðar Sigurðssonar málara. Ég sé ekki ástæðu til að mæla með þeirri till., hún er svo vel liðin, að þm. hafa keppzt um að gerast meðflm., þannig að fram eru komnar tvær brtt., sem fjalla um stuðning eða styrkveitingu til Sigurðar Sigurðssonar. Ég tel því þessa till. okkar samþykkta, geng út frá því sem vísu.

Loks eru það aðeins örfá orð út af hinni skriflegu brtt. hv. samgmrh., er forseti hefur lýst, þess efnis, að Gunnlaugi Kristmundssyni sandgræðslustjóra yrðu veitt full laun, er hann lætur nú af störfum. Ég tel, að ég hafi sýnt vanrækslu um að búa þetta mál í hendur Alþ. og fjvn., eins og mér bar skylda til. En eins og hæstv. ráðh. tók fram, vorum við fleiri búnir að tala um þetta fyrir alllöngu, en er við sáum till. fjvn., litum við báðir svo á, ég og hann, að sandgræðslustjóri héldi fullum launum þar með. En það var sérstök vanræksla af mér að tala ekki við n., en það var af því, að ég leit fljótt á þetta og athugaði það svo ekki nánar. En ég get tekið undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að eigi nokkur embættismaður rétt á fullum launum, þó að hann láti af störfum, þá er það Gunnlaugur Kristmundsson. Það er áreiðanlega leitun á manni í þjónustu ríkisins, sem hefur ávaxtað betur sitt pund og látið verða meira úr litlum fjármunum í hinu erfiða brautryðjandastarfi sínu við sandgræðsluna, og það er vafalaust ástin á starfinu, sem hér kemur til greina. Þó að þessi till. komi svona klaufalega seint fram og sé ekki vel rædd við fjvn., þá vona ég, að hún leggist ekki á móti þeirri till., úr því að við áttuðum okkur á elleftu stundu. Hér er varla um mikið að ræða til hækkunar frá því, sem nú er, en það er óviðeigandi að hafa þetta svona. Þetta vildi ég taka fram, án þess að þörf sé á að rökstyðja till. betur en hæstv. ráðh. gerði.

Ég mun síðar sýna með atkv. mínu. hvernig ég er stemmdur gagnvart hinum ýmsu brtt., er nú liggja fyrir.