25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

12. mál, fjárlög 1947

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan æskja þess, að hæstv. menntmrh. gæti heyrt mál mitt, áður en ég lýk því.

Viðvíkjandi till. hæstv. samgmrh. um að taka inn á heimildagrein full laun til handa Gunnlaugi Kristmundssyni sandgræðslustjóra vil ég upplýsa, að fjvn. hafði það til athugunar á sínum tíma og ákvað að gera það ekki eða leggja það ekki til, heldur taka inn 3000 kr. auk lögboðinna eftirlauna, og ég legg til, að það verði samþykkt. Löngu síðar kom till. frá stjórninni um full laun. Það er ekki frá n. runnið, en hún hefur ekki sett sig á móti því. Hins vegar er stór ágreiningur um það innan n. hvort yfirleitt á að fara inn á þessa braut. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að það er ekki vegna þess, að n. skorti skilning á starfi Gunnlaugs Kristmundssonar, að ekki er búið að ganga frá þessu með hann. Hitt er það, að n. telur þetta varhugaverða braut yfirleitt, eða svo mun a.m.k. meiri hl. hennar líta á. Þetta var gert í fyrra, og ef nú er aftur heimilað einum manni til handa í ár, þá heldur þetta áreiðanlega áfram næstu ár o.s.frv., fyrir utan það, hve erfitt er að flokka og meta gildi manna þannig. Það yrði þá að miða full laun við eitthvað óumdeilanlegt, visst tímabil, aldurstakmark eða slíkt. Þetta vildi ég aðeins útskýra nokkuð.

Hvað viðvíkur aths. hv. 1. þm. Eyf., er hann gerði út af frestun vegaframkvæmda í kjördæmi sínu, þá hefði ég búizt við meiri umræðum um það mál almennt. Það hefur verið frestað framkvæmdum fyrir samtals eina milljón króna á sama tíma sem ausið var tveimur milljónum úr ríkissjóði fram yfir fjárlög og í algeru heimildarleysi. Og ég vil nú spyrja: Til hvers er allt þetta stapp í fjvn. og Alþ. um vegi og annað, tilfærsla vega og nákvæmar ákvarðanir, ef ríkisstj. tekur sér síðan vald, annars vegar að taka fé til framkvæmda án nokkurrar heimildar, hins vegar að vanrækja framkvæmdir, sem samþykktar hafa verið hér á Alþ. Þetta hefur t.d. verið vanrækt stórkostlega í Barðastrandarsýslu, svo að sýslubúar hafa sent viðkomandi ráðh. hörð mótmæli. Og ég vildi gjarnan heyra það af hans munni, að þannig yrði ekki haldið áfram, því að ella yrði að gera einhverjar ráðstafanir í þessu sambandi. Hæstv. samgmrh. var að tala um vegina í Eyjafirði, en ég vil þá benda á það, sem er raunar hverjum manni ljóst, að Öxnadalsheiðarvegurinn er mest fyrir Eyjafjörð — en þó raunar að vissu leyti fyrir allt landið, og í hann var eytt 250 þús. kr. fram yfir fjárlög. En svo eru aftur tveir vegir í Eyjafirði. sem eru á fjárlögum 1946, báðir þó með lágar upphæðir, en í þeim var aftur ekkert unnið. Þetta eru Árskógsstrandarvegur og Hörgárdalsvegur.

Viðvíkjandi Arnóri Sigurjónssyni og því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að hann mundi hafa fallið niður af gleymsku, þá er það ekki rétt. Ég veit þó ekki um hæstv. fyrrv. fjmrh., en n. fór í gegnum þetta, gegnum öll fjárlögin, og varð ekki samkomulag um að taka þennan lið inn til 2. umr. Um Arnór urðu menn ekki heldur sammála á síðasta þingi. Nú eru veitt 87 þús. til ritstarfa og fræðimennsku, og ef Arnór er sá rithöfundur, sem af er látið, og ber ég ekki á móti því, þá á hann aðgang að þessari fjárveitingu, því að n. ætlaðist ekki til, að hún yrði notuð til launahækkana, án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Ég sé því ekki ástæðu til að taka þennan nýja lið inn, en bendi einnig í þessu sambandi á skálda- og listamannastyrkinn, sem hækkar mjög. En ég mun verða á móti þessum lið, er hann kemur til atkvæða.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 8. landsk. mörgum orðum. Hann hefur auðsjáanlega ekki kynnt sér nægilega vel, hvað gert hefur verið í menntaskólamálinu, hve mikil sóun og vitleysa hefur átt sér stað. Það hefur ekkert land verið keypt. Það hafa verið keyptir nokkrir húskofar, og það hefur tekizt að eyða í þetta 300–400 þús. kr., svo að málið er verr sett, en þótt ekkert hefði verið gert. Þetta eyðslufálm tefur beinlínis framkvæmd málsins.

Mér þótti vænt um, að hv. 8. landsk. fór að draga aftur í land það, sem hann sagði um öflun tekna. Þessi þm. fullyrti, að það væri ekki hans að koma með tekjuöflunarleiðir. Ég veit það vel, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að Sósfl. semji tekjuöflunarfrv. fyrir ríkisstj., enda yrði aldrei hægt að nota það frv., 4. þm. Reykv. lagði til, að samþ. yrðu óbreyttar till. til listamanna. Fjvn. hefur haft þetta til athugunar og ekki viljað fallast á það, nema þær till., sem meiri hl. n. hefur samþ. og ríkisstj. fallizt á, en það er m.a. framlag til Karlakórs Reykjavíkur. Ummæli 11. landsk. þm. um mig sé ég ekki ástæðu til að fara út í hér, en ég vil benda á það, að n. hefur fyrirbyggt, að lækkuð yrðu framlög til hafnargerða, eins og fyrst var ætlað. Það er því rangt. að það framlag sé skorið niður, því þó að um 15% lækkun sé að ræða, þá eru 350 þús. lagðar í hafnarsjóð. Þessu var haldið fast fram í n., m.a. til þess að tryggja sem bezt, að hinn nýi floti hefði öruggar hafnir, eftir því sem föng eru á. Ég sendi það heim aftur, að ég hafi látið undan mér verri mönnum í n., enda stríðir það á móti því, þegar kommúnistar hafa borið mér á brýn ranglæti, heimsku og vitleysu, þó að ég hins vegar taki mér ekki þessi ummæli þeirra nærri.

Þá vil ég svara 3. landsk. Hann er nú ekki viðstaddur, en það er ekki mitt verk að gæta þess. Það er ætlazt til þess, að ég sitji hér undir öllum umr. og svari öllu, sem að mér er kastað. Það er því ekki til mikils ætlazt, þó að þm. séu viðstaddir, þegar að þeim kemur, 3. landsk. var að tala um það, að Barðastrandarsýsla mundi ekki fara varhluta í þessum fjárl., en það væri öðru máli að gegna með Norður-Ísafjarðarsýslu. Þetta er alrangt hjá þessum hv. þm. Ef hann athugar, hvað þessi sýsla fær, þá kemst hann að raun um, að hún fer ekki varhluta við þessi fjárlög. Það er t.d. veitt mikið fé til öldubrjóts í Bolungavík, en ekkert samsvarandi í Barðastrandarsýslu. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þennan samanburð, þar sem þessi þm. er ekki viðstaddur, enda auðvelt að sjá þetta í frv., ef menn vilja ljá því auga.

Í sambandi við það, sem 2. þm. Árn. var að segja, að hann hefði fjvn. ekkert að þakka, hún væri ranglát og þar væri hver og einn sjálfum sér næstur, þetta sagði hann orðrétt. Mér ber skylda til að mótmæla slíkum ummælum, enda eru þau algerlega úr lausu lofti gripin. Ég verð því að þreyta forseta á því að fara ofurlítið nánar út í þetta. Árnessýsla fær 585 þús. í vegi, en Barðastrandarsýsla, sem þessi þm. lét þau ummæli falla um í Ed. fyrir skömmu, að væri illu heilli í byggð, sýslan, sem meira flytur út af afurðum en nokkur önnur sýsla á landinu, hún fékk 568.300 kr. og er því lægri en Árnessýsla. Árnessýsla fær 365.500 kr. til hafnargerðar. Þó hef ég ekki orðið var við mikinn sjávarafurðaútflutning úr þessari sýslu, en Barðastrandarsýsla, mesta útflutningssýslan, fær 375 þús. Alls fær Árnessýsla nálægt 21/2 millj., en svo segir 2. þm. Árn., að hann hafi ekkert að þakka. Ég verð að segja, að mér finnst þetta harla ósvífið. Sömuleiðis má minnast á Suður-Múlasýslu. Eftir að búið var að taka réttlátt tillit til hennar í fjvn., þá kemur núverandi menntmrh. og talar um, að hún fari varhluta og heimtar aukin framlög til hennar. Ég mótmæli, að ekki hafi verið tekið fullkomið tillit til þessarar sýslu, miðað við aðrar sýslur, þó að ráðh. noti aðstöðu sina til þess að knýja fram hækkuð framlög til hennar.

Fjvn. hefur borið fram nokkrar breytingar. m.a. framlag til Jóns Sveinbjörnssonar. en það hafði óvart fallið niður. Þá er skrifleg brtt. frá meiri hl. n. um að greiða 33 þús. kr. til tryggingarsjóðs í Bolungavík, þó með nokkrum skilyrðum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar nú. N. hefur yfirleitt fylgt till. ríkisstj., en ekki einstakra þm.