25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

12. mál, fjárlög 1947

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefur tekið upp á sína arma brtt. frá mér viðvíkjandi hafnargerð á Grenivík, að vísu ekki eins mikið og þurft hefði með, en það er þó byrjun. Og þetta litla þorp mundi, eins og nú er komið, leggjast í eyði, sjómennirnir fara frá húsum sínum og túnum, ef það tækist ekki að gera nokkra byrjun á bátabryggju til skjóls fyrir báta þeirra. Vitamálastjóri gerir ráð fyrir því, að það muni kosta 400 þús. kr., og af því á þorpið að bera helming. Þessi litla upphæð, sem hér er tekin upp, gerir ekki stórt að vísu, en gefur þessum mönnum þó, sem þarna búa og eru að kaupa tvo stóra vélbáta, vonir um, að þessari framkvæmd muni verða haldið áfram og þeir þurfi ekki að fara þaðan burt.

Þá hefur hv. fjvn. enn fremur tekið upp á heimildagr. 20 þús. kr. til þess að ganga frá leiðum nokkurra skálda. Það er ekki nefnt, hverra leiði það eru. Og það er heldur í sjálfu sér ekki tæmandi, sem tekið var fram í þáltill. minni um það. Þar gætu komið til greina jafnvel önnur skáld en þau, sem þar eru nefnd. En því er slegið föstu, að með þessari byrjun er verið að reyna að vinna að því, að þeim dauðu sé sýnd hin síðasta viðurkenning með því að láta leiði þeirra ekki týnast eða vera í vanhirðingu. Það er skemmst á það að minnast, að það skáld, sem var mörgum og þ. á m. mér einna kærast, hefur verið grafið erlendis og var þar í 100 ár grafið, án þess að nokkur maður eða íslenzka þjóðfélagið gerði nokkuð til þess að verja leiðið gleymsku. En um leið og við áfellumst þá, sem þannig hafa með þetta farið áður, skulum við minnast þess, að við brjótum á mjög alvarlegan hátt að þessu leyti. — Ég vil skjóta því til hv. fjvn., sem ætlar nú að hækka skáldastyrkinn töluvert mikið, að það eru mjög fá af þeim skáldum, sem nú fá styrk, sem hafa unnið sér til ágætis nokkuð sem heitir á borð við þau skáld, sem ég vildi láta minnast með því að sýna virðingu gröfum þeirra. Meginið af skáldastyrknum nú fer til viðvaninga og sumpart til þeirra, sem enginn maður með nokkurri skynsemi les. Og er það orðin hrein plága, sem svo kallað stéttarfélag skálda hefur gert til þess, að mönnum, sem ekki eru skáld, er haldið uppi með fjárgjöfum. Aftur á móti hygg ég um þau sjö skáld, sem ég nefndi í minni till., að það muni líða mjög margar aldir, án þess að þeim verði gleymt, t.d. vil ég nefna Bjarna Thorarensen og Grím Thomsen. Það er leiðinlegt til þess að hugsa, að ekki skuli hafa verið betur hugsað um leiði þessara manna en svo, að það er til minnkunar. Og hér er verið að byrja á menningarviðleitni, sem er óhjákvæmilegt að halda áfram. Það ber vott um mikla vöntun í okkar menningu, að gagnvart mönnum, sem eru svo mikils metnir af þjóðinni sem listamenn, að á hverju sæmilegu íslenzku heimill eru bækur þeirra í bókaskápum, skuli mannfélagið ekki hafa sýnt svo mikla ræktarsemi að hafa séð sóma sinn í því að virða legstaði þeirra fyrr en þetta. En nú á að ráða nokkra bót á þessu. Hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. eru ekki hér viðstaddir. En ég lofa þeim því að halda þessu máli vakandi, ef ég tóri, þetta ár, þannig að það verða a.m.k. að vera mjög sterk rök fyrir því, ef okkar kæra fósturland getur ekki komið því til leiðar að má þennan vanrækslublett af skildi þjóðfélagsins.

Ég hef flutt tvær brtt. viðvíkjandi menntaskólanum í Reykjavík. Hv. form. fjvn. hefur farið um það mál nokkrum orðum og skýrt það, eins og það virðist liggja fyrir, að fyrrv. kennslumrh. hefur kastað burt um það bil hálfri milljón kr. í það að kaupa réttindi í Laugarnesi handa nýjum skóla, sem reynast svo að verða einskis virði, nema því aðeins að Reykjavíkurbær fáist til að leysa þetta inn. Það er víst hæstv. Alþ. kunnugt, hvernig þessu er varið. Fyrrv. menntmrh. tók sér það vald, án þess að bera það undir Alþ., í fyrra að fara að stofna til að byggja nýjan menntaskóla á allt öðrum stað, en skólinn nú stendur. Þetta er til stórskammar fyrir þennan fyrrv. ráðh. og líka fyrir hæstv. Alþ., því að það, að Alþ. hefur liðið þetta, að svona sé farið með peninga, er ámælisvert. Það var ámælisvert fyrst og fremst af öllum nemendum skólans og kennurum og rektor, að þeir skyldu láta vera, að „ákveðið“ var á þennan hátt að flytja skólann. Það var Alþ.. sem átti að samþykkja það, en ekki maður, sem af tilviljun var menntmrh. — Nú hef ég flutt brtt. um þetta. Önnur er um það, að þegar tekjuöflun hefur orðið hálf millj. til skólans, þá verði ákveðið, hvort skólinn á að vera á sama stað og hann er eða ekki. Ef þessi till. fellur, þá er að vísu ekki sagt, hvar skólinn eigi að vera. En þó hefur Alþ. þá fyrir sitt leyti óbeinlínis sagt það, að það vilji láta flytja skólann. Og þá er a.m.k. vitalítið fyrir núverandi hæstv. ríkisstj.. þó að hún fari með skólann eitthvað burt úr bænum, af því að þá er búið að segja, að skólinn eigi ekki að vera á sama stað. Ég kem með brtt. um, að þetta fé, sem fest var í fyrra í þessu sambandi, sem ég tei, að Reykjavík eigi til bráðabirgða að borga aftur, verði notað skólanum til gagns, og þá ekki sízt til rektorsbústaðar. Ef það aftur á móti kemur í ljós, að það fáist ekki, heldur séu þessar 400 þús. kr. tapaðar, þá finnst mér koma til greina dómur á þann ráðh., sem þetta gerði, þó að það verði ekki ákveðið í þetta skipti, því að það var ólögleg meðferð á fé, sem kom til greina í hans ráðslagi þessu viðkomandi. Fyrst ákveður þessi fyrrv. ráðh., að skólinn skuli verða færður inn í Laugarnes, og hann kaupir þar ekki lóðir, heldur erfðafesturéttindi á landi og einhvern húskofa gamlan í Laugarnesi. Hvort sá ráðh. hefur borið þetta undir bæjarstjórn eða ekki, skal ég ekki segja um. Ef hann hefur gert það, hvílir nokkuð mikil siðferðisleg skylda á bænum að greiða þetta fé til landssjóðs aftur. Ef hann hefur ekki gert það, eru líkur til þess, að landið tapi þessu fé alveg, því að þegar þessi fyrrv. ráðh. er búinn að kaupa þessi lítils verðu réttindi, þá koma útvegsmenn, þeirra samband í bænum, og segja: Við þurfum einhvers staðar að hafa land fyrir okkur. Og bærinn hefur þá ekkert land nema þetta, og hann á það og hefur fullan rétt á því nema erfðafesturéttinn. — Það eina, sem var óklárt í þessu er þá, hvort bærinn hefur leigt fyrrv. menntmrh., samþ. þessa leigu og gefið þessum ráðh. þar með vonir um það, að þarna mætti byggja, eða hvort þetta var ekki til staðar. En þetta er náttúrlega orðinn fullkominn „skandall“ út af fyrir sig á allan hátt, og er gott, að úr því greiðist með þeirri atkvgr., sem hér kann að fara fram um þetta.

Þá vildi ég nota tækifærið til þess að víkja því til hv. form. fjvn., að það mun vera í hans ágætu n. till., sem búin er að liggja þar nokkuð lengi, um það, að Alþ. ákveði, hvort það vill kaupa eða ekki lóðir bak við menntaskólann. Það er langbezt að afgreiða þessa till. til lífs eða dauða, vegna þess að sérstaklega, ef hún verður samþ., þá er mjög óþægilegt, að það skuli ekki hafa verið samþ. nú þegar, einmitt af því að það brann niður mikið af þessum húsum. Það hefði verið langeðlilegast, ef átt hefði að kaupa það, að vera búinn að kaupa það. Nú býst ég við, að hv. fjvn. geti sagt, að það sé ekki búið að ákveða, hvort skólinn eigi að vera á þessum stað. En það hefði verið bezt, að það kæmi í ljós með því að láta fara fram atkvgr. um till. Ef till. yrði felld, er það að vísu ekki ákvæði um að flytja skólann, en þó nokkuð í áttina.

Brtt. er hér flutt af hv. 2. þm. Reykv. um að verja 5 þús. kr. til þess að bæta Snorragöng í Reykholti. Ég vil óska þess, að þessi brtt. verði samþ. En verði hún felld, mun samt sem áður verða framkvæmd þessi viðgerð vegna þess undirbúnings, sem gerður verður í Reykholti til þess að taka á móti gjöf frá Noregi nú í sumar. En brtt. er réttlát og því æskilegt, að hún verði samþ.

Ég vil enn bæta því við, að það er meira en lítill skaði, sem menntaskólinn sem stofnun bíður við það, að allt er óákveðið um hans málefni. Er það ólíkt gangi málsins viðkomandi hinum skólanum, á Akureyri, þar sem hinn vaski skólameistari, sem þar er, er mjög öruggur og veit, hvað hann vill. Þar er því byrjað mjög myndarlega á heimavistarhúsi, sem duga mun skólanum um langa framtíð. Og útlit er fyrir, að skólameistarinn fái mikla peninga til þess að halda áfram framkvæmdum fyrir þann skóla. Þegar búið er að byggja þetta hús, sem er nokkuð langt frá skólanum, er miðað við að halda áfram byggingum fyrir þennan skóla. En á meðan Sigurður skólameistari á Akureyri hefur unnið hvern sigurinn á fætur öðrum fyrir sinn skóla, hefur með einstökum ræfildómi verið haldið á málum Menntaskólans í Reykjavík. Það hefur jafnvel verið talað um að leggja hann niður og gera hús hans að einhvers konar skrifstofu fyrir þm. Þetta hús er ákaflega óhentugt fyrir þingið til afnota, og ég mun kannske við annað tækifæri, áður en þessu þingi lýkur, fá aðstöðu til þess að minna þingið á, hve lítil virðing kemur fram hjá þessari stofnun fyrir sér og sínum verkum, með því að leggja tugi millj. kr. í byggingar alls staðar annars staðar, en láta Alþ. vera án þeirrar nauðsynlegu aðstöðu, sem það þarf að hafa til þess að vinna sín verk. En þetta væri engin úrbót, að leggja menntaskólahúsið undir afnot Alþingis.

Það, sem komið hefur fram um Menntaskólann í Reykjavík, er: Menn hafa hugsað sér að flytja hann, en því hefur verið aftrað til þessa. Mestur hluti gamalla nemenda hans, sem hafa rækt til hans, vilja ekki láta flytja hann. Fyrrv. menntmrh. hefur reynt að hindra það, að félag gamalla stúdenta kæmi sér saman um, að skólinn fengi að lifa á þessum stað, sem hann er á. Þessi afstaða gamalla nemenda skólans, að vilja hafa skólann kyrran, er ekki undarleg. En það er verið að reyna að þvæla skólanum burt úr miðbænum þrátt fyrir alla skynsemi, sem mælir með því að hafa hann þar áfram, og þrátt fyrir meðmæli gamalla nemenda með því að hafa hann þar áfram. Svo er búið að eyða 400 þús. kr. ólöglega af ríkisfé inni í Laugarnesi fyrir ekki neitt. Svo er búið að eyða fé til athugunar því að hafa skólann inni á Golfskálahæð. Enn fremur er það mjög ólíklegt, að 12 millj. kr. verði til til þess að byggja menntaskólann fyrir, því að nú neyðist stjórnin til að biðja um, að Alþ. samþykki 15% lækkun á öllum verklegum framkvæmdum á fjárlagafrv. Samtímis því eru menn svo að tala um að henda burt frá skólanum gamla skólahúsinu, sem mundi kosta a.m.k. 12 millj. kr. að byggja upp aftur á þeim stað, þar sem hugsað hefur verið að gera. — Menn geta fellt brtt. mína um að hlynna að menntaskólanum. En það getur hver maður haft fulla vissu um það, að það er ekki hægt að flytja þennan skóla. því veldur fátækt annars vegar og hins vegar sterkar tilfinningar gamalla nemenda skólans. En það er hægt, ef menn vilja, að láta hann grotna niður fyrir óviðunandi ræktarleysi við húsið og skeytingarleysi um það, sem á að gera fyrir þennan skóla.

Ég vík þá að brtt. við 22. gr. fjárlagafrv., sem ég stend að einn eða með öðrum. Síðasta brtt. er viðvíkjandi fyrirhleðslu Fauska og annarra varnargarða við Markarfljót. Það stendur þannig á, að kvísl þarna er farin að færast í aukana og gera sig líklega til að eyða byggð í Landeyjunum. En heimildir um þessa hættu komu ekki frá vegamálastjóra til fjvn., fyrr en búið var að ljúka brtt. þar. Nú eru báðir hv. þm. Rang. í fjvn., og annar þeirra óskaði eftir, að ég flytti þetta mál fram, af því að hann og fjvn. yfirleitt hafði ekki góða aðstöðu til þess að bera fram þessa brtt. En æskilegt væri að ræða málið hér og að hæstv. ríkisstj. athugaði, hvort ekki væri möguleiki á að stöðva aðsteðjandi hættu af þessu vatnsfalli.

Þá vildi ég víkja því að hv. form. fjvn., að í fyrra, þegar mjólkurbúið á Blönduósi fékk ábyrgð og nokkurn styrk, þá var ég með sams konar mál fyrir Húsavík á ferðinni. Hygg ég, að það sé rétt hermt, að fjvn. og hv. form. n. hafi þótt vera nokkuð seint að taka það þá inn, er ég kom með það fram, enda byggingin á Húsavík komin skemmra en á Blönduósi. En ég man ekki betur, en að hv. form. fjvn. hefði þau orð þá, að þetta mundi koma til greina síðar. En það er gamall vani að styrkja slík bú af því opinbera. Og búið á Blönduósi hefur fengið út sinn styrk, líklega mestallan styrkinn og ábyrgðina. Ég vildi óska þess, að hæstv. Alþ. sæi sér fært að láta sömu „klásúlu“ gilda nú um þetta nýja mjólkurbú á Húsavík eins og það gerði í fyrra viðkomandi Blönduósbúinu.

Þá hef ég borið fram brtt. við 22. gr., sem mér þykir hugsanlegt, að verði felldar í þetta skipti, en jafnhugsanlegt, að verði samþ. í næsta skipti. Þær eru alveg sjálfstæðar, og það er stórkostlegur skaði að því að fella þær. Það er gengið út frá því í þessum brtt. að skylda 5 af þeim mönnum, sem standa hér fyrir stórfelldum verklegum framkvæmdum, eða aðstoðarmönnum þeirra, að bregða sér út fyrir pollinn á hverju ári þriggja til fjögurra vikna tíma til þess að fylgjast með í sinni mennt. Ég ætla fyrst að taka til forstöðumann skipulagsmála, sem á að ráða fram úr um skipulag allra kaupstaða og allra kauptúna á landinu og a.n.l. til sveita. Það er að vísu ekkert sérstakt út á hans vinnubrögð að setja frekar en hinna mannanna, sem hér eru til teknir. Þessir menn standa allir vel í stöðu sinni. En það sjá allir, hve erfitt það er í svona litlu landi, sem hefur mikla þróun og öra, ef menn geta ekki fylgzt með nýjungum eða niðurstöðum í þeim málum, sem snerta framkvæmdir okkar og uppbyggingu á þessu landi. Ég t.d. tek þann mann af þessum 5, sem flestum hv. þm. er kunnur, vegamálastjóra, sem hefur starfað í 30 ár að starfi sínu af miklum dugnaði. Og það fara, að ég held, 30 millj. kr. í gegnum hendur hans á hverju ári við vegagerðir, bæði viðhald vega og lagningu nýrra vega, og svo til að byggja brýr og til viðhalds þeirra. Hvernig eiga svona menn að þola samkeppni við verkfræðinga í öðrum löndum, sem geta fylgzt með öllum nýjungum svo að segja heima hjá sér?

Ég var nýlega inni hjá Geir Zoëga, þar sem aðstoðarmaður hans var að teikna margháttaðar stórbrýr. Hann sýndi mér mismunandi teikningar af Þjórsárbrú og Blöndubrú. Ég hef ekki vit á að gagnrýna það og hygg, að það sé allt í góðu lagi. Þjórsárbrúin á að kosta um 3 millj. kr. Eru hv. þm. vissir um, að það sé mikil sparsemi, að ekki megi einn maður frá vegamálastjóra fylgjast á hverju ári með því, sem gerist í þessum málum í Ameríku, Englandi eða á meginlandinu? Þetta verður sjálfsagt drepið nú. En ég hygg, að þeir, sem gera það, með vondri samvizku, þeir viti, að þetta er rétt mál og það sé þeim til leiðinda, af því að það er ekki skemmtilegt né vænlegt til frambúðar að drepa rétt mál.

Þá kem ég að þeim lið, sem er hugsaður á sama hátt fyrir hæstarétt, að einn af fimm dómurunum bregði sér út fyrir pollinn á hverju ári til þess að fylgjast með því, sem gerist í þeirra mennt. Ég vildi óska, að ekki væru nema þrír dómarar í hæstarétti, og ég áfellist þá, sem stóðu að fjölgun þar, að auk þessara fimm dómara eru tveir á eftirlaunum, og launaðir varamenn réttarins eru það margir, að við munum nú hafa jafnvel 8-9 hæstaréttardómara á launum. Okkur þykir kannske, að þessir menn hafi nokkuð há laun, en ég get sagt hv. þm. þá sögu um einn af hæstaréttardómurunum, einn af þeim yngri, að ég varð honum samferða heim til hans af fundi nokkru eftir háttatíma. Hann sagði við mig: „Ég býð þér í svefnherbergið, skrifborðið mitt er þar.“ Í stuttu máli, þessir menn, sem vinna afar mikils vert starf og vandasamt, eru ekki betur launaðir en það, að einn af þeim verður að hafa skrifborð sitt inni í svefnherbergi. Það er sjálfsagt eins gott að skrifa þar og annars staðar, og margir hafa gert það, en þó mun annað þykja hentara. Nú er það svo með okkur, að það veitur ákaflega mikið á því með okkar hæstarétt, að hann fylgist með tímanum, þó að maður taki ekki okkar innri mál, en það koma fyrir önnur mál, þar sem okkar dómar koma undir gagnrýni annarra þjóða, landhelgisgæzlumál o.fl. Hæstaréttardómarar okkar hafa yfirleitt staðið sig mjög vel í þeim efnum, en það er samt afar ósanngjarnt að ætlast til þess, að hæstaréttardómarar hjá þjóð, sem er aðeins 130 þús. manns, geti fylgzt vel með öllu, sem gerist á þeirra sviði úti um heim, án þess að hafa tækifæri til að ferðast til annarra landa til að kynna sér þar sína mennt, en laun þessara manna eru svo lítil, að það eru engar líkur til, að þeir geti tekizt slíkt ferðalag á hendur af eigin rammleik, enda ósanngjarnlegt til þess að ætlast.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta og læt ráðast, hvernig fer um till. við atkvgr.