25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

12. mál, fjárlög 1947

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get alls ekki tekið afsakanir hæstv. samgmrh. gildar fyrir því, að fellt var niður að vinna að vegagerð í Eyjafjarðarsýslu á s.l. ári, eins og fjárl. ákváðu. Helzta ástæða hans var sú, að það hefði verið lagt svo mikið fé í þrjá vegi, sem lægju að héraðinu, en þó ekki beinlínis í því, en þetta fé, sem væri veitt til þeirra, væri veitt af Alþ. Jafnvel þó að lítið væri svo á, að þessir vegir kæmu sérstaklega að notum, þá lít ég svo á, að hæstv. samgmrh. og vegamálastjóri hafi ekki heimild til þess, þó að þeir líti svo á, að héraðið fái nóg með því að leggja þá vegi, þá hafi þeir ekki vald til þess að fella niður fjárveitingar, sem Alþ. hefur samþ., nema þær ástæður séu fyrir hendi, sem fjárl. gera ráð fyrir, að gætu komið fyrir, og væri heimilt undir vissum kringumstæðum að láta framkvæmdirnar falla niður.

Nú er það ákaflega einkennilegt, að heil héruð verða fyrir því, að allt er látið niður falla, sem til þeirra er veitt til vega, en önnur fá aftur hærri upphæð en til þeirra er veitt. Ef þessu á fram að fara, þá sé ég ekki minnstu þýðingu í því, eins og hv. frsm. n. vék að í sinni ræðu, að fjvn. sé að eyða kröftum sínum og þm. í að vinna fjvn. til fylgis við till. um fjárframlög til einstakra vega í héruðum, ef ekki ber nokkur skylda til að fara nokkurn hlut eftir þessu, sem Alþ. ákveður í því efni. Ef svo á fram að fara, þá þætti mér miklu réttara, að það væri, eins og fyrst var ákveðið í frv., ein upphæð til nýrra vega og vegamálastjóri og ríkisstj. ákveði svo, hvar þessu fé væri varið, ef ákvarðanir Alþ. um einstakar fjárveitingar eru einskis virtar.

Hæstv. samgmrh. segir, að það hafi verið unnið svo mikið að vegagerð í námunda við héraðið og þess vegna hafi ekki verið hægt að standa við þau loforð, sem Alþ. hafi gefið héraðinu. Hér er um það að ræða hreint og beint, hvort það er vegamálastjóri og ríkisstj. eða Alþingi. sem hafa veitingarvaldið í þessu efni. Enn sem komið er hefur Alþ. tekið sér og hefur veitingarvaldið, a.m.k. að forminu til, en í mörgum tilfellum hefur það verið gert að engu af framkvæmdarvaldinu, af ákvörðunum vegamálastjóra. Það kann vel að vera rétt og er meira virði sú ástæða, sem hæstv. samgmrh. nefndi, að það hafi vantað vélar til að vinna að þessum vegum, en mér þykir það nú undarlegt, að það skyldi alveg sérstaklega vanta vélar til að vinna það, sem ákveðið var að vinna í Eyjafjarðarsýslu, en ekki vanta vélar til að vinna það, sem unnið var rétt við hliðina á héraðinu.

En fyrir utan þetta, þá verð ég að segja það, að sú kenning er harla undarleg, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. og einnig hv. frsm., að þessir vegir, sem eru ekki í Eyjafjarðarsýslu, séu svo miklu meira því héraði viðkomandi, en öðrum héruðum landsins, og af þeim ástæðum hafi verið rétt að fella niður þær vegalagningar í héraðinu, sem fjárl. ákváðu. Hv. frsm. segir, að Öxnadalsheiðarvegurinn sé að langsamlega mestu leyti fyrir Eyjafjörð. Ég álit, að þetta sé ákaflega vafasamt. Eyjafjörður notar ekki Öxnadalsheiðarveg neitt sérstaklega til langferða. Eyfirðingar flytja ekki afurðir sínar yfir Öxnadalsheiði og hafa þar yfir engin verzlunarsambönd. Ég hygg, að öll héruð fyrir austan Öxnadalsheiði hafi jafnmikið gagn af veginum yfir þá heiði, en Eyjafjörður ekkert sérstaklega. Ég skal meira að segja segja hv. frsm., hvaða hérað ég álit, að noti Öxnadalsheiðarveginn mest. Það er Reykjavík, þó að undarlegt kunni að virðast. Ég hygg, að úr einstöku héraði fari langflestir Reykjavíkurbúar yfir Öxnadalsheiði og miklu fleiri Reykjavíkurbílar, en eyfirzkir bílar.

Talsvert öðru máli er að gegna um Ólafsfjarðarveg. Ég játa það, að sá vegur er til að koma Ólafsfjarðarkaupstað í vegasamband við vegakerfi landsins. En þó að vegurinn, sem nú er gerður, liggi gegnum Eyjafjarðarsýslu, þá hefur Skagafjarðarsýsla, Fljótin, sömu hagsmuna að gæta og Eyjafjörður, því að þegar þessi vegur kemur, þá opnast leið fyrir þá til að koma sínum afurðum í verð í Ólafsfjarðarkaupstað.

Undarlegt þykir mér, ef á að telja Svalbarðsstrandarveg sérstaklega fyrir Eyjafjarðarsýslu gerðan. Þann veg þurfti ekki til að Eyjafjörður hefði vegasamband austur, því að það liggur þegar vegur yfir Vaðlaheiði, sem tengir Akureyri og Eyjafjörð við sveitirnar þar fyrir austan. Nei. Svalbarðsstrandarvegurinn er alveg innansveitarvegur í Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu þannig óviðkomandi. Að vísu hafa menn á Svalbarðsströnd verzlunarsamband við Akureyri. en ég sé ekki, úð það komi beinlínis þessu máli við. En hafi verið ómögulegt að leggja þessa vegi í Eyjafirði, eins og Alþ. hafði ákveðið í fyrra í fjárl., vegna verkamannaleysis, þá held ég, að það sé beinlini stoð undir það, sem nú er í aðsigi, að takmarka frekar en til stóð um tíma fjárveitingar til nýrra vega. Ég sé ekki almennilega gagn af því, eins og var í Eyjafirði á s.l. ári. að fá fjárveitingar til nýrra vega, en svo sé ekkert gert. Mér virðist, að það verði einmitt að taka þetta atriði til sérstakrar athugunar og þá séu ekki nema tveir vegir fyrir hendi. Annar er sá, að staðið sé við fjárveitingar Alþingis og vegamálastjóri hafi enga heimild til að breyta þar út af, t.d. að þrjózkast við að láta leggja veg, sem búið er að samþykkja að veita fé til. Hinn vegurinn er sá, eins og ég sagði áðan, að gefa vegamálastjóra einnig að forminu til einræðisvald í þessum málum, eins og hann virðist nú hafa í reyndinni.

Fleira þarf ég svo ekki fram að taka.