06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

45. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Sú breyt. á l. um menntaskóla, sem samþ. var á síðasta þingi og hér er farið fram á, er á þá leið, að kennslustundum kennara fækki úr 27 niður í 24 á viku, og enn fremur, að kennsluskylda núverandi kennara við menntaskólana skuli haldast óbreytt frá því, sem ákveðið er í reglugerð skólanna, sem enn er í gildi, að svo miklu leyti, sem hún fer ekki í bága við l. um menntaskóla.

Þessi aukning úr 24 st. í 27 varð í meðferð þingsins, en var ekki í till. mþn. Var þetta samþ. af nokkrum hv. þm.. sem stóðu að samþykkt frv., í þeirri trú, að kennslustundin hefði stytzt, en svo er ekki, hún er jafnlöng, 45 mín. eins og áður.

Ástæðan fyrir því, að þessar breytingar hafa þótt nauðsynlegar eru greindar í aths. við frv.

Áður en kennsla skyldi hefjast í haust. tilkynntu kennarar, að þeir gætu ekki sætt sig við þessa breyt., og þótti farið aftan að sér, þar sem sú kjarabót, er þeir fengu með launalögunum, væri með samþykkt þessa ákvæðis að nokkru frá þeim tekin, því að laun þeirra lækkuðu um 12%.

Þeim ber ekki skylda til að kenna meir, en ákveðið er í lögum, en með núverandi nemendafjölda er ekki hægt að halda uppi kennslu nema með því, að kennararnir taki að sér allmikla kennslu fram yfir það, sem l. ákveða, en þá aukakennslu neituðu þeir að taka að sér, nema breytt yrði í fyrra horf.

Nauðsynlegt var að komast að samkomulagi við kennarana, og því fór ríkisstj. fram á það við þá, að þeir tækju að sér aukakennsluna gegn því, að ríkisstj. lofaði að beita sér fyrir því á þingi, að l. yrði breytt, og því er þetta frv. fram komið, en kennararnir telja viðunandi að l. verði breytt, svo sem í frv. er ákveðið. En ætlazt er til, að kennslustundafjöldi smálækki eftir 15 ára kennslu ofan í 24 stundir. Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.