29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

12. mál, fjárlög 1947

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Heyrendur góðir. Ræða sú, er hv. 4. landsk., Brynjólfur Bjarnason, innleiddi umr. þessar með í gærkvöld, bar jöfnum höndum vott um gáfur þm. og málfimi, svo og ótakmarkað blygðunarleysi í meðferð sannleikans og fullkomið siðleysi í framkomu gegn pólitískum andstæðingi. Hv. þm. viðhafði meðal annarra prúðmannlegra orða um núverandi hæstv. forsrh. þau ummæli, sem ekki verða misskilin, þótt eigi væru sögð beinum orðum, að hann væri milljónaþjófur og landráðamaður —„og þó fátt eitt talið“, bætti hv. þm. við. Fátt eitt talið. Þetta bara það minnsta. Hv. þm. virðist svo sem ekki telja landráð meðal hinna meiri háttar ávirðinga. Ég held, að það þurfi meira en meðalmannfyrirlitningu til þess að bera svona á borð fyrir alþjóð manna í þeirri von, að það sé þeim til framdráttar, sem það gerir. Annars ætla ég mér ekki nú að fara langt út í að svara þessari ræðu hv. þm. Ég get þó ekki leitt hjá mér að minnast á örfá atriði hennar — aðeins til þess að sýna meðferð hv. þm. á staðreyndum og málflutning hans.

Ein hin fyrsta ásökun hans í garð stj. var það, að hún hefði látið skera niður 15% af framkvæmdum í fjárl. — Hugsið ykkur slíkt fantastrik gegn alþýðu manna — 15% atvinnurýrnun í landinu. Hver er svo sannleikur málsins? Það, að hér var eiginlega um tilfærslu að ræða á ýmsum liðum verklegra framkvæmda, eins og þeir voru á fjárlagafrv. eftir 2. umr. Við 3. umr. var ýmsum nýjum liðum og hækkunum bætt inn í frv., en svo aðrir lækkaðir á móti til jafnvægis. Og þess varaðist hv. þm. að geta, sem þegar hefur verið upplýst, að á fjárl. þessum, sem nú er verið að afgreiða, er ætlað til verklegra framkvæmda um 16 millj. kr. meira en á fjárl. síðasta árs, er hinir viðsýnu og stórhuga sósíalistar stóðu að. Svona er nú háttað niðurskurði núverandi ríkisstj. á hinum verklegu framkvæmdum í landinu. Ríkisstj. verður ekki ásökuð fyrir hann.

Ég er fyllilega sammála hæstv. fjmrh., að það væri fremur ástæða til að ásaka hana fyrir hitt, að fallast á það að hækka opinberar framkvæmdir frá því, sem þær voru á síðasta árs fjárl., eins og allt er í pottinn búið. Ekki vegna þess, að framkvæmdanna sé ekki full þörf og meira en það, heldur vegna hinnar miklu útgjaldahækkunar á fjárl. og ekki siður vegna hins, hve hætt er við, að hinar geysilega miklu opinberu framkvæmdir lami framleiðsluatvinnuvegi þjóðarinnar með því að draga um of frá þeim verkafólkið. Þjóðin lifir ekki lengi á opinberum framkvæmdum, ef framleiðsla landsmanna lamast, t.d. vegna verkafólksskorts. Þetta varð þó að samkomulagi milli þings og stjórnar, að því við bættu þó, að ríkisstj. fékk heimild til þess að fresta framkvæmdum að einhverju leyti. ef fjármála- eða atvinnuástand þjóðarinnar gerði það nauðsynlegt.

En þessi heimild var svo annað ásökunarefni hv. þm. á hendur ríkisstj. — hinn svívirðilega 15% niðurskurð kórónaði svo ríkisstj. með því að afla sér heimildar til enn meiri niðurskurðar.

Ég held, að ekki verði komizt hjá því að minna hv. þm. á það. að þegar gengið var frá fjárl. s.l. árs, þá sátu hér í ríkisstj. tveir ákaflega ötulir og árvakrir framfaramenn, sem hétu Brynjólfur Bjarnason og Áki Jakobsson. Þegar þeir gengu frá fjárl. sínum, fengu þeir samþ. þar heimild til þess að draga úr framkvæmdum til verklegra framkvæmda, sem ekki eru bundin í öðrum l. en fjárl., um allt að 30% — o.s.frv., svo framarlega sem ríkisstj. telur, að vinnuafl dragist um of frá framleiðslustörfum. Þó var þá ætlað 16 millj. kr. lægri upphæð til verklegra framkvæmda en nú, eins og fyrr er sagt. Með öðrum orðum, heimild þeirra var næstum hin sama og heimild núverandi ríkisstj., að öðru leyti en því, að þeir vilja fá leyfi til þess að draga úr framkvæmdum, en núverandi ríkisstj. fer aðeins fram á að fá þeim frestað.

Hvernig er nú hægt að samræma það, að það, sem var þjóðhollusta og framsýni 1946, sé þröngsýni og böðulsháttur 1947?

Það er á allan hátt þakklætisvert, þegar hv. þm. ber ósannindin fram bein og umbúðalaust heldur en að viðhafa þessa meðferð á staðreyndum og sannindum.

Ég held nú, að þessi dæmi ættu að nægja til þess að sýna sannleiksást og samvizkusemi þessa hv. þm. í málflutningi. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast ofurlítið á ráðvendni hans í útskýringum hinna nýju gjalda, er stjórnin var tilneydd að beita sér fyrir. Hv. þm. lét í það skína, ýmist að gjöldin kæmu til með að leggjast aðallega á framleiðsluna til lands og sjávar eða fyrst og fremst á launamennina í landinu. Þó veit hv. þm. sjálfur, eins og allir aðrir, sem kynnt hafa sér þessi mál, að þess var vendilega gætt, að hinir nýju tollar féllu ekki á vörur, sem ganga beint inn í framleiðsluna, eins og t.d. fóðurvörur og áburð o.fl. Hann veit líka, eins og búið er að upplýsa í þessum umr., að tollunum er einnig haldið að mestu utan við þær vörur, sem framfærslukostnaður þjóðarinnar byggist á, og að því sem þær gera það, þá verða þær greiddar niður eða skapa neytendum kauphækkun að sama skapi á móti. Hitt er svo engin ný uppgötvun, að ekki er hægt að afla ríkissjóði milljónatekna, án þess að það komi á einhvern hátt við þjóðina. En svo samvizkusamur er hv. þm. í útreikningum sínum, að hann deilir höfðatölu landsmanna í þá upphæð, sem áætlað er, að hinir nýju tollar færi ríkissjóði, og þykist þar með sanna að þeir leggi þær byrðar á launamenn landsins, er nemi launalækkun að meðaltali 9% á heimilisföður. Hvernig þætti honum að láta beita þessari reikningsaðferð gagnvart sjálfum honum?

Tekjur ríkissjóðs s.l. ár voru um 200 millj. kr. Hvernig væri nú að skipta þjóðinni niður í 5 manna fjölskyldur og deila þeirri tölu síðan í þessa upphæð — og birta síðan með feitu letri. að ríkisstj. þeirra Brynjólfs og Áka hefði lagt um 8.000 kr. álögur á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu? Ætli það hefði ekki einhverjum þótt ástæða til að gripa til gagnráðstöfunar?

Ég læt nú þetta nægja hér um að sinni og sný mér að öðru. Hæstv. menntmrh., Eysteinn Jónsson. gerði í gær skýra grein fyrir því, hvers vegna Framsóknarfl. ákvað að taka þátt í núv. ríkisstj., ég þarf ég því engu við það að bæta. Flokknum var það fyllilega ljóst, samkv. öllum sólarmerkjum að dæma, að þar mundi ekki vera um að ræða neinn dans á rósum. - En flokkurinn hefur aldrei skorazt undan því að taka á sig ábyrgð og áhættu, sem jafnan fylgir stjórnmálalegum örðugleikum, ef hann hefur talið sig hafa aðstöðu til að þoka áfram þeim málum, er hann berst fyrir og eru í samræmi við stefnu hans. Í samræmi vió þessa stefnu sina og fortíð sína ákvað hann þátttöku sína í núverandi stjórnarstarfi.

Flokkurinn leit svo á þegar í upphafi stjórnarkreppunnar s.l. haust, að eðlilegast og æskilegast væri. að allir flokkar þingsins gætu sameinazt um ríkisstj. til að mæta þeim vanda, sem nú er við að fást, og reyndi að stuðla að því. Þetta tókst ekki. sem kunnugt er, þar eð kommúnistar reyndust einnig stefnu sinni og fortíð trúir og hlupust á burt úr ríkisstj., jafnskjótt og örðugleikarnir drápu á dyr — þó að þeir hefðu lifað þar hátt á meðan ölið var á könnunni.

Hæstv. menntmrh. ræddi og útskýrði rækilega málefnasamning ríkisstj. að öðru leyti en þann kafla, er fjallaði um landbúnaðarmálin, og mun ég nota þetta tækifæri til að fara um hann nokkrum orðum.

Fyrsta atriðið, sem þar er getið, er hin nýja skipan á afurðasölumálum landbúnaðarins. Frv. hefur verið samið í samræmi við það og er nú til meðferðar á Alþ. Þar er tekin öll afurðasölulöggjöfin í heild, kjöt- og mjólkursölulögin með nokkrum viðauka og endurbótum, ásamt hinni nýju ákvörðun um meðferð og stjórn þessara mála.

Aðalnýmæli þessa frv. er það ákvæði þess, að yfirstjórn og framkvæmd afurðasölunnar skuli fengin í hendur bændunum sjálfum eða félagssamtökum þeirra, er sjálf velja sér fulltrúa í níu manna framleiðsluráð, er nú tekur við málunum af búnaðarráði. Kýs Stéttarsamband bænda fimm menn í það á félagsfundi, en 4 greinar þeirra félagssamtaka bænda, er annast meginhluta afurðasölunnar, kjósa sinn manninn hver. Þykist ég mega fullyrða, að þegar þessi löggjöf er á komin, þá verði skipan þessara mála komin í þann farveg, er meginhluti bænda hefur jafnan kosið sér. Þegar afurðalögin voru sett í fyrstu af aðkallandi nauðsyn, skorti með öllu þann félagslega grundvöll, sem nauðsynlegur var, til þess að bændur gætu þá þegar tekið málin í sínar hendur, enda var þetta þá algert nýmæli hér á landi. Það var því einn kostur nauðugur fyrir framkvæmdavald ríkisins, er setti löggjöfina, að taka framkvæmdina einnig í sínar hendur fyrst í stað. Þó var þegar í lögunum ráð fyrir því gert, að bændur gætu tekið vissan þátt framkvæmdanna í sínar hendur, er félagsleg skilyrði væru fyrir hendi af þeirra hálfu. Þannig varð það einnig í framkvæmdinni. Og á þeim 12 árum, sem afurðasölulöggjöfin hefur verið í gildi, hefur skilningur bændastéttarinnar á nauðsyn þessarar löggjafar og félagssamtök þeirra smám saman verið að þróast og mótast í þá stefnu, að þeir yrðu sjálffærir um að taka með öllu við framkvæmd málanna.

Eftir það, að Stéttarsamband bænda endanlega var stofnað á Hvanneyri s.l. haust með fullu samkomulagi allra aðila, var ekki lengur eftir neinu að bíða með að fá því málin í hendur. Þetta er gert í áður nefndu frv., sem samið er um, að verði að lögum á þessu þingi — og þar með fær Stéttarsamband bænda löglega viðurkenningu sem fulltrúi bændanna í hagsmunamálum þeirra, á sama hátt og stéttarfélög verkamanna og launþega fyrir alllöngu hafa fengið löghelgaða viðurkenningu sem opinberir málsvarar og umboðsmenn þessara stétta.

Þá tel ég nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um verðlagsákvörðun landbúnaðarvaranna, en um hana eru sérstök ákvæði í frv.

Um valdið til verðlagsákvörðunar, sem vissulega er eitt höfuðatriði þessara mála, hefur jafnan staðið nokkur styr, frá því að afurðasölulöggjöfin var sett, og hefur um það oltið á ýmsu. Af þeim leiðum, sem reyndar hafa verið á því 12 ára tímabili, sem löggjöfin hefur gilt, þori ég að fullyrða, að sú aðferð, sem tekin var upp á stríðsárunum og útfærð í hinni svokölluðu sexmannalöggjöf, hafi náð langalmennustum vinsældum og viðurkenningu meðal bænda. Það var grundvöllur þessarar löggjafar, að það verð skyldi á hverjum tíma sett á afurðir bænda, að þeir, sem landbúnað og landbúnaðarstörf stunda, bæru svipað úr býtum til jafnaðar og aðrar vinnandi stéttir þjóðarinnar. Það er svo að sjá, að þarna hafi löggjafinn fundið lausnarorðið, er allur þorri bænda var fús að fallast á. Bændur eru ekki kaupkröfumenn í þeim skilningi, að þeir krefjist þess að lifa við betri launakjör en almenningur í landinu yfirleitt. En hins krefjast þeir, að verða ekki settir skör neðar í lífskjörum, en allir aðrir landsmenn, enda verður þjóðfélagið að horfast í augu við það, að hér er ekki unnt að halda við framleiðslu landbúnaðarvara fyrir þjóðina til frambúðar, ef þeim, sem það starf stunda, er ætlað að búa við önnur og lakari launakjör, en allir aðrir. — Ég held líka, að allir sanngjarnir menn hafi viðurkennt, að þessi grundvöllur sé bæði sanngjarn og eðlilegur, þó að nokkur styr hafi staðið um það, hvernig hafi tekizt framkvæmd á honum í sexmannanefndarsamkomulaginu alkunna. Í afurðasölufrv. er gert ráð fyrir því að lögleiða þennan grundvöll að nýju. Og aðferðin til að fínna hann er ekki ósvipuð og fyrr. Ætlazt er til, að Stéttarsamband bænda tilnefni þrjá menn í nefnd af sinni hálfu, en á móti komi þrír menn frá félagssamtökum neytenda. Til aðstoðar þessum sex mönnum er ætlazt til, að komi tveir helztu fræðimenn á þessu sviði: hagstofustjóri og forstöðumaður búreikningaskrifstofu ríkisins. Verði hinir sex nm. sammála um niðurstöðuna, er hún að fullu gildandi fyrir báða aðila. Fari hins vegar svo, að ekki náist fullt samkomulag meðal nm., er gert ráð fyrir, að yfirnefnd þriggja manna, er skipuð sé einum manni frá fulltrúum bænda, einum frá fulltrúum neytenda, svo og hagstofustjóra, felli fullnaðarúrskurð um deiluatriðin. Þetta atriði gildir þó aðeins á meðan það ástand varir, að landbúnaðarvörur eru greiddar niður á innlendum markaði, eða ef greiddar yrðu útflutningsuppbætur á þær.

Í löggjöfinni um stéttarfélög er félögum launþega veittur samningsréttur af þeirra hálfu til ákvörðunar kaupgjaldsins gagnvart atvinnurekendum og félagssamtökum þeirra. Enginn kaupsamningur er löglegur, nema samþykktur sé af báðum aðilum. Náist ekki samkomulag, getur það endað í átökum, sem leiða til verkfalls og verkbanns, sem svo að lokum lyktar þannig, að annar hvor aðilinn eða báðir slaka til, oftast fyrir milligöngu sáttasemjara. Það má segja, að með hliðsjón af þessari löggjöf hefði verið eðlilegast, að samninganefndir bænda og neytenda væru eini aðilinn, sem fjallaði um verðlag landbúnaðarvaranna, og ef ekki gengi saman með þeim, færu að síðustu fram samskonar lokaátök og hjá verkamönnum og vinnuveitendum, er samningar ekki takast. En á það hefur verið bent, og því verður varla á móti mælt, að á meðan það ástand varir, að ríkið greiðir niður allmikinn hluta af verði landbúnaðarvaranna, þá raskar það að verulegu leyti eðlilegu jafnvægi á milli framleiðandans og neytandans, ef til átaka kæmi — eins og aðstaðan á milli verkamannsins og atvinnurekandans færðist úr eðlilegum skorðum, ef ríkið greiddi niður nokkurn hluta vinnulaunanna, svo að þau kæmu ekki fram í kaupgreiðslum hjá atvinnurekandanum. Það mætti segja, að undir þeim kringumstæðum gæti hvor fyrir sig, bóndinn eða verkamaðurinn, verið óvægari í kröfum sínum umverðlagið eða kaupgjaldið, ef þeir vissu, að ríkisstj. yrði að greiða afurðaverð eða kaupið niður að vissu marki til þess að geta haldið ríkisbúskapnum gangandi. — Það er af þessum ástæðum, að ekki var talið fært annað en að samþykkja ákvæðið um yfirnefndina, á meðan þetta fyrirkomulag helzt, því að þótt niðurgreiðsluleiðin sé síður en svo fremur gerð vegna bændanna, en þjóðfélagsþegnanna í heild — og þeir óskuðu sér, að unnt yrði að leggja það niður sem fyrst —, þá þýðir ekki annað en að horfast í augu við þá staðreynd, að þjóðfélagið er orðið svo flækt í vísitölufarganinu, að ekki verður hlaupið upp úr því fyrirvaralaust.

En svo er á hitt að líta, að grundvallarákvæði þessa máls, um, að verðlagið skuli miða við það, að framleiðandinn hafi sambærileg kjör við aðrar stéttir, á að vera höfuðtrygging hans í þessu máli. Þess vegna er það reginmisskilningur, sem fram kemur hjá þeim, sem halda því fram, að neytendum sé gefið úrslitavald til verðákvörðunarinnar með því að ákveða hagstofustjóra sem oddamann yfirnefndarinnar. Yfirnefndin hefur hér ekki sama hlutverk og samninganefnd í venjulegum kaupdeilum, heldur eins og dómari í lagaskýringum. Lögin ákveða verðlagið eftir vissum forsendum. Yfirnefndin með hagstofustjóra sem leiðsögumann á svo að leiða hinar réttu forsendur í ljós og síðar að fella dóminn eftir þeim, alveg á sama hátt og venjulegur dómstóll felldi dóm í vandasömu máli í samræmi við orð og anda viðkomandi laga. Menn hafa iðulega misjafnar skoðanir um réttmæti dóma, og svo getur farið hér. En þjóðfélagið getur ekki veitt þegnum sínum meira réttaröryggi en það að setja réttlát lög og láta svo dæma í þeim af mönnum, sem til þess hafa mesta þekkingu og leggja embættisæru sina í veð fyrir að gera sitt bezta.

Annað atriði stjórnarsamningsins varðandi landbúnaðarmálin var það, að frv. það, sem liggur fyrir Alþ. um endurskoðun ræktunarsjóðslaganna, verði samþ. á þinginu. Frv. þetta lá fyrir síðasta þingi, en dagaði þá uppl. Aðalbreytingar frv. frá gildandi lögum eru í þessu fólgnar:

1. Fjárráð sjóðsins verða aukin frá því, sem nú er, þannig, að til hans leggist árlega framlag úr ríkissjóði, er nemi hálfri milljón króna á ári í næstu 10 ár, alls 5 milljónir króna.

Sjóðnum sé aflað lánsfjár með lágum vöxtum, allt að 10 milljónum króna.

2. Lánsupphæðir eru hækkaðar upp í allt að 60% af kostnaðarverði mannvirkisins — og lánin er heimilt að veita til ræktunar, byggingar útihúsa og allra annarra framkvæmda í þágu landbúnaðarins nema íveruhúsa — en lán til þeirra verða veitt samkv. l. um landnám og nýbyggðir.

3. Vextir af stofnlánum ræktunarsjóðs skulu lækka í 21/2%.

Því ber ekki að neita, að hætta er á, að starfsfé það, er sjóðnum er ætlað, reynist bráðlega helzt til takmarkað, miðað við verkefni þau, sem honum eru ætluð, og lánsfjárþörf þá, sem fyrir er og fram undan er. Þess var freistað á síðasta þingi að auka það nokkuð, en það tókst ekki. Nú eru hins vegar þær horfur í fjármálum, að ótækt var að setja afgreiðslu málsins í tvísýnu með stórfelldum breytingum á frv. vegna hinna mikils verðu lagfæringa á lánskjörum landbúnaðarins, sem í því felast. Má og fullyrða, að örðugt mundi hafa reynzt að fá frv. lögfest á yfirstandandi þingi, ef það hefði ekki verið tekið upp í málefnasamning ríkisstj. Hins verður líka að vænta, að eftir að sjóðunum hefur verið efldur svo, sem nú er í ráði, þá verði hann þess megnugur að afla sér lánsfjár á venjulegum lánamarkaði án þess að hækka útlánsvexti sína að stórum mun. Mál þetta hefur ekki enn náð afgreiðslu frá þinginu vegna ofurlítið mismunandi sjónarmiða innan ríkisstj. um aðferðina til öflunar lánsfjárins. En nú er að verða samkomulag um það atriði, svo ekkert er lengur til fyrirstöðu á afgreiðslu málsins.

Þá er einnig um það samið í starfssamningi stjórnarinnar, að núgildandi jarðræktarlög verði endurskoðuð og jarðræktarstyrkurinn aukinn hlutfallslega — miðað við þær aðstæður, er voru, þegar lögin voru endurskoðuð síðast, með tilliti til þeirra breytinga, er síðar hafa orðið á aðstæðum til jarðræktarinnar. Það verður tæpast um það deilt, að aukin ræktun og þar með bætt aðstaða til aukinnar vélanotkunar er jöfnum höndum eitt hið mesta nauðsynjamál bændanna til betri afkomu og þjóðarinnar í heild vegna lækkunar framleiðslukostnaðar landbúnaðarafurða, svo að báðum aðilum ber að leggja megináherzlu á þær framkvæmdir. Hin stórlega bætta aðstaða við ræktunina, sem skapaðist við hina nýfengnu löggjöf um félagsræktun og framkvæmd hennar og þar með aukna notkun stórvirkra jarðvinnslutækja, mun og án efa hafa í för með sér stórfelldar framfarir í þessum efnum nú og á næstu árum.

Þá tel ég rétt að geta hér eins mikils verðs hagsmunamáls landbúnaðarins, er núverandi ríkisstj. hefur haft með höndum og afgreitt fyrir skömmu. —

Eins og kunnugt er tók ríkissjóður á sínum tíma ábyrgð á verði útfluttrar ullar á stríðsárunum, þ.e. á árunum 1943, 1944 og 1945. Ullarbirgðir þessar höfðu legið óseldar í landinu öll stríðsárin og bændur því orðið að biða eftir andvirðinu og greiðsluskilum frá ríkissjóði.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við; stóð málið þannig:

Búið var að selja út úr landinu ull fyrir ca. 7.570.200. Selt er, en ógreitt fyrir ca. 1.117.000. Óseldar birgðir í landinu f. ca. 1.340.000, þannig að áætlað var, að fyrir alla ullina yrðu greiddar ca. 10.027.200 kr.

Verð allrar ullarinnar með ábyrgðarverði og áætluðum geymslukostnaði var áætlað alls um 13.580 þús., svo að halli sá, er ríkissjóður kæmi til að bera af ábyrgð ullarverðsins og geymslu hennar, gæti orðið um 31/2 milljón króna.

Ríkisstj. leit svo á, að þýðingarlaust væri fyrir ríkið að aka þessu lengur á undan sér. ríkissjóður var lögum samkvæmt skuldbundinn að greiða þetta, og bændur. sem von var, langeygðir eftir að fá þessi gömlu viðskipti uppgerð. Stjórnin ákvað því í samræmi við nær einróma vilja, sem fram hafði komið í fjvn. Alþingis fyrir áramótin, að ljúka viðskiptum þessum. Með góðri samvinnu og aðstoð Sambands ísl. samvinnufélaga, sem hefur með höndum 80% af ullinni, og heildverzlunar Garðars Gíslasonar tókst henni að ráða þannig fram úr þessum málum, að meginhluti greiðslunnar mun nú verða færður inn í viðskiptareikninga viðkomandi bænda. Sú upphæð, sem samkomulag varð um að greiða þessum aðilum vegna hinnar óseldu ullar og ábyrgðarhallans. nam 4,8 milljónum, en fullnaðargreiðsla fer svo fram, þegar eftirstöðvar ullarinnar verða seldar — og ríkisstj. hefur átt þess kost að endurskoða geymslukostnaðarreikningana og hefur lagt samþykki sitt á þá.

Að síðustu vil ég svo geta þess, að tekjuöflun sú, er ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á þinginu og nú er orðin að lögum og kommúnistar hafa gert mestan hávaða út af, er að sjálfsögðu einn liður í þeim ráðstöfunum, sem nauðsynlegar eru, til þess að ríkið sé m.a. þess megnugt að standa undir gjöldum þeim, sem hér hefur verið á minnzt, svo og löggjöf þeirri, sem samþykkt hefur verið undanfarið, bæði lögum um landnám og nýbyggðir o.fl., sem kommúnistar hafa hælt sér af að hafa samþykkt, en sem vitanlega yrðu ekki meira virði en pappírinn, sem þau eru prentuð á, ef ekki væri jafnframt staðið að tekjuöflun, sem óhjákvæmileg er, til þess að þau komi að liði.