29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

12. mál, fjárlög 1947

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það er sjaldgæft að verða í lifandi lifi aðalsöguhetjan í reyfara, sem er uppspuni frá rótum, eins og ég var í skáldsögu Áka Jakobssonar hér áðan, og er það sannarlega ánægja fyrir svo óskáldlega persónu sem mig, lítinn og lágkúrulegan, að svona mikið skuli við mig haft, og mun það vissulega veita mér ótalda ánægju í daglegu striti, að ég skuli verka svo eggjandi á ímyndunarafl Áka Jakobssonar, að hann skyndilega verður mesti reyfarahöfundur, sem setið hefur á Alþingi.

Mér vinnst ekki tími til að rekja lið fyrir lið öll ósannindi hv. þm., og skal aðeins víkja að örfáum atriðum.

Um flugvöllinn vil ég aðeins segja það, að útlendingar þeir, sem þar starfa, eru að öllu leyti háðir umsjá útlendingaeftirlitsins og sækja um dvalarleyfi hér jafnharðan. Liggur mikill fjöldi slíkra umsókna nú fyrir dómsmrn., og hef ég ekki látið afgreiða þær, vegna þess að ég vil fá yfirlit um fjölda þessara manna og starfsgreiningu, áður en dvalarleyfin verða endanlega veitt.

Að svo miklu leyti sem enn kann á að vanta, að búið sé að koma öllu í rétt horf af Íslands hálfu á Keflavíkurvellinum, þá er það fyrst og fremst sök Áka Jakobssonar. Hann vanrækti undirbúning þessa máls í ráðherratíð sinni og gerði núverandi stjórn þar með erfiðara fyrir. Að öðru leyti er það flugmálastjórinn, sem vanrækt hefur að gera stjórninni aðvart, ef þarna er eitthvað öðruvísi en vera skal. Mega þeir Áki og Ellingsen mín vegna deila um, hvors sökin sé meiri. Það skiptir mig litlu.

Þá gerði Áki Jakobsson það að árásarefni á mig, að ég hefði að næturlagi farið suður á Keflavíkurvöll til að heilsa upp á utanrrh. Bandaríkjanna, Marshall, og taldi það úrslitasönnun um óhæfni mína til að vera utanrrh.

Minnstu máli skiptir, að ráðherrann kom hér að kvöldi, en ekki um nótt. Sýnir það aðeins, að jafnt er sagt ósatt um smátt sem stórt.

Það er góður og gamall íslenzkur siður að heilsa gestum, sem að garði ber, ekki sízt ef boð hefur komið á undan þeim. Sendiráð Bandaríkjanna tilkynnti mér, að ráðherrans væri von, og var það þá jafnt í samræmi við íslenzka sem alþjóðlega hæversku að taka á móti honum, er hann stigi á íslenzka grund.

Hitt vil ég segja, að ég var ekki í amalegum félagsskap að hitta Marshall, því að kvöldinu áður hafði hann einmitt setið í dýrlegum fagnaði með sjálfum Stalín austur í Kreml. Var þar veitt af mikilli rausn og tuttugu minni drukkin. Veit ég, að Áki Jakobsson mundi hafa unað sér vel í því hófi, enda mundi hann áreiðanlega ekki hafa þurft að kvíða því að vera rukkaður fyrir það áfengi, sem hann hefði þar tekið út.

Vegna ummæla Áka Jakobssonar um viðskiptasamningana við Rússa og framkomu mína í þeim skal ég rekja það mál nokkuð ýtarlega og sýna fram á lið fyrir lið, hversu fullyrðingar hans eru haldlausar. Ég mun ekki gera það af skáldlegu hugarflugi, eins og Áki Jakobsson talaði áðan, heldur halda mér við staðreyndirnar einar, eftir því sem þær óvefengjanlegar birtast í skjölum þeim, er í stjórnarráðinu liggja. En af þeim má marka framkomu Áka Jakobssonar í einu og öllu. Hún hefur öll verið á hinn sama veg og kemur fram í skiptum hans af viðskiptasamningunum við Rússa.

Það er upphaf þessa máls, að á s.l. hausti komu hingað 6 fulltrúar úr utanríkisviðskiptaráðuneyti Sovétríkjanna, að því er segir í bréfi Sovétsendiráðsins hér, dags. 19. sept. 1946, og er þá tilkynnt, að þeir hafi komið til Íslands um sinn í sambandi við afskipun á íslenzkum fiskútflutningsvörum til Sovétríkjanna.

Hæstv. fyrrv. atvmrh., Áki Jakobsson, hefur auðsjáanlega haldið, að úr því að menn þessir voru frá hinu stéttlausa ríki Sovétsambandsins, stæði á sama, hvort um væri að ræða menn, sem sendir væru til að sjá um útskipun á þegar keyptum fiski, eða útsenda samninganefnd til millíríkjaviðskipta, og hóf þegar í stað samningaumleitanir um frekari verzlunarviðskipti við þessa afskipunarfulltrúa og ritaði þeim bréf, dags. 21. sept., þar sem teknar eru upp viðræður um kaup Sovétríkjanna á ísuðum fiski. Nokkrum dögum síðar ítrekaði utanrrn. þessi tilmæli til Sovétsendiráðsins hér og spurðist fyrir um, hvort þessi viðskiptanefnd mundi vilja kaupa fleiri íslenzkar vörur, en þegar áður hefði verið samið um. Sovétsendiráðið svaraði þessu um hæl með bréfi. dags. 3. okt., og tilkynnti, að tilboð Íslendinga mundi verða sent áleiðis til hlutaðeigandi stjórnarvalda í Sovétríkjunum. Síðan bætir Sovétsendiráðið orðrétt við í íslenzkri þýðingu: „Sendiráðið telur rétt að nota þetta tækifæri til að nefna, að Sovétfulltrúarnir, sem eru nefndir í bréfi yðar. komu til Íslands til að taka á móti íslenzkum fiskframleiðsluvörum í sambandi við viðskiptasamninginn.“

Rétt stjórnarvöld rússnesk gátu eigi látið skýrar uppi en þetta, að afskipunarmenn þessir væru hér eingöngu í þeim tilgangi. en alls ekki komnir til að gera nýja verzlunarsamninga. Þrátt fyrir þessa ábendingu Sovétsendiráðsins og þrátt fyrir það, að hæstv. ráðh. barst ekki svar við bréfi því, er hann hafði sjálfur skrifað nefndinni 21. sept., var hæstv. ráðh., Áki Jakobsson, ekki af baki dottinn um þessar samningaumleitanir sínar. Hann átti áframhaldandi viðræður við formann þessarar nefndar, mann að nafni hr. Semenov. Jafnframt útvegaði hann sér skýrslur hjá Landssambandi útvegsmanna og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um það verð, sem þessar stofnanir teldu líklegt, að fá þyrfti fyrir framleiðslu útvegsmanna á þessu ári.

Þessar skýrslur voru honum sendar með bréfi, dags. 16. og 17. okt. s.l., og strax sama dag, eða hinn 17. okt. sendir hæstv. ráðh. þessar skýrslur áleiðis til herra Semenovs. En þeim mun varhugaverðara var að nota skýrslur þessar þannig, þar sem þær voru auðvitað samdar til leiðbeiningar fyrir íslenzka samningsaðila við erlend stjórnarvöld og alls ekki til þess lagaðar á þessu stigi að koma þeim í hendur, svo sem á daginn kom, því að þegar lögin um ábyrgðarverð á fiski voru síðar sett, þá reyndist verð það, sem íslenzka stjórnin varð að taka ábyrgð á, miklum mun hærra heldur en verðhugmyndir þær, sem ráðh. setti fram við herra Semenov í októbermánuði.

Má nærri geta, á hvern veg slík vinnubrögð voru til þess löguð að greiða fyrir síðari samningum við Sovétríkin, þegar miklu hærra verðs varð að krefjast. Þ.e.a.s. ef þessi plögg frá hæstv. ráðh. hafa nokkru sinni komizt til réttra aðila, svo sem ætla verður, þó að þeir að öðru virtust litt hirða um skipti hr. Semenovs af þessu máli.

Fyrst eftir að hæstv. atvmrh., Áki Jakobsson, hafði lagt þennan vænlega grundvöll fyrir samningsgerð við Sovétríkin, skipaði hann hinn 23. okt. þriggja manna nefnd til þess að ræða við herra Semenov og aðra fulltrúa ríkisstjórnar Sovétríkjanna um sölu á íslenzkum sjávarafurðum. (Í nefnd þessa voru skipaðir Ársæll Sigurðsson, formaður, Ólafur Jónsson og Einar Sigurðsson). Daginn eftir átti nefndin fund með herra Semenov og spurði hann þá, hvaða vörur Sovétríkin hefðu áhuga á að kaupa af Íslendingum á næsta ári og hvaða magn af hverri vörutegund. Herra Semenov kvað þau hafa áhuga á mörgum útflutningsvörum Íslendinga, en þó einkum þeim, er að neðan greinir, og í þeirri röð, sem þær eru hér taldar:

1. síldarlýsi.

2. saltsíld.

3. þorskalýsi.

4. hraðfrystum fiski.

5. ísuðum fiski.

6. saltfiski,

7. söltuðum hrognum.

Minnsta magn, sem Sovétríkin teldu sig geta sætt sig við af síldarlýsi og saltsíld. væru 2/3 af framleiðslunni, en helzt vildu þau fá keypta þessa framleiðslu alla. Ef samningar tækjust um það, mundu þau jafnframt vilja taka það, sem vér þyrftum að selja af öðrum vörum.

Herra Semenov sagðist vilja undirstrika það, að hann hefði ekki umboð til samninga, heldur hefði honum aðeins verið falið að leita tilboða, sem hann mundi síma til Moskvu. Þar mundi svo verða tekin afstaða til þeirra og þá væntanlega útnefnd samninganefnd með fullu umboði. Hr. Semenov kvað Sovétríkin hafa hug á því, að viðræðum væri hraðað, og óskaði að fá sem fyrst að vita hugmyndir Íslendinga um magn og verð hinna þriggja tegunda, sem fyrst eru taldar hér að framan.

Mánudaginn 28. okt. var svo haldinn fundur í utanrrn. að tilhlutan fors.- og utanrrh., Ólafs Thors, sem stýrði fundinum. Þar voru mættir, auk forsrh. og fulltrúa í utanrrn., níu menn frá ýmsum greinum sjávarafurðaframleiðslunnar, þar á meðal 2 nefndarmanna, þeir Einar Sigurðsson og Ólafur Jónsson. Auk þessara voru mættir tveir menn frá innflutningsverzluninni. Í lok þessa fundar lýsti forsrh. yfir því sem niðurstöðu fundarins, að fulltrúar íslenzkra framleiðenda væru fúsir til þess að hefja nú þegar viðræður og samningaumleitanir við fulltrúa ríkisstjórnar eða verzlunarstofnana Sovétríkjanna um viðskipti milli landanna. Hins vegar óskuðu þeir ekki að nefna verð eða magn, fyrr en samningar hæfust við menn með umboði, en hann fyrir sitt leyti óskaði, að það gæti orðið sem fyrst, helzt innan viku eða svo. Bezt teldi hann, ef samningar gætu farið fram hér á landi, en þó væri það ekki nein krafa. Bað hann þá nm., sem mættir voru á fundinum, að tilkynna hr. Semenov þessa niðurstöðu fundarins.

Daginn eftir tilkynntu nm. hr. Semenov þessa niðurstöðu og ummæli forsrh. Hr. Semenov spurði, hvort hann mætti síma þessi ummæli forsrh. til Moskvu og bera hann fyrir þeim, og svöruðu nm. því játandi. Hann kvaðst þá mundu gera það. Bjóst hann við, að það mundi taka nokkra daga að fá svar að austan, en hann mundi láta n. víta, þegar er svar kæmi. Fleiri fundi hafði n. ekki með herra Semenov.

N. skrifaði hæstv. fyrrv. atvmrh. bréf, dags. 13. nóv., þar sem hún tilkynnir, að hr. Semenov sé nú farinn til Englands og muni ekki koma aftur fyrr en eftir hér um bil hálfan mánuð. Segir n. að lokum, eftir að hún hefur rakið gang málsins:

„Nú er n. kunnugt um, að útgerðarmenn og frystihúsaeigendur eru orðnir óþolinmóðir að biða eftir lausn þessara mála, og má segja, að það sé að vonum, þar sem nú ýtir hver tíminn öðrum, er vertíð stendur fyrir dyrum. Eigi að bíða eftir komu hr. Semenovs frá Bretlandi — en hann kvaðst mundu koma hingað þaðan —. dragast allar viðræður a.m.k. um tveggja vikna skeið, eins og áður er sagt. N. hefur því komið sér saman um að beina því til yðar, herra atvmrh., hvort ríkisstj. mundi ekki telja rétt að leita eftir því með milligöngu utanríkisþjónustunnar, að þessum málum verði hraðað svo sem unnt er.“

Eftir þetta hefur ekki heyrzt frá hr. Semenov. svo að vitað sé. Hann svaraði n. aldrei þeim skilaboðum og tilboðum, er hann hafði fengið í hendur. og hann lét aldrei sjá sig framar hér á landi. Áður en hr. Semenov fór af landi brott, hefur hæstv. fyrrv. atvmrh., Áki Jakobsson, þó skýrt frá því, að hann hafi átt samtal við sig hinn 9. nóv. er sagt, að þá væri svar frá Moskvu komið og málið væri í athugun. Síðan hefur sem sagt ekkert spurzt til hr. Semenovs.

Ekki gerði fyrrv. atvmrh., Áki Jakobsson, gangskör að því, eins og n. bað um, að óska þess, að utanrrh. tæki mál þetta upp. En ráðuneytið gerði það engu að síður að eigin hvötum í des., og þegar sendifulltrúi Íslands í Moskvu samkv. tilmælum utanrrh. grennslaðist þá eftir því, hvað meðferð þessara tilboða Íslendinga liði, skýrði réttur aðili honum þar svo frá, að viðræðurnar milli Semenovs og atvmrh. hefðu að sínu áliti aðeins verið lausleg viðtöl til að kanna jarðveginn, enda væri Semenov ekki fulltrúi Sovétstjórnarinnar, heldur aðeins starfsmaður hjá verzlunarstofnuninni Exportkleb. Og þegar íslenzka samninganefndin austur í Moskvu, eða Ársæll Sigurðsson fulltrúi í henni, sem rætt hafði við hr. Semenov hér á landi, óskaði eftir að fá að tala við hr. Semenov, þá var honum tjáð, að hr. Semenov væri veikur, svo að ekki væri hægt að fá að tala við hann. Stóð við það, þegar síðast fréttist.

En það er fleira, sem horfið hefur úr þessari sögu, en hr. Semenov, því að í atvmrn. finnst ekki skýrsla samninganefndarinnar hér um viðtöl hennar við hr. Semenov, hvort sem hæstv. fyrrv. atvmrh. hefur viljað skjóta þessari opinberu embættisskýrslu undir stól eða hann hefur mislagt hana þar.

Á þessum trausta grundvelli voru reistar fullyrðingar hæstv. fyrrv. atvmrh. um, að Rússar mundu vilja kaupa mestallar afurðir okkar á þessu ári.

Það var fyrst eftir að núverandi ríkisstj. tók við, sem í alvöru voru teknar upp samningaumræður við Sovétríkin, enda höfðu rétt rússnesk stjórnarvöld skýrt frá í desember, að þau væru því samþykk, að íslenzk samninganefnd kæmi til Moskvu, annaðhvort í janúar eða í febrúar. Hitt kæmi ekki til mála, að rússnesk nefnd færi til Reykjavíkur.

Þegar samninganefndin fór austur til Moskvu, höfðu menn enn ekki til hlítar áttað sig á, að orð hæstv. fyrrv. atvmrh. um sölumöguleika austur í Rússlandi voru fleipur eitt byggt á viðræðum við mann, sem ekkert umboð hafði til verzlunarsamninga, heldur hafði eingöngu verið sendur hingað til að sjá um afskipun á fiski.

Vegna þess að menn gerðu sér þetta ekki nógu ljóst, voru þeir bjartsýnni, en efni stóðu til. Samningaumleitanirnar austur í Moskvu standa ennþá yfir, og vegna þess að það er ósamrýmanlegt hagsmunum Íslands að gera þær á þessu stigi að umræðuefni í einstökum atriðum, læt ég Áka Jakobsson eða aðra ekki ögra mér til þess. En það mun ekki standa á mér að gefa skýrslu um það mál allt, jafnskjótt sem efni standa til. Hitt má segja, að þeir samningar hafa gengið mjög erfiðlega.

Háttvirtir sósíalistar hafa verið að læða því út meðal almennings, að ein af ástæðunum til þess sé sú, að ekki hafi verið nóg mark tekið á hr. Semenov hér á landi.

Ég hef nú skýrt frá því, hvert mark Sovétyfirvöldin sjálf tóku á samningaumleitunum hans, og sýnir það, að hæstv. atvmrh., Áki Jakobsson, hefur einmitt gert sig að óvenjulegu fífli og orðið íslenzku þjóðinni til skammar og skaða með því að gera sér ekki grein fyrir réttu eðli málsins.

Þá sagði hv. Brynjólfur Bjarnason í gær, að það væri ekki vænlegt til samninga við Sovétríkin að hafa mann í sæti utanrrh. slíkan sem mig. Hið sama er í enn sterkara mæli notað í áróðri manna á milli og Áki Jakobsson áréttaði það mjög í ræðu sinni.

Sannleikurinn er þvert á móti sá, að ég hef frá fyrstu tíð haft mikinn hug á skiptum við Sovétríkin. Ég lagði mig fram sumarið 1943, að sem mest yrði greitt fyrir því, að beint stjórnmálasamband yrði tekið upp á milli Íslands og Rússlands, sbr. fundargerðir utanrmn. frá því í júlí það ár. Ég hef ætíð talið það miklu skipta, að undir viðskipti Íslendinga rynnu sem flestar stoðir. Hv. Sósfl. vill eingöngu hafa skipti við löndin í Austur-Evrópu. Ég játa, að slíkt tel ég ekki hyggilegt. Ég tel rétt að dreifa viðskiptunum sem mest, sæta þeim beztu kjörum, sem fáanleg eru á hverjum tíma, en gæta þess þó, að ávinna sér traust og varanlega markaði. Mér er þess vegna mjög ljóst, að það hefur mikla þýðingu fyrir Ísland að hafa gott verzlunarsamband við Sovétríkin.

Í þessu sambandi skiptir engu, þó að ég hafi aðrar stjórnmálaskoðanir en ráðandi menn í Rússlandi. Ef Sovétríkin ættu aðeins að hafa skipti við þær þjóðir, er hafa sömu skoðanir í öllum efnum og sjálf þau, mundu þau vera mjög einangruð. Slíkt hefur þeim auðvitað aldrei komið til hugar, enda fer því fjarri, að ég trúi á hrakspár kommúnista um yfirvofandi heimsstríð eða óbrúanlegt djúp milli hinna lýðfrjálsu vesturvelda og Sovétríkjanna. Ég er sannfærður um, að með nægri þolinmæði á báða bóga tekst að finna þar varanlegan grundvöll samvinnu. Ekki sízt þess vegna tel ég sjálfsagt, að Íslendingar hafi verzlunarsamband við Sovétríkin sem önnur lönd.

Þá hafa hv. sósíalistar einnig fundið að því, að Björn Ólafsson var sendur í samninganefndinni austur til Moskvu. Jafnframt finna þeir að því, að ekki hafi nógu virðulegir eða háttsettir menn í þjóðfélaginu verið sendir austur þangað. Sannleikurinn er sá, að Björn Ólafsson hefur átt sæti í samninganefndum bæði við Breta og Bandaríkjamenn, einmitt um þá samninga, sem grundvöllinn lögðu að stríðsviðskiptum þessara þjóða við okkur og hafa því hina mestu þýðingu. Síðan hefur hann verið fjmrh. Íslands um tveggja ára skeið og er einn helzti maður sinnar stéttar hér á landi. Var því vart unnt að finna virðulegri fulltrúa úr þeim hóp til slíkrar sendifarar. Fer því og fjarri, að réttir aðilar rússneskir hafi látið uppi nokkra gremju yfir sendimennsku þessa ágæta fulltrúa. Þvert á móti hefur einn nm. sagt mér, að austur þar hafi Björn verið meðhöndlaður sem virðulegasti maður hinna útsendu fulltrúa, einmitt vegna fyrri embættisstöðu sinnar hér á landi.

Þá breiðir hv. Sósfl. það út, að unnt hefði verið að ná hagkvæmari samningum við Sovétríkin, ef þeim hefði verið boðið meira lýsismagn, en gert var. Um það er því til að svara, að rússnesk yfirvöld hafa í samningunum austur í Moskvu aldrei farið fram á hærri hundraðshluta af lýsismagni okkar, en þeim var boðinn. Ásakanir þessar eru því gersamlega gripnar úr lausu lofti.

Fyrir liggur vitnisburður n., sem verið hefur að samningum austur í Moskvu og hafði þá dvalið þar um nær tveggja mánaða skeið, um ástæðuna fyrir því, af hverju samningar gangi treglega. Í skeyti n., dags. 13. apríl s.l., segir hún: „Öll n. sammála, tregða ná samningum, sumpart mismunur verðhugmyndum aðila, sumpart ótti Rússa erfiðleika hagnýta íslenzkar vörur, þetta síðara á einkum við ísfisk. saltfisk auk varnings, sem Rússar þegar neita að kaupa.“

Þennan vitnisburð gefur m.a. nm. hr. Ársæll Sigurðsson, fyrrv. formaður Sósíalistafélags Reykjavíkur, og verð ég að ætla. að hann hafi á þessu öruggari þekkingu, en rógtungur flokksbræðra hans hér.

Sósíalistar segja nú, að í þann veginn sé verið að gera mjög óhagstæða samninga við Breta. Þeirri samningsgerð er eigi lokið enn, og skal ég þess vegna ekki gera hana að umræðuefni að svo stöddu frekar en hina.

Ég vil aðeins skýra frá því, að ástæðan til þess, að treglegar hefur gengið með samningsgerðina austur í Moskvu, en í Englandi, er einmitt sú, að Rússar hafa í heild boðið erfiðari kjör, en Englendingar hafa séð sér fært. Það er eina — og aleina — ástæðan fyrir því, að þeir samningar hafa gengið treglegar en hinir. Þessi staðreynd, sem er óvéfengjanleg, sannar eins fullkomlega og unnt er, að allt gambur Áka Jakobssonar er staðlausir stafir.

Á hinu megum við ekki furða okkur, Íslendingar, þó að erfiðlega gangi um sölu á þeim afurðum okkar, sem við heimtum hærra verð fyrir, en fáanlegt er hjá öðrum þjóðum. Bæði Rússar og Englendingar hafa átt í þeim raunum, meðan á stríðinu stóð, og eiga nú í slíkum fjárhagslegum erfiðleikum vegna uppbyggingarinnar eftir stríðið, að ekki er von, að þeir gefi okkur umframverð fyrir vöru okkar né kaupi annað af okkur, en þeir hafa þörf á. Veit ég ekki, hvort íslenzkum hagsmunum væri til framtíðar borgið með því að lifa þannig á bónbjörgum annarra.

Sannleikurinn er sá, að ef afkoma okkar verður sæmileg í ár, þá er það eingöngu vegna þess, hversu síldarlýsið nú er eftirsótt vegna feitmetisskorts í heiminum. Það er vegna þeirrar eftirspurnar, sem við getum komið annarri vöru okkar út, sumri a.m.k., enda þótt við verðum að heimta hærra verð, en aðrir gera. Slíkar söluaðferðir geta gengið eitt ár eða tvö. Til frambúðar eru þær ekki.

Ef ný kauphækkunaralda og verðbólguvöxtur hefst, er stefnt í beina ófæru. Þeir, sem fyrir því standa, eru visvítandi að grafa undan lífsmagni atvinnuveganna, að stofna til kreppu og atvinnuleysis.