29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

12. mál, fjárlög 1947

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. réðst hér í síðustu ræðu á hæstv. fyrrv. atvmrh. fyrir samningatilraunir hans við Sovétríkin. Þær samningatilraunir, sem hæstv. utanrrh. talaði um, strönduðu ekki vegna aðgerða hæstv. fyrrv. atvmrh., heldur vegna þess, að aldrei fékkst leyfi til að bjóða síldarlýsi til Rússa. Árás hæstv. utanrrh. á hæstv. fyrrv. atvmrh. hittir því fyrst og fremst fyrrv. hæstv. utanrrh., Ólaf Thors. Verðhugmynd sú, sem talað var um fyrir lýsi, var 125 pund og talaði hæstv. utanrrh. um, að það væri of lágt. Við skulum vona, að hann tryggi hærra verð nú.

Íslenzka þjóð! Þú heyrðir í gærkvöld boðskap hinnar nýju heildsölustjórnar umbúðalaust, og þú heyrðir hér áðan þann aumasta boðskap, sem nokkur forsrh. hefur nokkru sinni flutt sinni þjóð. Hefurðu nokkurn tíma heyrt ámáttlegra væl, aumari barlóm eða séð annað eins glórulaust bölsýni og úrræðaleysi? Þú þekkir lagið — gamla Coca-cólasönginn. Þú þekkir vísuna — hrunstefnu- og kreppukvæðið, og þú þekkir höfundinn: sótsvartasta auðmannaafturhaldið í Reykjavík, sem aldrei getur hugsað sér að fórna neinu fyrir þjóðina, en sendir nú þjóna sína út af örkinni til þess að heimta, að þjóðin fórni bættum lífskjörum sínum, svo að auðmannavaldið fái haldið stríðsgróða sínum og okurauði óskertum. Og hverjir eru mennirnir, sem nú kyrja þennan hrunsöng og sjá ekkert fram undan nema eymd og volæði? Eru það ekki sömu mennirnir og lofuðu ykkur því fyrir kosningar, að þeir vildu allir vinna að nýsköpun atvinnulífsins og batnandi kjörum fólksins? Hvað hefur breytzt? Það, sem hefur breytzt, er, að nú eru þeir búnir að fá ykkur til að kjósa sig — nú hafa þeir völdin — nú þurfa þeir ekki að biðja ykkur um atkvæði, nú geta þeir hótað ykkur, að ef þið ekki hlýðið auðmönnum Reykjavíkur og liggið auðmjúkir fyrir skipunum þeirra, þá getið þið fengið að svelta. Ég skora á þessa ríkisstj. að leggja stefnu sína tafarlaust fyrir kjósendur landsins og láta þá dæma um hana á lýðræðislegan hátt, og þori hún það ekki, þá verður hún og stuðningsmenn hennar að sitja með það ámæli, að hún hafi svikizt að kjósendum landsins og flekað þá undir fölsku yfirskini til þess að gefa sér umboð til nýsköpunar og framfara, sem hún nú misnotar til þess að hefja árásir á alþýðu manna í þágu auðdrottna landsins og svartasta afturhalds þess, en undir yfirskini dýrtíðarinnar. Ég velt, að þessir herrar þora ekki að taka áskorun minni, þora ekki að láta fólkið skera úr um stefnuna í kosningum, af því að þeir óttast fólkið og lýðræðislegan dóm þess, af því að þeir ætla sér nú að nota valdið, sem þeir hafa klófest, til þess að láta kné fylgja kviði, ef þeir geta. Og það er nauðsynlegt, að fólkið geri sér ljóst, hvernig þeir ætla að ná takmarki sínu. Um leið og við rannsökum það, þá fáum við líka svarið við þeirri spurningu, hvernig á því standi, að velgengnin, stórhugurinn og bjartsýnin, sem var hjá þjóðinni fyrir nokkrum mánuðum síðan, sé nú að víkja fyrir bölsýni og vesaldómi. Ríkisstjórn á Íslandi hefur svo mikið vald yfir atvinnulífi landsins, að hún getur ráðið því, hvort hér á landi er kreppa eða velgengni. Það er ekkert einsdæmi, að slíkt vald sé sett í hendur einstakra manna í okkar þjóðfélagi. Verðirnir við Sogsstöðina geta ráðið því, hvers konar ástand ríkir í Reykjavík. Þeir geta skrúfað fyrir rafstrauminn, og þá stöðvast ekki aðeins atvinnulífið að mestu — það verður líka dimmt á heimilunum. Og í skjóli myrkursins geta þá ekki aðeins þjófar og ræningjar oft leikið lausum hala, heldur er þá og góður jarðvegur til þess að hræða menn, sérstaklega börnin, með draugum og afturgöngum. En bæjarstjórn Reykjavíkur velur sem verði við Sogsstöðina heiðarlega menn, sem ekki leika sér að því að skrúfa fyrir strauminn, enda mundu þeir vart verða lengi í stöðunni, ef þeir gerðu slíkt. En ríkisstj. Íslands hefur skrúfað fyrir þann straum, sem hún ræður yfir. Hún hefur skrúfað fyrir lánveitingar til bygginganna - hún hefur skrúfað fyrir gjaldeyrinn — hún er að reyna að skrúfa fyrir atvinnuna — allt til þess að braskarar og arðræningjar geti leikið lausum hala. Og það, sem er það hættulegasta, hún er að reyna í skjóli þess myrkurs, sem hún er að leiða yfir þjóðina, að ræna hana bjartsýninni og stórhugnum, hræða hana á bolsadraugnum og afturgöngum hrunstefnuliðsins, svo að þjóðin verði jafnúrræðalaus og stjórnin er sjálf.

Það er engin ástæða til þess að skrúfa fyrir og leiða hrun og kreppu, myrkur og vonleysi yfir þjóðina — ekki meiri ástæða, en það var 1944. Þá sáu þeir hæstv. núverandi forsrh. og hæstv. núverandi menntmrh. heldur ekkert nema myrkrið og hrunið fram undan og börðust gegn því, að nýsköpunarstjórn væri mynduð, þó að gæfa Íslands yrði þeim þá yfirsterkari. Þá sáu þeir heldur enga leið aðra fram undan, en niðurskurðarfrv. Coca-colastjórnarinnar á launum, sem þá var lagt fyrir þingið f nafni dýrtíðarinnar. Þá gerðu þeir gys að okkur sósíalistum sem skýjaglópum og sögðu allar afurðir okkar óseljanlegar vegna dýrtíðar. Það engin tilviljun, að sá ráðherrann, sem dansaði hrunadansinn í útvarpinu í gærkvöld af mestum fjálgleik, var Eysteinn Jónsson. Það hefur aldrei annað lag komizt inn í hans koll öll þessi ár. Ísland á enn nægan auð, ef menn kunna að nota hann, og mun skapa sér hann meiri og meiri, ef aðeins nýsköpun atvinnuveganna er haldið áfram, en hún ekki drepin. Útflutningur Íslands í ár ætti vart að verða undir 450 milljónum með sæmilegu síldarári, miðað við afla- og verðlagshorfur nú. Það er 50% meira, en í fyrra. Er þá ástæða til bölsýni fyrir þjóðina? Síður en svo. — Verkamenn verða að fórna, segja stjórnarherrarnir. Verkamenn mega ekki æsa sig upp á móti fórnunum, sem heildsalastjórninni þóknast að heimta af þeim. En verkamenn hafa fórnað. Verkamenn hafa sætt sig við kjör, sem eru undir meðaltali þess, sem íslenzka þjóðin getur boðið börnum sínum. Árstekjur þjóðarinnar eru nú um 1.000 milljónir króna. Það gerir meðaltekjur um 35 þús. kr. fyrir fimm manna fjölskyldu. En Dagsbrúnarmaðurinn í Reykjavik verður að sætta sig við 20 þús. kr. tekjur, ef hann vinnur hvern dag ársins, og þúsundir verkamanna verða að þola atvinnuleysi marga mánuði og miklu lægra árskaup þess vegna. Það er ekki Dagsbrúnarmaðurinn, sem þarf að halda lögfræðinga í þjónustu sinni til þess að fela gróðann. Það er ekki Dagsbrúnarmaðurinn. sem flytur í tólf herbergja íbúðir nú. Braggarnir eru enn hlutskipti barnafjölskyldnanna — og aðstoð ríkisstj. við að losna úr þeim er sú að svíkjast um að borga styrkinn til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum og svíkjast um að lána fé til þess, að verkamenn geti byggt nógu fljótt yfir sig. Verkamenn Íslands hafa sætt sig við vísitöluna frá 1939 í trausti þess, að það kæmi aldrei sú ríkisstj. til valda á Íslandi, að hún legði sig í líma til þess að falsa hana, svo að hún gæti hlíft milljónagróða auðmannanna við álögum. En nú hefur þetta brugðizt. Nú byrjar höfuðárás auðmannastéttarinnar í Reykjavík á alþýðuna einmitt með því, að auðvaldið hagnýtir sér veilur vísitölunnar frá 1939.

Ég skal nú leiða tvo helztu hagfræðinga landsins sem vitni um þessa fölsun vísitölunnar, tvö átrúnaðargoð núverandi stjórnarflokka. Jón Blöndal, einn helzti leiðtogi Alþfl., segir í grein 26. okt. 1945: „Þótt búreikningarnir frá 1939–40 geti verið nothæfur grundvöllur til að reikna út verðlagsbreytingarnar, sem orðið hafa síðan. þá er hitt jafnvist, að þeir eru algerlega ónothæfir til þess að dæma um, hver sé meðalneyzla almennings af ýmsum nauðsynjavörum í dag“. Kemst J. Bl. að þeirri niðurstöðu, að vísitalan sé þá svo fölsuð, að hún sé a.m.k. 37 stigum of lág. Það þýðir, að fyrir launþega með 500 kr. grunnkaup mundi þessi skekkja vísitölunnar nema a.m.k. 2.220 kr. fyrir allt árið. Og nú er þessi skekkja, sem þá nam yfir 10% af launum Dagsbrúnarmannsins, aukin gífurlega með tollaálögum stj. Hinn hagfræðingurinn, sem ég ætla að leiða fram sem vitni, er hagstofustjóri — yfirlýsing hans, sem lesin var hér í útvarpið af hæstv. fjmrh. í gærkvöld. Sú yfirlýsing er löðrungur á allt stjórnarliðið fyrir fals þess og fláræði i þessum málum. Hagstofustjóri segir: „Launþegum er því tryggt, að bæði sú verðhækkun, sem verður strax á neyzluvörum þeirra vegna tollahækkana, og sú, sem verða kann síðar á þeim vegna tollahækkana á framleiðsluvörum, lendir ekki á þeim, að svo miklu leyti, sem neyzla þeirra er í samræmi við útgjaldareikning þann, sem vísitalan byggist á.“ Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Það þýðir, að ef verkamaðurinn vill sætta sig við að borða rúgbrauð, hafragraut og tros 6 daga vikunnar, eins og hann gerði 1939, sætta sig við að geta ekki keypt ver á rúmfötin sín eða góð föt handa fjölskyldunni — sætta sig við að fara á bíó einu sinni eða tvisvar á ári eða gera ekki meiri kröfur til skemmtanalífs, en því samsvarar — sætta sig við lélega íbúð og fátækleg húsgögn eins og hann gerði þá, — þá fær hann fullar uppbætur á vísitöluna. En ef verkamaðurinn gerir kröfur til að lifa eins og maður, lifa við þau kjör, sem Ísland getur boðið öllum börnum sínum í dag, þá er vísitalan stórfölsuð og þá verður verkamaðurinn, eins og hagstofustjóri segir á öðrum stað, að bera því meiri hluta af tollahækkuninni sjálfri án uppbótar. Með öðrum orðum, ef þú, launþegi, vilt ekki sætta þig við fátæktina og neyðarkjörin, sem þjóðstjórnarflokkarnir bjuggu þér 1939, er þeir skelltu þrælalögunum á þig, ef þú rist úr kútnum og heimtar mannsæmandi lífskjör, þá skal þér verða refsað fyrir með vaxandi tollaálögum á neyzlu þina án nokkurrar uppbótar — það er með raunverulegum tollahækkunum. Tveir af helztu hagfræðingum landsins, Jón Blöndal og hagstofustjóri, hafa nú hrakið blekkingar ráðherranna, og ég verð að segja, að það er til skammar fyrir ráðherra að bera svona blekkingar á borð fyrir þjóðina, blekkingar, sem þeir reyna ekki að halda fram í þinginu, af því að þeir vita, að þær eru samstundis tættar í sundur af okkur sósíalistum. Og hvernig stendur á því, að þessir menn skuli í senn dirfast að bera slíkar blekkingar á borð fyrir fólkið og samtímis ráðast á hagsmuni þess með aðferðum, sem Morgunblaðið segir, að „nálgist brjálæði?“ Georg Brandes segir einhvers staðar, að það sé ekki til villtara dýr, en auðkýfingurinn, sem óttist um pyngju sína. Og hann er því villtari sem pyngjan er úttroðnari. Morgunblaðið veit vafalaust bezt, hvenær það dýr verður svo villt, að það fari að nálgast brjálæði. Í Reykjavík eru 100 einstaklingar og félög, sem áttu 1944 samkvæmt eigin uppgjöf um fjórðung af eignum þeirra Reykvíkinga, sem eignarskatt greiða, eða 73 milljónir af 268 milljónum. En í þessum 73 milljónum eru allar eignir þessara milljónamæringa skráðar á fasteignamatsverði, en raunverulegt verðmæti þeirra er, sem kunnugt er, margfalt meira. Þegar tillit er svo tekið til þess, að ekki er of vel tíundað og eignir þeirra hafa vaxið síðan, þá er ekki of hátt áætlað, þótt sagt sé, að 100 ríkustu félög og einstaklingar í Reykjavík eigi yfir 200 millj. kr. í skuldlausum eignum. Þessir aðilar hafa grætt auð sinn á stríðinu. Fyrir stríð var ekki talað um milljónafélög á Íslandi, nema í því sambandi, að þau skulduðu milljónir eða hefðu farið á hausinn. Eysteinn Jónsson, hæstv. menntmrh., sagði í gær: „Þeir, sem hafa hagnazt mest, eiga að ganga á undan.“ Vel mælt, Eysteinn. En hvar marséra þeir á undan til að fórna, heildsalarnir þínir i ríkisstj.? Komdu með 50–100 milljónir, sem heildsalarnir vilja fórna af auð sinum fyrir þjóðina sina, Eysteinn lítil, þá skulum við tala við þig i alvöru. Og þá mundi alþýðan líka taka í alvöru dýrtíðartalið þitt. Milljónamæringar Reykjavikur væru ekki rúnir inn að skinninu samt. Þeir ættu yfir 100 milljónir króna eftir sem áður. En meðan þessir auðkýfingar sýna engan lit á að fórna, en leggja tugmilljóna álögur á alþýðuna til að auka dýrtíðina og rýra kjör launþega, þá er allt tal þessarar ríkisstj. um dýrtíðina ekkert nema hræsni og yfirdrepsskapur, lúalegt yfirvarp til þess að ráðast á lífskjör alþýðu og hlífa vellauðugum bröskurum Reykjavíkur við réttlátum fórnum.

Ríkisstj. hefur líka sýnt sitt sanna innræti gagnvart dýrtíðinni og heildsölunum á öðru sviði. Verðlagsnefnd hefur fyrir mörgum vikum samþykkt nokkra lækkun á álagningu heildsalanna á vörum, með öðrum orðum, dregið nokkuð úr einkaálögum heildsalanna á alþýðuna til þess að minnka dýrtíðina. Maður skyldi nú ætla, að stjórnin hafi tekið slíku fegins hendi, en það var eitthvað annað. Stjórnin hefur hingað til hindrað, að þessi lækkun kæmi til framkvæmda, bannað þessa baráttu við dýrtíðina. því að hún hefði orðið á kostnað heildsalanna. Trú stjórn herrum sinum, heildsalastjórnin! Hæstv. menntmrh. sagði, að verkamenn mættu ekki vera að heimta grunnkaupshækkanir. Fjögur verkamannafélög hafa þegar fengið verulegar grunnkaupshækkanir í tíð núverandi ríkisstj., þar á meðal félag, þar sem Alþfl. telur sig eiga ítök í stjórn, og það félag fékk einmitt grunnkaupshækkun með samningum við fulltrúa ríkisstj., og á ég hér við félag bílstjóra í sérleyfisferðum, sem 2. apríl undirskrifaði samning við ríkisstj. um grunnkaupshækkun úr 640 kr. upp i 715 kr. á mánuði, eða næstum 12% grunnkaupshækkun. Hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh. töluðu um, að það mætti ekki byrja ný grunnkaupshækkunaralda. Slíkt væri „glæfralegt ævintýri, sem gæti haft í för með sér stórkostlegt tjón,“ sögðu þeir. Hvaða rugl er þetta. í hæstv. ráóherrum? Grunnkaupshækkanirnar eru byrjaðar. Þið hafið sjálfir riðið á vaðið með 12% grunnkaupshækkun til bílstjóra í ríkisþjónustu. Og auðvitað heldur þetta áfram. Haldið þið, að það megi engir aðrir fá grunnkaupshækkanir en þeir, sem vinna hjá ríkinu og hafa alþýðuflokksmenn í stjórn verkalýðsfélaga? Og ef þið haldið, að verkamenn þurfi ekki grunnkaupshækkanir, þá lesið bara ykkar eigin blöð.

Emil Jónsson, hæstv. ráðh., sagði hér áðan, að það væri hvorki meira né minna en „glæpur“ að fá fram hækkun á grunnkaupi. það væri „óþrifaverk“, og hann hótaði öllu illu. Ég sagði hér áðan frá einu félagi. sem hefði fengið 12% grunnkaupshækkun í þessum mánuði. Við hvern samdi það félag? Hver framdi þann glæp að ganga inn á þá grunnkaupslækkun? Það var Emil Jónsson, hæstv. ráðh. Einmitt undir hans ráðuneyti og í samráði við hann er þessi grunnkaupshækkun gerð. Hvað er þá Emil Jónsson samkvæmt hans eigin orðum, ef grunnkaupshækkun er glæpur? Er ekki bezt fyrir svona menn að hafa færri orð og smærri og láta vera að belgja sig út eins og hann gerði áðan?

Það er ekki barátta fyrir alþýðuna gegn dýrtíðinni, sem þessi ríkisstj. er að heyja. Það er barátta gegn alþýðunni fyrir dýrtíðinni, ef svo má að orði komast, barátta til þess að auka dýrtíðina á kostnað alþýðu, barátta fyrir því að hindra það, að auðmennirnir verði fyrst að fórna. Þessi barátta ríkisstj. „nálgast brjálæði“, segir Morgunblaðið. Og það er brjálæði af þessum herrum að ætlast til þess, að alþýðan beri ein kostnaðinn af dýrtíðinni.