29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

12. mál, fjárlög 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi svara hv. 2. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann sagði áðan, að núverandi ríkisstj. hefði skrúfað fyrir gjaldeyrinn og fjármagnið, en hann er búinn að gleyma því, að þegar þessi stjórn tók við, var búið að ráðstafa öllum gjaldeyri þjóðarinnar, og það er óhætt að bæta því við, sem hann viðurkenndi hér áðan, að nýsköpunin var aðeins í byrjun, er stjórnarskiptin urðu núna í vetur. Ef þetta er lagt saman, þá er það með öðrum orðum þannig, þegar núverandi ríkisstj. tekur við völdum, að gjaldeyririnn er búinn, en nýsköpunin aðeins í byrjun. Hv. 2. þm. Reykv. var að reyna að afbaka það, sem ég sagði um þá ríku og fórnirnar. Svo sannarlega eiga hinir ríku að vera með og fórna, er fórnanna verður krafizt, og það sagði ég. Og þeir eru vissulega með núna, svo langt sem það nær enn þá. Það er svo langt frá því, að hinar nýju tollaráðstafanir ríkisstj. komi harðast niður á hinum fátæku, að þetta kemur þvert á móti harðast niður á þeim, sem eyða umfram meðallag, þungir skattar hafa verið lagðir á munaðarvöru, þótt ekki sé hægt að segja, að neinna sérfórna hafi enn verið krafizt. En ég vil spyrja hv. þm., hve margar milljónir tóku kommúnistar af milljónamæringunum, er þeir lögðu á veltuskattinn, þar sem engar nauðsynjar voru undan skildar, ekki einu sinni hafragrauturinn, hvað þá meira? Já. hve margar milljónir tóku þeir af hinum ríku með þessu lagi, þegar verið var að falsa vísitöluna, því að veltuskatturinn kom ekki aðeins beint á allar nauðsynjar, heldur gat ekki orðið tekinn til greina, vísitalan var m.ö.o. fölsuð sem því nam. Þessir menn ættu ekki að tala digurt. Og þar með var ekki látið staðar numið, heldur var gerð sú breyting, að reikna ekki með verðlag á vörum, ef þær fengust á markaðinum fyrir lægra verð. Og kommúnistar voru fremstir í flokki að verja þetta.

Ég vil svo benda mönnum á þetta: Hvað mundu kommúnistar hafa gert, ef þeir hefðu viljað gera sitt bezta til að mæta vandanum nú. Mundu þeir þá hafa eggjað lögeggjan til pólitískra verkfalla til þess að auka enn ósamræmið, sem er að gera ókleift að halda atvinnulífinu gangandi? Nei, áreiðanlega ekki, þeir mundu hafa farið þveröfugt að. Þeir mundu hafa hvatt verkalýðssamtökin til samvinnu við ríkisstj. um þessar bráðabirgðaráðstafanir, sem gerðar hafa verið, og til miklu stærri fórna, ef þeir hefðu sjálfir verið í ráðherrastólunum. Í vinsamlegu framhaldi af því, sem gert hefur verið að undanförnu, mundu þeir hafa hvatt verkalýðssamtökin til samninga við ríkisstj. um aðrar og frekari ráðstafanir gegn dýrtíðinni, sem meira væru til frambúðar, og þá auðvitað með sérstöku tilliti til þess, að þá væri tekin upp sú stefna í öllum greinum að gera ódýrara að lifa ráðdeildarsömu menningarlífi í landinu, en nú er. Með því væri stefnt að því að leysa dýrtíðarvandamálið með sem minnstum fórnum af hálfu alþýðu manna. Þetta er sú stefna, sem verkalýðssamtök annarra landa fylgja, sem ekki eru svo ógæfusöm að eiga kommúnista að leiðtogum. Þetta er leiðin, sem hér á að fara í stað verkfalla. Samvinna í þessum efnum við ríkisstj. er leiðin, þá stefnu verður að taka upp hér og velja nýja forustumenn verkalýðssamtakanna, sem skilja, hvað gera þarf og vilja fá það bezta út úr hlutunum.