29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

12. mál, fjárlög 1947

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það kom berlega fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., hve blindur hann er í ofsa sínum og rökþrota í árásum sínum á núverandi ríkisstj., þar sem aðalásökunin var um fölsun á vísitölunni, og byggði hann þar á og vitnaði í ummæli Jóns Blöndals hagfræðings og ásakanir hans í garð ríkisstj. í þessu efni. En hér er því við að bæta, að ummæli og útreikningar hagfræðingsins áttu við fyrrv. ríkisstj., sem ráðherrar kommúnista, Áki og Brynjólfur, áttu sæti í, svo að ásakanir hv. 2. þm. Reykv. í garð núverandi ríkisstj. snúast í hendi hans og verða að ádeilum á hans eigin menn. Þannig er þetta allt á eina bókina lært hjá þessum flokki.

Þegar fyrrv. ríkisstj. settist á laggirnar fyrir rösku 21/2 ári — og kommúnistar fengu í fyrsta sinn fulltrúa í ríkisstj. „hérna úti á Íslandi“, eins og þeir segja, og fullkomna íhlutun um stjórn landsins, voru margir bæði utan og innan stjórnarflokkanna, sem báru mjög takmarkað traust til þeirra heilinda, er því samstarfi fylgdu. Stefnuyfirlýsingar og baráttuaðferðir þeirra frá fyrri árum lofuðu engu góðu í þeim efnum. Þó voru aðrir, er tóku þátttöku þeirra í ríkisstj. sem tákn þess, að hér væri um alger sinnaskipti að ræða. Nú hefðu þeir lagt byltingakenningar og byltingastarfsemi á hilluna og ætluðu að gerast ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu að almennum umbótastörfum á lýðræðislegan hátt. Þetta væri og í samræmi við málflutning þann, sem þeir höfðu tekið upp í stjórnmálabaráttu síðustu ára. Og hinir trúuðu sögðu sem svo: Það er sérlega mikils vert, ekki sízt á þessum tímum, sem yfir standa, að fá stjórnmálaflokk, er hefur jafnmikil áhrif í verkalýðssamtökum landsins eins og kommúnistafl., til ábyrgrar þátttöku í stjórn landsins til framkvæmda og nýsköpunar, eftir því sem ástæður leyfa, en þó ekki siður til hins, að standa með öðrum stjórnmálaflokkum að þeirri bjargráðastarfsemi, sem fyrr eða síðar verður óhjákvæmileg vegna þess öngþveitis í verðlags- og atvinnumálum, sem hér hefur skapazt.

Eftir að þeir hafa staðið með öðrum flokkum að endurbótum og nýsköpun í atvinnulífinu — sögðu þessir menn —, hljóta þeir að taka þátt í þeim aðgerðum, sem nauðsynlegar reynast á sínum tíma til að tryggja rekstur og starfsöryggi þessarar nýsköpunar þjóðarinnar. Þær ráðstafanir geta krafizt einhverra fórna frá öllum þjóðfélagsstéttum og því orðið óvinsælar og illframkvæmanlegar, nema allar stéttir og fulltrúar þeirra standi að þeim sameiginlega.

Hvaða trú sem menn höfðu á þessum bollaleggingum, þá var ekki hægt að neita því, að þetta væru rök í málinu. Fyrrv. ríkisstj. átti með öðrum orðum að vera nokkurs konar íslenzkur „föðurlandsástarskóli“ fyrir kommúnistana. Og ekki var nú gott að mæla á móti því, að slíka stofnun hafði okkur lengi vantað. Og svo hófst samstarfið með pomp og pragt.

Þjóðinni hefur áður verið skýrt frá því, að hún eigi það að þakka hinu dásamlega sósíalistahugviti hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, að menn komu loks auga á það, að rétt mundi nú vera að nota eitthvað af þessum 5–6 hundruð millj. kr., sem þjóðinni hafði þá safnazt í erlendum gjaldeyri. Og það er svo að sjá, af því sem nú liggur fyrir, að ríkisstj. hafi einnig notið í ríkum mæli hugkvæmni hans og félaga hans í að koma þessum aurum í lóg á ekki allt of löngum tíma.

Eftir að stjórnarkreppan s.l. haust og vetur hafði staðið á fjórða mánuð og stjórnmál landsins voru að komast í fullkomið öngþveiti — og flestar leiðir höfðu verið reyndar til að koma á nýrri stjórn, en árangurslaust —, þá neita þeir að síðustu að vera til viðtals um hina síðustu tilraun til myndunar þinglegrar stjórnar, er forseti Íslands fól núverandi forsrh. — tilraun, sem að flestra dómi hlaut að vera lokatilraun, eins og stjórnmálaástandið var í þinginu, áður en reynt yrði með utanþingsstjórn eða þing rofið.

Þegar hér var komið málum var svo ástatt, að komið var fram á árið 1947 — en engin fjárlög til fyrir það ár og ekkert samkomulag um afgreiðslu þeirra. Ríkið var búið að taka ábyrgð á fiskverðinn, sem var hærra en svo, að nokkrar líkur væru til, að fyrir það seldist í markaðslöndunum. Enginn uggi var seldur af þessa árs framleiðslu nema það, sem togararnir fluttu jafnóðum út. Frjáls gjaldeyrir bankanna var að þrjóta og utanríkisverzlun að stöðvast. Dýrtíðarvísitalan hækkaði með hverju tungli og ógnaði útflutningsstarfseminni þrátt fyrir hið háa ábyrgðarverð.

Á fjárlagafrv. vantaði milljónatugi, ef ekki átti að skera niður mestan hluta verklegra framkvæmda, eða nema úr gildi nýsamþykkta lagabálka, er bundu ríkissjóði stórkostleg útgjöld — og gera aðra að einskisverðu pappírsgagni. Nú fyrst reyndi á kappana í kommúnistafl. Þeir höfðu setið sólarmegin um stund og aflað sér vinsælda, eins og hinn rangláti ráðsmaður, sem ritningin segir frá, með því að ausa af fé þjóðarinnar á báða bóga. Nú varð ekki lengur komizt hjá aðgerðum, sem kröfðu þjóðina um fórnir, ef ekki átti að sigla öllu til brots. Nú áttu þeir að ganga undir prófið í fræðum föðurlandsástar og ábyrgðartilfinningar í hinum mikla skóla, er þeir höfðu setið í um stund. Og hvernig lauk því prófi? Þannig, að þeir höfðu sýnilega ekkert lært og engu gleymt af sínum fyrri fræðum og starfsháttum. En þeir neituðu að viðurkenna staðreyndir og neituðu að taka þátt í þeim varnarráðstöfunum. sem aðrir flokkar féllust á gegn yfirvofandi háska. Síðan núverandi ríkisstj. tók við, hefur svo flokkurinn tekið upp sitt gamla ábyrgðarleysi alveg ógrímuklætt. Um leið og hann beitir sér fyrir hækkun á útgjöldum ríkisins, sem nema milljónatugum, berst hann með hnúum og hnefum gegn öflun nýrra tekna og til fullnægingar þeim greiðslum, er hann sjálfur hefur staðið að því að lögskipa á undanförnum árum og gumað af sem stórfelldum framförum og nýsköpun. En þeir góðu herrar láta ekki þar við sitja að skjóta sér undan allri ábyrgð, heldur beita og öllum sínum áróðri utan þings og innan til að torvelda og eyðileggja þær tilraunir, sem núverandi stjórn og stuðningsflokkar hennar eru að beita sér fyrir til viðnáms verðbólgunni og meðfylgjandi fjármálaöngþveiti, sem nú er að grafa undan atvinnulífi og afkomu þjóðarinnar, ástandi, sem þeim ætti þó að vera skyldast að hjálpa til að ráða bót á. En þetta nægir þeim ekki, heldur virðast þeir nú ætla að bita höfuðið af skömminni með tilraunum sínum í þá átt að fylkja verkalýðsfélögum landsins, sem þeir illu heilli hafa náð of miklum tökum á, gegn Alþ. og ríkisstj. með pólitískum gagnráðstöfunum í þeirri von, að þeim tækist á þann hátt að brjóta niður hið stjórnskipulega vald, er þjóðin hefur búið sér á stjórnfrjálsan og lýðræðislegan hátt.

Nú virðast þeir telja tíma til þess kominn að venja þjóðina af þeim gamaldags hugsunarhætti, að meiri hluti þings og lögleg ríkisstj. eigi að ráða löggjöf og stjórna málum þjóðarinnar. Það séu þeir sjálfir í krafti þess valds, er þeir hafa sölsað undir sig í skjóli hinna frjálsu félagssamtaka þjóðarinnar, sem héðan af eigi að segja fyrir verkum í þjóðfélaginu.

„Höfuðátökin munu verða á milli verkalýðsfélaganna og ríkisstj.,“ hrópaði hv. 4. landsk., Brynjólfur Bjarnason, upp hér í þingsalnum í gærkvöld. Það var svo sem ekki vandséð, hvað hann var að fara. En þeim, sem með samúð og skilningi hafa fylgzt með hinum frjálsu félagssamtökum verkalýðsins á undanförnum áratugum, baráttu þeirra og sigrum, mætti þykja það raunalegur endir á stuttum, en glæsilegum starfsferli þeirra, ef það ætti fyrir þeim að liggja að láta óvandaða þjóðmálaskúma ginna sig út í það glæfralega ævintýri að beita samtakamætti sínum, er þau hingað til hafa notað réttilega til að hefja sig til jafns við aðrar stéttir í þjóðfélaginu og skapa sér þjóófélagsaðstöðu til jafns við þær, að fara nú að beita honum til þess að brjóta niður það lýðræðisstjórnarform þjóðfélagsins, sem þau hafa vaxið í skjóli við og hefur gefið þeim lífs- og starfsskilyrði.

Mér finnst ástæða til að láta þessi orð falla vegna ummæla hv. 4. landsk., Brynjólfs Bjarnasonar, hér í gær og vegna þeirrar hreyfingar, sem hann og ýmsir samherjar hans eru að reyna að koma af stað í þessa átt um þessar mundir, en ekki af því, að ég óttist, að íslenzk alþýða sé svo óþroskuð, að hún láti teyma sig út í slíka ófæru. Hún er lýðræðislega sinnuð, og hún þekkir sporin, sem hræða, úr sögu sinnar eigin þjóðar og annarra. Hún veit, hverjar afleiðingar það hafði fyrir íslenzku þjóðina á sínum tíma, er ofbeldisfullir óróaseggir, sem töldu sig hafa til þess nægileg mannaforráð að skapa sér sín eigin lög og eigin rétt utan við þjóðfélagið og gegn því, brutust þar til skyndivalda. Og hún þekkir einnig sams konar harmsögu frá öðrum þjóðum. Hún veit, að í skjóli þingræðis og lýðræðis er henni búið það vald, sem henni muni reynast farsælast til frelsis og þroska. Og það mun hún ekki láta pólitíska ævintýramenn fleka af sér, fyrst hún hefur aftur öðlazt það.