29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

12. mál, fjárlög 1947

Ólafur Thors:

Enda þótt fulltrúar Sjálfstfl. í núverandi hæstv. ríkisstj. séu að eðlilegum hætti höfuðmálsvarar flokksins við þessar umr., hefur þótt rétt, að ég segði hér örfá orð.

Ég skal hlífast við að víkja að hinum óvenju rætna og móðursjúka orðaflaumi hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, ekki eingöngu vegna vorkunnsemi við fyrrv. samstarfsmann, heldur fyrst og fremst vegna þess, hversu hæstv. utanrrh. hefur nú húðstrýkt hann rækilega, svo að þar er ekki á bætandi.

Hv. 4. landsk., Brynjólfur Bjarnason, sagði, að ráðherrar sósíalista í fyrrv. stjórn hefðu hótað að gera það að fráfararatriði, ef fallizt hefði verið á að leigja Bandaríkjamönnum herstöðvar haustið 1945, og með því girt fyrir slíkan leigumála, mundi það síðar talinn merkasti viðburður í stjórnmálasögu Íslendinga á þessari öld. Ójá, ekki verður þá Íslandssagan efnisrík. Er það að vísu satt, að einmitt Brynjólfur Bjarnason sagði mér afdráttarlaust, að sósíalistar féllust ekki á slíkan samning. Hitt er hugarburður einn, að sú vitneskja hafi ráðið úrslitum málsins, m.a. vegna þess, að sjálfum datt mér aldrei í hug að verða við óskum Bandaríkjanna.

Vil ég þá víkja að því, sem mest hefur verið gert að umtalsefni að undanförnu, en það er ástandið í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar. Hefur það verið málað óvenju dökkum litum og ýmist fyrrv. eða núverandi stjórn sætt ámæli. Staðhæft er, að allur gjaldeyrir sé uppétinn og lánstraust þrotið. Jafnframt á fjárhagur ríkisins að vera hinn hörmulegasti. Það á að sanna í senn gáleysi og ávirðingu fyrrv. stjórnar. sem og það, að þjóðin riði á glötunarbarmi, hrunið biði á næsta leiti og meðan aðrar þjóðir búi við góða og hraðbatnandi afkomu, hafi Íslendingar lengi stefnt öllu í augljósan voða; Aðrir benda á, að ríkisstj. hafi lagt á nýja skatta og í ofanálag lækkað áætluð útgjöld fjárl. til verklegra framkvæmda um 15%. Hvað þarf frekar vitnanna við? Stjórn afturhaldsins er vitandi vits að skapa atvinnuleysi og kreppu, fyrst og fremst í því skyni að fá tekið verkalýðinn þrælatökum. Þetta er hvort tveggja jafnfáránlegt.

Hæstv. fjmrh. gaf í gær ýtarlega skýrslu um fjárhag ríkisins. Hann sannaði með óyggjandi rökum, að fjárhagur ríkissjóðs hefur aldrei staðið með meiri blóma en nú. Tekjuafgangur ríkisins á síðasta ári var hvorki meira né minna en nær 25 millj. kr., og skuldlausar eignir ríkisins eru orðnar um 150 millj. króna.

Út af fullyrðingum um óhóflega gjaldeyriseyðslu skal ég upplýsa þetta.

Um síðustu áramót voru innistæður á nýbyggingarreikningi rúmlega 131 millj. króna. Á frjálsum reikningi voru þá 93 millj. kr., en auk þess hafði þá verið ávísað fyrir vörur, sem ekki höfðu verið fluttar inn, 46 milljónum. eða samtals 139 millj. króna, auk nýbyggingarreikningsins. Að telja þennan gjaldeyri eyddan einvörðungu vegna þess, að Íslendingar hafa einsett sér að kaupa ný tæki, neyzlu- eða framleiðsluvörur fyrir hann, er auðvitað höfuðfirra. Meðan þjóðin notar þær vörur, framleiðir hún að sjálfsögðu ný verðmæti. Þannig eiga Íslendingar nú liggjandi fisk og lýsi í landinu fyrir talsvert á 2. hundrað millj. kr., að ekkert annað sé nefnt. Sannleikurinn er sá, að þegar frá eru skilin síðustu stríðsárin, hafa Íslendingar aldrei búið jafnvel hvað gjaldeyri og lánstraust snertir sem nú og aldrei fyrr né síðar, án allra undantekninga, átt jafnglaðar og rökstuddar vonir um góða gjaldeyrisafkomu sem nú. Nægir í því sambandi aðeins að nefna, að vegna nýsköpunarinnar er sízt ofmælt, að líkur benda til, að með meðalaflabrögðum geti andvirði útfluttra afurða vel orðið 500 millj. kr., en það hefur aldrei fyrr náð 300 millj. Ég get þess hér, að á s.l. hausti áætlaði nefnd sérfróðra manna andvirði útfluttrar vöru allt að 800 millj.

Þetta er sannleikurinn. Þrátt fyrir það hefur gjaldeyrir eyðzt, og yfir því fárast menn og veita spekingslega vöngum, rétt eins og við þeim blasti áttunda viðundrið. En nýsköpunarstjórnin ákvað að kaupa ný tæki fyrir 300 millj. kr. Henni yfirsást, og raunar öllum öðrum líka, að í kjölfar þessarar nýsköpunar sigldi um 100 milljóna kr. óvenjulegur innflutningur til að fullnægja hinum nýju þörfum. Hún sá heldur ekki fyrir, að tvær síldarvertíðir mundu bregðast og skilja eftir allt að 100 milljóna kr. eyðu í skynsamlega áætlun um gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Stjórnin stöðvaði heldur ekki þann fjárstraum, sem leitaði sér farvegs í hrópandi þörf fólksins fyrir föt, húsgögn, en einkum þó húsnæði. Við þetta bætist svo, að stjórnin beitti sér ekki fyrir því að skerða daglegt viðurværi almennings. Má vera, að það sé yfirsjón. En nokkur afsökun mætti það þó vera Íslendingum, að við höfum lengur búið við þröngan kost en margir eða flestir aðrir.

Að öllu þessu athuguðu þarf okkur ekki að furða á, að gjaldeyrir okkar hefur eyðzt. Enginn bóndi, sem keypt hefur sér margar og stórvirkar landbúnaðarvélar og auk þess prýtt híbýli sín eða jafnvel byggt yfir sig og sína, er svo skyni skroppinn, að honum komi á óvart, að peningaeignin vex ekki, heldur minnkar við slíka úttekt, og ekki þó sízt ef sauðfjárpestin samtímis hefur skert innlegg hans eins og síldarleysið gjaldeyristekjur Íslendinga.

Nei, allt er þetta skiljanlegt, og skilst líka öllum, sem um það hugsa. Samfara þessu getur svo vel komið fyrir, að Íslendingar þurfi á bráðabirgðayfirdrætti erlendis að halda. Ekkert er auðveldara, en útvegun hans, þar sem menn eru kunnugir því, hverra gjaldeyristekna er von vegna nýsköpunarinnar í atvinnulífi þjóðarinnar.

Það er mikill barnaskapur að ætla, að við Íslendingar einir þurfum að glíma við vissa örðugleika. Það þurfa allar þjóðir og flestar í ríkari mæli en við.

Það er enn fjær sanni að telja okkur Íslendinga hafa stefnt fjárhags- og atvinnulífi okkar til glötunar, meðan aðrir sæki hratt fram á gæfubrautinni. Íslendingum er alveg óhætt að slá tvennu föstu.

Í fyrsta lagi, að þjóðin hefur aldrei verið jafnvel stæð fjárhagslega sem nú.

Í öðru lagi, afkomuhorfur hafa aldrei verið jafn bjartar sem nú og sízt, ef miðað er við aðrar þjóðir, aðeins ef við kunnum fótum okkar forráð.

Að stagast á því, að hrun sé fram undan, og gefa jafnframt í skyn, að stefna fyrrv. stjórnar valdi mestu þar um, er eigi aðeins fásinna, heldur og óvenju óviturleg fjarstæða.

Sannleikurinn er sá, að einmitt vegna þess, að stefna fyrrv. stjórnar sigraði 1944, er bjart fram undan. Hefði sú stefna þá orðið ofan á, að fyrst þyrfti að lækka kaup, síðan kaupa tæki, þá ættum við engin ný tæki í dag, einfaldlega vegna þess, að vegna stöðugra kaupdeilna hefðu gjaldeyristekjur þjóðarinnar orðið hundruðum milljóna kr. minni, auk þess sem við hefðum vafalítið étið afganginn upp, ef ekki hefði verið horfið að því ráði að festa meiri hluta innstæðna á nýbyggingarreikningi.

Ég endurtek: Hefði þessi stefna ráðið, hefði stefna nýsköpunar orðið undir, þá ættum við engin ný tæki og heldur engan gjaldeyri. Þá stæði þjóðin — vön peningaflóði og eyðslu stríðsáranna — uppi vopnlaus og varnarlaus í lífsbaráttunni, og þá væri hrun fram undan.

“Í stað þess fengum við tvöfaldan fiskiflota, fjórfaldan kaupskipaflota, tvöföld verksmiðjuafköst, þúsundir nýrra landbúnaðartækja o.m.fl. Þetta eru hin nýju vopn okkar. Með þeim er sigurinn fyrir fram tryggður, einvörðungu að skynsemin bregðist ekki almenningi.

Allt er þetta óhrekjanlegt. En eins og ég hef margtekið fram, verða menn jafnframt að láta sér skiljast, að þótt við eigum mörg og góð ný framleiðslutæki, erum við samt ekki alls megnugir.

Skömmu eftir að fyrrv. stjórn tók við völdum, flutti ég í des. 1944 útvarpsræðu hér frá Alþ. Lýsti ég þá afstöðu Sjálfstfl. til stjórnarmyndunarinnar, gerði að umtalsefni þær vonir, sem tengdar voru við nýsköpunina, og komst m.a. svo að orði:

„Fyrr en sannprófað er, hversu mikið framleiðslan eykst með nýsköpuninni, frá því sem nú er, þegar Íslendingar búa við gömul og úrelt tæki á flestum sviðum, verður ekki úr því skorið, hvað hægt verður að borga fyrir mannaflið. Það er sá úrskurður, sem við stjórnarliðar viljum bíða eftir, áður en við gerum kröfur á hendur verkalýðnum um kauplækkun, því að fyrr er heldur ekki hægt að sjá, hvort yfirleitt er óhjákvæmilegt að gera slíkar kröfur.

Hitt er svo auðvitað stjórninni og stuðningsmönnum hennar ljóst, eins og öllum öðrum, að ef dómur reynslunnar verður sá, að hin nýja tækni fær ekki risið undir óbreyttu kaupi, verður ekkí hjá því komizt, að allir — ekki bara þeir lágt launuðu, heldur allir, sem framfæri hafa af framleiðslunni, verða að lækka kröfur sínar, því að til langframa getur engin þjóð búið við hallarekstur:

Þessi ummæli og önnur svipuð hef ég margendurtekið. Nú er svo komið, að úrskurður er að falla um verðmæti framleiðslunnar með hinum nýju tækjum. Við sjáum, að afkoman stórbatnar, miðað við það, sem ella hefði orðið. En við sjáum líka, að nú verður sérhver sannur nýsköpunarmaður að slá skjaldborg um nýsköpunina, svo að henni verði enginn miski gerr. Ég gerist ekki talsmaður kauplækkana í dag. Ef til vill neyðist ég til þess fyrr en varir. En ég aðvara hrópandi röddu gegn nýjum kaupkröfum og sérhverjum nýjum útgjaldaauka á framleiðsluna.

Hér hafa margir borið hönd fyrir höfuð hæstv. núverandi ríkisstj. og sannað, að enn sem komið er hefur hún fyrst og fremst haft það tvíþætta hlutskipti að reyna að treysta nýsköpunina og að taka á sig fjáröflun til þeirrar margvíslegu, þörfu, en fjárfreku lagasetningar, sem fyrrv. ríkisstj. miklaðist af, en hafði ekki séð fjárhagslega farborða. Jafnframt hefur ríkisstj. unnið að því að ná samningum um sölu framleiðsluvara þjóðarinnar með þeirri festu og dugnaði, sem allir Íslendingar vita að einkenna störf hæstv. núv. utanrrh.. Bjarna Benediktssonar.

Verður enn ekkert fullyrt um niðurstöður, annað en það, að bregðist að einhverju leyti þær vonir, sem menn töldu réttmætt að gera sér um síðustu áramót, stafar það af einhverju öðru en áhuga eða dugleysi hæstv. ríkisstj.

Að stjórnin sé að reyna að skapa kreppu, er of fjarstætt, til að því verði trúað. Hitt er svo óvíst, hvort henni tekst að afstýra kreppu, verði nýsköpunin stöðvuð með nýjum kaupkröfum.

Út af aðgerðum hæstv. ríkisstj. í dýrtíðarmálunum segi ég það eitt, að ég er henni sammála um það, að enn eru úrræðin ófundin. Sannleikurinn er sá, að enn hefur þessi stjórn í þeim efnum ekkert aðhafzt annað en það, sem aðrir hafa áður gert, og ef til vill er ein höfuðógæfan í dýrtíðarmálunum. þ.e.a.s. að blekkja þjóðarmeðvitundina með því að leyna vísitölunni með niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Þetta markar engin tímamót, því að aðrir, þar á meðal fyrrv. ríkisstj., eru sömu sök seldir, og stjórnin varð nauðug viljug að ganga sömu ógæfubraut. Annars átti hún ekki úrkostar, eins og sakir stóðu.

Út af myndun hinnar nýju ríkisstj. vil ég að lokum segja þetta:

Við alþingiskosningarnar á s.l. sumri lagði þjóðin blessun sína yfir stefnu og starf fyrrv. ríkisstj. og óskaði, að það samstarf héldi áfram. Í því ljósi koma stjórnarskiptin, sem orðin eru, undarlega fyrir sjónir. Saga stjórnarskiptanna er kunn, og skal ég ekki rekja hana hér að öðru leyti en því að minna á, að út af ágreiningi, er reis innan stjórnarinnar, báðust ráðherrar sósíalista lausnar, strax og Alþ. hafði samþ. hinn svo kallaða flugvallarsamning, og ákvað ég þá að beiðast lausnar fyrir stjórnina alla hinn 20. okt. s. l. Ágreiningur sá, er þannig reis milli mín og sósíalista, var þó eigi magnaðri en svo, að allt haustið og fram í janúarmánuð s.l. vorum við öðru hverju að ræða um endurreisn fyrrv. stjórnar. Það mistókst þó, sem kunnugt er. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að sósíalistar settu mér viss skilyrði, sem ég taldi mér ekki sæmandi að ganga að.

Þegar ég snemma í janúar tilkynnti herra forseta Íslands, að ég hefði ákveðið að hætta tilraunum til stjórnarmyndunar, fól hann formanni Alþfl. að mynda stjórn. Eftir fjögurra vikna ötult starf tókst honum það. Tel ég mig mega fullyrða, að allur þingflokkur sjálfstæðismanna var mjög fús til samstarfs við Alþfl. Hitt skal svo játað, að margir okkar voru afar tregir til samstarfs við Framsfl., og var ég meðal þeirra. Samt sem áður ákváðum við að gera það, og bar ég sjálfur upp till. um það, bæði í þingflokki og flokksráði Sjálfstfl. Ég var því og er stuðningsmaður núv. hæstv. ríkisstj. og mun veita henni þann stuðning til allra nytsamra starfa, sem mér er frekast auðið.