17.05.1947
Efri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

215. mál, flugvellir

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum, og hefur hún ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Hv. 6. landsk. þm. (StgrA) hefur skilað sérstöku áliti, og mun hann sjálfsagt gera grein fyrir því. En meiri hl. n. vill leggja til. að frv. verði samþ.. en þó með breyt. á 1. gr. Sú breyt. var undirbúin af ríkisstj., og hefur hún náð samkomulagi um, að 1. gr. orðist á þann hátt, sem þskj. 830 ber með sér.

Það er öllum kunnugt, að flugmálin eru þau mál, sem líklega hafa mest fært út kvíar á síðustu árum. Ég held, að mig minni rétt, að á ríkisreikningi árið 1942 er kostnaður við flugmál ekki nema 83 þús. kr., en 184 þús. árið 1943, og á fjárl. 1947 er kostnaðurinn áætlaður 4.259.700 kr., og má þó búast við, að hann fari fram úr áætlun, að frádregnum tekjum, um 600 þús. kr. Þegar löggjöf um flugmál var sett árið 1945, var gert ráð fyrir, að ráðh. setti á stofn stjórn flugmála, en stjórnin hefur að mestu leyti verið hjá flugmálastjóra. Hefur hann haft hina daglegu stjórn og einnig stjórn flugmannvirkja. Nú hafa Íslendingar eignazt allmargar flugvélar og er flugið orðið veigamikill þáttur í lífi okkar. Við erum aðili í flugmálakerfi heimsins og höfum gert samning um flugsamgöngur. Af þessu leiðir, að flugmálin eru orðin mun meiri, en verið hefur, og meira í húfi nú en áður, að ekki séu stigin víxlspor. Það er algengt í ríkisbúskapnum, að fjölga hefur þurft mönnum, og því er ekki undarlegt, þótt þörf sé á því einnig hér. Í þessu frv. er gert ráð fyrir stofnun 5 manna flugráðs, sem stjórni undir umsjá ráðh. Þá skuli og verða skipt embætti flugmálastjóra í tvennt, þannig að undir annan, sem heitir flugmálastjóri, skuli falla nýbygging flugvalla, loftferðaeftirlit og öryggisþjónusta, en hinn, flugvallastjóri, skal annast rekstur og viðhald flugvallanna undir stjórn flugráðs. Gert er ráð fyrir, að 3 af 5 meðlimum ráðsins séu kosnir af Alþingi með hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn, en hins vegar skuli ráðh. skipa tvo sérfræðinga, annan til 8 ára, og er hann form. ráðsins. en hinn til fjögurra ára. Á sama hátt skal kjósa þrjá varamenn og skipa tvo varamenn, annan til fjögurra ára, en hinn til 8 ára, og skal hann vera form. ráðsins. Þetta, að formaður flugráðs er skipaður til helmingi lengri tíma, er sjálfsagt til að skapa meiri festu í störfum flugráðs.

Þá er önnur brtt., sem er bráðabirgðaákvæði um það, að þó að ráðið sé nú skipað á miðju ári, þá er kjörtímabil þess ekki úti á miðju ári, heldur er miðað við áramót, og segir, að starfstímabil skuli vera til ársloka 1951 og form. til ársloka 1955.

Ég er á þeirri skoðun, að flugmálin séu orðin það umfangsmikil, að of mikil verkefni séu fyrir flugmálastjóra einan til að stjórna þeim, og þarf því að kveðja fleiri til, svo að vel fari, og fer þess vegna betur, að stjórnin sé í höndum fimm manna flugráðs, sem hefur verkaskiptingu með sér. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti, að menn geti fallizt á, að hér er ekki verið að fjölga mönnum að ófyrirsynju. Ég hygg, að kostnaður í sambandi við þetta verði hverfandi og skiptir meira máli, að málin fái tryggari afgreiðslu undir umsjá sérfræðinga og að ekki séu hér stigin víxlspor.