17.05.1947
Efri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

215. mál, flugvellir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég gat því miður ekki verið við þessar umr. frá byrjun, af því að í Nd. var mál á dagskrá, sem nokkur ágreiningur var um, þar sem ég varð að vera viðstaddur, og bið ég að afsaka það. Ég hef séð nál. minni hl. og hefur nokkuð verið sagt af því, sem hv. frsm. hefur haldið fram í sambandi við þetta mál. Það er auðséð, að hann vill draga þetta inn í þá samninga, sem gerðir voru við Bandaríkjastjórn um afnot af Keflavíkurflugvellinum, og reyna að nota tækifærið til að kveikja tortryggni í sambandi við það málefni.

Viðvíkjandi því, sem hann mun hafa sagt um framkvæmd samningsins, þá er ekki svo ýkja margt að segja, nema að framkvæmd hans, að því er snertir samstarfið við Bandaríkjamenn, er aðallega í höndum utanrrn., og hefur það þá samráð um málið við yfirmenn flugmála.

Það er augljóst mál, að þegar á að fara að framkvæma samning eins og þennan, þá koma mjög mörg atriði, sem vafi er á, hvernig eigi að koma fyrir. Það var sett á fót af fyrrv. stjórn n., sem stóð í sambandi við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um það, hvernig ætti að koma fyrir samstarfinu á Keflavíkurflugvellinum. Sú n. hefur unnið í sambandi við íslenzku stjórnina, og þannig hefur verið reynt að fikra sig áfram stig af stigi og móta þannig samstarfið og fá fastar reglur um þau atriði, sem álitamál var, hvernig ætti að fara með.

Þegar ég tók við því starfi, sem ég hef nú, lágu engar till. fyrir eða hugmyndir um, hvernig þessum málum skyldi fyrir komið, og hefur það ekki flýtt fyrir að fá fastan grundvöll um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að samdar verði og settar ákveðnar reglur um ýmislegt varðandi rekstur flugvallarins, og um það fer nú undirbúningur fram í þeirri n., sem hefur málið með höndum og starfar að því að halda uppi málstað Íslendinga í sambandi við það, hvernig þessum málum skuli fyrir komið í einstökum atriðum.

Mér er óhætt að fullyrða, að það, sem n. hefur látið frá sér fara um þetta efni, um það hefur verið samkomulag. Ég verð að fara fram á að fá að fresta ræðu minni, meðan atkvgr. fer fram í Nd. — [Ræðumaður vék af fundi stundarkorn.]

Ég hef nú áður skýrt frá, hvernig störfum er komið um framkvæmd flugvallarsamningsins. Ég hef ekki orðið var við, að í n. þeirri, sem hefur málið með höndum fyrir hönd ríkisstj., hafi verið nokkur ágreiningur um það, sem hún hefur haldið fram í sambandi við framkvæmd flugvallarsamningsins, og þessu starfi er enn haldið áfram í n. Enn hafa ekki verið settar reglur um afnot og starfrækslu flugvallarins, og þær munu ekki settar strax, því að n. þarf að gera sér grein fyrir nokkrum atriðum í sambandi við framkvæmd samningsins, áður en þær reglur eru settar. Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira um þetta efni.

Nú hefur þetta frv. valdið nokkrum ágreiningi í n., og mér skilst, að það sé ekki sízt ágreiningur um skipun flugráðsins, sem segja má, að sé annað aðalatriði frv.

Það má náttúrlega kannske nokkuð lengi deila um það, hvernig heppilegast sé fyrir komið yfirstjórn þessara mála. Mér skilst, að allir séu sammála um það, að heppilegt sé að hafa flugráð, en nokkur ágreiningur er um það, hvort ráðið skuli skipað af ráðh. eða Alþ. Ég lagði til, að ráðh. skipaði þetta flugráð á sama hátt og gert er ráð fyrir t.d. að ríkisstj. skipi fjárhagsráð, nýbyggingarráð, viðskiptaráð o.fl. ráð. Nú hefur hins vegar sú skoðun komið fram bæði innan ríkisstj. og í þinginu, að þetta væri hægt að vefengja og eðlilegt væri, að Alþ. ætti þarna líka hlut að máli, og var þetta byggt á þeirri skoðun, að þarna væri um hluta af framkvæmdarvaldinu að ræða, og eðlilegt, að ríkisstj. skipaði framkvæmdarvaldinu, en óeðlilegt, að þingið skipaði því, með því að fara með hluta af framkvæmdarvaldinu, sem ætlað er ráðherrunum. og þær till., sem fyrir liggja, eru eins konar miðlunarleið, sem meiri hluti samgnm. leggur til í samráði við ríkisstj., og er gert ráð fyrir, að 3 menn í ráðinu verði kosnir með hlutfallskosningu af þinginu, en 2 menn verði skipaðir af ráðh. til þess að tryggja það, að ráðh. sá, sem um þessi mál fjallar. hafi nokkuð um það að segja, hverjir veljast í ráðið, og einnig til þess að tryggja það, að sérfróðir menn í flugmálum komi í þetta flugráð. Það er ekki hægt að tryggja það, að þingflokkarnir sem slíkir kjósi sérfróða menn í flugmálum í ráðið. Nú heldur hv. frsm. minni hl. því fram, að þetta sé gert til þess að útiloka einn þingflokkinn frá því að hafa nokkuð að segja í ráðinu. Þetta er á mesta misskilningi byggt, því að það er aðeins sú ákvörðun í till., að 3 skuli hlutfallskosnir, en auðvitað veit enginn fyrirfram, hverjir yrðu kosnir, og mætti eins segja, að öll slík ákvæði um, að 3 menn í slíkum nefndum skuli vera kosnir af þinginu, séu þannig sett til þess að útiloka einn flokkinn gersamlega.

Nú eru margar n. skipaðar þannig, að 3 menn eru kosnir af þinginu, svo sem síldarútvegsnefnd, og mér vitanlega hefur því aldrei verið haldið fram, að það hafi verið gert til þess að útiloka einhvern einstakan flokk sérstaklega frá áhrifum í þeirri n. Það er sem sagt ekki meiningin með þessu, heldur hitt, að finna miðlunarleið milli þeirra, sem halda því fram, að eðlilegast væri, að þetta ráð væri allt stjórnskipað. og hinna, sem halda því fram, að ráðið ætti allt að vera þingkjörið, og þessi millileið var farin til þess, að þeir 2, sem skipaðir væru af ráðh., væru sérfróðir menn, en hinir 3 kosnir af þinginu. Ég vænti þess, að þetta nægi til þess að mótmæla því, sem hv. frsm. minni hl. heldur fram í sínu nál., sem er næsta fáránlegt, að meiningin sé sú að koma þessu þannig fyrir, að Sósfl. geti ekki einu sinni vitað, hvað gerist í ráðinu. Í því sambandi nægir að taka það fram, að starf flugmálastjóra á að haldast, að vísu allmjög breytt. Ég hef ekki ætlazt neitt fyrir um það að skipta um mann í því starfi. og minni hl. n. treystir augljóslega þeim manni, sem nú gegnir þessu starfi. Enginn hefur betri skilyrði til að fylgjast með öllu, sem gerist í þessum málum, en einmitt flugmálastjóri, því að hann á að hafa eftirlit með öllum flugmálum í landinu. Og til þess að ná burtu öllum mönnum frá flugmálunum, sem hv. frsm. minni hl. hefur traust á, verður að ganga miklu lengra í þessum efnum á þann hátt, sem óhugsanlegt væri öðruvísi, en að víkja frá starfi þeim manni, sem hv. frsm. minni hl. nefnir í nál. sínu. sem sagt flugmálastjóra.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Barð., þar sem hann sagði, að með þessu frv. væri einn flokkurinn útilokaður frá því að fylgjast með um þessi stórkostlegu fjárhagsmál og mjög svo viðkvæmu. Hv. þm. Barð. fór um þetta mörgum og talsvert hörðum orðum í minn garð.

Ég hef skýrt frá því, sem hefur verið stungið upp á. Það er gert til þess að sameina þessi tvö sjónarmið, sem ég gat um. Það er ekki gert til þess að útiloka einn eða neinn frá þessu, heldur til þess að finna í þessu þann jafnvægisgang, að ráðh. skuli hafa nokkuð um þetta að segja, en þó hafi þingið einnig talsvert um þetta að segja. Þessi hv. þm. hefur lagt fram brtt. um, að 5 þingskipaðir menn fari með þessi mál, og verði þeir í flugráðinu, tveir af þeim skuli vera sérfróðir. Þetta getur varla staðizt, því að það verður þá að standa í till.. hvaða þingflokkum sé skylt að uppfylla þetta ákvæði um kosningu sérfróðu mannanna, því að annars yrði undir hælinn lagt, hvort þeir væru nokkrir í ráðinu, þegar kosið væri af listum. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, hygg, að ég hafi drepið á helztu atriðin í þessu máli. Þó má búast við, að ég eigi einhverju ósvarað af því, sem komið hefur fram, af því að ég var ekki viðstaddur til þess að hlusta á ræðu hv. frsm. minni hl. n., en ég veit ekki, að hve miklu leyti henni var beint til mín.