17.05.1947
Efri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

215. mál, flugvellir

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hæstv. flugmrh. hefur nú svarað ýmsu af því, sem til mín var beint í tilefni af framsöguræðu minni. Ég hafði ekki séð þetta nál. minni hluta n. fyrr en nú á fundinum. og sé ég, að þar eru bornar fram getgátur um það, hvað vaka muni fyrir ríkisstj. með flutningi þessa frv., og það sé í fyrsta lagi verið að lítilsvirða núv. flugmálastjóra, en megintilgangurinn muni þó vera sá að útiloka Sósfl. frá eftirlitsaðstöðu um framkvæmd á Keflavíkursamningnum. Ég hygg, að þetta sé á of mikilli viðkvæmni og hugarflugi byggt, og styðst, sem betur fer, ekki við gild rök. Viðvíkjandi því fyrra, að verið sé að lítilsvirða flugmálastjóra með því að skipta embættinu, þá er það engin ný bóla, að skipt sé starfi embættismanns. Þegar t.d. bæjarfógetaembættinu í Reykjavík var skipt — ekki í tvennt, heldur í þrennt —, mun það þá hafa verið gert til þess að lítilsvirða þáverandi bæjarfógeta, Jóhannes Jóhannesson? Nei, svo var ekki, heldur var ástæðan sú, að heppilegra þótti að skipta embættinu, af því að það var orðið of umfangsmikið fyrir einn mann. Þá er t.d. sagt, að hér sé tekið upp skipulag, sem ekki hefur verið tekið upp í vegamálum, vitamálum og raforkumálum, sem allt eru mjög umfangsmikil störf. Ég held, að ekki veitti af að skipta t.d. embætti vegamálastjóra, og mætti gjarnan setja vegamálaráð í þessu landi, því að það er ekki svo röskleg framkvæmd á þeim málum. Nú hefur vegamálastjóri verið veikur um 3–4 vikna skeið, eins og hendir alla dauðlega, en fyrir bragðið hefur allt staðið fast á skrifstofunni, og allan þann tíma hefur ekki verið hægt að fá gengið frá á skrifstofunni litilli áætlun um litla brú. Þó að leitað hafi verið til verkfræðinga þar, þá hafa þeir ekki getað afgreitt þetta mál, og þegar þessi eini maður veikist, fæst ekkert afgreitt. Þannig lítur út fyrir, að ekki sé hægt að hefja framkvæmdir, sem annars hefði verið hægt, svo að okkar stutta sumar styttist við þetta, og er það hvergi nærri gott. Ef hér væri vegamálaráð, sem hefði getað ráðstafað þessum málum með því að ná til vegamálastjóra, þá hefði ekki þurft að skapast slíkt ástand. Hið sama gildir hvað snertir vitamálaembættið. Ég hygg, að það sé svo umfangsmikið, að ég álít, að af því að það mæðir á einum manni, þá sé meiri dráttur á undirbúningi stórframkvæmda í þessum efnum hjá ríkinu, og má þar t.d. nefna sleifarlagið á undirbúningi við framkvæmdir á brimbrjótnum í Bolungavík. Þar er búið að spilla bezta mánuði ársins, vegna þess að framkvæmdir drógust og lentu fram á haust, svo að mannvirkið brotnaði og aftur verður að gera við það fyrir hundruð þúsunda á þessu ári til þess að komast í sömu spor og það var í, áður en viðgerðin hófst. Þá var embætti raforkumálastjóra á síðasta ári skipt í tvennt, og hygg ég, að engum hafi til hugar komið, að þessi tvískipting væri nein lítilsvirðing við Jakob Gíslason, og ég held, að þessi breyting hafi orðið til bóta. Mér dettur ekki annað í hug, en að ástæðan fyrir tvískiptingu embættis flugmálastjóra sé sú, að starfið sé orðið of mikið fyrir einn mann.

Hæstv. flugmrh. hefur gert grein fyrir því, að framkvæmd Keflavíkursamningsins heyri að mestu leyti undir utanrrh., eins og sakir standa, með núverandi fyrirkomulagi í flugmálum, og verður það auðvitað alveg óbreytt. Hv. frsm. minni hlutans sagði, að enn væri mjög slæleg framkvæmd á Keflavikursamningnum og að liðið, sem þarna væri, hefði varla skipt um föt, og þetta gerðist, meðan flugmálastjóraembættið var bara einskipt, og það má líka benda á það, að sú niðurstaða, sem varð á síðasta hausti um Keflavíkursamninginn, varð þrátt fyrir það, þó að flugmálastjóri með sitt víðtæka vald væri næsti maður við flugmálarh. hvað flugmál snertir.

Þegar því er slegið föstu, að þetta sé meðal annars til að auka vald útlendinga við rekstur flugvalla í landinu, þá vil ég segja, að ekki þykir mér hlýða, að neinn íslenzkur ráðherra vilji útlenda sérfræðinga til að stjórna þessum málum. Og ekki er líklegt, að Alþ. kjósi neinn útlending meðal þessara þriggja í flugráð. Ég hygg það verði allt Íslendingar, og vænti, að það verði góðir Íslendingar, sem Alþ. kýs og ráðh. vill í það sem sérfræðinga. Ég get sem sagt ekki trúað öðru, en að það eitt vaki fyrir ríkisstj. að setja nægilega marga menn og með nægilega sérþekkingu yfir stjórn flugmálanna í landinu. Er ekki ótrúlegt, að þess þurfi við, þar eð þessi mál hafa margfaldazt, svo sem þau hafa gert á undanförnum árum.

Hv. þm. Barð. spurði að því, hvort brtt. á þskj. 830 væru með ráði ríkisstj. gerðar. Var því svarað, að ég hygg, á þá leið, að breyt. séu að mestu eða öllu leyti undan rifjum ríkisstj. runnar. Og ég veit ekki betur, en að frá þeim sé gengið af ríkisstj. í heild. Og sennilegt þykir mér, að þær séu fyrst og fremst runnar undan rifjum hæstv. dómsmrh., flokksbræður hv. þm. Barð. Ef þær eru ólýðræðislegar, er rétt, að hann sakist við hann um það. En svo fórust hv. þm. orð um þær. En ég vil segja, að það, að Alþ. kjósi þrjá af meðlimum flugráðs, er ekki ólýðræðisleg aðferð að velja menn í trúnaðarstöður, þó að flokkarnir séu fjórir, en eigi að kjósa þrjá. Nú vil ég benda á það, sem vitanlegt er mönnum í samgmn., að þegar hæstv. ráðh. mætti hjá okkur, tók hann fram, að það væri sín ætlun, að flugmálastjóri væri sá sami og verið hefur. Nú er vitað, að hann er sósíalisti. Hann yrði einn meðlimur þessa ráðs. Þá er tryggt þetta kjörtímabil, að Sósfl. er ekki útilokaður. (Menntmrh.: Þessu er hvergi slegið föstu.) Fyrir þessu liggja orð hæstv. ráðherra á nefndarfundi. (Menntmrh.: Ég sagði. að hann yrði áfram flugmálastjóri.) Já, og yrði þá annar sérfræðingurinn. (Menntmrh.: því er ekki slegið föstu.) En lágmarkið er, að það verði tveir sérfræðingar. Það getur náttúrlega komið fyrir, að þeir verði fleiri, og ekki er það verra. Ég býst við, að hann verði að teljast einn af okkar aðalsérfræðingum í þessum málum, maður, sem er búinn að gegna þessum málum árum saman. Ég skildi a.m.k. hæstv. ráðh. þannig, að tryggt væri, að þessi maður yrði þarna með, en yrði ekki sviptur aðstöðu til að hafa áhrif á þessi mál. En hæstv. ráðh. leiðréttir, ef hann hefur meint eitthvað annað. Mér fannst reyndar hið sama koma fram í ræðu hans áðan. Ef á að tryggja það, að sérfræðingar séu í flugmálaráði, dugar ekki að láta kylfu ráða kasti um það, hvort það yrðu slíkir menn, sem kosnir yrðu af Alþ. því sýnist mér hentugt, að þeir séu skipaðir af ráðherra.

Þá kem ég að því, sem hv. þm. Barð. sagði, að ólýðræðislegt væri að skipa slíka menn til lengri tíma, en fjögurra ára. Annar þeirra á að vera skipaður til átta ára. En ég hygg, að fáir sérfræðingar léðu sig í svona embætti, ef þeir ættu aðeins fjögurra ára skipun fram undan, og jafnvel þó að um átta ár væri að ræða. Mér finnst, að val sérfræðinga eigi ekki að vera pólitísk ráðstöfun. Og það er mjög eðlilegt, að jafnvel sérfræðingarnir báðir væru skipaðir til lengri tíma, en einn pólitískur ráðh. hefði líkur fyrir að sitja í sínu sæti. þ.e. kjörtímabilið. Hvernig er með aðra sérfræðinga. svo sem sérfræðing í vegamálum, vegamálastjóra, sérfræðing í hafnarmálum, vitamálastjóra, sérfræðing ríkisstj. í heilbrigðismálum, landlækni? Allt eru þetta embættismenn upp á lífstíð. Mér virðist athugandi, hvort þeir sérfræðingar, sem hér er um að ræða, ættu ekki að vera embættismenn með veitingu. Þegar maður er búinn að starfa fjögur til átta ár sem sérfræðingur í flugmálum, efast ég um, að heppilegt sé að skipta um og taka nýjan mann. Það gæti náttúrlega ráðherra fundið upp á að gera, ef pólitísk afstaða réði.

Ég hygg ég geti sagt fyrir hönd n. allrar, að menn muni ekki ganga inn á brtt. hv. þm. Barð. Og hitt er mér algerlega ljóst, að n. gengur ekki inn á brtt. hv. 6. landsk., því að hans sjónarmið voru beint rædd í n.. og skiptust skoðanir annars vegar í samræmi við brtt. á þskj. 830 og frv. í heild, og hins vegar þær skoðanir, sem hv. 6. landsk. túlkar og nú eru mótaðar í till.-formi á þskj. 850. Hv. þm. Barð. mæltist til, að hans sjónarmið yrði tekið til athugunar í n. En ég hef talað við formanninn, og hefur okkur komið saman um, að óþarft sé þess vegna að skjóta málinu til nýrrar athugunar í n., að það séu ekki minnstu líkur til þess, að n. fallist á þær brtt. Enda hefur hv. þm. Barð. fengið vitneskju um, að þessar brtt. á þskj. 830 eru fyrst og fremst brtt. stjórnarinnar við þetta stjfrv., sem hér liggur fyrir.