20.05.1947
Neðri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

215. mál, flugvellir

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Það var að morgni þessa dags, sem samgmn. hafði þetta frv. til meðferðar og gat skilað nál., sem er á þskj. 900. Annars þætti mér hlýða, að hæstv. flugmrh. væri hér viðstaddur og legði blessun sína á það, sem þegar hefur verið gert. Að öðru leyti er þetta mikils vert mál, og mun ég geta þess hér að nokkru.

Eins og ég gat um, féllst samgmn. Nd. á, að frv. nál fram að ganga. Einn nm., hv. 2. þm. S–M., taldi ekki nauðsyn að skila sérstöku áliti, enda þótt hann áskildi sér rétt til að hafa óbundnar hendur um afgreiðslu málsins. Nú hefur flogið fyrir, að hv. þm. ætli að koma með brtt. við frv., en ég veit ekki, hvort hv. þm. óskar, að þær brtt. nál þessari umr. eða hvort hann sættir sig við, að þær komi fram við 3. umr., og mun hann segja til um það. Þetta mál er að allra dómi mikils vert mál, og sérstaklega er fyrir okkur Íslendinga áríðandi, að um það verði settar einhverjar reglur. Þó að langur tími sé síðan sett voru fyrstu lagaákvæðin um flug hér á landi, þá er málið enn þá svo mjög á þróunarstigi og jafnvel byrjunarstigi, að eðlilegt er, að frá ári til árs séu gerðar breytingar og settir lagastafir, sem snerta það. Nú hefur ríkisstj. ákveðið að setja nýjar reglur um þetta efni, og hefur þetta frv. nánari ákvæði um stjórn flugmálanna, og er það tímabundið, svo langt sem sjá má þörf þess. Það er eðlilegt, að þessum málum sé hnikað til og nánari og gagngerð ákvæði séu sett, bæði um stjórn og meðferð þeirra. Þetta fer nú að verða okkar framtíðarsamgöngutæki á vissan hátt, bæði yfir láð og lög, og er nú að verða kjörorð tímanna, og þarf því vel til þessara mála að vanda. Ég tel, að hér hafi tekizt vel um breyt. á frv., og hefur Ed. fallizt á þetta. Breyt. er fólgin í því, að í flugráð skal kjósa 3 af 5 meðlimum með hlutfallskosningu, og má vera, að slíkt sé eðlilegt. En í frv. ríkisstj. var ætlazt til, að sá ráðh., sem færi með flugmál, skipaði þessa meðlimi, en nú á hann að skipa tvo menn, sem sérþekkingu hafa á flugmálum. Annar þeirra er ráðinn til átta ára í senn, og gefur það festu um meðferð þessara mála. Einnig var sett inn bráðabirgðaákvæði, hvenær flugráðsmenn hafi endað sitt fjögurra ára tímabil.

Eins og ég gat um í upphafi, þá mælir n. með því, að frv. nál fram að ganga að undanteknum einum nm., sem gerir sjálfsagt grein fyrir sínu áliti.