21.05.1947
Neðri deild: 135. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

215. mál, flugvellir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. S–Þ. sagði, að búið væri að verja um 8 millj. til flugvallanna, síðan núverandi stjórn tók við. Þetta getur nú alls ekki staðizt, og þó að hv. þm. miðaði við árið, fær það ekki staðizt heldur. Hitt er svo annað mál, að það er mikið vandamál, hve kostnaðarsamir þessir flugvellir eru. Í fjárl. er gert ráð fyrir rekstrarhalla á flugvellinum í Reykjavík, sem nemur 2.550.000 kr., og er það svipað og var á s. 1. ári, og var þó ekki veitt til endurbóta á vellinum þá. Svona getur þetta ekki haldið áfram. Það verður að gera eitthvað til að auka tekjur vallarins og til sparnaðar. Þetta er stærsti liðurinn til flugmálanna, og þetta stendur svo framförum þeirra úti á landi fyrir þrifum, að Alþ. verður að gera eitthvað, sem um munar, til úrbóta í þessu efni og aukningar framlaginu til flugvallanna.

Annar aðalkostnaðarliðurinn er hin svokallaða öryggisþjónusta, sem er í því fólgin að hafa samband við flugvélar, sem eru á Norður-Atlantshafi, hvort sem þær koma við á Íslandi eða ekki. Þetta er ekki aðeins bundið við Reykjavík, heldur er það einnig á vegum landssímans. sem rekur í þessu skyni stöð í Gufunesi. En um þetta er það að segja, að þetta er líka alþjóðlegt, og á alþjóðaflugráðstefnum hafa fulltrúar Íslands lagt á það áherzlu, að þeir vildu fá þennan kostnað að verulegu leyti endurgreiddan, og mun það yfirleitt hafa þótt sanngirniskrafa. Ein slík stöð er í Vík í Mýrdal, og hefur verið endurgreiddur kostnaðurinn við hana af þessum alþjóðasamtökum að 95%. Nú stendur yfir flugmálaráðstefna í Montreal, og eru þar 3 fulltrúar fyrir Íslands hönd, og standa yfir samningar um endurgreiðslu þessa kostnaðar, en niðurstaða er ekki orðin enn þá. En það er sanngjarnt, að þessi kostnaður komi til baka, svo að hann verði ekki nema brot af því, sem hann hefur verið. En þá er eftir vandamálið með rekstur Reykjavíkurflugvallarins — um Keflavíkurflugvöllinn ætla ég ekki að ræða að sinni — og þess vegna er þetta frv. fram komið. Það á ekki aðeins að setja flugráð, heldur á einnig að setja flugvallarstjóra og skipta þannig embætti flugmálastjóra í tvennt, svo að á þann hátt sé hægt að gera breyt. á rekstri flugvallarins, svo að hann kosti minni fjárútlát. Þetta vildi ég benda hv. þm. S-Þ. á.