08.04.1947
Efri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. þarf ekki langra skýringa við. Í því felst heimild fyrir ríkisstj. að setja á stofn innkaupastofnun, sem annist innkaup til ríkisstofnana. Þessar stofnanir eru margar og því æskilegra að sameina þær í eina innkaupastofnun. Þó er ætlazt til, að þær einkasölur, sem eru í gangi, haldi áfram og verði þeim á engan hátt breytt. Í frv. felast einnig nokkrar heimildir um reksturinn, svo sem skipun forstöðumanns og annað slíkt. Ég tel svo óþarft að fara um þetta fleiri orðum, en vona, að hv. d. greiði götu frv. í gegnum deildina.