13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Þessar brtt. mínar eru aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi um það, að innkaupastofnunin hafi heimild til og verði falið að annast innkaup á vörum ekki aðeins fyrir ríkið sjálft og stofnanir þess, heldur einnig fyrir aðra aðila, sem óska þess, og að í sambandi við það verði stofnuninni tryggður forgangsréttur um gjaldeyri til vörukaupa sinna, þ.e.a.s. að því tilskildu, að hún geti útvegað vörurnar á því verði, sem er a.m.k. sambærilegt við lægsta verð annarra innflytjenda.

Mér kemur það satt að segja, nokkuð undarlega fyrir sjónir, að ekki skuli vera fallizt á þessar till. þegar í upphafi. Það virðist svo sem hér mundi aðallega verða um byggingarvörur að ræða, þannig að langmestur hluti þeirra vara, sem til greina kemur, að innkaupastofnunin sjái um innflutning á, yrðu byggingarvörur fyrir ríkið og stofnanir þess. Og tilgangurinn er sá með þessari lagasetningu, að ríkið geti þar með gert hagkvæmari innkaup en ella, eins og hv. frsm. fjhn. hefur nú skýrt í sinni framsöguræðu. Hann hefur fært fyrir því þau rök, sem virðast liggja til grundvallar fyrir frv., að líklegt sé, að með þessu móti væri unnt að afla varanna með hagkvæmara verði en ella. En þá spyr ég: Hvers vegna mega þá ekki bæjarfélög, samvinnufélög og einstaklingar njóta góðs af, ef það er rétt, að með þessu fyrirkomulagi sé hægt að afla varanna með hagkvæmara hætti, en annars? Hvers vegna má þá ekki færa út starfsvið þessarar stofnunar, þannig að ekki aðeins ríkið, heldur og aðrir geti fengið vörurnar með lægstu og hagkvæmustu verði? Samkv. þessari brtt. minni er til þess ætlazt, að innkaupastofnun ríkisins geti sem sagt líka tekið að sér innkaup á öðrum vörum en þeim, sem til greina mundu koma í því formi, sem frv. er nú, og að það sé hægt að auka starfsemi hennar smátt og smátt eftir hentugleikum, eftir því sem fært þykir og reynslan segir til um, að hagkvæmt sé. Ef vel tekst til, þá er hér um mikla möguleika að ræða til þess að draga mjög úr þeim óhemju kostnaði, sem nú er á innflutningi vara, og lækka stórlega vöruverð í landinu. Og allir munu vera sammála um það, að sá kostnaður er óskaplegur, kostnaðurinn við innflutning vara til landsins, og fyrir liggja um það tölur og skýrslur, sem eru óyggjandi og ekki verður um deilt. Hins vegar eru menn ósammála um það, hvort hagkvæmt sé, að ríkið yfirleitt reki verzlun. Um það er deilt. En þrátt fyrir það að menn séu ósammála um þetta, þá ættu þessir hv. fjhn.-menn ekki að vera á móti því, að úr því yrði skorið með reynslunni. Og það er einmitt þetta, sem til er ætlazt með þessum brtt. mínum, þ.e.a.s., ef stjórnarvöldin vilja stuðla að því, að þessi tilraun verði gerð, en hafi þá ekki meiri hug á því að sanna, að ríkisverzlun sé óframkvæmanleg eða óheppileg. — Mér er þess vegna óskiljanlegt, að menn skuli ekki vilja fallast á að gera þessa tilraun með samkeppni milli einkarekstrar og ríkisrekstrar, hverjar skoðanir sem menn annars kunna að hafa. Hvaða kaupmaður sem er í þessu landi hefur heimild til þess að verzla með hinar margvíslegustu vörur, og hver innflytjandi hefur heimild til að kaupa inn vörur fyrir hvaða aðila sem er. Hvers vegna skyldi þá innkaupastofnun ríkisins ekki mega hafa sama rétt? Ef þessi stofnun nær tilgangi sínum, þá gerir hún betri innkaup, en aðrir. Annars er hún tilgangslaus. Og hvers vegna í ósköpunum mega þá ekki aðrir, en ríkisstofnanir njóta góðs þar af?

Þá er það hin brtt., sem í fyrsta lagi gengur út á það að heimila ríkisstj. að sameina innkaupastofnun ríkisins þær ríkiseinkasölur, sem nú eru starfandi, og sömuleiðis þær, sem stofnaðar kunna að verða. — Líklegt má telja, að ekki liði á löngu, áður en fleiri einkasölur verði settar á stofn, og m. a. liggur hér fyrir þinginu till. um einkasölu á kolum og salti og sömuleiðis önnur till. um einkasölu á olíu. Það er nú ótrúlegt, að heppilegt sé, að allar þessar einkasölur starfi hver í sínu lagi. Þó er engu slegið föstu um það í þessari till. minni. svo langt er ekki gengið, og skal ég ekki um það deila á þessu stigi málsins, en víst er um það, að margir eru þeirrar skoðunar, að heppilegt væri að sameina þessari stofnun þær einkasölur, sem nú þegar eru starfandi, og mér finnst þess vegna sjálfsagt að veita ríkisstj. heimild til slíkrar sameiningar, ef athugun leiðir í ljós, að það sé ótvírætt hagkvæmt. Mér þykir það satt að segja svo mjög með ólíkindum, að ég get ekki trúað því, að svo reynist, að ef ríkið tekur að sér rekstur með allmargar vörutegundir, sé það hagkvæmt, að verzlanir með hverja vörutegund um sig séu út af fyrir sig með sitt sérstaka skrifstofubákn, sína sérstöku framkvæmdastjóra o.s.frv.

Hv. frsm. taldi í framsöguræðu sinni, að þetta gæti komið til greina, en engin ástæða væri til að slá því föstu strax. Það er heldur ekki gert með þessari till. minni, þar sem hún er aðeins um heimild til ríkisstj. Og hvers vegna skyldi ríkisstj. ekki fá þessa heimild? Er ekki tímabært að láta þetta koma til framkvæmda þegar í stað, ef hagkvæmt reyndist? Það er ekki annað, en tylliástæða að koma með þá mótbáru, að það kunni að vera rétt, en þessu sé slegið föstu, því að það er ekki farið fram á það, heldur að þetta verði reynt og að gerðar verði ráðstafanir til þess, að hægt verði að framkvæma það, ef hagkvæmt reynist.

Sama er að segja um hina aðaltill. mína. Hv. frsm. bar ekki á móti því, að það kynni að reynast svo, að rétt væri að færa út starfssvið innkaupastofnunar ríkisins, en það væri ekki rétt að gera það strax. Hvers vegna? Hvers vegna ekki veita lagaheimild til þess, að innkaupastofnun ríkisins færi út starfssvið sítt þegar í stað eða áður en Alþ. gerir breyt. á þessum l., sem getur dregizt? Það eru engin rök til móti þessu.

Eins er það um gjaldeyrinn. Hvers vegna má ekki tryggja með l. í upphafi, að stofnunin gangi fyrir um gjaldeyri? Það er ekkert um það talað í frv., og eftir því fyrirkomulagi, sem nú er, verður það ekki gert, því að þar er farið eftir vissum reglum, og sé ég ekki annað en það sé sjálfsagt, að þegar í upphafi sé tryggt, að stofnunin gangi fyrir um gjaldeyri, og að það sé skýrt fram tekið í l. þegar í stað, til þess að það sé fyrir fram tryggt, að þessi tilraun nál tilgangi sínum.