13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við það, sem ég hef sagt. Ég hef í raun og veru tekið fram þau helztu rök, sem liggja í augum uppi, fyrir því, að sjálfsagt sé að færa út ramma þessa frv., og þau rök standa alveg óhögguð. — Það er rétt hjá hv. 3. landsk., að eins og frv. er, þá er rammi þess mjög óákveðinn, eins og hann er markaður í 1. gr., mjög óákveðið. hvernig þessi stofnun muni í rauninni starfa. Það er nú starfandi hér stofnun, sem heitir Innkaupastofnun Reykjavíkurbæjar, og hún kaupir yfirleitt ekki inn frá útlöndum, heldur heildsölum, og þaá er engin trygging fyrir því, að þessi stofnun mundi ekki starfa á sama veg, því að það er ekkert í l., sem bendir til, að hún mundi kaupa beint inn, því verður reynslan að skera úr. Með mínum brtt. er sýnilega ætlazt til, að þessi stofnun sé raunverulega innkaupastofnun, sem kaupir inn frá útlöndum og hefur möguleika til að keppa við stór einkafyrirtæki.

Hv. 7. landsk. var enn að bera fram sömu rökin og hann var með í frumræðu sinni gegn till. mínum. Mér eru þessi rök óskiljanleg, enda er það bara til þess að segja eitthvað, af því að hann er búinn að binda sig við það að vera með frv. óbreyttu. Hann talar um, að í upphafi megi ekki binda þessari stofnun neinn bagga, meðan verið sé að koma henni á laggirnar. Það er ekki verið að binda henni neinn bagga. Hví skyldi það vera verra fyrir stofnunina, að hún hafi heimild til þess að gera stór innkaup? Það er mjög fjarri því, að með þessum till. mínum séu stofnuninni bundnar neinar óeðlilegar skyldur á herðar. Það er skýrt tekið fram, að forgangsréttur um gjaldeyrinn er bundinn því skilyrði, að stofnunin geti útvegað þær vörur, sem hún annast um innkaup á, fyrir verð, sem er sambærilegt við lægsta verð annarra innflytjenda. Svo að það að tala um, að með þessu sé verið að binda stofnuninni byrði, það eru ekki nokkur rök.

Hv. 7. landsk. þm. sagði, að ef mínar brtt. væru samþ., væri ekkert frekar skorið úr um það, hvort einkarekstur eða opinber rekstur væri hagstæðari, en gert er með frv. Þetta er ekki rétt. Með frv. er á engan hátt skorið úr um slíkt, þar eð því er sniðinn svo þröngur stakkur, að sú reynsla getur ekki fengizt. Þar er aðeins miðað við takmarkaða vöruflokka. Og í öðru lagi fer því fjarri — eins og ég hef oft bent á — að þessi stofnun eigi sömu aðstöðu og einkafyrirtæki. Mundi þetta þykja mjög óhagstætt fyrir einkafyrirtæki, og efast ég um, að nokkur vildi kaupa hlutabréf í því, ef því væri sniðinn svo þröngur stakkur, að það þyrfti þegar frá upphafi að binda rekstur sinn við ákveðinn aðila og mætti ekki fara út fyrir þann ramma, svo að rök hv. þm. eru gersamlega haldlaus í þessum efnum. Það er rétt, að stofnunin getur ekki farið út í innkaup í stórum stíl nema með nokkrum undirbúningi, en það segir sig sjálft, að hún hefur ekki þessa verzlun, fyrr en sköpuð hafa verið þau skilyrði, sem gera þetta mögulegt.

Þá sagði hv. þm. að byggingarfélög þau, sem hér eru starfandi, væru nú að sameinast um innkaup og þeim væri lítill greiði gerður með þeim brtt., sem ég hef hér flutt, er gerði þeim mögulegt að verzla við Innkaupastofnun ríkisins. Samkvæmt till. mínum er byggingarfélögunum ekki skylt að verzla við innkaupastofnunina, ef þeim þykir hagkvæmara að hafa sína sjálfstæðu innkaupastofnun, þeim er slíkt algerlega frjálst, svo að það er eins og hver önnur fjarstæða að halda því fram, að það mundi koma byggingarfélögunum illa, þótt brtt. mínar yrðu samþ., þvert á móti. Ef innkaupastofnun ríkisins getur gert hagkvæm innkaup, er engin ástæða fyrir þessi félög að leggja í sérstakan kostnað til að hafa sína eigin innkaupastofnun, og álít ég, að hagkvæmast sé að hafa innkaupin á sem fæstra höndum. Þetta yrði byggingarfélögunum hins vegar alveg í sjálfsvald sett, og með þessu fyrirkomulagi yrðu alls ekki teknir frá þeim neinir möguleikar, heldur þvert á móti skapaðir nýir.

Hvað snertir þær röksemdir hv. þm. móti mínum till. um það, að þegar í upphafi væri ákveðið í l., að Innkaupastofnunin skyldi hafa forgangsrétt um gjaldeyri til vörukaupa sinna með þeim takmörkunum, sem þar eru settar, þá er það að vísu rétt, að yfirstjórn gjaldeyrismálanna er í höndum ríkisstj., en með því er ekki fengin nein trygging fyrir því, að innkaupastofnun ríkisins hafi forgangsrétt um gjaldeyri, nema siður sé. Mér virðast undirtektir hæstv. ríkisstj. og hennar formælenda einmitt á þann veg, að ástæða sé til að ætla, að slík stofnun sem þessi mundi ekki fá ótakmarkaðan gjaldeyri, ef hún á að hafa möguleika á að keppa við einkafyrirtæki. Það hefur og hingað til verið þannig ástand í þessum málum, að ekki hefur verið farið eftir því í veitingu gjaldeyrisleyfa, hver geri hagkvæmust innkaup, þótt það sé nú að vísu á stefnuskrá hæstv. ríkisstj. Er mögulegt að framkvæma slíkt, hvað snertir ýmsar vörutegundir, en erfitt í sumum tilfellum. Með till. mínum er gengið feti framar, því að þar er ætlazt til, að innkaupastofnun ríkisins hafi forgangsrétt um gjaldeyri, ef hún geti gert sambærileg innkaup við aðra, þ.e.a.s. geti útvegað vörur við verði, sem er sambærilegt við lægsta verð annarra innflytjenda. Það er sjálfsagt, að trygging sé fyrir slíku í l., og ef farið yrði inn á þessa braut, er nauðsynlegt fyrir þá, sem eiga að veita slíkri stofnun forstöðu, að vita, hvers þeir mega vænta í þessum efnum. Þótt valdið, hvað þetta atriði snertir, sé nú í höndum ríkisstj., tel ég það ekki nægilega tryggingu og vil, að valdið sé í höndum löggjafans, þannig að um það þurfi ekki að fara í grafgötur þegar í upphafi fyrir þá, sem eiga að standa fyrir þessari stofnun, hvers þeir mega vænta hvað gjaldeyri snertir.

Hv. 3. landsk. þm. taldi, að 1. brtt. mín væri nokkuð óákveðin og vildi heldur, að þetta ákvæði væri bundið við bæjar- og sveitarfélög, þannig að það væri beinlínis tekið fram, að þessi stofnun skyldi annast innkaup fyrir bæjar- og sveitarfélög, en aftur á móti ekki aðra aðila. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., því að það er skýrt tekið fram í brtt., að stofnunin skuli annast innkaup á vörum fyrir aðra aðila, ef þeir óska þess, þ.e. alla aðila í landinu, sem kaupa vörur frá útlöndum, og þar með líka bæjar- og sveitarfélög. Tók ég það fram í framsöguræðu minni, að þarna kæmu fyrst og fremst til greina bæjar- og sveitarfélög. Ég væri því ekki ánægður með það, ef rammi þessa ákvæðis væri þrengdur á þann veg, sem hv. 3. landsk. þm. vildi leggja til, þannig að í staðinn fyrir „aðra aðila“. sem mundi þýða alla aðila í landinu og þar með bæjar- og sveitarfélög, kæmi aðeins bæjar- og sveitarfélög. Hins vegar teldi ég það standa til mikilla bóta, þótt hv. þm. gengju ekki lengra en að fela innkaupastofnun ríkisins innkaup fyrir þessa aðila aðeins. Mundi ég fagna því, ef slíkt næði fram að ganga, enda þótt ég teldi það ekki nema spor í áttina.