28.11.1946
Neðri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

45. mál, menntaskólar

Skúli Guðmundsson:

Mér skildist það á hv. þm. N-Ísf., að hann teldi það til meðmæla með þessu frv., að ríkisstj. hæstv. hefði öll verið sammála um að leggja til, að það yrði samþ. Það er nú síður en svo, að þetta séu nokkur meðmæli í mínum augum, því að það er deginum ljósara. að þessir hæstv. ráðh., sem enn sitja hér. hafa komið sér saman um ýmislegt, sem helzt hefði ekki átt að gera.

Það mun vera svo við þessar menntastofnanir, menntaskólana nú, að þeir, sem þar eru fastráðnir til starfa, hafa mjög miklar fjárhæðir frá skólunum fyrir yfirvinnu. Ég man það a.m.k., að fyrr — þá átti ég sæti í fjvn. — þá fékk fjvn. upplýsingar um greiðslur til þessara kennara, og það voru mjög háar upphæðir, sem þeir höfðu fengið fyrir yfirvinnu. En því miður eru menntaskólarnir ekki þær einu stofnanir. sem þannig er ástatt um. Mér er tjáð, að það sé nú víðast þannig við ríkisstofnanir, að starfsfólk fái miklar greiðslur fyrir yfirvinnu, sem svo er nefnd.

Ég vil víkja að því í þessu sambandi, að þegar nýju launal. voru sett fyrir tæpum tveimur árum. þá var til þess ætlazt af Alþ., að greiðslur fyrir aukavinnu hjá ríkisstofnunum féllu niður. Það hafði verið nokkuð um þetta áður, og mun það hafa verið fyrir það, að launin, sem þessu starfsfólki voru ákveðin samkv. eldri l., voru ásíðari tímum þannig, að tæplega var hægt fyrir menn að lifa af þeim. Minnist ég þess, að þegar launalagafrv. kom fyrir þingið, var í einu ákvæði frv. gert ráð fyrir að greiða laun fyrir yfirvinnu. Þetta var tekið út úr frv., af því að sú n., sem um málið fjallaði, vildi ekki, að það ætti sér stað, að ríkið greiddi laun fyrir yfirvinnu til fastlaunaðra manna, sem ætluð væru sómasamleg laun eftir frv., og hæstv. Alþ. féllst á þessa skoðun n. Ég tel ekki. að of sterkt sé að orði kveðið, þótt sagt sé, að ríkisstj. hafi vafasamar heimildir til þess að greiða laun fyrir yfirvinnu, svo sem hefur verið, síðan launal. gengu í gildi. Það er fyrirkomulag, sem alls ekki ætti að eiga sér stað. Og ég á nú bágt með að trúa því, hvað við kemur þessum menntaskólakennurum, að þeir mundu hafa neitað algerlega að vinna eitthvað við skólana í yfirvinnu, heldur hygg, að þeir mundu gera það, þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, dagaði uppi eða væri fellt. Þeir hafa fengið það miklar tekjur fyrir yfirvinnu að undanförnu, að ég held. að þeir mundu hugsa sig um tvisvar, áður en þeir slepptu af því, jafnvel þó að vinnutími þeirra væri eins og hann er ákveðinn nú í l. og því ekki breytt. Hitt er annað mál, að þeim þykir náttúrlega betra, eins og skiljanlegt er, að fá skyldukennslustundum fækkað til þess að geta fengið meiri borgun fyrir aukavinnu.

Mér finnst sem sagt, að sá háttur, sem hér er í þessum efnum, bæði við þessar stofnanir, sem um er að ræða í frv., og fleiri, að greiða föstum launamönnum svo og svo mikið aukafé sem laun fyrir yfirvinnu, sé mjög óviðfelldinn og að það eigi að skera fyrir það. Og einkum þess vegna er ég á móti þessu frv.