21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hefði helzt kosið, að þetta frv. hefði fengið að fara nokkurn veginn óbreytt gegnum þessa d., svo að ekki þyrfti að senda það aftur til Ed. Ég sé að vísu, að fjhn. hefur borið fram brtt. við frv., sem ég get vel sætt mig við. En í 2. gr. frv. er sagt, að ríkisstj. skuli ákveða með reglugerð um starfsvið stofnunarinnar. Og ég fyrir mitt leyti væri alveg til með að lýsa yfir, að í þessa reglugerð skyldu tekin upp ákvæði svipuð og þau, sem felast í brtt. meiri hl. á þskj. 914. En ég tel þó ekki, að ég vildi leggja á þetta höfuðáherzlu, ef meiri hl. n. vildi við hana fast halda. Ég tel hins vegar, að í frv. sé fullkomin heimild til að gera þetta, og sé þess vegna ekki, ef þessi yfirlýsing lægi fyrir, að endilega þyrfti að samþykkja brtt. Mér þykir hugmynd þessi, sem kemur fram í báðum till., á þskj. 911 og 914, betur orðuð og á þann hátt, sem ég felldi mig betur við og mundi halda mig við, ef til kæmi, þó að ekki væri samþ. annað en það, sem í frv. stendur nú. En sem sagt, það veldur sjálfsagt ekki neinum úrslitum, þó að frv. fari aftur til hv. Ed., en heldur hefði ég kosið, að það þyrfti þess ekki.

Um till. frá hv. þm. Siglf. skal ég segja það, að ég er efnislega samþykkur sumu af því, sem í þeim felst. En um þetta mál er samið milli stjórnarflokkanna fyrir stjórnarmyndun á þann hátt, sem í frv. felst og ég tel mikla bót að. Ég vil þess vegna ekki samþykkja það af till. hv. þm., sem ég að öðru leyti kynni að vera með, vegna þess að á þann hátt væri aðalefni frv. og kannske frv. öllu stofnað í hættu. Hins vegar skal ég ekkert segja um það, hvernig fara muni, ef þessi innkaupastofnun ríkisins reynist vel. Má vel vera, að hún geti tekið að sér eitthvað af þeim verkefnum, sem þar er farið inn á, og á þann hátt, sem brtt. gerir ráð fyrir. Ég tel ekki, að ég þurfi annað og meira um þetta að segja. En ég vildi mega óska, að frv. fengi að ganga fram í svipuðu formi og það liggur fyrir, og annaðhvort léti fjhn. nægja þessa yfirlýsingu mína um reglugerðarákvæði eða að samþ. yrði brtt. á þskj. 914, sem að efni til er ekki frábrugðin till. á þskj. 911, en ég tel með æskilegra orðalagi, ef eitthvað verður samþ. til breytinga.