21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég vil þakka hv. fjhn., meiri hl. og minni hl., fyrir það, að hún hefur viljað fallast á þá till. mína að taka aftur brtt. 914 og 911, en vil lýsa því yfir, að það er í samræmi við þá heimild, sem felst í 2. gr. l.. að það skuli sett reglugerð um þetta efni, og ég mun sjá um, að það verði sett í reglugerð ákvæði um tilboð, eins og það er orðað á þskj. 914, þannig að jafnan skuli tekið hagkvæmustu tilboðum innlendra og erlendra aðila. Ég tel ekki, að í þessari yfirlýsingu felist, að í öllum tilfellum skuli leita tilboða, heldur að það skuli sett ákvæði um það, í hvaða tilfellum tilboða skuli leitað, og tel, að með þessu sé tryggt, að í öllum stærri atriðum verði tilboða leitað og þá tekin þau hagstæðustu, frá hvaða aðila sem þau koma, innlendum eða erlendum. Ég hef þegar tekið afstöðu til till. hv. þm. Siglf. á þskj. 909, og þarf ég ekki neinu við það að bæta öðru en því, að ég tel, ef samkomulag verður um það í ríkisstj., að þá geti hún falið innkaupastofnuninni nokkuð af því, sem í till. felst, án þess að um það séu sett lög.

Ég tel þess vegna mögulegt eftir þetta samkomulag í n., að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.