13.03.1947
Neðri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

……….. Ég skal þá minnast á eitt eða tvö atriði.

Í 2. gr., undir 5. lið, er ákvæði um, að við staðsetningu verksmiðja verði tekið tillit til framleiðsluskilyrða og atvinnuþarfa einstakra byggðarlaga. Og í grg. er þetta alveg sérstaklega undirstrikað, að tekið verði tillit til byggðarlaga úti um landið, þar sem skortur sé á atvinnutækjum.

Þetta er allt saman hárréttur tilgangur — tilgangur, sem áður hefur komið fram í löggjöf og hefur vakað fyrir fyrrv. ríkisstj. og nýbyggingarráði. En hvað er það, sem þarf til þess að framkvæma þessa hluti, hvað er það, sem þarf til þess að tryggja það, að tækin verði staðsett á hinum og þessum stað úti um land, þar sem þörfin er mest fyrir þau, og til þess að tryggja það, að t.d. hraðfrystihúsin verði byggð á hinum og þessum staðnum til þess að skapa grundvöll að fullkominni útgerð — hvað þarf til þess? Það er vald einnar stofnunar, sem getur beint fjármagninu á þessa staði.

Nú er það hins vegar svo í okkar þjóðfélagi, að lánapólitík bankanna er rekin með það fyrir augum að vita fyrst og fremst, hvaða lántaki getur gefið beztu skilríki fyrir því, að hann geti borgað lánið aftur, og hvað lántaki geti lagt mikið fram sjálfur, til þess að hægt sé að koma viðkomandi fyrirtæki upp á viðkomandi stað. Bankapólitíkin og lánastarfsemin er rekin frá almennu verzlunarlegu sjónarmiði.

Hvað er það hins vegar, sem er verið að slá föstu bæði með þessum ákvæðum og áður er í löggjöf og ætlazt er til, að gert verði? Það er, að fyrirtæki séu staðsett með það fyrir augum og út frá sjónarmiði þjóðarinnar og hennar þarfa. En þarfir þjóðarinnar og lánapólitík bankanna hafa ekki farið saman undanfarið. og í því liggur meinið.

Fjöldinn af okkar kauptúnum og kaupstöðum og byggðarlögum eru fátæk, vegna þess að þau hafa aldrei fengið stórvirk framleiðslutæki, sem hafa getað skapað þeim auð og völd. Af hverju? Af því að þar hefur ekki verið sá auður fyrir, sem hefur haft lánstraust hjá ríkisstofnunum, bönkunum. Ef þeim hefði verið lánað í nógu stórum stíl til þess að koma upp stórfelldri útgerð, þá væri öðruvísi komið fyrir þeim. Það er öðru máli að gegna hér í Reykjavík, því ef ríkur maður hefur komið hér til bankanna og ætlað að fá lán og hefur getað sjálfur lagt fram mikinn hluta af því fé, sem þarf til þess að koma upp fyrirtæki sínu, þá hefur hann fengið lán, því að frá verzlunarlegu sjónarmiði er það kannske rétt að lána þeim ríku og ekki kannske eins öruggt í bili að lána þeim fátæku. Þess vegna er það nú svo í okkar landi, að þeir, sem voru fátækir, eru það ennþá, en hinir ríku eru ennþá ríkari.

Það, sem gera þarf, er að breyta sjálfum grundvellinum fyrir lánveitingu, til þess að knýja fram að ákvörðunin um staðsetningu atvinnutækja úti um land verði meiri en orðin tóm. Ég þekki sjálfur þá baráttu, sem háð hefur verið í þessu skyni, og ríkisstj. þekkir hana líka, sérstaklega hæstv. fjmrh. Við vitum, hvað það er að vinna að því að fá bankana til þess að fara skynsamlegar leiðir í þessu efni með því að taka tillit til þarfa þjóðarinnar og brjóta þannig í bág við alla venjulega pólitík þeirra, sem lögð er til grundvallar lánveitingu bankanna nú. Það hefur verið háð barátta til þess að fá þá til þess að taka tillit til þarfa þjóðarinnar. Og það verður að heyja baráttu til þess að framkvæma þá staðsetningu úti um landið. Að byggja slíkar verksmiðjur og annað slíkt úti um land þýðir það, að það þarf að lána 100% út til hinna fátæku staða, þar sem svo að segja enginn eyrir er til.

Að skipa fjárhagsráð er ekki nóg, ef því er ekki falið vald til þess að framkvæma þá staðsetningu, sem verið er að tala hér um. Það þarf að fela því eða veita því vald til þess að framkvæma staðsetningu atvinnutækja með þarfir hinna fátæku manna fyrir augum og ákveða slíkt án þess að gera slíkt að fyrirskipun bankanna. Við erum nógu lengi búin að horfa á slíkt, og það er ekki til neins góðs fyrir þjóðina að halda áfram að kjósa menn á þing og fela þeim að skaffa sér framleiðslutæki út um landið, ef þeir geta ekki dugað í því embætti til þess að skaffa það fjármagn, sem þarf til þess að koma upp slíkum atvinnutækjum úti um byggðir landsins. Það þýðir ekki að vera að tala um þann mikla fólksstraum, sem á sér stað til Reykjavíkur, ef haldið er áfram að lána þannig, að hver auðmaður þar geti fengið að byggja, af því að hann er ríkur. Það verður að gerbreyta þessari háskalegu pólitík og skapa aðra, sem vinnur fyrst og fremst fyrir þörf þjóðarinnar í þessu efni.

Það þýðir ekki að vera að tala um að koma atvinnutækjum út um land og tala um, að þar séu skilyrði til þess, t.d. eins og í Grundarfirði. Hvað verður, þegar þeir svo koma þaðan og biðja um lán til þess að geta byggt hraðfrystihús? Þorpin eru að verða mannlaus, bátarnir geta ekki gengið, það er ekki hægt að hagnýta aflann. Og þó að ekki hafi verið beðið um lán nema svona 25–30% af kostnaðinum til slíkra bygginga, hefur oft gengið erfiðlega að fá þau lán hjá bönkunum. En ef á að skaffa þessi atvinnutæki út um landið og hjálpa þessu fólki, þá verður að vera til vald, sem getur gert það og vill gera það. Það er blekking ein að mynda þetta ráð, ef það á ekki að hafa þetta vald.

Við erum búin að fá nóg af því, að jafnvel valdamestu mönnum þessa lands hefur Landsbankinn neitað, eða bankastjórar hans, um lán til þess að hjálpa mönnum, sem eru fátækir og eru að brjótast í því að fá sér atvinnutæki. Það er nóg komið af slíku. Það þarf að sjá um, þegar þarf að taka ákvörðun um slíka hluti, að þetta geti ekki endurtekið sig og þau dæmi, sem við þekkjum frá liðnum árum um þetta. Þess vegna er það rétt hugmynd, sem bæði hefur verið gefin áður í l. og hér í þessu frv. er tekin, að taka tillit til staðsetningar framleiðslutækja miðað við þarfir byggðarlaganna. En það þarf að gefa stofnuninni, sem á að framkvæma þetta, vald til þess.

Hæstv. forsrh. talaði hér um húsnæðisskort og húsnæðisþörf og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Við vitum, hvernig gengið hefur í þeim málum. Það voru sett ágæt l. á síðasta þingi, sem áttu að tryggja, að því fólki, sem býr í slíkum heilsuspillandi íbúðum, yrði hjálpað til þess að komast í betri íbúðir. Og hæstv. forsrh. taldi upp, hve mikil nauðsyn væri á slíku og talaði um, hve margar óskir hefðu komið fram um framlög í þessu efni. Hann talaði um, að samkvæmt áætlun þyrfti um 30–40 millj. kr. í fjögur ár til verkamannabústaða til þess að fullnægja þessum óskum og 30 millj. kr. til þess að framkvæma l. um heilsuspillandi íbúðir, en það hefur verið byggt fyrir um 100 millj. kr. hér í Reykjavík á þessu ári. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., það þarf að byggja slíkar íbúðir, en það þarf að tryggja það, að þessum millj. kr., sem varið er í byggingar hér í Reykjavík, sé rétt varið. En við skulum ekki draga úr því eða gleyma því, að það er hægt að gera miklu meira en gert hefur verið, hvað snertir byggingu íbúðarhúsa, samtímis því sem stórvirki eru unnin á sviði atvinnulífsins.

Það hefur verið byggt mikið, eins og skýrsla hæstv. forsrh., sem ég nefndi, sannar, en þó vitum við, að framkvæmd þessara bygginga er svo langt frá því að geta talizt viðunandi. Það hefði verið hægt að byggja miklu meira af íbúðarhúsum á Íslandi, svo framarlega sem fullkomin tæki væru fyrir hendi og betra skipulag á vinnunni og svo framarlega sem ein yfirstjórn hefði þar haft ráðin og skipulagt þær framkvæmdir. Það þarf ekki að draga úr byggingunum, það er hægt að halda áfram með fullum krafti, en það þarf að tryggja, að byggðar verði íbúðir fyrst og fremst yfir það fólk, sem býr nú í heilsuspillandi íbúðum. En það þarf annað skipulag en verið hefur. Það má ekki svo til ganga, eins og verið hefur, að einn og einn maður tekur að sér eitt og eitt hús víðs vegar um bæinn, heldur á sá sami maður að taka að sér að byggja upp heilar götur með nýtízku aðferðum, einnar hæðar hús, sjö hæða hús eða jafnvel 10 hæða hús, með lyftum og öðrum þægindum. Slík vinnubrögð mundu koma í veg fyrir, að haldið yrði áfram að kasta í glæ eins mörgum vinnustundum og gert hefur verið undanfarið með þessu gamla og úrelta fyrirkomulagi, sem kallað er hér einstaklingsframtak.

Hvað er að gerast hér í okkar þjóðfélagi, á meðan við erum að tala um, að við þurfum að gera skipulagðar ráðstafanir til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum og höfum samþ. á síðasta þingi l. um slíkt?

Það, sem er að gerast, er það, að það er verið að hrekja fólkið, sem hefur verið að reyna að byggja yfir sig og lagt hart að sér til þess að eignast þak yfir höfuðið, út úr þessum íbúðum,— og vegna hvers er það? Þar á bak við stendur bankavaldið, Þetta fólk hefur ekki getað lagt fram nógu sterka tryggingu fyrir því láni, sem það þurfti til þess að geta fengið lánið, og það verður að neyðast til þess að selja húsin og afhenda þau forríkum mönnum, sem leigja þau svo út með okurleigu til þess að verða ennþá ríkari. Það er ekki til neins að samþykkja fjölda l., ef bankapólitíkin er sú, að menn eru reknir út úr bönkunum og neitað um lán og reknir til þess að hætta við sin hús, til þess að þeir ríku geti fengið þau til að leigja þau út.

Það er alltaf hægt að segja falleg orð um að hjálpa þeim, sem eru húsnæðislausir, og samþykkja l. um það, en það bara þýðir ekki, nema gera um leið ráðstafanir til þess að hafa stjórn á bönkunum. Og það verður að sjá um, að mönnum sé gert kleift að vinna að þessum tilgangi, sem lýst er í 2. gr. Það þarf vald í hendur þeirrar stofnunar, sem á að gera þetta. Og það er það, sem verður prófsteinninn í öllu þessu, hvort fylgir alvara þessum fallegu orðum.

Þá kem ég að 3. gr. Þar er talað um, að fjárhagsráð skuli semja fyrir ár hvert áætlun um heildarframkvæmdir, en það er ekki talað um það, að það skuli semja áætlun fyrir nokkur ár. Nú er það vitað, að með þessu móti er í raun og veru ekki hægt að gera heildaráætlun um íslenzkan þjóðarbúskap. Hann útheimtir mjög mikla forsjálni og skipulag langt fram í tímann hvað þetta snertir, og skal ég taka dæmi. þar sem er grundvöllurinn fyrir öllum rekstri hér á landi, rafmagnsmálin. Þegar við ætlum að skapa stóriðju við sjóinn og vélaiðnað í sveitum, auka þéttbýlið þar á einn og annan hátt, og ég tala nú ekki um, ef við ætlum að koma upp stórfelldum fyrirtækjum þar, eins og t.d. áburðarverksmiðju og öðrum verksmiðjum, sem þurfa gífurlegt rafmagn, þá er raforkan grundvöllurinn. Nú er það hins vegar svo. að Hraðfrystihúsin, sem eru að risa upp við sjóinn, eru að kaupa svo og svo mikið af dieselvélum, af því að raforkan er svo takmörkuð. Það þarf að gera áætlun um raforkuverin 5–10 ár fram í tímann og láta það stemma við aðrar framkvæmdir, sem á að gera. Það þýðir ekkert að hugsa sér að koma upp slíkum verksmiðjum sem áburðarverksmiðju o.fl., ef við höfum ekki nægilegt rafmagn. Það verður þess vegna að hafa samfellt plan. Ef t.d. verksmiðjurnar eiga að vera nýttar 1952, þá verður að ákveða, hvort orkuaukningin frá Soginu er nóg eða hvort við verðum að vera búnir að virkja Þjórsá eða hvort við fáum nægilega mikinn kraft úr okkar hverum. Þetta þarf að vera samfellt, og þetta er óhugsandi fyrir eitt ár í senn. Eins árs plan er nauðsynlegt og rétt sem liður í framkvæmd stórs plans, en heildarplanið kannske til 4–5 ára, kannske til 10 ára, en það, sem liggur til grundvallar, er, að heildaráætlunin sé gerð langt fram í tímann, þar sem allt er látið stemma. Annars vill eitt og allt rekast á annars horn, af því að það vantar orku til þess að reka fyrirtækin, sem byggð eru.

Alveg sama gildir hvað snertir sjávarútveginn og þau mörgu fyrirtæki, sem þar á að reka. Bátaflotinn kallar á hraðfrystihúsin, og í sambandi við hraðfrystihúsin þarf beinamjölsverksmiðju. Ákveðinn fjölda af bátum þarf til þess að framleiða nægilega mikið af fiski, þannig að úrgangur úr fiski, þegar búið er að flaka hann, nægi til þess að hægt sé að reka fiskimjölsverksmiðju. Það þarf að vera samræmi í þessu öllu saman og skipulagt fyrir fram, það er óhugsandi öðruvísi en að það sé líka gert langt fram í tímann, hvort sem það eru 5 ár eða 10 ár eða kannske líka ennþá lengra fram í tímann, ef það er nauðsynlegt.

Ég tek sem dæmi annað mál. Það er Suðurlandsundirlendið og skipulagning þess. Við göngum vonandi allir saman út frá því, að Suðurlandsundirlendið verði eitt af þeim hluta þessa lands, sem þéttbýlastur verður. Og þegar við gerum okkar þjóðfélagslegu ráðstafanir, þá þurfum við að taka tillit til slíks. Þegar við byggjum bæi á Suðurlandsundirlendinu, þá verðum við að ákveða um þá hluti fyrir fram. Við verðum að sjá um, að slík saga endurtaki sig ekki eins og sagan um Hveragerði, þar sem hver og einn leggur sína hitaleiðslu og bæjarstæðið er valið með það fyrir augum að hafa hver við eldhúsvegginn.

Þegar við ætlum að skipuleggja fullkomin atvinnukerfi og kannske byggðir landsins, þá þurfum við að hugsa langt fram í tímann hvað þetta snertir. Og þegar við hugsum um fullkomna ræktun Suðurlandsundirlendisins, skapa bæi á því svæði og fullkomlega hagnýta þá ræktunarmöguleika, sem þar eru fyrir hendi, þá þarf plan 10 ár eða lengra fram í tímann.

Það er ekki gengið út frá neinu af þessu í þessari áætlun, og það er alveg í samræmi við þann hugsunarhátt, sem kemur fram í öllu því, sem markar stefnu þessa frv. Það er allt miðað við að takmarka þetta og hitt og skera niður, það miðar ekki að því að skapa og hrinda í framkvæmd, og meira að segja er kveðið svo skarpt að orði í þessari 3. gr., að í áætlun þessari skal gera ráð fyrir kostnaðinum við hverja framkvæmd, svo og með hverjum hætti fjár skuli aflað, enda skal kveða á um það, í hverri röð framkvæmdir skuli verða, svo að vinnuafl og fjármagn hagnýtist þannig, að sem mest not verði að. Alls staðar er það þveröfugur hugsunarháttur við það, sem var, á meðan það var aðalatriðið, að fyrst og fremst yrði að hrinda sem allra mestu af stað, til þess að sem allra fyrst væri hægt að hafa not af slíkum framkvæmdum.

Þá er þarna ákvæði um innflutning og gjaldeyrisverzlun og vald til þess að framkvæma það. Það er spor í rétta átt. Og það hlægir mig á vissan hátt, að þetta atriði skuli vera komið þarna inn. Þetta er það ákvæði, sem nýbyggingarráð óskaði eftir í nóv. 1945, að sett yrði, og var þá ákveðið, að nýbyggingarráð fengi vald til þess að gera þessa áætlun og úthlutun leyfa yrði sett til viðskiptaráðs. En þá þótti þetta ófært af þáverandi hæstv. fjmrh. Þá var fjmrh. með þá hugmynd, að það væri svo fjarri því, að það þyrfti að skapa áætlun um þessa hluti, og þvert á móti ætti að gera allt frjálst, verzlunina frjálsa og innflutning, og þær till., sem nýbyggingarráð kom með, voru kveðnar niður. Ég veit ekki, hvort hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur átt eins mikinn þátt í því að skapa þetta frv. eins og hann átti þátt í því að koma á núverandi stjórn, en honum hefur þá undarlega snúizt hugur, síðan það var. En í rétta átt stefndi þetta og hefði sparað þjóðinni nokkra tugi millj. kr., ef það hefði fengizt framkvæmt fyrir rúmu ári. þegar nýbyggingarráð þá einróma lagði það til.

Þá er komið að 4. gr., og í þeirri gr. er að mínu áliti endanlega kveðið á um, hvaða vald það sé, sem fjárhagsráði er ætlað að hafa, og hvað því er gert mögulegt. Þarna er sem sé ákvæði um það, hvað gera skuli, ef ekki sé nægilega séð fyrir fjárhag þeirra fyrirtækja, sem ráðið telur nauðsynlegt að stofnsetja. Í 4. gr. er komið að því, sem er kjarninn í öllu skipulagi þjóðarbúskaparins og afstaða bankavaldsins til fjárfestingar. Skipulögð fjárfesting er óhugsandi, nema vald til fjárfestingar sé á einum og sama stað. Óhugsandi er sú tvískipting valdsins, sem hér er, þar sem annars vegar er ráð, sem gerir kröfu um fjárfestingu undir yfirstjórn ríkisvaldsins, og á sama tíma séu svo bankastjórar, sem leyfa sér að reka allt aðra pólitík. Þetta eru tvær stofnanir, sem stefna sín í hvora áttina. Nýbyggingarráð hefur undirbúið nýbyggingar undanfarið. Bankastjórnin hefur stritazt á móti, svo sem hún hefur frekast getað. Ríkisstj. hefur að vísu yfirstjórn yfir þessu öllu saman, en hún hefur reynzt næsta máttlaus gagnvart Landsbankanum við að tryggja framkvæmdir. Nú er ástæða til að spyrja: Er bætt úr þessu? Nei, ekki að neinu leyti. Ráðinu er gefið vald til þess að neita um leyfi til framkvæmda, en það hefur ekki vald til að sjá um, að framkvæmdir séu mögulegar, til þess þarf meira en þetta frv. hefur inni að halda. Bankinn hefur eftir sem áður vald til þess að neita um lán, en hann á erfitt með að veita lán á þann hátt, að það gangi í berhögg við ráðið eða vilja þess, og er það vissulega pósitívt.

Þessir tveir aðilar geta hvorir um sig heft það. að ráðizt sé í framkvæmdir. En ef ráðið hefur á prjónunum einhverjar framkvæmdir, t.d. í nýsköpun, þá mun það sýna sig, að Landsbankinn hefur aðra pólitík, það hefur reynslan fullkomlega sannað. Sá sterki vilji, sem var fyrir hendi í fyrrv. hæstv. ríkisstj. til framkvæmda, og svo erfiðlega sem þá gekk að fá landsbankann til að beygja sig, þá geri ég mér ekki bjartar vonir um, að núverandi hæstv. stjórn takist öllu betur, nema Alþ. búi svo vandlega um hnútana, að ráðið hafi það vald yfir bankanum, að hann geti ekki staðið á móti. En Alþ. þarf að breyta þessu frv. svo, að ráðið hafi vald yfir bönkunum. Það dugar ekki, að fjárfestingarleyfi geti strandað á bönkunum og að þeir hafi vald til að stöðva framkvæmdir.

Ég hef horft á tignustu menn þjóðarinnar nú undanfarið. menn, sem verið hafa í fyrrv. hæstv. stjórn, og menn, sem eru í núverandi hæstv. stjórn,. forvígismenn stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, hafa gengið á fund bankastjórnarinnar til þess að reyna að fá fram nauðsynlegar fjárveitingar. Ég hef fylgzt með því, hvernig menn, eins og núv. hæstv. fjmrh., hafa barizt við að fá Landsbankann til að framkvæma þau l., sem samþ. hafa verið, fá hann til að sporna ekki gegn því, að miklar framkvæmdir kæmust í framkvæmd. Og fyrrv. hæstv. forsrh. reyndi þetta sama. Hver eftir annan hafa þeir farið bónleiðir til búðar. Menn, sem þjóðin hélt, að hefðu mikil völd, hafa gengið betlandi til Landsbankans og fengið nei. Það er rétt eins og Alþ. sé ráðgefandi þing og embættismenn í Austurstræti réðu svo, hvað þeir framkvæmdu.

Það er því sannarlega tími til kominn, að Alþ. fari að sýna það, að við hérna höfum vald og að það sé húsbóndi á sínu heimili, svo að einstakir embættismenn og bankastjórar geti ekki leyft sér það að neita. Það er óþolandi, að svo búið standi sem verið hefur undanfarið. Alþ. verður að hafa vald gagnvart þessum mönnum. En um þetta er sagt í niðurlagi 4. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Enn fremur skal fjárhagsráð hafa samvinnu við lánsstofnanir í landinu um samning fjárfestingar, og ber þeim að skýra fjárhagsráði frá fjármagni því, er þær hafa yfir að ráða. Nú telur fjárhagsráð eigi nægilega séð fyrir fjárþörf fyrirtækja, er það telur nauðsyn til að stofnsetja, og skal það þá leita samvinnu við ríkisstj., lánsstofnanir og aðra aðila, er hlut gætu átt að máli, um fjáröflun til þeirra fyrirtækja.“ Í þetta vantar, svo sem ég hef áður sagt, valdið til að framkvæma hlutina, svo að einstakir embættismenn geti ekki staðið gegn vilja Alþingis og vilja þjóðarinnar.

Það hefur sýnt sig, að landsbankavaldið ræður meira um stjórnmálin en Alþ. sjálft, og hefur það ekki hikað við að eyðileggja áform róttækra stjórna. Sú stjórn, sem Alþfl. og Framsfl. mynduðu 1934, hafði ýmsar róttækar aðgerðir á prjónunum. En árið 1935 neyddi Landsbankinn stjórnina til að breyta lögum, sem Alþ. hafði þá nýlega samið. Þetta sama endurtók sig svo 1937. Og nýsköpunaráform síðustu stjórnar eyðilagði landsbankavaldið, svo sem frekast það gat. Við munum eftir afstöðunni til stofnlánadeildarinnar, og við þekkjum afleiðingarnar. Hvað eftir annað hefur bankavaldið gripið inn í til að stemma stigu fyrir framkvæmdum hér á landi í þjóðarbúskapnum. Það er því sannarlega kominn tími til, að Alþ. sýni það, að það hefur vald yfir bönkunum. Það verður að gerbreyta yfirráðunum yfir bankanum, sérstaklega seðlabankanum.

Þá er það 5. gr., sem hæstv. forsrh. lagði mest upp úr sem einu höfuðnýmæli frv., og er vissulega um þarft nýmæli að ræða, ef vel er á haldið. En nú er að athuga til hvers skipulagningin á að vera. Tilgangurinn með skipulagningu er að fá alla hlutina til að falla sem bezt saman, svo að kraftarnir notist sem bezt, og skapa þannig grundvöll að almennri velgengni. En það er líka hægt að beina skipulagningu inn á allt aðrar brautir, t.d. til að koma á atvinnuleysi, og það er hægt, jafnvel þó að vilji ráðsins væri allt annar. Landsbankinn er að skipuleggja atvinnuleysi hér. Það stendur fyrir dyrum, ekki af því að það sé nein þörf eða nauðsyn, heldur er það leið til þess að geta ráðizt á verkalýðinn. En nú spyr ég: Ef ráðið vildi koma í veg fyrir slíkt, hefur það þá vald til þess? Nei, það vald er ekki til. Þetta gerir landsbankanum mögulegt að framkvæma sína pólitík, þó að fjárhagsráðið stæði á móti. Og það er þetta, sem hann er að gera. Því þarf að taka hér í taumana, svo að fjárhagsráð hafi ekki aðeins vald til að neita um leyfi, það þarf líka að hafa vald til að koma fjárfestingunni fram.

Hins vegar verð ég að segja það, að það er undarlegt, ef Sjálfstfl. er með öllu samþykkur þessu atriði, og er hann þá farinn að ganga langt í að viðurkenna, að ekki þurfi mikið upp úr frjálsu framtaki að leggja, og hefði það vissulega einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, a.m.k. þegar hann var alltaf að býsnast yfir höftunum. Ef þetta ákvæði miðaði til aukinna framfara, væri ekki nema gott eitt um það að segja, ef sá væri tilgangurinn, en mér virtist af ræðu hæstv. forsrh., að það væri miklu frekar hugsað sem hemill á framkvæmdum, en það þýðir, að þeir, sem óska eftir atvinnuleysi til þess að geta gert árásir á verkalýðsstéttina, fá þeim mun meiri möguleika.

Ef ráðið á að geta framkvæmt þetta atriði, verður það að fá vald í hendur, sem gerir því kleift að framkvæma það. Þá væri æskilegt að fá upplýsingar um það, hvað er hugsað með því, að ákveðið verði með reglugerð að smáframkvæmdir séu heimilar án leyfisveitingar.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þær greinar, sem eftir eru í I. kafla. Þær eru vel orðaðar, en það vantar valdið til að framkvæma hlutina, og fulla skipulagningu. Formið er ekki nægilegt, og af því, sem skortir, hef ég sýnt fram á 4 atriði. Það vantar fé. 15% eru ekki nærri því nægjanleg. í öðru lagi þarf meira vald yfir innflutningnum. Það vald er aðeins formlegt, en óvíst, að komi að notum. Í þriðja lagi vantar vald yfir bönkunum, og í fjórða lagi að ná fjármagninu úr verzluninni.

Skipting fjármagnsins í þjóðarbúskapnum var fyrst rannsökuð af skipulagsnefnd atvinnumála, Rauðku l., eins og mætti kalla hana, sem skipuð var af stjórninni 1935. Þá kom það strax í ljós, að of mikill hluti fjármagnsins var í verzluninni, eða um 100 milljónir, en í sjávarútvegnum aðeins 22 milljónir. Þá var það talin brýn nauðsyn að draga úr verzluninni í atvinnulífinu og veita fjármagninu í framleiðsluna. Þetta er nauðsyn, og það verður ef til vill að gera það allharkalega, eins og hæstv. forsrh. sagði. Þá er spurningin: Er nægilega frá þessu gengið í þessu frv.? Hæstv. forsrh. benti á 12. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu.“

Þá er spurningin, sem nauðsynlegt er að fá úr skorið: Er meiningin að framkvæma þetta atriði út í yztu æsar? Ef kemur einhver aðili, og hann tekur að sér að skaffa ákveðnar vörur, t.d. matvörur, fyrir lægra verð en allir aðrir, fær hann þá allan innflutning þeirra? Gætu t.d. S.Í.S. og kaupfélögin, sem flest hafa góða „organisation“ og njóta auk þess fríðinda, hvað snertir skatt, og ættu því að geta selt ódýrar en aðrir og hafa líka það markmið, fengið innflutning á t.d. öllum búsáhöldum, vefnaðarvöru o.s.frv.? Á þá ekki að taka tillit til neins annars? Ef svona er farið að, er vissulega hægt að framkvæma gerbyltingu í verzlunarmálunum, og það er nauðsynlegt, að það sé ákveðið og upplýst í umr., svo að hægt sé að ganga sem bezt frá þessu. En meðan það er ekki upplýst, skal ég ekki staðhæfa, að ekkert sé á þessu að byggja, því ef vel er á þessu haldið, má það verða til mikils gagns.

Eins og ég tók fram, er það, sem fyrst og fremst skortir í þetta frv., valdið til framkvæmda, en það, sem ég sakna þó sérstaklega í þessu frv., er, að í því eru engin ákvæði um framkvæmd á þeim áætlunum. sem fyrir liggja. Ríkisstj. hefur nú í höndum áætlun um sjávarútveginn, sem nýbyggingarráð sendi henni, og það spáir ekki góðu um framkvæmdina, að ekkert er um það getið. Nýbyggingarráð hefur samið um þetta góða áætlun, en það er enginn stafkrókur fyrir því, að fjárhagsráð framkvæmi þetta verk, sem þegar er hugsað. Ég mun nú, þegar þetta frv. kemur til n., hreyfa þessum breytingum, sem ég hef nú drepið á. Ég vona, að allir þeir, sem í raun og veru berjast fyrir nýsköpuninni, verði sammála um það og samtaka, að þetta form fái innihald.

Mér er skipulag mjög kært orð, og mér er það líka mjög mikið atriði, að skipulagningin sýni þá yfirburði, sem hún á til að bera. En það má líka skipuleggja illa, það má skipuleggja atvinnuleysi og böl. Það er hægt að nota skipulagninguna til gagns, og það er hægt að misnota hana. Þess vegna er það lífsspursmál, þegar það opinbera ætlar að skipuleggja og stofnar til stórfelldrar „organisatíðnar“ í því sambandi, að þessi skipulagning og hennar tilgangur og hennar vald sé ljóst frá upphafi, — Það er notað nýtt orð í sambandi við þetta frv., sem ekki hefur áður verið í íslenzku máli. svo að mér sé kunnugt, orðið „almannavald“ sem er gott orð. Og þessa almannavalds er sérstök þörf gagnvart bönkum landsins, þegar á að stjórna fjárhagslífi landsins út frá löggjafarsamkomu þjóðarinnar, Alþingi. Þegar horfið er frá stefnu 19. aldarinnar um afskiptaleysi hins opinbera af atvinnulífinu og skipulag byggt upp í atvinnulífinu í þess stað, þá er mótsetning í því að hugsa sér slíkt skipulag án þess að tryggja slíkt almannavald í skipulaginu í anda nýsköpunarinnar.

Hins vegar var komið inn á það af hæstv. forsrh., að við mættum ekki vera of greiðstígir, hvað hraða snertir í okkar uppbyggingu. — Ég vil þar undirstrika hitt, að okkur er nauðsynlegt að reyna til hins ýtrasta að hafa hraðann í okkar uppbyggingu eins mikinn og þjóðinni frekast er fært. Okkur er það fyrst og fremst nauðsyn vegna þess, að því meiri hraði sem þar er á, því fyrr nýtur þjóðin þeirra kjara, sem leiðir af fullkomnara framleiðslukerfi. Okkur er þetta því fremur nauðsyn af því, að við Íslendingar erum í kapphlaupi við aðrar þjóðir í uppbyggingu okkar atvinnuvega. Þegar farið verður ef til vill að skammta, hve mikið megi veiða á þessum eða hinum miðum, þ.e. hve mörg skip megi þangað fara til veiða, þá þurfum við að geta bent á, að við höfum mörg skip, ef unnt er. Þegar við hófum nýsköpunarstefnuna, þá var ljóst, að við yrðum að leggja áherzlu á þetta, ef aðrar þjóðir skömmtuðu, hve mörg skip mættu veiða á fiskimiðunum. Nýbyggingarráð gerði þá ráð fyrir að fjölga togurum úr 51 upp í 75 togara. Og ef reiknað var með 50 togurum, yrði að fá 25 togara í viðbót við þá, sem þegar höfðu verið keyptir, og spursmálið var að gera þetta nógu fljótt til þess að skapa þarna staðreynd, sem ekki væri hægt að hnekkja síðar. Við höfum misst mikið af togurum í stríðinu. En við verðum, með tilliti til þess, sem ég hef sagt, að geta sett fram fyrir aðrar þjóðir þá staðreynd, að við séum búnir að auka okkar flota. — Við ákváðum árið 1945 að byggja 30 togara. Við gerðum um það samninga við skipasmiði í Englandi og sátum fyrir öðrum um byggingu þessara togara, af því að við ákváðum okkur fljótt. Ensku togarabyggjendurnir sáu eftir að hafa gefið okkur þetta forhlaup. En þar sem við komumst nú að þessum forréttindum, verðum við að lofa okkar þjóð að leggja að sér, eins og hún frekast fæst til, til þess að þessum togarabyggingum verði flýtt. Þjóðin hefur treyst okkur alþm. til að hafa forystu í þessu efni og ætlast til þess, að við höfum forsjá um að framkvæma þessa hluti, sem máske verða til eftir tvö ár, og þjóðin treystir okkur til að hafa þessa forsjá út frá þeim kringumstæðum og háttum í alþjóðlegu atvinnulífi, sem við eigum að þekkja betur en fólk almennt. Ef við látum þessa möguleika ónotaða, mun þjóðin ásaka okkur fyrir það seinna. — Og við getum þá líka ætlazt til þess, að þjóðin leggi að sér um þessa hluti.

Engri kynslóð, sem byggt hefur okkar land, hefur liðið eins vel eins og þeirri kynslóð, sem nú lifir á Íslandi. Og við, sem höfum notið í mörgu baráttu forfeðra okkar, þeirra pólitísku frelsisbaráttu, og fengið að lifa það, að stofnað hefur verið lýðveldi á Íslandi, við eigum að hafa fulla djörfung til að segja þjóðinni, að hún þurfi að skapa það fullkomna framleiðslukerfi, sem okkur er nauðsynlegt. Og sú kynslóð, sem nú byggir þetta land, hefur siðferðislega skyldu til þess. Hún hefur gert stóra hluti og getur gert stærri hluti, ef hún fær í hendur þau tæki til þess, sem við höfum ráð á, og ef nógu skipulagt er stefnt að því marki að nota þau rétt.

Hæstv. forsrh. sagði, að við mættum ekki stefna of hátt í þessu efni.

Menn voru ýmsir vantrúaðir á það árið 1944, þegar nýsköpunin var hafin, hvað við Íslendingar gætum gert. Mönnum fannst það stórhugur, sem lýsti sér í þeim ákvörðunum, sem þá voru teknar um nýsköpun. En við höfum komizt að raun um það nú, að við stefndum þá ekki nógu hátt. Við sjáum nú, að krafturinn, sem þjóðin býr yfir, og vilji hennar til þess að starfa að þessum efnum er miklu meiri en okkur óraði fyrir þá. Við skulum þess vegna ekki draga úr trú þjóðarinnar á möguleikana til aukningar atvinnuveganna, heldur þvert á móti stuðla að krafti hennar til hins ýtrasta og sýna henni, hvað hún getur gert, sýna henni fram á, að hennar stórhugur hefur getað flutt fjöll og getur það áfram. Við þurfum að efla þessa trú, trú á land og þjóð, sem ef til vill hefur aldrei verið sterkari hjá okkur heldur en nú þessi síðustu tvö ár. Og þessi trú þarf að leiða hana til glæsilegra framkvæmda, jafnvel glæsilegri en þeir hafa stigið, sem á síðustu tveimur árum hafa þótt stíga stór spor, — framkvæmda í miklu stórkostlegri nýsköpun en þeirri, sem ennþá hefur átt sér stað.

Ég býst við, ef við nú skipuleggjum okkar krafta fullkomlega, vinnum nægilega vel að þeim tilgangi, sem fyrir þjóðinni vakti í þeim kosningum, þegar hún kaus þetta þing, þá muni ekki skorta stórhug hjá þjóðinni. Það reynir nú á það, hvort við alþm. höfum forsjálni og stórhug til þess að hafa þarna forystu.

Hæstv. forsrh. minntist á innflutninginn og minntist í því sambandi á, hve mikið væri hægt að byggja. Það er hægt að gera svo miklu meira en ennþá hefur verið gert, ef við hagnýtum okkar krafta til hins ýtrasta. Og úr þeim stórhug, sem fyrir hendi er í því efni, megum við ekki draga. Þessi trú á möguleikana er meira virði en peningarnir og tækin, sem við höfum, og þessa trú verður að efla hjá þjóðinni. Við, sem sitjum hér á þingi, megum ekki bregðast í þessum efnum.