13.03.1947
Neðri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þó að hér hafi verið haldnar þrjár snjallar og alllangar ræður, gefa þær ekki tilefni til að orðlengja þetta mikið. Þó er eftirtektarvert, að annars vegar hefur verið talið, að frv. skorti allt, sem að gagni mætti verða, innihald, stefnu og vald, en hins vegar hefur komið fram það sjónarmið, að þetta væri sá róttækasti kommúnismi, sem sézt hefur hér á Alþ. Ég geri ráð fyrir. að fullyrða megi, að hvort tveggja sé jafnfjarri sannleikanum. Þetta sýnir, að hér er aðeins um að ræða tilhneigingu til aðfinnslu, en handhæg rök samstilltrar andstöðu skortir. Ég játa hins vegar, að þetta frv. er að vissu leyti aðeins beinagrind, ákveðin fyrirmæli eða leiðarljós fyrir ákveðna stofnun til að fara eftir í samráði við ríkisvaldið. Og það er rétt, sem komið hefur fram hjá andstöðunni, og ég gat raunar sjálfur um í ræðu minni, að um árangurinn fer eftir því, hvernig framkvæmdin tekst. En svo er um öll mál, sem eru góð, og einnig um þetta. Úr hverju góðu máli má gera gallagrip, ef illa er á haldið í framkvæmdinni. Þó undrast ég, að kommúnistar skuli finna þessu frv. það til foráttu, að það gangi of skammt og sé ekki sambærilegt við stórhug þann, sem hafi ríkt í löggjöf og framkvæmd tveggja síðustu ára. Ef gera ætti samanburð á þessu frv. og gildandi sambærilegum lagaákvæðum, þá væru það lögin um viðskiptaráð og nýbyggingarráð, og mér skilst, að hv. 2. þm. Reykv. hafi talið það ákaflega stórt framfaraspor, er frv. um nýbyggingarráð var lagt fyrir Alþ. og samþ. Hafi það verið stórt og merkilegt spor, er þetta frv. ennþá stærra og merkilegra spor, því að það inniheldur allt, sem var í nýbyggingarráðsfrv., og margt fleira, sem á skorti, til að hægt væri að framkvæma þá löggjöf. Og það, sem vantaði og hefur vantað á síðustu útþensluárum, er löggjöf, sem veitir vald til að lita eftir fjárfestingunni. Þá aðferð er nú verið að taka upp í mörgum löndum til að hindra dýrtíð og ofþenslu.

Hv. 6. þm. Reykv. kvað ekkert í þessu frv. varðandi byggingarmál, sem ekki stæði þegar í gildandi l. Hann leitaði með logandi ljósi í frv. með sinni alkunnu nákvæmni, og endirinn varð sá, að hann fann þar alls ekkert um þessi mál, sem væri fram yfir það, sem er í l. Ég verð nú að segja, að mér finnst þetta undarleg fullyrðing, að hér sé ekkert nýtt að finna, sem gæti kippt byggingarmálunum í betra horf. Við höfum þráfaldlega heyrt það af munni þingmanna kommúnista hér og lesið það í blaði þeirra, að þeir vita, að hér skuli vera byggðar skrautlegar hallir og salir, samtímis því að ekkert sé byggt yfir almenning, sökum þess að vald til framkvæmdanna skorti. En þegar frv. kemur fram um að byggja, er því fundið allt til foráttu, og hv. 6. þm. Reykv. sér ekkert nýtt í því. Það er svo mikil fjarstæða, að ekki er orðum að því eyðandi, því að einmitt með höfuðreglunni um fjárfestinguna er hugsunin í byggingarmálunum sú að láta félagsbyggingar sitja í fyrirrúmi. Hér er lagt til, að svo verði, og sízt bjóst ég við því af kommúnistum, að þeir kvörtuðu undan því. (SigfS: Þetta er allt í 38. gr. l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum.) Það er fjarstæða, þar er aðeins heimild til að skammta byggingarefni, og það er allt annað. Hv. 6. Reykv. ætti að sjá, að það er annað en vald til að ákveða, að félagsbyggingar skuli sitja í fyrirrúmi. (SigfS: Þetta stendur allt í sömu gr. l., sem ég nefndi áðan.) Það stendur þar ekki. (SigfS: Á ég að lána hæstv. forsrh. lögin?) Ég hef aldrei þurft á aðstoð þessa hv. þm. að halda, þarf ekki á henni að halda og mun aldrei leita hennar.

Ég held ég geti látið þetta nægja um byggingarmálin, því að ekkert kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., sem betur skýrði þó þörfina. Hann las aðeins upp sömu tölur og ég, og er gott að hafa þær á pappírnum í tveimur ræðum, ekkert er við því að segja.

Hv. þm. A-Húnv. talaði um, hve varhugavert þetta frv. væri varðandi hið mikla vald hinnar opinberu stofnunar og höft á frelsi manna. Ég játa, að þar eru ný höft á athafnir manna, en sérstaklega varðandi það, hvernig nota megi fjármagnið í landinu. Ég álít þetta nauðsynlegt til að koma á betra skipulagi. Hv. þm. sagði, að 2. gr. mætti fremur skoða sem stefnuskrá stjórnmálaflokks en löggjafaratriði. Er hlutverk einhverrar stofnunar er ákveðið í l, þá má það vissulega skoðast sem stefnuskrá hennar, og það má gjarnan heita því nafni, og sú stefnuskrá er í þessu tilfelli til stórra endurbóta, ef skynsamlega og skelegglega er á haldið og framkvæmt. Og ég ætla, að vali manna í fjárhagsráð fylgi sú gifta, að þá skorti hvorki vilja, þekkingu né áræði til að koma á þeim endurbótum, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. Það má að vissu leyti taka undir það með hv.-þm. A-Húnv., að um þá stærstu Rauðku sé að ræða, sem hér hefur þekkzt, er búið er að lögfesta þetta frv., en Rauðka er alþýðlegt mál um opinbera skipulagsnefnd. Hér er á ferðinni n. með valdi til að skipuleggja það, sem aðrar stofnanir hafa haft með höndum, og meira en það. En ég vænti þess, að framkvæmdin fari svo úr höndum, að til mikils gagns verði.

Með þessu frv. er reynt að gera tilraun til þess, eins og segir í 2. gr., að samræma starfsemi almannavaldsins og framkvæmdir einstaklinga á fjárhagssviðinu. Það er ætlunin með því að afnema hóflaust kapphlaup, en koma í stað þess á samstarfi hins opinbera og einstaklinganna. Þetta er merkileg tilraun, og þetta er ekki nýtt fyrirbæri, sams konar aðgerðir hafa verið gerðar viða erlendis með ágætum árangri. Þegar Svíar t.d., sem komust þó að mestu hjá hörmungum stríðs og verðbólgu, óttast nú samt verðbólgu, þá segja þeir: Það er tvennt, sem þarf að gera fyrst og fremst: Í fyrsta lagi mjög ströng ákvæði um fjárfestingu, og í öðru lagi strangt verðlagseftirlit.

Þetta eru lausnarorð þessarar þjóðar, sem hefur þó komizt betur af en flestar aðrar, og þessi tvö höfuðatriði felast einmitt í þessu frv.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér langlengst um þetta mál, og skil ég það mjög vei, því að það er eitt af hans áhugamálum, að nýsköpunin verði framkvæmd og betri hættir upp teknir í þjóðarbúskapnum. En í því sambandi varð ég fyrir vonbrigðum, því að þegar rétt er fram hönd til að bæta úr því, sem hann hefur talið skorta, þá slær hann á þá hönd. Honum hefur með réttu þótt skorta skynsamlegt skipulag í fjárfestingunni. Hér er gerð tilraun til þess, það má fara svo, að hún heppnist ekki að öllu leyti, en tilraun á að gera.

Sami hv. þm. sagði, að í þetta frv. vantaði innihald, stefnu og vald. Það er nú eftir því, sem það er tekið. Innihaldið er vissulega merkilegt, að taka og setja í eina stofnun það vald og þau störf, sem illa hefur gefizt að hafa í tveimur, og auk þess það nýmæli að koma á heildarskipulagi hjá þessu nýja ráði og gefa því vald til að hafa áhrif á fjárfestinguna í landinu. því er gefið mikið vald og ákveðin stefna, og því skortir hér hvorki innihald, stefnu né vald. Ég veit, hvað hv. 2. þm. Reykv. telur mest á skorta, en það er vald yfir peningastofnunum landsins, og telur hann ákvæðin um það ekki fullnægjandi eða nægilega skýr. Við höfum banka, sem segja má. að allir séu þjóðareign og lúti valdi ríkisins. Viðskiptamálaráðherrar og fjármálaráðherrar landsins hafa oft lýst yfir því, að þeir hefðu haft þá reynslu af peningastofnunum landsins, að þær vildu fara vei og dyggilega að óskum ríkisstj. í framkvæmdaratriðum. Hæstv. fyrrv. fjmrh. gaf síðast yfirlýsingu um þetta, en ekki hefur ennþá reynt á það, af skiljanlegum ástæðum, hvort peningastofnanirnar vilji setja sig á móti vilja núverandi ríkisstj. Nei, ég held þessi gamla grýla um landsbankavaldið sé notuð meira til að hafa einhverja grýlu til að hræða börnin á, því að það eru ekki nema börn ein, sem eru hrædd þannig. Vissir flokkar þurfa að stilla upp tilteknum stéttum og stofnunum til að berjast gegn og mála þær sem svartast upp á vegginn með hornum, klaufum og hala, til þess að það sjáist, hve miklir menn það séu, sem þora að glíma við þær ægilegu óvættir. Ég býst við, að það sé rétt, að kommúnistar þurfi að mála grýlur til að sýna hraustleika sinn.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði varðandi 1. gr., að 15% þýddu stöðvun nýsköpunarinnar, en væru ákveðin 25% í sama skyni. þýddi það stórkostlegt áframhald hennar. Skilji nú hver sem getur. Fyrst og fremst er svo ákveðið í 1. gr., að 15% af andvirði alls útflutnings skuli leggja til hliðar á sérstökum reikningi erlendis til kaupa á framleiðslutækjum og annarrar nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Hér er aðeins verið að tiltaka fast lágmark, og enginn veit, hve há þessi upphæð verður, það fer allt eftir útflutningnum. Vera má, að þessi 15% geti orðið stórkostleg fjárupphæð, ef vel tekst til með útflutning og sölu afurða okkar. Það er því hrein vitleysa að fullyrða, að 15% þýði stöðvun nýsköpunarinnar, en 25% hljóti að þýða stórkostlega aukningu hennar, þar sem upphæðin er alveg óþekkt. Það fer alveg eftir ástæðum, hvort 15 % verða nægileg eða ekki.

Ég er einn af þeim mönnum, sem er bjartsýnn á nýsköpunina og vona, að hún geti haldið áfram á ókomnum árum og tel þar af leiðandi ekki ástæðu til að tala um neitt ákveðið tímabil.

Ég gat um það í fyrri ræðu minni, að það væri svo ótal margt, sem gera þyrfti á Íslandi. Það má segja, að eins og sjálfstæðisbaráttu vorri var hvorki lokið 1918 né 1944, heldur er hún ævarandi, þá er eins um nýsköpunina. Verkefnin eru nægileg í margar aldir hér á okkar landi, sem er svo tiltölulega litið numið ennþá. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði barizt gegn fyrri stjórn. Ég verð að játa það, að ég hafði vantrúa á henni, og sú vantrú var byggð á því, að fulltrúar frá íslenzkum kommúnistum áttu þar sæti. Ég verð að segja, að reynslan hefur sýnt, að ótti minn var ekki ástæðulaus.

Þá taldi 2. þm. Reykv., að frv. væri hættulegt nýsköpuninni vegna þess, hvað það væri óákveðið, og það gæti jafnvel orðið hemill á hana. Það getur hver haft þá skoðun á því, sem hann vill, en mín skoðun er sú, að efni frv. sýni vel, að núverandi ríkisstj. vill láta nýsköpunina verða langvarandi.

Hv. 2. þm. Reykv. endaði ræðu sína með því, að hann hefði mikla trú á hraða í nýsköpuninni nú, en til þess þyrfti stórhug og djörfung. Ég vil sízt draga úr stórhug og djörfung, en þó verður skynsemin að ráða í því sem öðru, því að ekki dugar að kollsigla sig. Ég vil á engan hátt draga úr bjartsýninni, en tel þó sjálfsagt að athuga ráð sitt og takmarka það hraðann, að við lendum ekki á skeri. Og til þess að fyrirbyggja það, er þetta frv. til orðið, um leið og það er byggt á þeirri reynslu, sem fengizt hefur, til þess að fá styrkari grundvöll undir nýsköpunina.