14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lét þau orð falla í gær, að hann undraðist þá fullyrðingu, að í þessu frv. væri ekkert nýtt varðandi húsnæðismálin. Mér finnst hitt undarlegri fullyrðing, að í frv. sé eitthvað nýtt varðandi þessi mál.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sýndi fram á í gær, að ákvæði í 7. lið 2. gr. frv. eru á engan hátt ný, þau ákvæði eru skýrari í l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Ég þarf heldur ekki að taka það fram, að niðurlag 4. gr. hefur engin nýmæli, þar er aðallega talað um, að fjárhagsráð skuli hafa samvinnu við lánsstofnanir varðandi nægjanleg lán til fyrirtækja.

Ég hef áður bent á, að nákvæmlega sama yfirlýsing var gefin af núverandi hæstv. forsrh. á þingi í fyrra varðandi verkamannabústaðina. Það átti að leita samvinnu við lánsstofnanirnar, og þá mundi vel fara. En nú er samt svo komið, að það vantar 25 milljónir, til þess að hægt sé að fullnægja þeim beiðnum, sem fyrir liggja. Þá kemur til athugunar hvort 5. gr. hafi nokkuð nýtt inni að halda, en hún fjallar um það eitt, að leyfi ráðsins þurfi til allra framkvæmda. Til samanburðar kemur svo 38. gr. nefndra l. Ég las hluta af henni í gær, en vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana alla, en þar segir svo:

„Á meðan skortur er á íbúðarhúsnæði í landinu og erfiðleikar eru á innflutningi nægilegs byggingarefnis að dómi ríkisstjórnar, skal viðskiptaráð, á meðan það starfar, ella sú stofnun, sem ríkisstj. ákveður. kveða á um, til hverra nota fari það byggingarefni, sem flutt er til landsins. Kveða skal á um það með reglugerð, er ráðherra setur, að fengnum tillögum þess aðila, er að framan getur, hverjar byggingar og framkvæmdir skuli ganga fyrir um byggingarefni. og skal þá einkum miðað við þörf íbúðarhúsnæðis og nauðsyn atvinnulífs og almenningsstofnana. Þá skal og í reglugerð mæla fyrir um önnur þau atriði, sem þörf er á, til að lög þessi nál tilgangi sínum.“

Hér er skýrt og ótvírætt lagt fyrir stjórnina að setja reglugerð, sem feli í sér skömmtun á byggingarefni. En skömmtun þýðir það eitt, að sá aðili, sem skömmtunina framkvæmir, ráði, hvað er byggt. Það er að segja, að þessi gr. felur í sér það sama og 5. gr. frv. En auðvitað er svo mest undir því komið, hvernig þetta er framkvæmt. Og hér er í rauninni um framkvæmdaratriði að ræða í sambandi við 38. gr. gildandi l. Og hverjar eru svo líkurnar fyrir því, að betur takist til um framkvæmd þeirra ákvæða, sem nú er verið að leggja til að leiða í l.? Ég skal svo ekki orðlengja um þetta atriði. Ég tel það sannað mál, að ekkert nýtt sé um byggingamál í frv. þessu, heldur eru hér aðeins ákvæði eldri l. Og það eru engar líkur til þess, að betur takist til um framkvæmd þessara ákvæða, en hinna sömu ákvæða eldri l.

Hæstv. fjmrh. lét orð falla hér á þingfundi í gær, að það væri daglegur viðburður, að menn kæmu og kölluðu eftir peningum úr ríkissjóði og að þeir, er kölluðu, gerðu það með fullum rétti, því að ýmsar fjárfrekar framkvæmdir hefðu verið ákveðnar með l., en þegar þeir koma, sem eiga að njóta l., og biðja um fé. Þá er oft svo ástatt, að ríkissjóður getur ekki orðið við þessum greiðslum. Hæstv. fjmrh. þótti þetta ekki gott og taldi, að of mikils stórhugar hefði gætt í lagasetningum, en minna hefði verið um forsjálni til að afla fjár til framkvæmdanna. Ég get verið hæstv. fjmrh. sammála um, að það er óviðunandi, að Alþ. gangi að því starfi að setja löggjafir, sem ákveða svo og svo miklar framkvæmdir og fjárútlát úr ríkissjóði, án þess að nokkur grein sé gerð fyrir því, hvernig á að afla fjár í ríkissjóðinn í staðinn, svo að í honum þurfi maður ekki alltaf að heyra eintómt tómahljóð. Það er þetta, sem ég vil vara við í sambandi við þessa lagasetningu. Ég vil undirstrika það rækilega, að þetta frv. til l. er frómt frá sagt fallegar óskir um ýmsar góðar og nytsamar framkvæmdir, en í því örlar hvergi á því að tryggja þessar framkvæmdir. Og þótt ég hafi reynt að sýna fram á, hvernig hér eru tekin upp eldri ákvæði húsnæðisl., þá hygg ég, að ef rækilega væri farið í gegnum frv., megi finna nákvæmlega hvert einasta atriði þessa frv. í eldri l. Þessum ákvæðum hefur verið safnað saman og raðað upp, en ekki á nokkurn hátt reynt að koma í veg fyrir, að sú saga endurtaki sig, sem hæstv. fjmrh. rakti, sú saga, að framkvæmdum sé heitið í l. án þess að setja tryggingu fyrir framkvæmd þeirra.

Nú hygg ég í sambandi við ræðu hæstv. menntmrh., að þá hafi komið fram enn ljósari rök fyrir því, hversu hættulegt og óskynsamlegt þetta er. Ég vil fyrst segja það, að af öllum, sem staðið hafa að þessari frv.-smíð, þá skil ég hæstv. menntmrh. bezt. Mér finnst hann í þessari frv.smiði í svo miklu samræmi við sögu sína og fortíð. Það er kunn staðreynd, að í stjórnartíð hæstv. ráðh. hefur einkum borið á ýmiss konar haftastefnu, sem ríkti hér um alllangt árabil fyrir stríð. Og vissulega er það svo, að hæstv. ráðh. hafði víss rök fram að bera fyrir sinni haftastefnu. Hann sagði sem svo, það er augljóst, að halli er á okkar gjaldeyrisviðskiptum, gjaldeyrisöflun okkar nægir ekki fyrir árlegum útgjöldum. Og þá sá ráðh. aðeins eitt ráð ég aldrei nema eitt ráð: að skera niður útgjöldin. Þetta var hans haftastefna. Hins vegar brast hæstv. ráðh. viðsýni og hugkvæmni til þess að fara inn á þær leiðir að efla og auka útflutningsverzlunina, sumpart með aukinni framleiðslu og fyrst og fremst með því að fá vörur okkar betur unnar í landinu, betur tilreiddar fyrir markaðinn. Hann sá aldrei þá leið að auka útflutninginn, heldur kom aðeins á fleiri og fleiri höftum. Í sannleika sagt er frv. greinilega markað þessari stefnu. Það er greinilega markað þessari neikvæðu stefnu. Þetta kemur skýrt fram í upphafi 2. gr. frv. Þar er tekið fram, að meðan hinar miklu framkvæmdir eru í íslenzku atvinnulífi, skuli fjárhagsráð gera ýmsar ráðstafanir. Og þessar ráðstafanir eru allar til hindrunar. Hæstv. menntmrh. sagði, að þessar hindranir, þessi neikvæðu ákvæði gætu í framkvæmd orðið jákvæð, og leitaðist við að færa rök fyrir því. Hann sagði, að þegar skornar væru niður ónauðsynlegar og óþarfar byggingarframkvæmdir, þá mundi það leiða til þess, að hægt verði að koma upp meira af verkamanna- og samvinnubústöðum. Það er nú svo. En á hverju hefur strandað að byggja verkamanna- og samvinnubústaði á s.l. ári? Það hefur eingöngu strandað á fjárskorti. Og hér er á engan hátt bætt úr því. Það þýðir ekkert að gera ráðstafanir, sem í sjálfu sér eru sjálfsagðar, t.d. um bann á byggingu ýmiss konar óþarfa bygginga, ef ekki er jafnframt séð fyrir fjármagni til nytsamra byggingarframkvæmda, að öðrum kosti er verið að draga úr framkvæmdum þessum. Það örlar hvergi á því í þessu frv., að reynt sé að tryggja nauðsynlegt fjármagn. Hæstv. menntmrh. benti á þá staðreynd, hversu örðugt væri um fjáröflun innanlands. Hann sagði í því sambandi, að ríkisskuldabréf væru óseljanleg. Hvers vegna í ósköpunum er ekki snúið sér að því í sambandi við þessa lagasetningu að leysa þennan vanda? Fyrst þessari stofnun er fengið vald til að skera niður hið ónauðsynlega, því er henni þá ekki fengið það vald, sem þarf til að byggja upp það nauðsynlega? Ef við athugum hvernig stendur á þessum erfiðleikum á að fá fé til nauðsynlegra framkvæmda, þá er enginn efi á því, að orsakarinnar er að leita í fávíslegri bankapólitík. Sú bankapólitík liggur í því, að bankarnir hafa tekið upp þá stefnu að lána ekki til byggingarframkvæmda. Þeir hafa jafnframt tekið upp þá stefnu að lána út fé með miklum vöxtum, en borga litla sem enga vexti af því fé, sem lagt er inn í sparisjóði. Afleiðingin hefur orðið sú, að féð hefur flúið í hendur einstaklinga og nokkurra braskara, sem svo lána það til byggingaframkvæmda með okurkjörum. Það er ekki vafi á því, að hér er um að ræða meinsemd. sem þarf að bæta úr. ef við eigum yfirleitt að bæta úr húsnæðisvandræðunum og ef við eigum yfirleitt að fá þær framkvæmdir, sem talað er um með almennum, fögrum orðum í þessu frv. Hæstv. menntmrh. talaði um, að verið væri að loka leiðum fjárins inn á hinar óheppilegu brautir, er það streymdi nú. Þetta er að vísu rétt, en það kemur ekki að gagni, nema því sé jafnframt tryggilega beint inn á nauðsynlegar brautir. Það er ekki nokkur tilraun gerð í þessu frv. til að beina því þangað.

Ég vil svo leggja áherzlu á það, sem hæstv. fjmrh., dómsmrh., forsrh. og menntmrh. sögðu allir í ræðum sínum: Þetta er undir framkvæmdinni komið og aftur undir framkvæmdinni. Þessi l. eru fyrst og fremst háð framkvæmdinni. Ég vil nú beina því alvarlega til hv. þm., hvort þeim finnist það nokkur löggjafarstarfsemi að vera að setja löggjöf. sem í einu og öllu sé háð framkvæmdinni. Væri þá ekki einfaldara, að Alþ. aðeins samþ. þál., þar sem sagt er, að Alþ. óski þess. að hæstv. ríkisstj. geri sitt bezta til þess að ráða fram úr öllum vandamálum þjóðfélagsins? Mér fyndist það betra. Eftir að hafa heyrt yfirlýsingar þessara hæstv. ráðh., þá er það staðreynd, að þessi l. fela ekkert í sér nema frómar óskir. Hvers vegna er þá verið að setja l.? Mér er það óljóst. Hæstv. menntmrh. tæpti á því, að það mætti setja ýmis önnur lagaákvæði, sem tryggðu ákvæði þessara l. Ég vildi lýsa eftir fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. í því efni. Um það hefur ekkert heyrzt, hvað snertir mál það, sem ég hef aðallega rætt um, byggingarmálin. Ég hef lagt fram tvö frv., sem frá mínu sjónarmiði ættu að miða að því að tryggja framkvæmdir í þessu efni. Þessi frv. hafa ekki fengizt frá n. Ég skal viðurkenna það, að væri því lýst yfir. að ríkisstj. legði fram slík frv. jafnhliða þessu. þá væri vel farið. Og þannig mætti vera um fleiri atriði. En hvar eru rökin fyrir því að láta þetta ekki koma fram í þessari löggjöf, sem markar stefnu ríkisstj.?

Ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég ber verulegan kvíðboga fyrir því, hvaða áhrif þetta frv., ef að l. verður, muni hafa á okkar atvinnulíf. Ég held, að áhrifin verði neikvæð og slæm. Ég held, að framkvæmdin, sem allt er undir komið, að því er hæstv. ráðh. lýsa yfir, verði í þeirra höndum slík. að alls staðar verði samdráttur í atvinnulífinu, en hvergi verði stefnt að örvun eða uppbyggingu. Ég held, að það reki fyrst og fremst að því, að þetta sé bannað og hitt sé bannað og einkaframtakið verði að verulegu leyti sett úr leik, án þess að annað komi í staðinn: framtak þess opinbera. Þess er heldur ekki að vænta að framtak hins opinbera komi í staðinn, þegar athuguð er afstaða þeirra flokka. sem að ríkisstj. standa til þessara mála. Það kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að Sjálfstfl. er í andstöðu við þetta, en það, sem fyrir honum vakir, er að draga úr framkvæmdum um stundarsakir til þess að minnka verðþenslu. Fyrir þeim flokki vakir engin allsherjar skipulagning atvinnulífsins, enginn þjóðarbúskapur samkv. áætlun. Það er líka ljóst, að annar flokkurinn af þeim, sem einnig styðja hæstv. ríkisstj., Framsfl., hefur mjög takmarkaðan áhuga fyrir þjóðarbúskap samkv. áætlun. En sá flokkur er þekktastur fyrir að vilja reka haftapólitík. Mér sýnist hann stefna að því að vilja beita hinu neikvæða í haftapólitíkinni án þess að taka tillit til þess jákvæða. sem henni getur fylgt, því mun reynslan verða sú, að við munum reyna alla þá ókosti. sem fylgja skipulagningu, en enga af þeim kostum. Og það er illa farið, því að það gæti orðið til þess að fæla menn frá skipulögðum framkvæmdum, sem þó vissulega er það, sem koma skal. En það er ekki óeðlilegt, að svona fari, þar sem andstæðingar hvers konar þjóðarbúskapar samkv. áætlun eru hér að verki og sá flokkur, sem samkv. stefnu sinni ætti að hafa áhuga fyrir slíkum þjóðarbúskap, er eins konar fangi þessara flokka. Ég held því, að þetta sé ill stefna. bæði hvað snertir rekstur þjóðarbúskaparins á næstu árum og eins hvað snertir það að gefa þjóðinni rétta hugmynd um, hvað áætlunarbúskapur er og einnig líka hvað þjóðarbú er, sem byggt er á einkaframtakinu einu saman.