14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram miklar umr. Hafa fjórir hæstv. ráðh. gefið skýringu á afstöðu sinni til þessa frv. Mér virðist, að þær umr., sem hér hafa farið fram, séu mjög heppilegar og nauðsynlegar fyrir okkur til þess að glöggva skilning okkar á því, hvert stefnt sé með þessu frv. Það er ekki oft, sem rætt er um þess! mál eins og nú hefur verið gert.

Hæstv. dómsmrh. ræddi nokkuð um okkar þjóðfélag, hvernig því sé fyrir komið og hvernig við getum tryggt bezt öryggi þeirra afla, sem fyrir því standa. Ég er yfirleitt mjög sammála þeirri skilgreiningu, sem hæstv. ráðh. kom með. Ég vildi bæta því við, að það, sem hlýtur að vera aðalspursmálið fyrir okkur, þegar við ræðum annars vegar um þjóðfélag, þar sem einkaframtakið er aðalkrafturinn, og hins vegar um þjóðfélag, þar sem opinber rekstur er aðalatriðið, þá verðum við að gera okkur það ljóst, því að það er aðalatriðið í málinu, hvað er þá hreyfiaflið í hvoru þessara þjóðfélagsskipulaga út af fyrir sig. Hvað er það, sem þjóðin verður að treysta á til þess að knýja fram framfarir og koma í veg fyrir stöðvun og afturför? Í þjóðfélagi, þar sem einkaframtakið er aðalatriðið, er það einnig hreyfiaflið. Það er aflið, sem knýr þjóðfélagsvélina. Þetta fyrirkomulag hefur sína kosti og sína galla. Af því leiðir margs konar glundroða og skipulagsleysi, þar sem það leggur aðaláherzluna á, að hver einstaklingur fái notið sín óhindrað, en af því leiðir ýmiss konar árekstra. Þjóðfélag sósíalismans gengur út frá því, að hið opinbera sé sjálft hreyfiaflið, sjálft framtakið komi frá ríkisstj., bönkum og slíkum stofnunum. Í slíku þjóðfélagi verður þjóðin að treysta því, og það vonast því ekki eftir, að framtakið komi annars staðar frá. Við verðum því að gera okkur ljóst, að við getum ekki komizt af án þess að treysta öðru hvoru þessara afla. Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að með stjórnarsamningi, sem fyrrv. ríkisstj. gerði með sér, féllst bæði Sósfl. og Alþfl. á, að einstaklingsframtakið skyldi fá að njóta sin. Og ég held það hafi fengið að njóta sin á þessum árum betur en það hefur fengið um langan tíma. Þjóðin verður að geta treyst því, að annað hvort þessara afla sé virkt. Við höfum hér ekki sósíalistískt þjóðfélag, þótt hér sé opinber rekstur í stórum stíl af kapítalisku þjóðskipulagi að vera. Þess vegna verðum við að gæta þess, þegar við erum með skipulagningu, að grundvöllur þessa þjóðfélags er ekki kominn það langt í þjóðfélagsþróuninni, að við getum treyst á ríkið sem framtaksaðila. Ríkið sem hreyfiafl er ekki byrjað að njóta sín, en það, sem nú er drepið niður, er einstaklingsframtakið. Skilyrðið til þess, að þjóðin geti treyst framtaki þess opinbera, er, að hún sé innstillt á að krefjast þess af því opinbera, að það reki þessa hluti og það verði sósíalistískt þjóðfélag. En slíkt er ekki fyrir hendi. Þess vegna þurfum við í dag að athuga ástandið. Þess vegna er það, sem ég fyrir mitt leyti hefði viljað vara við því, að við lentum hér út í því neikvæða eingöngu, að því er skipulagningu snertir. En það gerum við, ef við lendum í því að hefta einstaklingsframtakið án þess að tryggja, að hið opinbera taki að sér þessa hluti. Við verðum að tryggja, að hið opinbera framkvæmi þessa hluti, og við verðum að gefa því nægilegt vald til þess, en að öðrum kosti gefa einstaklingsframtakinu nægilegt rúm til að njóta sín og annast þessa hluti. Ég held því, að það, sem hæstv. dómsmrh. kom inn á, hafi einmitt skýrt þetta mál. Við verðum að gera það upp við okkur, hvoru þessara afla við ætlum að treysta. Við getum ekki treyst á einstaklingsframtakið, ef við setjum svo mikil höft á það, að þau verði hemill á því. Þetta er hlutur, sem vert er að athuga. Og mér virtist jafnvel á ræðu hæstv. dómsmrh., að hann væri hræddur um, að svona kynni að fara. Hann óttast, að úr einstaklingsframtakinu sé dregið og því verði ekki eins miklar framkvæmdir og það njóti ekki eins mikils stuðnings og undanfarið, því að t.d. l. um stofnlánasjóð voru stuðningur við einstaklingsframtakið, þótt þau séu jafnframt stuðningur við framkvæmdir þess opinbera. Þetta erum við einmitt sammála um. Það á að afstýra áhættunni af að hafa slíka eftirspurn eftir vinnuafli og koma á atvinnuleysi. Það er tilgangurinn. En það verð ég að segja, að af tvennu illu kýs ég heldur, að verkamenn byggi lúxusvillur hér í Reykjavík en þeir gangi atvinnulausir.

Hæstv. menntmrh. kom inn á. að það þyrfti að minnka eyðsluna. Það er rétt hjá honum. Og það er atriði, sem hvað mest var rætt um á milli flokka þeirra, sem stóðu að fyrrv. stjórn. Og jafnvel var stungið upp á að taka upp skömmtun. En þegar að því kom hjá hæstv. menntmrh., að gera skyldi einhverjar raunhæfar ráðstafanir til þess að draga úr eyðslu, þá virðist spursmálið snúast mest um minnkandi framkvæmdir, og mun ég koma að því síðar. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri hægt að veita byggingu verkamannabústaða aðstoð nema að neita að leyfa byggingu villna. Þetta er rétt, en þó verður að gæta þess, að það verður jafnframt að skapa viðkomandi aðilum möguleika á að koma upp verkamannabústöðum. En hvar er valdið, sem getur hagnýtt þessa möguleika? Það er valdið, sem vantar. Það er rétt, að það er hægt að beita þeim rétti. en það vantar valdið til þess að hjálpa fyrirtækjunum.

Menntmrh. minntist á gjaldeyrisástandið. Honum þótti lítil fyrirhyggjan. En af hálfu nýbyggingarráðs var fyrir fram á þetta minnt sumarið 1946 og óskað eftir:

1) að ítrekað væri. að 15% yrðu lögð inn,

2) að 15 millj. kr. yrðu lagðar inn til ráðstöfunar fyrir nýbyggingarráð.

Af hálfu nýbyggingarráðs voru gerðar till. um að spara, að leggja meira af gjaldeyrinum inn á nýbyggingarreikning til þess að knýja fram. að gerðar yrðu raunhæfar ráðstafanir viðvíkjandi innflutningnum. Nýbyggingarráð fór fram á það í nóv. 1945, að það fengi umráð yfir byggingarefni. til þess að það gæti séð um, að það væri notað til þess, sem þörfin var mest fyrir, þannig að það komu fram aðvaranir um það í tæka tíð. Þetta var séð fyrir. En það eru önnur öfl þarna að verki, sem ég veit ekki. hvort hæstv. menntmrh. tekst betur að ráða við en síðustu stjórn tókst. Á meðan það er gróðavegur að flytja inn til þess að selja til landsfólksins, skapast af því þrýstingur, og þessi þrýstingur er orðinn það ríkur, að hann er orðinn áhrifaríkari á stjórnvöld landsins en hin viðleitnin, að reyna að spara sem mest til þess að byggja upp fyrir þjóðina. Á meðan verzlun á Íslandi er gróðavegur, rekin með tilliti til þess, að menn græði sem mest á henni, er það eðlilegt, að menn beygi sig fyrir þeim hagsmunum sinnar stéttar, að hún fái sem mestan innflutning til umráða. Ef á að tryggja gegn þessu, þarf annaðhvort að setja áhrifarík höft eða breyta svo til, að verzlun hætti að vera gróðavegur, að þjóðfélagið hafi sjálft verzlunina með höndum, að ekki verði lengur slíkur þrýstingur fyrir hendi, heldur fái þjóðin það, sem hún þarf af nauðsynjavörum, að annazt sé um innkaup á því, sem hún þarf, án þess að hagsmunir einstaklinga eða stétta komi þar til að skapa þennan eðlilega, en sterka þrýsting. Þessi þrýstingur kemur ekki einasta til greina hvað snertir gjaldeyrinn, heldur leggst hann líka á vinnuaflið. Þrýstingurinn á vinnuaflið er gífurlegur hvað þetta snertir. Ég skal lofa ykkur að heyra tölur úr skýrslu nýbyggingarráðs um það, hvernig vinnuaflið skiptist: sjávarútvegur og siglingar 7,3%, verzlun og því um líkt 16,4%.

Á meðan fjármagnið ber beztan arð í verzluninni, streymir fólkið þangað, og þessu verður ekki breytt. nema fjármagnið borgi sig ekki í verzluninni. Ég veit ekki, hvort heppilegra yrði það fyrirkomulag til þess að takmarka við verzlunarstéttina, að það yrði svo hverfandi litið, sem hún fengi — það mundi yfirleitt þýða hærri álagningu — eða knýja hana út í að færa niður verðið. Ef við framkvæmum þetta, setjum við verzlunarstéttina á horrimina, setjum hana í eins konar sveiti, og þá held ég, að hreinlegra væri að taka beinlínis stóra hluta af verzluninni undir ríkið. En þetta er vandamál, sem hvaða stjórn, sem ætlar að skipuleggja fjármál Íslands. verður í vandræðum með, og það fer eftir hennar „innstillingu“, hvaða leið hún vill fara, og það fylgir um leið, að vinnuaflið streymir til þeirra atvinnugreina, sem fá gjaldeyrinn. en fjármagnið til verzlunarinnar minnkar. Þetta er mál, sem þarf að athuga, og ég sé ekki, hvernig þessi stjórn ætlar að ráða fram úr því. Þetta er mál, sem hefur verið undirstrikað, en ekkert fengizt gert í, og jafnvel svo stórvirk stjórn sem sú, er síðast sat, gat litlu áorkað fyrir þeim þrýstingi. sem ég hef nú verið að tala um.

Menntmrh. kom inn á fjáraflanir til lána til ýmissa framkvæmda. Þetta er erfitt mál að eiga við, og af fyrrv. stjórn voru gerð mikil átök, ekki einasta í sambandi við rekstrarféð, heldur einnig til fjárfestingar. Hæstv. menntmrh. vildi láta líta svo út, að óhugsandi væri að fyrirskipa bönkunum að gera þetta. En hvernig ætlar hann að leysa það? Ég hef alltaf litið svo á, að það yrði að skipa bönkunum að gera þetta. Hæstv. menntmrh. sagði, að bankarnir yrðu að starfa í samráði við fjárhagsráð. — en hvernig ætlar hann að tryggja það? Það er staðreynd, að síðan árið 1944 hefur verið allt önnur stefna í bönkunum en hjá stjórninni. Það er ekkert samræmi þar á milli. Stefna þeirra var að kaupa alls ekki togara. Landsbankinn var á móti því að setja stofnlánadeildarlögin og sérstaklega á móti því. að það væri skylda seðlabankans að lána féð. En hvað hefði orðið um þetta, ef sú skylda hefði ekki verið sett inn? Það er staðreynd, að það, sem dýrmætast er, er sú skylda seðladeildar bankans að lána nauðsynlega mikið til annarra deilda í bankanum til þess að geta tryggt þessar framkvæmdir. Þess vegna er það rangt hjá hæstv. menntmrh., að það þurfi ekkert að gera til þess að tryggja þetta samræmi. það verður að tryggja með því, að fjárhagsráð geti ráðið bankapólitíkinni, en ekki að pólitík bankanna komi til með að ráða fjárhagsráði.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) minntist á þetta frv., kallaði það róttækt og sagði, að ég mundi ekkí vera á móti því. Það er allt hægt að kalla róttækt. Skipulag getur verið einkenni á einræði, eins og við fengum að sjá í hinu nazistíska Þýzkalandi. Það er hægt að skipuleggja auðvaldsrekstur svo, að hann nál auðveldlegar árangri í þjóðfélaginu. Skipulagið segir ekki neitt. Það er tilgangurinn og stefnan, sem segir allt. Hv. þm. A-Húnv. minntist á fyrstu Rauðku, og mér datt í hug saga um orðaskipti. sem fóru milli tveggja þm., þegar Rauðka var samþ. Þeir voru að koma sér saman um, hvort það ætti að samþykkja hana, en ákváðu, að það skyldi skera undan henni öll folöldin. Þau voru öll skorin. Sú góða Rauðka átti upphafið að mörgum l., en fæst af þeim komust í framkvæmd. Nokkur l. fengu að sjá dagsins ljós, en þau, sem verulega hefðu breytt þjóðfélaginu, fengu ekki að koma fram, og vona ég, að ekki eigi eftir að fara ein., um þessa nýjustu Rauðku, sem verið er að koma upp nú.

Hæstv. forsrh. minntist á það, að ég hefði engin rök fært fram fyrir mínu máli. Það held ég nú samt. Þetta er eitt af þeim fáu málum, sem ég vegna míns starfa get komið með rök í, og ég held, að það sé heppilegt, þegar verið er að ræða þessi mál, að það sé gert með rökfestu og raunhæfni, vegna þess að hér er um grundvallaratriði að ræða. Hæstv. forsrh. minntist á það, að það hefði ekki verið komizt hærra með löggjöfinni um nýbyggingarráð á sínum tíma. Meira að segja var með þeirri löggjöf stefnt hærra, vegna þess að það var gengið út frá að leggja til 300 þús. kr., en hér er stofnað til að leggja til 15% af verðmæti útflutningsins og þar með skorinn þrengri stakkur allri nýsköpun. Enn fremur var ákveðið svo í l. og reglugerð um nýbyggingarráð, að stórfé hyrfi — ekki einasta til uppbyggingar — heldur og til endurnýjunar. Enn fremur var í þeim stjórnarsamningi. sem þá var gerður. ákveðið, hvernig fénu skyldi skipt milli atvinnugreinanna, og enn fremur gengið út frá sérstökum aðferðum til fjáröflunar, eins og skyldulánum og fleira.

Forsrh. segir, að stjórnin hafi rétt fram höndina með þessu frv. og ég slegið á hana. Mér finnst þvert á móti, að gagnrýni, sem hér hefur komið fram. hafi miðað til að bæta úr göllum þessa frv. og að með þeirri gagnrýni hafi verið reynt að fylgja fram þeirri stefnu, sem nýsköpuninni er nauðsynleg, og reynt að skapa það vald, sem gæti látið þetta verða meira en orðin tóm, og þykir mér miður, ef stjórnin ætlar að taka slíkri gagnrýni svo að segja, að slegið sé á útrétta hönd. Með slíkri gagnrýni er verið að rétta fram höndina, og það er slegið á hana. þegar henni er tekið á þennan hátt.

Hæstv. forsrh. kom inn á það, sem ég sagði um bankana, og sagði. að ég væri með dylgjur um þá. Ja. það var nú einu sinni svo, að Alþfl. áleit bankana ekki góða viðureignar. Ég held, að það væri rétt að spyrja útgerðarmennina, hvernig þeim finnist að eiga við landsbankann. Þeim finnst það sannarlega ekki þægilegt, og það er ekki undarlegt. Og til nýbyggingarráðs er sífelldur straumur til þess að biðja menn þar, starfsmenn og aðra, að veita sér lið með því að koma með sér í landsbankann. og það er ekki bara þangað, heldur líka til núverandi og fyrrv. stjórnar, sem menn koma til þess að biðja um að veita sér lið, og meira að segja þó að stjórnin hafi lagzt á eitt með útgerðarmönnum, þá hefur það ekki dugað. Það er ekki rétt að loka augunum fyrir þessari staðreynd, og svo mikið er vist, að útgerðarmönnunum finnst illa að sér búið. Það, sem ég hef talið rétt og sérstaklega var til umræðu við undirbúninginn að stjórnarsamvinnunni, var að koma upp seðlabanka. sem ætti um leið að hafa svipað vald og þetta fjárhagsráð nú til þess að sameina í eitt ábyrgðina á því, sem á að gera, og allan tímann, sem á samningunum stóð, var af minni hálfu lögð höfuðáherzla á þetta, því að þetta er höfuðatriði, til þess að skipulagningin yrði til gagns, og kemur mér því undarlega fyrir sjónir, að Alþfl. skuli standa á móti þessu, þar sem annar af núverandi ráðherrum flokksins hefur á sínum tíma flutt frv. um seðlabanka til þess að tryggja heildarstjórn á slíkum banka.

Hæstv. menntmrh. kom inn á spursmál, sem var nokkuð líkt, og var hann á móti því, að hægt væri að skipa þeim að gera þessa hluti. Hann var að ræða um, að það kynni að skapa verðbólgu. Nú vil ég taka það fram. að einmitt við þetta yrði langsamlega minnsta hættan á verðbólgu. ef bönkunum yrði skipað að gera þessa hluti, sem ég álít, að sé nauðsynlegt. Það gefur að skilja, að þegar bönkunum er leyft að skorast undan að gera þetta, þá geti það orsakað verðbólgu. en um leið er það eina ráðið að hafa það í sínum höndum, og þar af leiðir það, að til þess að slík fjárfesting geti skeð. verður að gefa þessu fjárfestingarráði um leið vald til þess að fyrirskipa bönkunum. hvað gera skuli.

Þá kem ég að því, sem þeir ræddu um, forsrh., fjmrh. og menntmrh. Það eru 15% og 25%. Ég hef haldið fast við það, að grundvallarmunur væri á því, hvort um 15% eða 25% væri að ræða. Hæstv. fjmrh. heldur því fram, að ég hafi komizt svo að orði, að 15% þýddu stöðvun, en 25% atvinnubyltingu. Það er þá meðaltalið af útflutningi fleiri ára, sem kemur til með að gera útslagíð. Við leggjum þetta á sérstakan reikning og notum það ef til vill ekki öll árin. Við ætlum að leggja í skipakaup og notum til þess það, sem við höfum lagt upp á 5–10 árum. Höfuðatriðið verður þá, hvaða magn það er, sem þjóðin sparar af sínum útflutningi, og 15% þýðir það, að við höfum nokkurn veginn jafnmikið og við höfðum á fyrstu stríðsárunum eða 1939. Ég skal lesa úr 5 ára áætlun nýbyggingarráðs, þar sem rætt er um þetta. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Samkvæmt l., sem samþ. voru á haustþinginu 1945, skal leggja sem svarar 15% af innflutningi hvers árs á nýbyggingarreikning. Ráðið er þeirrar skoðunar, að þessi 15% nægi aðeins til árlegs innflutnings á þeim tækjum, öðrum en skipum, er greiða skal af nýbyggingarreikningi, enda samsvara þau hlutfallstölu framleiðslutækja af innflutningi áranna fram til 1939. Það er því ljóst, að ef gjaldeyrir á að vera fyrir hendi til þess að halda áfram hinni fyrirhuguðu aukningu flotans, þá verður að auka þessa hundraðstölu mjög verulega. Ráðið er þeirrar skoðunar, að leggja þyrfti á nýbyggingarreikning 10% af andvirði útflutnings hvers árs til viðbótar, eða alls 25%.“

Samkvæmt þessu er gengið út frá því, að það ætti að halda áfram þeirri stefnu að bæta við okkur atvinnutækjum. 15% eru miðuð við það, sem var fyrir stríð og á fyrstu stríðsárunum, og miðuð við öflun atvinnutækja eftir þeim útflutningi, sem síðar mundi verða. — [Fundarhlé.]

Ég var þar kominn ræðu minni, hvaða þýðingu það hefði. hvort ákveðin væru 15% eða 25% í l. gr., og ég hafði lesið upp úr áætlun nýbyggingarráðs, þar sem sýnt er fram á, að sé reiknað með 15% og 300 milljón kr. meðalútflutningi á næstu árum. þá mundi það þýða samkv. reynslu síðasta áratugs, að ekkert yrði eftir fyrir skipakaupum. Hér hefur verið tekið fram í umr., að ekki sé hægt að segja um það fyrir fram, hve háa upphæð þessi 15% gera, og það er vitanlega rétt. En í áætlun verður alltaf að ganga út frá meðaltali. Það er að vísu erfiðara að gera áætlun hér en í iðnaðarframleiðslulöndum, þar sem hráefni okkar er svo ótryggt í sjónum, en það verður að taka upp meðaltal eða líkindareglu, þegar um áætlun er að ræða, og þess vegna hafa þessar mótbárur ekkert að segja. Í áætlun verður alltaf að reikna með meðaltali, og þjóðin verður að gera upp við sig, hve hart hún vill leggja að sér og hve hratt á að byggja upp. Í 5 ára áætlun nýbyggingarráðs er gengið út frá, að bætt verði við 25 togurum. og nokkrum fiskibátum. En samkvæmt reynslu undanfarinna ára er þessi áætlun ekki framkvæmanleg, nema meira sé lagt til hliðar en 15%, 25% nægja. Þess vegna er nauðsynlegt að leggja til grundvallar ekki minna en 25% og miða hraða uppbyggingarinnar og sparnað þjóðarinnar víð það. Og vafalaust þarf að setja inn ákvæði um það, að þennan hundraðshluta skuli leggja inn á reikning mánaðarlega eftir á, því að hörmuleg reynsla hefur fengizt af því að láta þetta dragast og féð liggja í óskiptum sjóði. Sú reynsla ætti að kenna mönnum að gera þetta upp mánaðarlega samkvæmt útflutningsskýrslum bankanna fyrir hvern mánuð.

Og þá kem ég að því, sem hæstv. forsrh. deildi við mig um, og vissulega einnig við hæstv. dómsmrh., en það var um það, hvort taka skyldi upp samkv. þessu frv. heildarskipulagningu íslenzks þjóðarbúskapar til frambúðar eða ekki. Ég hélt því fram, sbr. 2. gr., að skipulagningin gilti aðeins „meðan hinar miklu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi standa yfir.“ Hæstv. forsrh. taldi þann skilning minn misskilning, sagði, að nýsköpunin mundi halda áfram, henni yrði aldrei lokið o.s.frv., lýsti því með öðrum orðum yfir, að hann ætlaðist til, að áætlunarbúskapur yrði lagður til grundvallar hér á landi héðan í frá. Ef þetta er hinn rétti skilningur, legg ég til, að inn í frv. verði sett skýrt ákvæði um þetta. En nú hefur það komið fram hjá hæstv. dómsmrh., að tilgangurinn er ekki þessi með 2. gr., eða Sjálfstfl. ætlast ekki til, að neitt ákvæði verði um þetta fyrir framtíðina eða lengur en núverandi ástand helzt í atvinnulífinu. Hann vill ekki neitt ákvæði um það, hvort hér skuli vera áætlunarbúskapur í framtíðinni, Ég telur það ekki felast í 2. gr. Hæstv. dómsmrh. hefur því skilið þessa gr. eins og ég og eins og menn hljóta að skilja hana eins og hún er. Skilningur hæstv. forsrh. á því engan grundvöll í orðalagi gr., eins og hún er nú, en orðalaginu má breyta, svo að hans skilningur verði ekki vefengdur, og það vil ég láta gera. En það er ekki rétt af honum að gagnrýna mig fyrir að skilja gr. rétt, eins og hún er nú. hæstv. dómsmrh. staðfestir minn skilning. Þess vegna ætti hæstv. forsrh. að breyta nú til og setja það skýrt inn í gr., að hér eigi að taka upp varanlegan áætlunarbúskap, það þarf ákveðið að taka fram. það er ekki nóg að óska eftir því.

En einmitt í þessum afgerandi frv.kafla um hlutverk fjárhagsráðs er um beina afturför að ræða frá nýbyggingarráðslögunum, því að þegar talað er í þessu frv. um áætlun, þá er ekki átt við framtíðina, eins og hæstv. dómsmrh. tók réttilega fram og ég hef bent rækilega á. Í l. um nýbyggingarráð er hins vegar komizt svo að orði, að hlutverk ráðsins sé að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu fimm ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Í þessu orðalagi liggur beinlínis sá skilningur, að semja eigi fleiri en eina áætlun, að áætlunarbúskapnum verði haldið áfram lengur en í fimm ár eða um ófyrirsjáanlega framtíð, þar sem tekið er svo til orða, að áætlunina skuli fyrst um sinn miða við næstu fimm ár. Þetta frv. hér er því bein afturför frá l. um nýbyggingarráð, áætlun á ekki að gera nema fyrir eitt ár í senn (sbr. 3. gr.). og allt er miðað við takmarkanir og neikvæða hluti. Mér skilst þó, að Alþfl. hafi hingað til viljað telja sig vera inni á braut áætlunarbúskaparins. Fyrir 13 árum lagði hann t.d. sína 4 ára áætlun fyrir þjóðina. En nú er honum ekki lítið gengið, hann hopar frá áætlunarhugmyndum nýbyggingarráðslaganna niður í eins árs áætlun. En ákvæðið í þeim l. um heildaráætlun langt fram í framtíðina gerir út um það, hvort hér á að taka upp áætlunarbúskap eða ekki. En með þessu frv. hér, um fjárhagsráð, er aðeins verið að búa til nokkurs konar aukafjárlög fyrir þjóðina með þeirri afgreiðslu, sem maður veit, að verður á þeim. Það er því ótvírætt, ef miða á við heildaráætlun íslenzks þjóðarbúskapar í framtíðinni. að breyta þarf þessu frv. hér, það er spor aftur á bak, eins og það er nú.

Hæstv. forsrh. minntist á, að síðasta ríkisstj. hefði gert stóra hluti þrátt fyrir hlutdeild kommúnista í henni. Ég held, að þessi ummæli hans verði gott grín fyrir framtíðina. Ég fyrir mitt leyti þori vel að leggja hlut okkar sósíalista í þeirri ríkisstj. undir dóm þjóðarinnar og sögunnar og láta þann dóm gera út um það.

Að síðustu vil ég víkja að því, sem hæstv. forsrh. kom inn á í sambandi við fjárfestingarleyfin og staðsetningu þeirrar stofnunar, sem á að hafa uppbyggingu landsbyggðarinnar með höndum. Ég vara við þessum mikla samdrætti, að ein nefnd í Reykjavík á að hafa með höndum allar leyfisveitingar fyrir öllum aðgerðum og framkvæmdum alls staðar á landinn. Getur þetta ekki unnið beint á móti því, sem á að heita tilgangur frv., að byggja upp alla landsbyggðina? Mér sýnist það vera ljóst. Það er nógu erfitt fyrir fólk úti á landi að byggja upp, þó að það þurfi ekki að sækja um leyfi fyrir hverjum smáhlut til Reykjavíkur. Mér hefur stundum dottið í hug, hvort ekki væri nóg að miða leyfisveitingarnar við Reykjavík, en hafa þetta frjálst úti um land. Ég geri þetta þó ekki að till. minni, hef aðeins gaman af að drepa á þetta. En þetta sjónarmið þarf að taka til alvarlegrar athugunar í fjhn., hvort þessi gífurlega einbeiting og „concentrering“ valdsins í Reykjavík sé heppileg fyrir alla landsbyggðina.

Þá ætla ég loks að minnast á það, sem hæstv. forsrh. sagði. að „ekki mætti fara of geyst.“ Það hefur farið svo um allar róttækar ríkisstj., eins og Strachey. núverandi matvælaráðherra Breta, kemst að orði á einum stað, að þær hafa verið eyðilagðar með því, að fjármagnið hefur gert verkfall. Með þeirri aðferð hafa verið beygðar og brotnar niður stærstu og róttækustu umbótastjórnir. sem alþýðan í ýmsum löndum hefur sett mest traust á og tengt flestir vonir við. Hér á Íslandi bregður svo við, þegar stórt er hugsað, að hér í Reykjavík og úti um land er alþýða manna reiðubúin til að leggja fram sitt fjármagn til uppbyggingarinnar. sbr. sölu vaxtabréfa stofnlánadeildar sjávarútvegsins. en erfiðlegast gengur að fá okrarafjármagnið. liggur mér við að segja, fé hinna ríkustu braskara. Og sá undarlegi hlutur hefur komið fyrir, að landsbankinn hefur að miklu leyti „strækað“. Þess vegna er ekki svo gífurleg hætta á, að of geyst verði farið í sakirnar varðandi uppbyggingu atvinnulífsins, a.m.k. ekki utan Reykjavíkur. Ég held, að hvergi hafi verið farið of geyst utan höfuðborgarinnar, en miklu fremur skort fjármagn og atvinnu á ýmsum smærri stöðum. En hér í Reykjavík hefur gætt ofþenslu.

Hæstv. fjmrh. ræddi réttilega um það, að margt, sem tekið hefur verið upp af nýbyggingarráði utan við bein lagafyrirmæli og reglugerðir, ætti að haldast áfram, þótt nýtt ráð væri nú stofnað, og er ég honum alveg sammála um það. Það er bráðnauðsynlegt, að fjölmargir menn, ekki sízt utan af landi, gætu átt hauk í horni, þar sem fjárhagsráð væri, eins og þeir hafa ekki sízt átt hæstv. fjmrh. að í nýbyggingarráði. Þetta er bráðnauðsynlegt, ef byggja á upp landið, ef fólkið á að geta treyst á skilning og hjálpsemi þeirra, sem stjórna málum þess í Reykjavík. Hér hefur verið ala of mikið um skrifstofufargan og hitt ekki verið óalgengt, að embættismenn hafi látið fólkið kenna á valdi sínu í stað fyrirgreiðslu. Og um leið og ég lýsi yfir ánægju minni með samstarfið við hæstv. fjmrh. í nýbyggingarráði, vildi ég láta þá ósk í ljós, að þetta héldi áfram, að hér væri stofnun, sem hjálpaði mönnum í gegnum múr skriffinnskunnar.

Og að síðustu þetta. Ég held, að okkur hæstv. fjmrh. greini ekki svo mikið á um þessi 25%. Það er alveg rétt, að ekki er alltaf unnt að halda nýsköpuninni áfram með jafnmiklum hraða, og það væri heldur ekki heppilegt, að fólkið fengi aldrei að hætta að herða sig og njóta ávaxtanna af átökum sínum. En af hverju er hraðinn svo mjög aðkallandi nú? Hæstv. fjmrh. minntist á erlenda keppinauta, að við framleiddum of dýrt og að við yrðum að segja þjóðinni frá þessu, alveg eins og við hefðum áður sagt henni, að hún yrði að leggja að sér. Og hér er komið að kjarna málsins. Af hverju var lagt svo mikið kapp á hraðann haustið 1944. er nýsköpunin hófst? Það var af því, að við sáum, að verðlag mundi falla á heimsmarkaðinum. Sumir héldu, að það mundi gerast þegar að stríðinu loknu, en ég áleit. að það mundi dragast a.m.k. í tvö til þrjú ár og verðlag fyrst fara hækkandi eins og eftir síðasta stríð. Stefna okkar hlaut því að verða sú að nota hið hækkandi verðlag eftir stríðið, afla okkur framleiðslutækja sem fljótast og vinna þá gífurlegu markaði, sem mundu opnast að stríðslokum, og það sem allra fyrst. Ef verðfall yrði síðar á þeim mörkuðum, eftir tvö, þrjú eða fjögur ár t.d., þurftum við að vera búnir að selja sem mest á þeim áður, og til þess þurfti að fá landsmönnum atvinnutæki í hendur, svo að mikið væri hægt að selja, áður en verðfallið kæmi, og unnt væri að framleiða ódýrara og á stórvirkari hátt, þegar það væri komið. Þess vegna var hraðinn svo nauðsynlegur. Við vorum og erum í kapphlaupi við verðfall, og það er um að gera að afla sem mestra og beztra atvinnu- og framleiðslutækja. áður en það skellur á. svo að það finni okkur sem bezt vígbúna. Ef kreppa og verðfall skellur á, meðan við erum með léleg atvinnutæki, þá erum við algerlega óviðbúin að mæta slíkum vágestum. Nýsköpunin hefur fyrst og fremst það markmið að gera okkur færari til að mæta erfiðum árum og bæta lífskjörin eftir föngum. en vegna hinnar miklu samkeppni milli þjóðanna ríður á því að hraða eins mikið og auðið er að auka og endurnýja atvinnutækin. Hæstv. fjmrh. minntist réttilega á, að við gerðum meiri kröfur en áður, og það eigum við að gera. því að við höfum möguleika til góðra lífskjara, ef rétt er stjórnað. Ég held, að það sé hægt að skapa þessari þjóð beztu lífskjör í heimi, ef rétt er á haldið. Við þurfum ekkert að leggja í vígbúnað og getum því lagt allt okkar afl í að bæta okkar lífskjör, og vegna þess, hvað þjóðin er lítil, ætti hún að geta verið samstilltari og fullkomnara skipulögð. Ég held líka, að fátæktin um aldamótin sé jákvæð fyrir okkur nú, vegna þess að það stendur ekkert frá þeim tíma í vegi fyrir þróun atvinnulífsins nú, eins og það gerir t.d. í Englandi og víðar. Norðmenn, sem eru okkar harðasta samkeppnisþjóð í sjávarútveginum, framleiða, nálægt því helmingi meiri fisk en við gerum, en við þá framleiðslu vinna hjá þeim nál. 100 þús. manna, meðan hjá okkur starfa ekki nema 6 þús. við þessa atvinnugrein. Þetta stafar af því. að meira en helmingur af okkar fiski er framleiddur á togurum, þar sem ekki vinna nema um 1000 manns. Við erum þarna á hærra tæknilegu sviði og getum þar af leiðandi boðið upp á betri kjör til handa okkar starfsmönnum.

Við getum litið til Ameríku. Þar sjáum við betur en annars staðar, hvað hægt er að skapa mikil verðmæti með nógu mikilli tækni. Sú þjóð telur um 150 millj. manna, en hún hefur nálægt helming af allri stóriðju veraldarinnar og því möguleika til þess að bjóða upp á betri lífskjör en nokkur önnur þjóð, ef hún væri nógu vel skipulögð. Ef við hagnýtum okkur tækni Ameríku, en skipuleggjum þjóðarbúskapinn betur, þá getum við skapað betri kjör, þó að við seljum með sama verði og keppinautar okkar annars staðar. Eftir því sem við bregðum fyrr við með að ná þessari tækni í okkar þjónustu með því að ná í meira af stórvirkum atvinnutækjum og gera það, sem þarf til að ná sem hagkvæmustum rekstri þeirra, því betur erum við viðbúin að taka erfiðum tímum. Þess vegna er mikið komið undir hraðanum, og það erum við hér á Alþ., sem ráðum því. hvað hraðinn er mikill í þessu uppbyggingarstarfi, og þar af leiðandi bera þeir, sem á móti standa, ábyrgðina, ef illa fer. Það er mín skoðun, að það sé hægt að stjórna íslenzku þjóðinni betur en öðrum þjóðum, m.a. vegna þess, að hún er minni og menntaðri en aðrar þjóðir og samhentari. ef vel er stjórnað. Skipulagningin er orðin það mikil hjá okkur, að það er í raun og veru Alþ. sjálft, sem ræður þjóðarbúskapnum, og með því er ábyrgðin tekin af atvinnurekendum. Þessari ábyrgð, sem okkur hér á Alþ. er lögð á herðar, verðum við að gera okkur grein fyrir, þegar við göngum frá frv. því, er hér liggur fyrir. Ef þetta fyrirhugaða fjárhagsráð á að geta leyst þau verkefni. sem því eru ætluð í því frv., er hér liggur fyrir, verður það að hafa meira vald yfir útlánastarfsemi bankanna en hér er gert ráð fyrir. Við verðum að láta þjóðina skilja, hvað nauðsynlegt það er fyrir okkur að fá ný atvinnutæki og tryggja með þeim framtíðina, en með því er ekki sagt, að það eigi að píska þjóðina í nýsköpunarkapphlaupi um alla framtíð, þvert á móti á hún fljótlega að geta notið þeirra í betri lífskjörum, því að atvinnutækin skapa grundvöllinn fyrir betri afkomu þjóðarinnar í heild, ef þau eru rekin á hagkvæman hátt.

Ég hef nú rætt alllangt mál, en vil að lokum vona, að fjhn. vinni eftir beztu getu að því að bæta frv., svo að það tryggi, að nýsköpuninni verði haldið áfram og tekið verði tillit til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur, en mistökin ekki látin endurtaka sig.