28.04.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 662 ber með sér. þá hefur meiri hl. fjhn. litlu við að bæta það, sem stendur í grg frv. og fram kom við 1. umr. í ræðum hæstv. ríkisstj., sem flutti frv. Við flytjum aðeins eina brtt., sem má segja, að sé meiri háttar, um að hafa 5 menn í þessu ráði í stað 4 manna, eins og gert er ráð fyrir í frv. Við teljum, að 5 manna ráð sé í réttara hlutfalli við styrkleika þingflokkanna. En við höldum okkur við það, að það skuli vera stjórnskipað. enda á þetta ráð að fara með part af framkvæmdarvaldinu, og því teljum við rétt, að ríkisstj. eigi að skipa það, til þess að ekki verði klofningur milli ráðsins og ríkisstj. Þó að Alþ. auki framkvæmdarvaldið, eins og hér er gert með þessari löggjöf, þá er ekki ástæða til, að það skipi menn að þessu leyti í framkvæmdarvaldið, þannig að það yrðu í raun og veru tvær ríkisstjórnir í landinu. Það hefur verið venja að skipa slík ráð sem þetta, svo sem t.d. nýbyggingarráð, af ríkisstj., því að ríkisstj. þarf að hafa vald til þess að skipta um menn í ráðinu, ef nauðsyn krefur, þó að það séu kannske ekki líkur til, að til þess komi.

Aðrar brtt. hygg ég ekki, að þurfi að skýra frekar en gert er í nál. En við teljum ótvírætt til bóta, að fært sé saman starf nýbyggingarráðs og viðskiptaráðs, því að það hefur komið á daginn, sérstaklega á síðasta ári. að það er mjög varhugavert að hafa þau störf á tveimur stöðum, sem þessi ráð hafa annazt, sérstaklega útdeilingu á leyfum vegna innflutnings. Við það að hafa slíkt á tveimur stöðum þá er hvort tveggja, að landamerkin á milli tveggja slíkra ráða eru ógreinileg, og einnig hitt, að það er jafnan hætta á, að skapist samkeppni um úthlutun leyfa hjá tveimur slíkum ráðum. Það er einnig sjálfsagt, að ráð, sem á að gera áætlanir, sjái um framkvæmd þeirra, en fjárhagsráð á að gera allar höfuðáætlanir, sem svo á að framkvæma, sumpart með fjárfestingarleyfum og sumpart með innflutningsleyfum. — Hið mikla nýmæli, sem hér er um að ræða, að veita leyfi til fjárfestingar, teljum við nauðsynlegt, enda hefur það komið á daginn, að svo miklar framkvæmdir hafa verið undanfarið, að það hefur bæði eytt um of fjármagni landsmanna og eins fylgir því alltaf hætta á aukningu dýrtíðarinnar. Og jafnvel er svo með margar stórar framkvæmdir, að það tefur þær allar, ef allt á að vera samferða, í stað þess að skammtaður sé gjaldeyrir til framkvæmda á þann hátt, að sumt af framkvæmdunum komi sem fyrst að gagni. Það hefur líka borið á því, að sumir staðir hafi orðið afskiptir í þessu sambandi og gerir einnig þetta það nauðsynlegt, að fjárfesting fari fram með skipulögðum hætti til þess að hindra, að þeir veikari og afskekktari verði afskiptir í þessu kapphlaupi. Það er ekki aðeins óhollt, að svo mikil samkeppni sé um fjármagnið og starfskraftana á svona tímum, heldur þarf líka að gæta að hinu, að þegar vöruskortur er á vissum sviðum — og sérstaklega má búast við, að slíkt eigi sér stað um ýmis framleiðslutæki og byggingarvörur, jafnvel um langt skeið —, þá þarf að skipuleggja það, hvernig slíkt skuli keypt inn og hvernig slíkum vörum skuli ráðstafað innanlands.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég get í flestum greinum vísað til grg. frv. og grg. hæstv. ríkisstj. frá 1. umr. um þetta frv. Auk þess hef ég ekki enn séð álit hv. minni hl. fjhn., en þeim brtt., sem hv. minni hl. n. ber fram, er fyrst útbýtt á þessum fundi. Og mér hefur ekki unnizt tími til þess að líta á þær. Ég mun þess vegna geyma að minnast á öll ágreiningsatriði á milli meiri hl. og minni hl. n., þar til frekari grein er gerð fyrir klofningi nefndarinnar af hálfu hv. minni hluta.